Valgarð með einn sjóbirtinginn við Syðri-Hólma í Tungufljóti.
Valgarð með einn sjóbirtinginn við Syðri-Hólma í Tungufljóti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is Það væri flott ef við hefðum sett í fiska sem væru jafn þungir og sumir ísjakarnir sem við höfum krækt í!
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is
Það væri flott ef við hefðum sett í fiska sem væru jafn þungir og sumir ísjakarnir sem við höfum krækt í!" kallar Valli til blaðamanns þar sem hann öslar áfram niður árfarveg Tungufljóts með krap og ís fljótandi framhjá sér. Hann rykkir upp þungri sökklínunni með þriggja tommu túpu á endanum, kastar þvert á strauminn rétt ofan skilanna við Ása-Eldvatn, og lætur tauminn reka beint niður af sér; þá veður hann áfram, dregur að sér og kastar aftur. Skyndilega kemur stór ísfleki á rekinu, margra metra langur, og skellur á baki veiðimannsins. Valli nær að standa höggið af sér, ýtir við ísnum og lítur hlæjandi upp. Svona getur það verið í vorveiðinni.

Valgarð Ragnarsson, eða Valli eins og hann er alltaf kallaður, var ásamt félögum sínum að opna Tungufljót í Skaftártungu 1. apríl síðastliðinn. Tungufljótið er einhver besta sjóbirtingsslóð landsins, þar geta veiðimenn á vorin og haustin átt von á að setja í firnastóra birtinga. Tveir félagar þess sem þetta skrifar hafa í haustveiðiferðum landað átján punda tröllum. Og sjálfur átti blaðamaður ógleymanlega viðureign við tæplega 16 punda hæng á Flögubökkum fyrir nokkrum árum, sá tók Snælduna á dauðareki í ljósaskiptunum. Gjöfulustu veiðistaðirnir í Tungufljóti eru jafnan skil fljótsins við ólgandi jökulvatnið úr Ása-Eldvatni, síðustu ár hafa þau verið við Flögubakka og Syðri-Hólma. Saman mynda vötnin Kúðafljót en þarna í skilunum getur fjöldi sjóbirtinga falið sig undir brúngrárri slikju jökulvatnsins. Ofar í blátæru Tungufljótinu eru rómaðir veiðistaðir á borð við Fitarbakka, Breiðufor og Bjarnarfoss.

Valli verður ekki var að þessu sinni og kemur fljótlega upp úr ánni; hann þarf að brjóta sér leið gegnum skörina við bakkann áður en hann bröltir upp á kjarri vaxinn bakkann við Syðri-Hólma. Vatnið frýs svo að segja strax utan á vöðlunum. Við göngum rösklega í átt að bílnum; veiðimaðurinn er kaldur og þessum fyrsta veiðidegi ársins að ljúka - heitt kaffi bíður í veiðihúsinu.

Þeirt félagar geta verið mjög sáttir við veiði dagsins. Valli segist vita til þess að a.m.k. 20 birtingar séu komnir í hendur veiðimanna - og allir syntu aftur út í strauminn.

Þegar Valli og félagar hans hófu veiðar þennan morgun var hitinn við frostmark, vatnið um ein gráða og ísskarir á ánni. Valli hafði farið upp að Bjarnarfossi; þar var fossinn frosinn og vatnið krapað. Samt reyndi hann að kasta þar fyrir fiska, ekki með miklum árangri - og ég skildi hvers vegna þegar hann sýndi mér myndirnar þegar við vorum komnir inn í hlýtt húsið. "Vatnið var þykkt - þetta var eins og að vaða í leðju. Ég var hissa þegar við fórum að setja í fiska. Og þeir voru ótrúlega sprækir. Einn okkar náði meira að segja átta punda geldfiski, spikfeitum og flottum, sem stökk og djöflaðist."

Fiskarnir veiddust allir við Syðri-Hólma og Flögubakka; þar safnast birtingurinn saman á vorin, langmest niðurgöngufiskur og sumir stórir og gamlir; hafa farið margar ferðir til hafs.

