Það boðar heill að hafa reynitré við húsið sitt.
Það boðar heill að hafa reynitré við húsið sitt. — Morgunblaðið/Guðrún Guðlaugs
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Reynitré settu lengi svip sinn á trjárækt Íslendinga í görðum og gera raunar enn, einkum í eldri görðum. Reynir á sér því langa sögu í íslensku umhverfi og menningu.

Reyniviður er fornt íslenskt tré og mörg örnefni eru til sem þess bera vott. Má þar nefna Reynisdranga og Reynisfjall í V-Skaftafellssýslu, Reynivelli í Kjós og Reynisstaði í Skagafirði.

Þar var stofnað nunnuklaustur af Benediktsreglu árið 1295 af Jörundi biskupi Þorsteinssyni. Frá Reynistað í Skagafirði voru hinir nafnkunnu Reynistaðabræður sem urðu úti við fimmta mann á Kili haustið 1780 á heimleið úr fjárkaupaferð til Suðurlands. Bræðurnir hétu Bjarni og Einar og voru synir Halldórs Vídalín, klausturhaldara á Reynistað. Mikið hefur verið rætt og ritað um þennan hörmulega atburð og spunnist um hann margar sögur. Bræðurnir voru 20 og 11 ára gamlir og fundust lík fjögurra mannanna sumarið eftir að þeir urðu úti en þau hurfu á dularfullan hátt meðan kistur voru sóttar. Vegna þessa atburðar hafði fólk ótta af Kjalferðum um langa hríð og mikið var um hjátrú þessu tengt, m.a. þótti óráðlegt að drengir af Reynistaðaætt væru í grænum fötum, en annar bræðranna hafði verið svo klæddur í sinni hinstu för.

Reyniviður á djúpar rætur í íslenskri þjóðtrú

Reyniviður á sér reyndar djúpar rætur í íslenskri þjóðtrú. hann var helgaður Ása-Þór til forna og kallaður björg Þórs, samanber glettna frásögn í Snorra-Eddu. Í kristnum sið var líka helgi á reyniviði og mátti ekki höggva hann né skemma. Álfar í klettum voru og sagðir erja reynitré þar. Hefur þessi gamla þjóðtrú eflaust orðið til þess að mörgum trjám var hlíft. Þjóðtrúin segir ljós brenna á greinum reynis á jólanótt. sú sögn gekk t.d. um reynihrísluna frægu í Möðrufellshrauni í Eyjafirði.

Afar gamlir trjágarðar voru í Skriðu og Fornhaga í Hörgárdal og er talið að þar hafi verið ræktaður reyniviður úr Möðrudalshrauni. Í kaþólskum sið var helgi á þeirri frægu reyniviðarhríslu.

Trú á helgi reyniviðar er raunar mjög gömul. Geirmundur heljarskinn er bjó á Geirmundarstöðum í Dalasýslu kvaðst vildu kjósa sér hvamms brott úr landnámi sínu, ef hann mætti ráða, og mest fyrir því "að sá er staður í hvamminum, að ávalt er ég lít þangað þá skrámir það ljós fyrir augu mér, að mér verður ekki að skapi. Og það ljós er ávalt yfir reynilundi þeim, er þar er vaxinn einn samt undir brekkunni". Ef búfé Geimundar kom í hvamminn lét hann ónýta nytina þann dag.

Smalamaður Geirmundar vildi einn morgunn flýta sér að reka fé úr hvamminum og reif vönd úr reynirunninum til að keyra féð áfram. Geirmundur komst að þessu, hýddi smalann ákaflega og sagði honum að berja búféð aldrei oftar með þeim viði. Sýnir þetta vel forna trú á mátt reynisins. Geirmundur var heiðinn maður. Sagt var að kirkjan í Skarði hafi verið reist á þeim sama stað og reynirunninn stóð forðum, en frá þessu segir í Sturlungu.

Á Skarði hefur sami ættleggurinn búið að sögn frá tíð Geirmundar. Löngum var þar mikill auður í búi og bjuggu þar valdsmenn. Enn búa afkomendur Skarðverja hinna fornu á Skarði.

Vökvaði rætur reynitrjáa með blóði

Skáldið rómantíska Steingrímur Thorsteinsson var mikill aðdáandi reynitrjáa.

