Þriðja íslenska Söguþinginu lauk í gær, en þar var kynntur fjöldi rannsókna sem unnið er að í sagnfræði og tengdum greinum.
Þriðja íslenska Söguþinginu lauk í gær, en þar var kynntur fjöldi rannsókna sem unnið er að í sagnfræði og tengdum greinum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hefur fundið skriflegar heimildir sem sýna að símar voru hleraðir á vegum stjórnvalda í sex tilvikum í kalda stríðinu.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hefur fundið skriflegar heimildir sem sýna að símar voru hleraðir á vegum stjórnvalda í sex tilvikum í kalda stríðinu. Brjánn Jónasson hlýddi á fyrirlestur um eftirlit lögreglu með sósíalistum og fleirum á Söguþingi Íslands 2006 í Háskóla Íslands í gær.

Íslensk stjórnvöld hleruðu síma hjá fjölda fólks í að minnsta kosti sex tilvikum á árunum 1949-1968, þar á meðal hjá fjórum alþingismönnum, á meðan verið var að fjalla um samkomulag við Breta í þorskastríðinu á Alþingi árið 1968, sem nálgast það að geta kallast pólitískar njósnir.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, sem hann kynnti á Íslenska söguþinginu 2006, sem lauk í gær. Guðni hefur fundið skriflegar heimildir fyrir því að dómsmálaráðuneytið hafi fengið alls átta heimildir til að hlera síma hjá sakadómara eða yfirsakadómara á tímabilinu, vegna sex aðskilinna tilvika. Hann segir að hingað til hafi engar staðfestingar fengist á því að slíkar hleranir hafi átt sér stað.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Guðni aðgengi sitt að heimildunum hafa verið bundið því að hann greindi ekki frá nöfnum þeirra sem skráðir voru fyrir þeim símum sem hleraðir voru, það væri frekar hlutverk einhvers konar opinberrar rannsóknarnefndar á málinu að greina frá slíku, þar sem leynd hvíli yfir gögnunum sem hann notar.

Víst má telja að aldrei verði upplýst hvaða upplýsingar stjórnvöld höfðu upp úr þessum hlerunum, enda var öllum gögnum sem fengust úr þessum lögregluaðgerðum eytt, í síðasta lagi árið 1977.

Meðal þeirra atvika sem þóttu kalla á símahleranir var innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið árið 1949; heimsókn Dwight Eisenhower, yfirhershöfðingja bandalagsins, tveimur árum síðar; og koma Bandaríkjahers síðar það sama ár. Einnig fengust heimildir til að hlera síma þegar verið var að semja við bresk stjórnvöld um landhelgi Íslands í Þorskastríðinu árið 1961, og þegar Lyndon B. Johnson, varaforseti Bandaríkjanna, kom hingað til lands árið 1963. Síðasta tilvikið sem Guðni hefur heimildir um var árið 1968, þegar utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins fór fram hér á landi.

Engar heimildir um hleranir án dómsúrskurðar

Heimildir Guðna eru m.a. bréf frá dómsmálaráðuneytinu til sakadómara, eða yfirsakadómara, þar sem farið er fram á að lögreglu verði veitt leyfi til að hlera símanúmer. Alltaf var hlerað hjá Sósíalistaflokknum, nær alltaf hjá Þjóðviljanum , stundum hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún og Samtökum herstöðvarandstæðinga, og einu sinni hjá Alþýðusambandi Íslands.

Einnig upplýsti Guðni að hleraðir hefðu verið símar hjá einum eða fleiri alþingismönnum í hverju tilfelli.

Guðni segist engar heimildir hafa fyrir því að stundaðar hafi verið símahleranir á árunum 1949-1968 án dómsúrskurðar, og segir að á þessum árum hafi alltaf verið til staðar heimild í lögum til þess að hlera síma "þegar öryggi landsins krefst þess eða um mikilsverð sakamál er að ræða, enda hafi dómsmálaráðherra í hvert skipti fellt skriflegan úrskurð um, að svo skuli gert og um hvaða tímabil," eins og segir í lögum um fjarskipti frá 1941.

Í erindi sínu á Söguþingi í gær lagði Guðni einnig mat á þessar nýju upplýsingar um símahleranir stjórnvalda, og hvort um pólitískar njósnir hafi verið að ræða. Hann sagði það sitt mat að verjandi hafi verið að hlera síma þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið í mars 1949. Heiftin hafi verið mikil, og Þjóðviljinn hafi birt greinar þar sem hörðum átökum var hótað. "Mér sýnist stjórnvöldin hafa haft réttmæta ástæðu til að ætla að Alþingi yrði hindrað í störfum sínum," sagði Guðni. Hann sagðist ennfremur þeirrar skoðunar að réttlætanlegt hafi verið að hlera síma árið 1951, fyrst þegar Eisenhower kom, og síðar þegar Bandaríkjaher kom hingað til lands. Þær ákvarðanir verði að skoða í því ljósi að kalda stríðið var í algleymingi, Kóreustríðið hafi blossað upp, og yfirmenn öryggismála hafi notið leiðsagnar Bandaríkjamanna, sem og starfsbræðra sinna í Noregi og Danmörku.

