Bjarnheiður Hallsdóttir
Bjarnheiður Hallsdóttir
Bjarnheiður Hallsdóttir fjallar um virkjanir, Draumaland Andra Snæs Magnasonar og grein Þorsteins Hilmarssonar um þau efni: "Ég hvet Þorstein og alla aðra Íslendinga til að lesa Draumaland Andra Snæs spjaldanna á milli, jafnvel þótt þeir þurfi að stela bókinni."

Í LESBÓK Morgunblaðsins laugardaginn 6. maí sl. ritar Rúnar Helgi Vignisson grein um Andra Snæ Magnason og "Draumalandið" hans. Þar stingur Rúnar upp á því að Andri verði virkjaður, verði atvinnuhugvitsmaður á háum launum hjá íslensku þjóðinni. Ég er hjartanlega sammála Rúnari og langar fyrir hönd fjölmargra sem ég þekki að þakka Andra Snæ fyrir að nenna að setja sig svona vel inn í þau mikilvægu mál sem hann fjallar um í bókinni, vekja okkur til umhugsunar og setja mál sitt fram með þeim hætti að úr verður einstakt rit sem veldur því að lesandinn verður vart samur á eftir.

Andri kemur þarna viðhorfum og gildismati fjölmargra Íslendinga á framfæri með einstökum hætti og deilir á þau viðhorf og þær aðferðir sem verið hafa hvað mest áberandi undanfarin ár og áratugi með nánast óhrekjanlegum rökstuðningi. Enda hefur lítið heyrst frá þeim sem skothríð Andra beinist að. Einn maður er þó óþreytandi vörður virkjana- og stóriðjustefnunnar. Sá heitir Þorsteinn Hilmarsson og er upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. Þennan sama laugardag geysist hann fram á ritvöllinn í aðalblaði Morgunblaðsins og tjáir sig m.a. um málflutning Andra Snæs.

Ég leyfi mér að efast um að Þorsteinn hafi lesið bók Andra Snæs, það bendir a.m.k. fátt til þess og gæti grein hans í raun verið dæmisaga um þann hugsunarhátt sem Andri gagnrýnir í bók sinni. Þetta er eins og rödd úr grárri forneskju, þar sem staðreyndum er snúið og reynt er að slá ryki í augu fólks með orða- og talnaleikjum og tilvitnunum í gamlar skýrslur afdankaðra norskra stjórnmálamanna. Þorsteinn heldur áfram krossferð virkjanasinna síðustu áratuga, þar sem hann heldur því fram að virkjanastefna Íslendinga sé "eitt þyngsta lóð sem við getum lagt á vogarskálina gegn hlýnun jarðar". Hvernig í ósköpunum heldur Þorsteinn að hægt sé að bera þetta á borð endalaust og hvernig er hægt að rökstyðja það að framleiðsla á raforku sem seld er eiturspúandi stóriðju á útsölu sé þáttur í umhverfisvernd? Svarið er einfalt. Það er ekki hægt. Tíðarandinn hefur sem betur fer breyst og fólk einfaldlega veit betur. Ég hvet Þorstein og alla aðra Íslendinga til að lesa Draumaland Andra Snæs spjaldanna á milli, jafnvel þótt þeir þurfi að stela bókinni.

Höfundur er framkvæmdastjóri Katla DMI í Reykjavík.