Eiríkur Steingrímsson
Eiríkur Steingrímsson — Morgunblaðið/Eyþór
Eiríkur Steingrímsson er prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Í samtali við Baldur Arnarson segir Eiríkur frá afstöðu sinni til skólagjalda, sem hann telur löngu tímabæra lausn á fjárhagsvanda skólans.
Eiríkur sótti framhaldsmenntun sína til Bandaríkjanna og lauk doktorsprófi frá líffræðideild Kaliforníuháskóla í Los Angeles (UCLA) árið 1992. Að auki starfaði hann um skeið við National Cancer Institute í Frederick í Maryland, þar sem hann vann að krabbameinsrannsóknum. Hann þekkir því vel til bandarísks háskólakerfis, sem eins og kunnugt er nýtur mjög góðs af náinni samvinnu við einkageirann og þess að hafa greiðan aðgang að fjármagni í formi skólagjalda. Inntur eftir hvers vegna hann telji að skólagjöld séu tímabær lausn í íslensku skólakerfi segir Eiríkur að ástæður þess séu margvíslegar.

"Háskólar almennt hafa einkum fjórar leiðir til að fjármagna starfsemi sína," segir Eiríkur. "Í fyrsta lagi framlög frá hinu opinbera, í öðru lagi framlög einkaaðila, bæði fyrirtækja og einstaklinga, í þriðja lagi tekjur af skólagjöldum og fjórða lagi styrkjatekjur sem aflað er til vísindastarfsemi. Háskóli Íslands hefur einkum byggt á opinberum framlögum en á síðustu árum hafa framlög einkaaðila til skólans og styrkjatekjur einstakra vísindamanna aukist að mun. Skólagjöld eru hins vegar ónýttur tekjustofn og hingað til hefur lítið verið rætt um þau sem raunhæfan möguleika fyrir Háskóla Íslands."

Ýmsir kostir við skólagjöld

Í umræðum um skólagjöld á Íslandi hefur því verið haldið fram að þau séu óþörf og er þá gjarnan vísað til þess að leysa mætti fjárhagsvanda Háskóla Íslands með því hreinlega að auka opinber útgjöld til skólans. Í ljósi þessa hverja telur Eiríkur vera kosti skólagjalda?

"Skólagjöld fela í sér tvo meginkosti," segir Eiríkur. "Þau færa skólanum fyrst og fremst langþráðar tekjur og gera honum þannig kleift að efla starfsemina. Þannig getur skólinn orðið betri og færist því nær takmarkinu að komast í hóp 100 bestu háskóla í heimi. Annar kostur við skólagjöld er sá að nemendur verða kaupendur að þjónustu. Þetta setur á þá þrýsting að standa sig vel í náminu og ætti að geta dregið úr brottfalli úr námi. Sem kaupenda að þjónustu aukast kröfur nemanda til skólans um betri þjónustu og verður þannig til þess að efla starfsemi skólans enn frekar. Því miður er það þannig í dag að margir nemendur við Háskóla Íslands taki námið ekki nógu alvarlega. Það eru til nemendur sem mæta illa í tíma og slugsa í náminu. Þeir mundu sennilega hugsa sig vandlega um ef þeir væru að borga fyrir námið."

Spurður hvort hann óttist ekki að skólagjöld kunni að koma niður á nemendum frá efnaminni fjölskyldum telur Eiríkur svo ekki vera. Hann segir flesta nemendur vel hafa efni á að greiða hófleg skólagjöld. "Stór hluti þeirra mætir á bílum í skólann og virðist því hafa efni á rekstri bifreiða," segir Eiríkur. "Svo eru margir nemendur sem hafa efni á dýrum fartölvum og aðrir sem láta ekki sjá sig í tíma vegna þess að þeir eru í skemmtiferðum. Mér sýnast nemendur almennt því ekki líða skort. Í tilvikum hinna efnaminni þarf að sjá til þess að nóg framboð verði af fjármagni til að greiða götu efnilegra ungmenna úr þeim hópi. Það hafa sprottið upp ýmsir sjóðir sem styrkja nemendur til náms. Þá tekur atvinnulífið orðið virkari þátt í að fjármagna skólann. Þannig mætti auðveldlega stofna sérstakan sjóð til að kosta góða nemendur úr efnaminni fjölskyldum til náms. Auk þess geta nemendur sótt um lán til Lánasjóðs íslenskra námsmanna."

Skólagjöld henta grunnnámi

Eitt af meginhlutverkum Háskóla Íslands er að gefa Íslendingum óháð efnahag kost á háskólamenntun við hæfi. Með hliðsjón af þessu markmiði hafa andstæðingar skólagjalda bent á að það sé óskynsamlegt að taka upp skólagjöld í grunnnáminu, þar sem það sé undirstaðan að góðri grunnmenntun almennings. Inntur eftir þessari afstöðu segir Eiríkur hana vera mikla einföldun.

"Skólagjöld má útfæra á ýmsan hátt og miða þá við eðli menntunarinnar," segir Eiríkur. "Ég held að það sé mikil einföldun að skipta þessu eins og margir hafa gert, að það eigi ekki að hafa skólagjöld í grunnnáminu, bara framhaldsnáminu. Ég held að skólagjöld eigi einmitt að setja á í grunnnáminu. Gjöldin gætu þá verið hærri í því námi sem er dýrt t.d. læknisfræði eða tannlæknisfræði eða í því námi sem mikil aðsókn er að, til dæmis lögfræði eða viðskiptafræði. Nám í þessum greinum leiðir yfirleitt til vel launaðra starfa og því er réttlætanlegt að menn greiði fyrir menntun á þessum sviðum. Á öðrum sviðum gætu gjöldin verið lægri."

Öðru máli gegnir um framhaldsnám

Um hvernig skólagjöld geti komið framhaldsnámi við Háskóla Íslands til góða segir Eiríkur að þau eigi síður við í rannsóknatengdu námi.

"Í sumu framhaldsnámi eiga skólagjöld vel við, t.d. í MBA-námi eða framhaldsnámi sem miðar að því að efla starfsmenntun viðkomandi nemanda," segir Eiríkur. "Í rannsóknatengdu framhaldsnámi á þetta mun síður við. Ég er ekki viss um að ég fengi marga nemendur til að vinna þann langa vinnudag sem þarf til að ná árangri í vísindum, ef þeir þyrftu að borga fyrir það að auki. Þessu er einmitt öfugt farið; ég þarf að afla styrkja til að geta greitt mínum doktors- og mastersnemum laun þannig að þeir geti helgað sig vísindunum á meðan þeir eru í námi. Auk þess má benda á að nemendur í grunnnámi við Háskóla Íslands eru á níunda þúsund en framhaldsnemar einungis í kringum þúsund. Skólagjöld á framhaldsnámið mundu því afla háskólanum mun minni tekna en gjöld á grunnnámið."