"Mér finnst líklegt að þeir hafi fengið þau skilaboð að símahleranir væru illnauðsynlegt öryggistæki í baráttunni við heimskommúnismann. Og ekki vantaði íslenska sósíalista þá sannfæringu á þessum árum að þeir gætu þurft að beita ofbeldi í nafni hugsjónanna. Hatrammir andstæðingar þeirra höguðu sér eftir því," sagði Guðni.

"Ég tel aftur á móti að þær hleranir sem fram fóru þegar Alþingi fjallaði um landhelgissamninginn við Breta árið 1961 orki mjög tvímælis. Engar vísbendingar eru um undirbúning fjöldamótmæla eins og 1949, og þarna voru hleraðir símar fjögurra alþingismanna á sama tíma og þingið hafði mikilvægt málefni til umfjöllunar. Þessar hleranir nálgast pólitískar njósnir."

Hvað varðar símahleranir vegna komu Lyndon B. Johnson til landsins árið 1963 sagði Guðni að það verði að skoða í samhengi við tíðarandann. Það sama ár hafi orðið uppvíst um "klaufalega tilburði sovéskra KGB-manna" til þess að fá íslenskan mann til að njósna fyrir sig, og æðstu yfirmenn öryggismála hafi talið að fyrst andstæðingarnir beittu þess konar aðferðum væri þeim leyfilegt að beita öllum brögðum sem heimildir voru til í lögum í baráttu gegn þeim.

Fram kom þó að fyrirhuguð mótmæli vegna komu Johnson áttu að vera í alla staði friðsamleg, og því virðast viðbrögð stjórnvalda, að grípa til þess ráðs að hlera síma fjölda fólks, í það minnsta óvenju harkaleg, ef ekki hreinlega óþörf, sagði Guðni.

Það vekur alvarlegar spurningar að árið 1968 eru hleraðir símar hjá tveimur alþingismönnum, þegar ljóst var að þær óeirðir sem stjórnvöld óttuðust að brytust út voru ekki að undirlagi ákveðins stjórnmálaflokks, sagði Guðni. Mótmælin voru skipulögð af Æskulýðsfylkingunni, sem hafði lítil tengsl við Alþýðubandalagið á þessum tíma.

Inngangan í Atlantshafsbandalagið

1949 Í mars árið 1949 urðu mikil pólitísk átök hér á landi þegar lagt var til að Ísland gengi í Atlantshafsbandalagið. Miklar óeirðir urðu á Austurvelli þann 30. mars. Að óeirðunum var nokkur aðdragandi, þar sem samþykkt var að hlera samtals 16 síma, sagði Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur.

Sósíalistar og hlutleysissinnar voru því andsnúnir að Ísland gengi í nýtt hernaðarbandalag, og héldu Sósíalistar mótmælafund 24. mars. Daginn eftir birtist frásögn af fundinum í Þjóðviljanum , þar sem að því var látið liggja að frekari mótmæli tugþúsunda Reykvíkinga væru í vændum. Af því tilefni svaraði Morgunblaðið í nokkurs konar leiðara á forsíðu, undir fyrirsögninni "Kommúnistar kasta hanskanum - Boða ofbeldi gegn Alþingi", þar sem sagði m.a.: "Hér er ekki hægt um að villast. Kommúnistar hafa boðað uppreisn í landinu."

Dómsmálaráðuneytið skrifaði því bréf til sakadómara þar sem skrif Þjóðviljans voru rekin. Þar sagði m.a.: "Af hinum tilvitnuðu ummælum virðist mega ráða að tilætlunin sé sú að hindra Alþingi í störfum sínum að því er snertir þetta mál." Slíkt var alvarlegt mál, atlaga að Alþingi gat varðað lífstíðarfangelsi. Sakadómari kvað síðar þann sama dag upp úrskurð um að heimilt væri að hlera síma til að rannsaka hótanirnar.

Guðni segir að hleranirnar hafi væntanlega hafist samdægurs, svo virðist sem annað hvort lögreglumaður eða starfsmaður símans hafi lekið upplýsingum um hleranirnar, enda sagði í Þjóðviljanum daginn eftir, 27. mars, að víðtækar símahleranir væru hafnar.

Alls voru 16 símanúmer hleruð, tvö tilheyrðu Sósíalistaflokknum og þrjú Þjóðviljanum . Hin voru í heimahúsum, þar af þrjú á heimilum alþingismanna.