Þetta kom m.a. fram í erindi sem Axel Thorsteinsson sonur hans flutti 21. júní 1922 í Lundum í Manitoba um föður sinn.

"Fáa menn hefi ég þekkt sem létu sér eins yndi verða að ýmsu sem í fljótu bragði kann að skipta litlu um," segir Axel þar um föður sinn.

"Hann átti það til dæmis til að panta einhverja nýja frætegund, áður óreynda heima, og það var honum ánægja að sá henni, bíða eftir og vona að eitthvað kæmi upp. Í garðinum voru um þetta leyti þrjár reyniviðarhríslur. Þær voru á að giska hálf önnur mannhæð, og gnæfðu því hátt yfir ribs- og sólberjarunnana. Að ráði Schiebecks landlæknis lét hann vökva blóði rætur þessara trjáa. Var það gert í sláturtíðinni á hverju hausti. Var Schierbeck urtagarðsmaður mestur á Íslandi lengi vel, og mikil vin blóma og trjáa. En aldrei gleymdi faðir minn heitinn reyniviðarhríslunum sínum. Það var honum yndi að hlúa að þeim frá því snemma á vorin og á haust fram. Þá tíndi hann fræin, sem hann reyndi að sá til þess að framleiða nýjar plöntur. Allt þetta var honum yndi og gleðiefni. Oft lét hann hendur sínar leika um börkinn, til þess að ganga úr skugga um að hann væri heill. Barkarsýki kom í eitt reyniviðartréð og huldi hann eyðurnar með efni, sem er til þess gert, að varna barkareyðingu eða koma í veg fyrir hana. Og ég vissi að honum féll það sárt, er hríslan sú dó út. "

Klippa þarf reynivið vel til ef hann á að vaxa upp einstofna

Reyniviður var lengi algengasta skrúðgarðstré hérlendis og það er mjög vinsælt enn. Það er harðgert en ekki er þó óvenjulegt að árssprotar kali framan af.

Þar sem þessi tré vilja gjarnan vaxa margstofna verður árlega að klippa þau vandlega, ef þeim er ætlað að verða einstofna.

Sumir láta reynitré vaxa sem runna, verða fjölstofna tré, en að því ætti að fróðra manna mati að gera sem allra minnst og ekki í litlum görðum. Reynitré eru fallegust í ræktun t.d. í röðum, í trjágöngum eða í kringlóttum grasflötum, þar sem jarðarbeðin eru alskreytt fögrum sumarblómum, það myndar fallegt litasamræmi þegar reyniberin taka að roðna. Þrestir sækja mikið í þá garða þar sem reyniber þroskast.

Reynivið mun best að fjölga með fræsáningu og tréð þarf djúpan jarðveg.

Reyniviður var vinsæl lækningajurt

Reynir er ekki aðeins fallegt garðatré - hann vex villtur innan um birki í urðum og gljúfrum um land allt og hefur lengi verið vinsæl lækningajurt.

Björn L. Jónsson læknir segir um reynivið að ber hans séu barkandi, þau stilli blóðlát, niðurgang, verki þvagaukandi og séu góð við nýrnaveiki og þvagteppu.

"Af berjamauki skal taka 2 tsk. í senn. af seyðinu má drekka 1 bolla þrisvar á dag. Við blöðrusteini er gott að borða þurrkuð berin kvölds og morgna," segir Björn í bók sinni Íslenskar lækninga- og drykkjarjurtir.

Reyniviður gengur líka undir nafninu ilmreynir en latneska nafnið er Sorbus sucuparía. Þetta er lauftré af rósaætt og vex um alla Evrópu, Asíu og Norður -Afríku. Jurtin er með stakfjöðruð blöð sem hafa 11 til 15 smáblöð, hvít og ilmandi blóm í sveiplaga skúfum og rautt aldin sem líkist beri. Reynitré eru harðgerð og hraðvaxta og verða allt að tólf metrar að hæð og yfir 100 ára en venjulega verða þau þó ekki eldri en 60 til 70 ára.

Reyniber voru vinsæl lækningajurt gegn gigt áður fyrr og sérstök sykurtegund (sorbiose) var og er kannski enn unnin úr þeim og gefin sykursýkisjúklingum í stað venjulegs sykurs.

