Andrea Gylfadóttir söngur, Björn Thoroddsen gítar, Jón Rafnsson bassa og Jóhann Hjörleifsson trommur. Á miðnætti kosningadags 2006.

ÞAÐ VAR ekki mikill djass í túlkun tríós Björns Thoroddsen og Andreu Gylfadóttur á vinsælum sönglögum íslenskum, jafnt sem lögum er við lítum orðið á sem íslensk, á tónleikum er þau nefndu Vorvindar og haldnir voru í Iðnó á Listahátíð á miðnætti sveitarstjórnarkosningadags.

Blátt lítið blóm eitt er var fyrst á dagskrá og er jafnan framandi í djassumhverfinu. Haukur Morthens flutti það í sjónvarpsþætti með hljómsveit sinni í Leningrad 1962 og brá á það ráð að tvista meðan hljómsveitin lék sóló, vakti það hrifningu Rússa. Það er aðdáunarvert hve Sveitin milli sanda er vel samið lag og trúlega það verk Magnúsar Blöndal Jóhannessonar sem náð hefur mestri alþýðuhylli. Andrea söng það glæsilega og hefði ekki verið verra ef hún hefði haft strengjasveit sér að baki ásamt tríóinu. Var þetta einhver besti flutningur fjórmenninganna þetta kvöld. Hafið bláa hafið var í nýrri tónsetningu Björns Thoroddsen, ansi skemmtilegri, og eru þeir báðir Hafnfirðingar, höfundur lagsins Friðrik Bjarnason og höfundur tóngerðar. Svo var haldið til Rússlands, Kvöld í Moskvu. Það lag kynnti Haukur Morthens hér 1957, en vinsældir hér vestra féllu laginu fyrst í skaut en dixílandsveit Kenny Ball hins breska flutti það 1961. Hinir sænsku Vorvindar glaðir voru hressilega fluttir og lögin Blessuð vertu sumarsól og Ömmubæn voru komin í sömbubúning, en það lag Jenna Jóns er erfiðara djassmönnum en flest önnur. Lögin voru fleiri, en þetta voru ekki djasstónleikar þó djasstónninn hljómaði alltaf undirniðri. Vonandi á diskurinn, þar sem finna má tónlistina sem flutt var á tónleikunum, eftir að gleðja marga, og þeir sem aldir voru upp við disk Björns Thoroddsen, Við göngum svo léttir... á leikskólunum, ættu að leika hann fyrir sig og börnin sín öllum til gleði og ánægju.

Það þarf varla að taka það fram að Andrea og tríóið skiluðu sínu af listfengi en tilgangurinn er varla annar en að koma þessum lögum áfram til nýrrar kynslóðar í rytmískum búningi.

Vernharður Linnet