Elsta sjoppa landsins Turninn var byggður í drekastíl í byrjun síðustu aldar.
Elsta sjoppa landsins Turninn var byggður í drekastíl í byrjun síðustu aldar. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Seyðisfjörður | Það eru mörg falleg og skemmtilegt hús á Seyðisfirði.

Seyðisfjörður | Það eru mörg falleg og skemmtilegt hús á Seyðisfirði. Eitt það allra skrýtnasta er Turninn utarlega í bænum, Hafnargata 34, fagurgrænt hús sem minnir mest á austræna pagóðu og er algjörlega út í hött innan um nágrannabyggingarnar, sem hýsa fiskvinnslu og vélsmiðju svo eitthvað sé nefnt.

Græna húsið var flutt inn frá Noregi árið 1907 af Eyjólfi Jónssyni bankastjóra. Í bók Þóru Guðmundsdóttur arkitekts og Indlandsfara, Húsasögu Seyðisfjarðarkaupstaðar, segir að Turninn hafi verið byggður í norskum þjóðernis- og víkingarómantískum drekastíl. Húsið var lengt og stækkað 1950 og lengst af trónuðu tveir útskornir drekar á mæni og horfðu til austurs og vesturs.

Nútíminn skríður í hillurnar

Pétur Kristjánsson, safnamaður og menningarmógúll, rekur verslun og lyklasmíði í Turninum og hefur gert um árabil. Hann var að koma heim frá Kína í vikunni og rétt að taka Lokað-spjaldið af hurðinni þegar Morgunblaðið bar að garði.

"Þetta er elsti söluturninn í landinu," segir Pétur og tekur til við að sýsla við sitthvað smálegt í búðinni. Athygli vekur sérstætt sambland gamalla hluta og nýrra, ölkassi með Egils í gleri og kippa af sama í plasti undir, tindátaharpa hjá innpökkuðum rafhlöðum og gamaldags statíf undir maskínupappír til innpökkunar uppi á borði. En svo er nútímans dót í öllum hornum og á hillum. Stereógræjur og grænmetisblandari, rafmagnstengi og díóðuperur. Afgreiðslumaður á óræðum aldri sem smíðar líka lykla. "Hérna var símaklefi," segir hann og bendir á mitt gólfið framan við afgreiðsluborðið. "1907, þeir voru nú ekki algengir í þá daga. Menn komu hér inn til að síma og keyptu sér bjór og sígarettur. Svo þróaðist þetta yfir í að verða stórverslun, þegar Harald Johansen hinn danski rak búðina, frá 1944 til 1966." Nú kemur viðskiptavinur og Pétur hverfur inn á bak við í leit að ljósaperum.

Í Turninum, sem gekk lengstum undir nafninu Söluturninn, var vinsæll samkomustaður seyðfirskra unglinga um árabil og oft þétt setinn þar bekkurinn. Segir Þóra Guðmundsdóttir að þarna hafi verið upphaf íslenskrar sjoppumenningar og verslað með sælgæti, öl, tóbak og innflutta pakka- og dósavöru. Nokkrir eigendur voru að húsinu gegnum tíðina og þegar fram liðu stundir bættust við vöruúrvalið búsáhöld og byggingarvörur, leikföng og veiðarfæri, svo eitthvað sé nefnt. Vélsmiðja Seyðisfjarðar rak byggingavöru- og veiðarfæraverslun í húsinu fram undir 1980 og lá verslunarrekstur í Turninum niðri uns Pétur keypti húsið og tók til óspilltra málanna.