F.v.: Guðmundur H. Garðarsson, fyrrverandi alþingismaður, Matthías Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, Geir H. Haarde utanríkisráðherra og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.
F.v.: Guðmundur H. Garðarsson, fyrrverandi alþingismaður, Matthías Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, Geir H. Haarde utanríkisráðherra og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. — Morgunblaið/RAX
Hafréttarstofnun Íslands efndi til málstofu um þorskastríðin þrjú í Hátíðarsal Háskóla Íslands í gær í tilefni af því að 30 ár eru liðin frá lokum landhelgismálsins. Þórir Júlíusson sat málþingið og hlýddi á fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um sögu þessara átaka.
Geir H. Haarde utanríkisráðherra sagði í málstofu Hafréttarstofnunar Íslands um þorskastríðin þrjú í gær að barátta Íslendinga fyrir yfirráðum yfir auðlindum hafsins kringum landið héldi áfram og henni lyki í raun aldrei. Sagði Geir að standa þyrfti dyggan vörð um það sem áunnist hefði og takast á við ný og mikilvæg viðfangsefni á sviði hafréttar eins og landgrunnsmálin væru gott dæmi um.

Geir sagði að af Íslands hálfu væri gert tilkall til landgrunns utan 200 sjómílna á þremur svæðum: á Reykjaneshrygg og Hatton Rockall-svæðinu í suðri og í Síldarsmugunni í austri. Aðeins Ísland gerði tilkall til landgrunnsréttinda á Reykjaneshrygg, en á Hatton Rockall-svæðinu hefðu Bretland, Írland og Færeyjar einnig sett fram kröfur um slík réttindi. Í Síldarsmugunni gerði Noregur einnig kröfu til landgrunnsréttinda, bæði út frá meginlandi Noregs og Jan Mayen, svo og Færeyjar.

Fram kom m.a. hjá Geir, að undanfarnar vikur hefðu farið fram óformlegar viðræður milli Íslands, Noregs og Færeyja um hugsanlega skiptingu landgrunnsins í Síldarsmugunni. Þokast hefði í samkomulagsátt og stæðu vonir til þess að unnt yrði að ljúka málinu á næstunni.

Þá hefðu farið fram reglulegar viðræður um Hatton Rockall-svæðið frá því Ísland átti árið 2001 frumkvæði að óformlegum viðræðum allra deiluaðila í Reykjavík. Þar var um að ræða fyrsta fjórhliða fund þeirra aðila sem gera tilkall til landgrunns á þessu svæði og sagði Geir ljóst að staða Íslands í málinu hefði styrkst við þessa þróun mála.

Styrkleikar og veikleikar

Málstofan var haldin í tilefni þess að þrjátíu ár eru liðin frá lokum landhelgismálsins en þar var jafnframt fagnað útgáfu bókarinnar "Þorskastríðin þrjú" eftir Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing við Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Guðni flutti erindi um helstu atriði sögu landhelgismálsins þar sem hann leitaðist m.a. við að svara þeirri spurningu hvernig Íslendingar, þessi smáa þjóð, gátu fengið sínu framgengt gegn stórveldinu Bretlandi.

"Hvað var styrkleiki og hvað veikleiki?" spurði Guðni og tiltók því næst atriði, sem voru Íslendingum hagstæð, til útskýringar á því að við höfðum betur í þorskastríðunum og landhelgismálinu öllu.

"Skuldbindingin var meiri hjá Íslendingum enda vörðuðu þorskastríðin þjóðarhagsmuni en voru aldrei mál málanna í Bretlandi. Þá var löndunarbann Breta og sá efnahagsþrýstingur sem þeir beittu ekki það vopn sem þeir vonuðust eftir. [...] Vígstaðan á miðunum var okkur í hag þegar til lengdar lét enda var ekki hægt að berjast við varðskipin þegar ekki mátti nota vopnin. Varðandi áróðursstríðið nutum við þess að vera fá og smá og vopnlaus. [...] Bretar fengu sífellt að heyra það innan Evrópuráðsins, NATO og víðar að þeir væru að níðast á smáþjóð. Menn hneigðust til þess að hafa samúð með þeim sem var minni máttar."