"Miðvikudaginn 30. mars 1949 verður stóri slagurinn á Austurvelli þegar Alþingi samþykkir inngöngu Íslands í NATO. Lögregla og sjálfboðaliðar, flestir sjálfstæðismenn, berjast við andstæðinga aðildar; táragasi er beitt og það er hrein heppni að enginn lætur lífið. Daginn eftir er þó allt með kyrrum kjörum og póst- og símamálastjóri fær þá tilkynningu, frá sakadómara að því er virðist, um að á miðnætti skuli öllum símahlerunum hætt. Svo fer þó ekki. Þeim er haldið áfram að eindreginni ósk ríkisstjórnarinnar. Miðvikudaginn 6. apríl er númerum að vísu fækkað í níu. Þremur dögum síðar ákveður sakadómari svo að öllum símahlerunum skuli hætt," sagði Guðni.

Heimsókn Dwight Eisenhower

1951 Þegar boðað var að Dwight Eisenhower, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins og síðar forseti Bandaríkjanna, væri væntanlegur hingað til lands mótmælti Þjóðviljinn og lét að því liggja að þó hann þyrfti ekki að óttast um líf sitt og limi myndi óvild þjóðarinnar umlykja Eisenhower, sagði Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.

Dómsmálaráðuneytið skrifaði því sakadómara bréf þann 17. janúar þar sem sagði að líklegt væri að kommúnistar hefðu í hyggju að efna til óspekta í sambandi við komu Eisenhowers. Upplýsa þyrfti á hvern hátt framkvæmd þessara óspekta væri fyrirhuguð.

Sakadómari féllst á að 15 símanúmer yrðu hleruð. Eitt símanúmer hjá Þjóðviljanum var hlerað og annað hjá Sósíalistaflokknum. Að auki var hleraður sími hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún, sem og sími Bókabúðar Máls og menningar. Síminn hjá 11 einstaklingum var einnig hleraður, þar af hjá tveimur alþingismönnum.

Koma Bandaríkjahers til Íslands

1951 Svo virðist sem lögregluyfirvöld hafi komist á snoðir um að eitthvað stórt væri framundan eftir fund í fulltrúaráði Sósíalistafélags Reykjavíkur þann 23. apríl 1951. Þar var rætt um að 1. maí væri framundan og hvað yrði gert í tilefni dagsins. Ekkert kom þó fram í Þjóðviljanum sem benti til þess að æsingar hefðu verið í vændum, sagði Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur.

Yfirvöld hafa þó væntanlega verið á tánum vegna þess að til stóð að bandarískt herlið kæmi hingað til lands eftir fjarveru frá árinu 1946.

Enn ritaði dómsmálaráðuneytið bréf til sakadómara og sagði lögreglu hafa ástæðu til að telja að friði og reglu gæti stafað hætta af "andstæðingum væntanlegra aðgerða í öryggismálum landsins," segir Guðni. Þar var lagt til að 25 símanúmer yrðu hleruð og fékkst leyfi til þess hjá sakadómara.

Þar voru hleruð fjögur símanúmer Þjóðviljans , fjögur hjá Sósíalistaflokknum og samtökum honum tengdum og eitt símanúmer hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún. Að auki voru 16 heimasímar hleraðir, fjórir af þeim voru hjá alþingismönnum. Þann 2. maí var síma fimmta þingmannsins bætt á listann. Þremur dögum seinna komu fyrstu hermennirnir.

Ekki er ljóst hvort símahlerunum linnti þann dag, en ætla má að það hafi verið þá eða næstu daga, sagði Guðni.

Landhelgissamningar við Breta

1961 Í Lok febrúar 1961 lá fyrir samkomulag milli íslenskra og breskra stjórnvalda um lausn á deilu um 12 mílna landhelgi Íslands, sem hafði verið ástæða Þorskastríðs milli þjóðanna. Óvissa ríkti um hvernig almenningur myndi bregðast við samkomulaginu, og jafnvel ótti um að mótmæli, hliðstæð þeim sem urðu þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, yrðu, sagði Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.

"Allur er varinn góður, hugsa æðstu valdhafar með sér. Eitthvert lið manna er tilbúið að verja þingið, líkt og forðum daga, og 26. febrúar 1961 leggur dómsmálaráðuneytið til við sakadómara að 14 símar verði hleraðir," sagði Guðni.

Hann vitnaði í gögn, þar sem rökstuðningur ráðuneytisins kom fram: "Óttast má að tilraunir verði gerðar til að trufla starfsfrið Alþingis á næstu dögum en þar verða til umræðu málefni, sem valdið hafa miklum deilum á þessu þingi og einnig valdið hótunum um ofbeldisaðgerðir, er til frekari meðferðar kemur á því, þannig að öryggi ríkisins geti stafað hætta af..."

