Páskarnir eru trúarhátíð og eins og aðrar slíkar á Vesturlöndum hafa þeir breyst í tækifæri fyrir frí og ferðalög. Mér fyrirgefst því vonandi þótt ég fjalli hér ekki um trúarleg efni. En segja má að ferðalög komi nokkuð við sögu.
Páskarnir eru trúarhátíð og eins og aðrar slíkar á Vesturlöndum hafa þeir breyst í tækifæri fyrir frí og ferðalög. Mér fyrirgefst því vonandi þótt ég fjalli hér ekki um trúarleg efni. En segja má að ferðalög komi nokkuð við sögu.

Stundum finnst mér eins og þeir sem fjalla um skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins séu í afneitun. Þeir vilja þétta byggðina og minnka bílaumferð, en virðast lítið spekúlera í því að hvort tveggja útheimtir svo mikla breytingu á lífsháttum íbúa á suðvesturhorninu að jaðrar við umpólun.

Aukin íbúabyggð í rótgrónum hverfum í Reykjavík leiðir ekki til minni bílanotkunar. Umferðarálagið í téðum grónum hverfum eykst vitaskuld í beinu hlutfalli við fjölgun íbúa. Hvernig þetta kemur heim og saman við hugmyndina um minni bílaumferð er mér því hulið.

Menn virðast sem sagt afneita þeirri staðreynd að hverri fjölskyldu á Íslandi fylgir að lágmarki einn bíll og það á líka við um fjölskyldur sem eru smærri einingar en pabbi, mamma og börn. Fólk kaupir og rekur ekki þessa bíla af mannvonsku eða andstyggð á umhverfi og umhverfisfræðingum, heldur af hreinni nauðsyn.

Og þá er komið að hinu atriðinu sem menn virðast forðast að horfast í augu við. Það er sú augljósa staðreynd að almenningssamgöngur á svæðinu eru ekki valkostur fyrir hinn almenna borgara, heldur neyðarúrræði, vegna þess hve takmarkaðar þær eru.

Þetta þýðir ekki að forsvarsmenn SVR séu ekki starfi sínu vaxnir. Það þýðir bara að samfélagið hefur ekki verið tilbúið að kosta því til sem þarf svo að almenningsfarartæki verði í raun og veru jafngildur valkostur í samöngumálum og einkabíll. Þetta hefur hins vegar tekist með ágætum víða í nágrannalöndum okkar.

Auðvitað er ljóst að rekstur almenningssamgangna líkt og við þekkjum þær t.d. frá Kaupmannahöfn, svo tekið sé nærtækt dæmi, kostar margfalt meira en það kerfi sem rekið er hér á höfuðborgarsvæðinu. Staðreyndin er engu að síður sú, að ef það er í alvöru vilji til þess að fækka einkabílum og minnka umferð þeirra á svæðinu, þarf þetta til. Miklu fleiri strætisvagna og kerfi járnbrauta um allar stofnleiðir Stór-Reykjavíkursvæðisins og þ.ám. til Keflavíkur. Ekkert minna dugar.

Við getum endalaust hrært í leiðakerfi strætóa sem koma á 10 til tuttugu mínútna fresti og auglýst og kynnt fyrir milljónir króna í hvert sinn. Á meðan breytingarnar fela ekki í sér margföldun, - já, segi og skrifa: margföldun - á framboði almenningssamgangna, verða einkabílarnir dýru, eyðslufreku og umhverfisóvænu jafn mikil nauðsyn í lífi venjulegra nútíma Íslendinga og þeir eru nú.

Um þessa páska er ég auðvitað á ferðalagi og það á slóðum þar sem hinn voðalegi einkabílismi ræður sannarlega ríkjum og gott bílastæði getur hreinlagi vakið trúartilfinningu í brjóstinu. Ég leyfi mér að óska lesendum gleðilegra páska um leið og ég bið þess að einhver þjóðskörungurinn fari nú senn að leggja drög að frumvarpi til laga um járnbrautir meðfram akvegum.