Það atriði sem Guðni sagði hins vegar mikilvægast var hernaðarmikilvægi landsins.

"Hernaðarmikilvægið verður ekki vanmetið. Ætti ég að velja einn þátt úr þessu öllu sem skiptir mestu máli myndi ég velja hernaðarmikilvægið. Þetta hljómar kannski illa fyrir framtíðina af því að nú skiptum við engu máli - en það verður að hafa það."

"Þetta hékk á bláþræði"

Í erindi sínu fjallaði Guðni m.a. um hörðustu átökin í þorskastríðinu sem áttu sér stað undan Austfjörðum þann 6. maí 1976, þegar freigátan Falmouth sigldi tvívegis á varðskipið Tý með þeim afleiðingum að skipið var nærri sokkið.

Að málþinginu loknu innti blaðamaður Guðna eftir því hvað hefði hugsanlega gerst ef mannfall hefði orðið eða flaggskip Landhelgisgæslunnar sokkið?

"Þá hefði auðvitað fjandinn orðið laus í landi. Gremjan í garð Breta var nóg fyrir en við vorum búnir að slíta stjórnmálasamstarfi við þá. Ráðamenn og aðrir létu í veðri vaka að gæfu Bretar ekki eftir væri næsta skref að gefa til kynna að við myndum segja okkur úr NATO. Við gætum ekki verið í hernaðarbandalagi með þjóð sem beitti okkur ofbeldi. Þung orð féllu án þess að menn létu lífið á miðunum. Hefði það hörmulega slys orðið að menn hefðu látið lífið um borð í varðskipi eða varðskip sokkið hefðu menn auðvitað ekki látið sitja við orðin tóm. Það var auðvitað hættan. Jafnvel hefðu menn verið búnir að koma sér í þá stöðu að þeir yrðu að standa við það og reiðin var líka slík í garð Breta að mönnum hefði þótt skiljanlegt að hóta úrsögn og standa við það ef með þyrfti. Þetta var auðvitað það sem til dæmis ráðamenn á Morgunblaðinu óttuðust og reyndu að vinna gegn - þeir vildu að menn hótuðu ekki of miklu en létu samt Breta finna alla tíð að þeir væru að tefla á tæpasta vað og skyldu gera sér ljóst að linnti þeirra ofbeldi ekki væru þessir hernaðarhagsmunir allir í uppnámi. Þetta hékk á bláþræði þarna og nánast guðsmildi að ekki fór verr."

Samviskuspurningar

Í lok erindisins varpaði Guðni fram nokkrum spurningum sem hann kallaði samviskuspurningar. Fyrst leitaðist hann við að svara því hvort þorskastríðin hefðu verið óumflýjanleg.

"Útfærsla fiskveiðilögsögunnar eftir síðari heimsstyrjöld var bráðnauðsynleg. Stemma þurfti stigu við stóraukinni sókn í fiskistofnana og hagsæld á Íslandi hlaut að byggjast á því að Íslendingar fengju bróðurpartinn af aflanum í sinn hlut og helst hann allan. Þetta þýðir hins vegar ekki að ómögulegt hafi verið að afstýra öllum átökum. Ögn meiri friðarvilji hefði ekki leitt til þess að langtímamarkmiðið - full yfirráð yfir hafinu umhverfis Ísland - hefði farið forgörðum. Dálítil biðlund við útfærslu eða að bjóða rýmri veiðiheimildir fyrir útlendinga hverju sinni hefðu ekki eytt auðlindinni. Auðvitað vantaði ekki aðeins upp á sáttfýsina hér á landi. Bretar geta sjálfum sér um kennt líka með þrjóskunni en það voru þeir sem tóku þá misvitru ákvörðun hverju sinni að senda herskip á Íslandsmið. En í hverju þorskastríði má sjá tímamót þar sem íslenskum stjórnvöldum buðust þokkalegar málamiðlanir og það hefði verið "lafhægt að semja" eins og einn diplómat komst að orði. Þannig að þrjóskan og óbilgirnin var stundum of mikil."