Eins og áður féllst sakadómari á að láta hlera símanúmerin 14. Þrjú þeirra tengdust Alþýðubandalaginu, þ.e. hjá Sósíalistaflokknum, Sósíalistafélagi Reykjavíkur og Æskulýðshreyfingunni, ungliðasamtökum sósíalista. Þrjú símanúmer voru skráð hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún, en að auki var sími Alþýðusambands Íslands hleraður. Ekki var hlerað hjá Þjóðviljanum , en hlustað var á síma Dagfara , tímarits Samtaka herstöðvarandstæðinga.

Samningurinn við Breta var samþykktur á Alþingi og í þingsal líkti stjórnarandstaðan honum við landráð, segir Guðni. Á þingpöllum og utan dyra var þó allt með kyrrum kjörum og ekkert varð út mótmælum sem stjórnvöld töldu sig geta búist við.

Varaforseti BNA til Íslands

1963 Í september 1963 var von á Lyndon B. Johnson, varaforseta Bandaríkjanna, hingað til lands og ákváðu samtök herstöðvarandstæðinga að nota tækifærið og mótmæla erlendri hersetu á Íslandi, sagði Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.

Samtökin létu lögreglustjóra vita af því bréflega að ætlunin væri að mótmæla á meðan fundur Johnson stæði í Háskólabíói og afhenda honum þar mótmælaorðsendingu. "Samtök hernámsandstæðinga leggja höfuðáherslu á að þessi atburður fari fram með fyllstu kurteisi og friðsemd," segir í bréfinu.

Eitthvað voru yfirvöld efins um friðarhug mótmælenda og dómsmálaráðuneytið skrifaði sakadómara bréf þar sem óskað var eftir heimild til að hlera sex símanúmer, þar sem óspektir gætu verið í vændum. Heimildin var veitt og hlerað var eitt símanúmer Þjóðviljans , eitt númer Sósíalistaflokksins, annað hjá Sósíalistafélagi Reykjavíkur og eitt hjá Dagfara og Samtökum herstöðvarandstæðinga, auk síma tveggja einstaklinga, en annar þeirra var alþingismaður.

Fallist var á að veita leyfi til mótmæla, að uppfylltum ströngum skilyrðum, m.a. um að autt svæði yrði milli mótmælenda og Háskólabíós. Það gekk þó ekki eftir og segir Guðni menn hafa lent saman í einni þvögu, hernámsandstæðingar gegn félögum í Varðbergi, félagi ungra áhugamanna um vestræna samvinnu, þó einhvern veginn hafi tekist að færa Johnson mótmælin.

Atlantshafsbandalagið fundar

1968 Samtök hernámsandstæðinga boðuðu mótmæli vegna fyrirhugaðs fundar utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins hér á landi í júní 1968 og þótti löggæsluyfirvöldum það ekki boða gott að skömmu áður voru slagorð máluð á herskip bandalagsríkja í Reykjavíkurhöfn, sagði Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur.

Dómsmálaráðuneytið skrifaði því yfirsakadómara bréf þar sem fram kom að borist hefðu út fregnir af undirbúningi óeirða vegna fundarhalda Atlantshafsbandalagsins, ef til vill með "þátttöku sérþjálfaðra erlendra aðila," eins og segir í bréfi ráðuneytisins. Sagði Guðni að sérþjálfuðu erlendu aðilarnir hefðu verið grískir útlagar sem vildu mótmæla því að hópur herforingja rændi völdum í landinu árið áður. Þann 8. júní veitti yfirsakadómari leyfi sitt til að hlera 17 símanúmer þar til fundur ráðherrana væri afstaðinn.

Tvö símanúmer voru hleruð hjá Sósíalistaflokknum og eitt hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún, Dagfara , Þjóðviljanum , Æskulýðsfylkingunni og MÍR, menningartengslum Íslands og ráðstjórnarríkjanna. Að auki voru tíu heimilissímar hleraðir, þar af hjá tveimur alþingismönnum.

Þann 24. júní var fundur utanríkisráðherrana settur í Háskólabíói og voru mótmælendur þar fyrir utan. Mótmælendurnir héldu svo á fund í Vatnsmýrinni á meðan ráðherrarnir funduðu í Háskólanum, en þegar mótmælendur sáu að engin gæsla var á leiðinni upp að Háskólanum varð freistingin of mikil og þeir settust á tröppurnar með spjöld og skilti, hrópandi slagorð gegn Atlantshafsbandalaginu, Víetnamstríðinu og herforingjunum í Grikklandi, sagði Guðni. Úr því urðu dálítil slagsmál þegar lögregla ruddi tröppurnar.

brjann@mbl.is