Snýst allt um aðstæður

"Það eru ótrúlega stórir fiskar hérna og gríðarlega gaman að veiða þá," segir Valli þar sem hann útbýr kaffið, með roða í kinnum og ánægjuglampa í augum. "Sá stærsti í dag var hrygna" - sjáðu segir hann og grípur aftur upp myndavélina - "hún var horuð en stór, 85 cm. Í fyrra fengum við eitthvað um 60 í opnuninni, þá var hellingur af fiski á bilinu 75 upp í 80 cm. Í dag var þessi stærst, einn var 80, annar 76. Þetta voru mest hrygnur."

Veiðitækin sem þeir nota eru hraðsökkvandi línur og túpur, einnar og hálfrar tommu langar upp í þriggja tomma - "ekkert minna," segir Valli. "Það eru þyngslin sem gilda. Vatnið er svo kalt og fiskurinn fer ekkert eftir flugunum."

Þetta er í þriðja sinn sem Valli er mættur í vorveiðina í Tungufljóti. Í fyrra var hann líka í opnunarhollinu, sem veiddi ævintýralega vel, en árið áður í öðru holli vorsins - þá veiddi hann tröllvaxinn birting við brúna yfir fljótið, hann var 105 cm.

"Þá var óveiðandi með öllu í fljótinu, það hafði vaxið svo mikið, og var drullubrúnt. Örlítið tært vatn rann úr læknum austan við brúna, ég kastaði þar og var að menda línuna, þá kom fiskurinn undan grjótinu. Þrátt fyrir flóðið veiddum við vel, einhverja 15 eða 16 fiska sem voru allir stórir." Hann sýpur á snarpheitu kaffinu. "Ég hef aldrei veitt hér á haustin. Við höfum dregið nokkrum sinnum en ekki verið heppnir, en við höfum verið heppnir með vorveiðina; sjö hópar sóttu um þessa opnun. Fitjabakki er efsti staður sem ég hef fengið fisk á hér. Eina lífið sem ég sá uppi við Breiðufor var minkur. En sjálfsagt á maður eftir að kynnast fljótinu einhvern tímann að haustlagi. Núna snýst þetta bara um aðstæður. Að vera fyrstur og vera heppinn með veður. Þeir sem verða hér þegar hlýnar geta lent í glæsilegri veiði."

Þegar sólin skein vorum við í fiski

Úr veiðihúsinu sést niður á Flögubakka, gróðurinn er brúnn og sviðinn eftir kaldan veturinn; sumir félaga Valla eru enn við veiðar. En einn þeirra, Orri Magnússon, birtist á pallinum og bankar í gluggann með stúf af enda flugustangar, hún hafði hrokkið í sundur. Valli stendur upp, kannar skaðann og þeir Orri sammælast um að þeir hafi veitt nóg þennan daginn.

"Í dag skipti meginmáli að sólin sýndi sig; þegar hún skein vorum við í fiski. Við tókum flesta á svona einum og hálfum tíma. Og þannig er það hérna. Í fyrra tókum við 37 á einum og hálfum tíma, þá var einmitt sól. Það borgar sig ekki að sitja inni hér í vorveiðinni ef sólin fer að skína."

Það stefnir greinilega í veislu í veiðihúsinu; í vaskinum bíða snjókrabbar, úrvals steikur í ísskápnum, einhver í hópnum hefur sett upp glæsilegt ferðagrill og Orri tekur tappan úr púrtvínsflösku. Skyldi Valli fara víðar í vorveiði?

"Ég fer alltaf í Húseyjarkvíslina. Við Þorgeir Haraldsson höfum verið með hana á leigu í nokkur ár. Ég veiði þar á hverju vori og oft vel. Það er svipaður veiðiskapur fyrir norðan og hér nema hvað þeir eru ekki eins stórir þar."

Þegar hann er spurður hvort hann hafi veitt lengi í Húseyjarkvísl, brosir hann og segir: "Síðan ég var fimm ára. Pabbi á land að ánni. Og áður en við leigðum hana fyrir fjórum árum voru bændurnir sjálfir að nýta vorveiðina. Það var ekkert selt á vorin, bara á laxveiðitímann og silunginn yfir hásumarið. Þá höfðu heimamenn ána fyrir sig.

Kvíslin er minn heimavöllur."