Reyniviður rausnartré

Í grein Ingólfs Davíðssonar sem birtist í Garðyrkjuritinu kallar hann reynivið rausnartré. Í þessari grein er m.a. stuðst við þann fróðleik sem grein Ingólfs geymir. Þar segir meðal annars að þó reynir sé fremur harðgert tré sæki nokkuð á hann sveppur er veldur reyniátu, einkum þegar hart er í ári og á næðingssömum stöðum nálægt sjó. Þá vill trjágreinin drepast eða stofninn ofan við átusárið. Helsta varnarráðið er að skera skemmdina burt með beittum hnífi eða bursta sárið hreint með stálbursta og bera að því búnu olíumálningu eða sérstök lyf í sárin, þó ekki út á börkinn.

Sennilegt er talið að reyniviður hafi verið eitthvað ræktaður á fyrri öldum. Eggert Ólafsson getur um reynivið í Skálholti en hann var dauður þegar þeir Bjarni Pálsson voru þar á ferð um 1755. Tré voru ræktuð á Möðruvöllum í Eyjafirði um svipað leyti og einnig sáu þeir Eggert og Bjarni fögur reynitré í Hestfirði og töldu heppilegt að velja þaðan reynihríslur til gróðursetningar.

Reynir myndar ekki skóg úti í náttúrunni heldur vex á stangli innan um birkikjarr. Sérlega mikið hefur löngum verið um hann á Vestfjörðum en hann er þó til í öllum landsfjórðungum, einkum í dölum og við fjarðarbotna.

Reynir vex ört og þarf gott pláss því hann verður stórvaxinn.

Reyniviður er harður og fúnar fljótt

Áður var reynitrjám oft plantað nálægt húsum, svo uxu trén og skyggja nú sum óþægilega mikið á glugga. Í görðum eru ræktaðir bæði íslenskur reynir og einnig erlendar tegundir, svo sem silfurreynir, gráreynir, úlfareynir og seljureynir. Hinir tveir fyrrnefndu eru mjög algengir í íslenskum görðum.

Lítil not eru af reyni til annars en skrauts. viður hans er harður, en fúnar fljótt og heldur illa nöglum. hann er háll og vill vinda sig t.d. í fjölum. Hann er heldur ekki talinn heppilegur sem arinviður, til þess er hann of þefmikill við bruna.

Reyniberin þykja allgóð í sultu en fuglar eta þó mest af þeim, þeir melta aldinkjötið en fræin gagn niður ómelt og dreifast því víða, jafnvel upp í kletta og urðir.

Sagnir um gömul reynitré

Á höfuðborgarsvæðinu eru nokkrar götur kenndar við reynivið, elst þeirra er sennilega Reynimelur. Ekki er þó neitt sérstaklega mikið meira um reynivið í görðum þeirrar götu en í öðrum görðum, né hann hærri. Í íslenskri garðyrkjubók frá 1883 sem Schierbeck skrifaði getur hann um reynivið í Reykjavík en bætir við að reyniviður hafi snemma verið ræktaður á Akureyri og þar voru í þann tíð stærstu reynitrén. Elsta tréð var framan við hús Hafsteins nokkurs kaupmanns og var það þá um 100 ára og því varla lengur til.

Í grein Ingólfs Davíðssonar í Garðyrkjuritinu greinir hann frá þremur stórum reyniviðartrjám í fjörunni á Akureyri 1920 - 1929. Þau voru gildvaxnari en önnur Akureyrartré enda þá orðin gömul og lifðu ekki lengi eftir það. Elsta tréð mun danskur maður hafa gróðursett 1797 við Laxdalshús á Akureyri. Aðalstofn þess féll 1930 en það endurnýjaði sig og myndaði háan reynirunna. Þess má geta að trjárækt byrjaði snemma á Akureyri og í formála fyrir ferðabók Olaviusar segir að árið 1779 hafi vaxið tvö perutré á Akureyri og annað borið fullþroska ávöxt.

Víða þótti til heilla að rækta reyni við hús sitt eða bæ og kannski er reyniviður enn vinsæll í görðum vegna þessa. Eitt helsta tré Reykjavíkur er silfurreynir sem Schierbeck landlæknir gróðursetti í gamla kirkjugarðinum við Aðalstræti um 1885.