"Sýningin er fallega unnin og býður upp á sterka tilfinningu fyrir að hún sé í heild ljóð, útskurður eða vefnaður, þrjár tegundir texta sem ná að túlka "draumsæi og náttúrufar" þriggja listamanna og draga áhorfandann á vit ævintýra."
"Sýningin er fallega unnin og býður upp á sterka tilfinningu fyrir að hún sé í heild ljóð, útskurður eða vefnaður, þrjár tegundir texta sem ná að túlka "draumsæi og náttúrufar" þriggja listamanna og draga áhorfandann á vit ævintýra." — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sýningin stendur til 14. maí. Opið laugardaga og sunnudaga kl. 14-17.

SÝNINGIN "Út á skýjateppið" í Listasafni Sigurjóns ber undirtitilinn "draumsæi og náttúrufar þriggja forma" sem gefur vísbendingu um þá ljóðrænu náttúrudulúð sem einkennir framtakið. Berglind Gunnarsdóttir ljóðskáld á frumkvæði að þessari samsýningu sem hún og Helga Pálína Brynjarsdóttir textílhönnuður hafa sett upp í samvinnu við Listasafn Sigurjóns. Þar hafa þær valið ákveðin verk Sigurjóns á sýninguna sem þær fara í samræður við með sínum verkum en samspilið byggist á sameiginlegri huglægri áferð þar sem náttúra og menning leika fínlegan línudans. Á Laugarnesinu er listasafnið umgjörð verkanna en verkin sjálf vísa í nánasta umhverfi safnsins þar sem stórbrotin náttúran er allt um kring með mismunandi miklum mannlífs- og mannvistarmerkjum. Lauflétt hvít silkitjöld Helgu Pálínu eru með munstrum sem vísa til jarðarrúna eða bæjarrústa sem eru á mörkum manngerðs landslags og hreinna náttúruforma. Munstrin eru þrykkt á silkið með einhverjum efnasamböndum sem breyta áferð silkisins í munsturformunum ekki ósvipað og þegar munstur myndast í damaskvefnaði, í hálfgegnsærri dalalæðu eða snjóföli sem lagst hefur yfir mismunandi upphleypt yfirborð. Ljóðin hennar Berglindar fjalla einnig um borgarlandslagið og Laugarnesið þar sem snjórinn breiðist yfir malbik, fiskistæði og leiði kirkjugarða og "dúnmjúkt skýjateppið" bíður eftir sporum elskenda. Þetta samspil forma og tákna þar sem mörkin á milli bókstafa, orða, táknmiða og táknmynda verða óskýr upphefur um leið mörkin milli þess huglæga og hlutlæga. Þessi ljóðrænu og loftkenndu verk kvennanna sem minna einmitt á skýjateppi þar sem texti og textíll verður aftur að sama orðinu ná síðan að fanga svolítið sérstæða sýn á skúlptúra og lágmyndir Sigurjóns. Athyglin beinist að áferð verka hans og útskornum táknum (texture) sem form þeirra eða yfirborð vísar til. Eina sem vinnur gegn heildareiningu sýningarinnar á neðri hæðinni felst í því að sýningin þarf að raða sér í kring um stærðarflygil sem þar er og dregur að sér óþarflega mikla athygli. Á efri hæðinni næst þó yfirvegaðri heildarmynd þar sem skúlptúrar eftir Sigurjón og Helgu Pálínu fá betra næði. Sýningin er fallega unnin og býður upp á sterka tilfinningu fyrir að hún sé í heild ljóð, útskurður eða vefnaður, þrjár tegundir texta sem ná að túlka "draumsæi og náttúrufar" þriggja listamanna og draga áhorfandann á vit ævintýra. Aukabónus fyrir sýningargestinn hlýtur svo að vera hið frábæra útsýni úr kaffistofu safnsins þegar hann fær sér kaffi á eftir sýningarröltið.

Þóra Þórisdóttir