Jørgen Svare klarinett, Björn Thoroddsen gítar og Jón Rafnsson bassa. Föstudagskvöldið 21. apríl.

DANINN Jørgen Svare hefur um langt árabil verið einn fremsti klarinettuleikari Norðurlanda þegar dixiland og sving er annars vegar. Hann er Íslendingum að góðu kunnur og þá frekar fyrir samvinnu sína við Björn Thoroddsen og Jón Rafnsson en Papa Bue, en með því frægasta dixilandbandi Norðurálfu lék hann í tæp þrjátíu ár.

Þeir félagar hituðu upp með Rósettu, klassíkinni hans Earl Hines, og síðan blés Svare Sweet And Lovely eftir Gus Arnheim. Því miður var Svare ekki kominn í form og flutningurinn slakur, sér í lagi borinn saman við stórkostlegan flutning tríósins á þessum tveimur ópusum á nýju Svare/Thoroddsen skífunni: Sweet And Lovely. Það var eiginlega ekki fyrr en eftir einleikslag Björns, Over The Rainbow eftir Harold Arlen, að Svare tók flugið í verki Ellingtons: It Don't Mean A Thing If It Ain't Got That Swing, og sýndi okkur hvers hann er megnugur. Svona kallar eins og Svare þurfa yfirleitt hálft sett til að komast í gang, en honum tókst að töfra salinn með fyrsta flokks sjói atvinnumannsins. Gamla vögguvísan Hush-A-Bye, sem var fyrst gefin út í Bandaríkjunum 1765 og á rætur að rekja til indjána, fékk balkneska meðhöndlun hjá Svare og hann ýlfraði í klarinettið eins og búlgörsku klarinettuleikararnir gera gjarnan. Björn lék þarna ljúfan og lýrískan sóló og svo kom Sweet Georgia Brown og salurinn klappaði taktinn. Jón Rafnsson tók nokkra sólóa þótt meiddur væri á hendi og var fínn í göngubassanum og það er á hreinu að hlustendur héldu glaðir heim á leið.

Vernharður Linnet