"En Hofsá?" skýtur Orri inn glottandi.

"Það er einhver svaðalegasta á sem ég hef veitt," segir Valli og funar upp. "Ég veiddi í henni í fyrsta skipti í fyrrahaust - og ég er ennþá í skýjunum. Við Stefán Kristjánsson veiddum saman, í slæmum aðstæðum, miklum kulda, 7. til 10. september en náðum samt 20 löxum. Við vorum meira að segja að fá þetta á míkrótúpur," segir hann og hristir höfuðið.

"Mér finnst frábært að hver stöng í Hofsá hafi sitt svæði á vaktinni, þú hefur þá þitt svæði í sex tíma og getur skipulagt sjálfur hvernig þú veiðir. Þú getur byrjað á góðum hyl, hvílt hann og komið aftur þegar þú vilt. Og þetta eru langir staðir - áin er eins og hönnuð fyrir fluguveiði.

Mér finnst Vatnsdalsá vera smækkuð útfærsla af Hofsá, hún er líka algjör fluguveiðiperla.

Á seinni árum hef ég nánast eingöngu veitt í fluguveiðiám."

Veiddi samt allan daginn

En hann hefur varla byrjað með fluguna fimm ára í Skagafirðinum?

"Nei, nei. Þá tók ég allt á spún. Sem gutti veiddi ég aldrei neitt magn, mér fannst fínt að fá tvo fiska á dag en ég veiddi samt allan daginn."

Umræðan snýst að verðlagi á veiðileyfum, sem Valli segir orðið algjört rugl. "Það eina sem ég fer yfir hásumarið er urriðaveiði í Laxá í Þing. Það er líka alveg frábær veiði. Í fyrra fengum við makkerinn 50 urriða á stöngina á þremur dögum.

Í urriðanum veiði ég alltaf andstreymis á púpur og svolítið á þurrflugur ef það er þannig veður."

Þeir félagar Valli og Orri veiddu í Yokanga-ánni á Kólaskaga fyrir tveimur árum og segja það hafa verið óviðjafnanlegt ævintýri.

"Ég stefni á að fara aftur til Rússlands á næsta ári," segir Valli. "Þetta er eitthvað sem allir veiðimenn þurfa að prófa. Í Yokaonga áttu von á mjög stórum löxum. Sá stærsti sem ég fékk var 107 cm og þarna var mikið af fiski yfir 20 pund. Og þetta var veiðiskapur eins og hér; flotlína og svartur Frances númer 14.

Ég var örugglega búinn að hnýta 400 flugur, alls kyns túpur, en þegar ég opnaði boxin til að láta leiðsögumanninn velja þá tók hann upp venjulegan svartan Frances," segir hann og hlær. "Þetta var nákvæmlega eins og hér. Við vorum þarna í ágúst og þá veiða menn með litlum flugum og nota bæði hits og Sunray Shadow. Þetta var mikið ævintýri. Enskur skáli á miðri túndrunni, átta veiðimenn og 30 starfsmenn, og fullt af stórlaxi. Maður verður að fara aftur."

Veiðiferð í lagi

Í dag er veitt með Valgarð Ragnarssyni í Tungufljóti í Skaftártungu. Valla þekkja margir veiðimenn því hann starfaði síðustu árin í Veiðibúðinni við Lækinn í Hafnarfirði og þáðu margir af honum góð ráð. Nú hefur hann söðlað um og þjónustar fiskiðnaðinn.

En Valli fer líka til veiða. "Ég veiði svona 30, 40 daga á ári. En það dreifist á langan tíma, frá 1. apríl til 20. október, næstum sjö mánuði."

Og hver er dagskrá veiðisumarsins?

"Húseyjarkvíslin í vor, opnunin í Laxárdal, aftur í dalinn 9. júní, væntanlega aftur í Húseyjarkvísl um verslunarmannahelgina, 31. júní í Vatnsdalsá, Hofsá snemma í september, þá veiði ég líka í Grímsá og Vatnsdalsá og við lokum Húseyjarkvísl 17. til 20. september. Í fyrra fórum við fyrst þar á rjúpu, tókum svo sex flotta birtinga og veiddum 20 gæsir. Það var veiðiferð í lagi."