Herdís Þorgeirsdóttir
Herdís Þorgeirsdóttir — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Meginþema ráðstefnunnar Tengslanet - Völd til kvenna í ár er staðalímynd kvenna, kynbundinn frami, fyrirtækjamenning og samskipti kvenna.

Meginþema ráðstefnunnar Tengslanet - Völd til kvenna í ár er staðalímynd kvenna, kynbundinn frami, fyrirtækjamenning og samskipti kvenna. Í samtali við Silju Björk Huldudóttur segist Herdís Þorgeirsdóttir, skipuleggjandi ráðstefnunnar, ekki trúa öðru en að framsaga Germaine Greer muni hrista upp í umræðunni hérlendis.

"ÉG HLAKKA til að sjá hvað kemur út úr Tengslanetinu að þessu sinni, því það eru alltaf nýjar áherslur og því spennandi að fylgjast með hverju umræðan skilar í ár," segir dr. Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor við lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst og skipuleggjandi ráðstefnunnar Tengslanet - Völd til kvenna sem haldin verður á Bifröst dagana 1.-2. júní nk. Aðspurð segist hún þegar farin að sjá áhrif fyrri Tengslaneta vera að raungerast í þjóðfélaginu.

Að sögn Herdísar verður dagskrá ráðstefnunnar með sama sniði og fyrri ár. Hefst hún á göngu á Grábrók síðdegis fimmtudaginn 1. júní og veislu í Paradísarlaut í kjölfarið. Ráðstefnan sjálf verður sett á föstudagsmorgni og lýkur með móttöku forseta Íslands á Bessastöðum að kvöldi dags. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar í ár er engin önnur en Germaine Greer, sem er eitt af stóru nöfnunum í kvenfrelsishreyfingunni.

"Germaine Greer er mikil kvenfrelsiskona sem hefur farið ótroðnar slóðir sl. 30 ár. Hún hefur vakið umheiminn til umhugsunar um stöðu kvenna sakir innsæis og byltingarkenndra hugmynda og er stöðugt með fingurinn á púlsinum. Í raun má segja að hún sé eins og rokkari í femínismanum," segir Herdís og tekur fram að það hafi að sjálfsögðu heilmikla þýðingu að fá jafn skemmtilega og ögrandi manneskju til þess að flytja erindi á Tengslanetinu, því hún trúi ekki öðru en að erindi Greer muni hrista upp í umræðunni.

Annar lykilfyrirlesari á ráðstefnunni er Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari, sem fjalla mun um tímanna tvenna, þ.e. viðhorfið þegar hún hóf nám í lögfræði 1956 og síðar þegar hún var skipuð fyrst íslenskra kvenna dómari við Hæstarétti Íslands 1986. "Það er mikill heiður að Guðrún skuli koma hér og ræða um reynslu sína sem kona í karlaveldi," segir Herdís og tekur fram að Guðrún njóti mikillar virðingar og hafi verið fyrirmynd margra kvenna í stétt lögfræðinga.

Þurfum aðeins að vera sammála um markmiðið

"Meginþemað á ráðstefnunni í ár er staðalímynd kvenna, kynbundinn frami, fyrirtækjamenning og samskipti kvenna. Það þarf að breyta staðalímyndinni til að ná meiri áhrifum í jafnréttisbaráttunni og það er t.d. gert með því að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja, fjölga konum sem hafa áhrif í að móta þjóðfélagsumræðuna og fjölga konum í háskólaumhverfinu, viðskiptalífinu og dómarastétt, svo fátt eitt sé nefnt. Sé það ekki gert felast í því skilaboð til annarra kvenna um að þær komist ekki upp úr glerþakinu," segir Herdís og tekur fram að ekkert gerist í raun fyrr en konur læri að vinna saman og skoða hlutina saman út frá ólíkum sjónarhornum. "Við þurfum ekki að vera sammála um leiðirnar, en við erum nokkuð sammála um markmiðið, sem er réttlátara samfélag."

Líkt og í fyrra verður boðið upp á fjögur pallborð þar sem þátt tekur fjöldi kvenna úr viðskipta-, lista- og háskólalífinu, en í hverju pallborði sitja fjórar til fimm konur. Að sögn Herdísar verður hvert pallborð með því sniði að hver þátttakandi heldur stutta framsögu, en fundarstjórar stjórna umræðum og fyrirspurnum úr sal.

Aðspurð segir Herdís nú þegar hátt á annað hundrað konur hafa skráð þátttöku sína, en pláss er fyrir nokkur hundruð þátttakendur í ráðstefnusalnum Hriflu á Bifröst. "Í fyrra voru tvö hundruð þátttakendur, en ég held að það verði fleiri í ár," segir Herdís og tekur fram að þar spili saman annars vegar frægð Germaine Greer og hins vegar hve Tengslanetið spyrjist vel út. "Þannig að þær sem ekki tóku við sér í fyrra eða hittiðfyrra eru að koma núna," segir Herdís og bætir við að þátttakendur séu úr ólíkum hópum samfélagsins og töfrum líkt þegar þær komi saman úti í guðsgrænni náttúrunni á Bifröst.

Þess má að lokum geta að skráning fer fram á heimasíðu Bifrastar á slóðinni: www.bifrost.is. Verð fyrir þátttöku á ráðstefnunni, þar sem allt er innifalið nema gisting, er 14 þúsund krónur, en að sögn Herdísar er verðinu haldið í algeru lágmarki til að gera sem flestum kleift að sækja ráðstefnuna.

Germaine Greer eitt af stóru nöfnunum

ÁSTRÁLSKI rithöfundurinn og kvenréttindakonan Germaine Greer er eitt af stóru nöfnunum í kvenfrelsishreyfingunni. Greer gegndi lengst af prófessorsstöðu í enskum bókmenntum við Háskólann í Warwick á Englandi og er ötull og beittur penni. Frægasta bók hennar, The Female Eunuch , sem út kom 1969, hafði mikil áhrif á kvenfrelsishreyfinguna upp úr 1970, en í bókinni heldur hún því fram að hinum sanna persónuleika kvenna sé haldið niðri af gildismati karla. Af öðrum verkum Greer má nefna Sex and Destiny sem út kom árið 1984, en þar heldur hún því fram að þjóðfélög Vesturlanda séu fjandsamleg börnum og frelsið í kynferðismálum þar sé manninum óeðlilegt. Fyrir sex árum má segja að Greer hafi fylgt The Female Eunuch eftir með útgáfu bókarinnar The Whole Woman þar sem hún heldur því fram að aftur sé kominn tími fyrir konur að reiðast sökum þess hversu sorglega hægt hafi miðað í kvenréttindabaráttunni.

silja@mbl.is