Aðspurður sagði Guðni að Íslendingar hefðu í kjölfar þorskastríðanna fengið það orð á sig að vera einstaklega þrjóskir og erfiðir í samningum og nýta sér til hins ýtrasta þá góðu stöðu sem þeir voru í milli austurs og vesturs.

"Þannig gátum við alltaf látið í veðri vaka að fengjum við ekki okkar framgengt þá væru þessir hernaðarhagsmunir í húfi. Við gátum því notað þetta NATO-vopn til þess að ná okkar fram á öðrum sviðum. [...] Eins og einn Bretinn lýsti samningatækni Íslendinga, að hún fælist í því að setja fram kröfu og auka svo við hana. Því Íslendingar vissu að þeir hefðu þetta stóra tromp á hendi - hernaðarmikilvægið. Það var einhver embættismaður í höfuðstöðvum NATO sem sagði fyrir nokkrum árum að Ísland væri núna úti í ystu myrkrum og blessunarlega þurfum við ekki að eiga við Breta í þorskastríðum í þeirri stöðu."

Var rétturinn okkar megin?

Guðni sagði að það mætti líta svo á að rétturinn hefði ætíð verið okkar megin þegar litið væri til baka.

"Stundum má hins vegar segja að við höfum verið fulldjarfir. Aðalmálið hér er að árið 1961 sömdum við um það að skjóta ágreiningi okkar til Alþjóðadómstólsins í Haag en stóðum ekki við það tíu árum síðar. Hvað sem um það má segja er ljóst að við getum aldrei varið hvort tveggja að hafa gert samningana 1961 og að hafa ekki staðið við þá áratug síðar."

Guðni tók fram að ekki hefði alltaf verið þjóðareining í þorskastríðunum þrátt fyrir að sagan hefði yfirleitt verið sögð á þann veg.

"Stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar tókust á, embættismenn gagnrýndu ráðherra, varðskipsmenn kvörtuðu yfir linkind í landi og sumir sjómenn okkar skirrðust ekki við að fremja landhelgisbrot í miðri baráttunni við Bretann. Hitt stendur vitaskuld enn að þjóðin var sameinuð í andúð á andstæðingnum þegar herskipin komu á vettvang og hún var sameinuð um það lokamarkmið að öðlast ein yfirráð yfir auðlindunum í hafinu umhverfis landið. Þessi ímynd af sameinaðri þjóð í einu og öllu er hins vegar goðsögn og við eigum að sleppa því að halda í hana."

Þorskastríðin eru sagnfræði

Að lokum fjallaði Guðni um þá spurningu hvort þorskastríðunum væri lokið.

"Hafi þorskastríðin snúist um verndun auðlindarinnar má benda á að ráðamenn voru ögn fúsari til þess að hlýða á varnaðarorð fiskifræðinga þegar við Breta var að eiga en minna var hlustað á fiskifræðinga þegar við sátum einir að auðlindinni - að minnsta kosti fyrst um sinn. [...] Það tók því tíma að átta sig á því að fullur sigur var ekki í höfn þó að útlendingarnir hyrfu af miðunum. Hafi þorskastríðin snúist um sjálfstæði þjóðarinnar má segja að þeim sé ekki lokið því sjálfstæðisbaráttu ljúki í sjálfu sér aldrei. Þeir Íslendingar sem hafa barist gegn aðild að Evrópusambandinu hafa haldið á lofti þeim rökum að ekki megi hleypa erlendum fiskiskipum í höfn á nýjaleik. Til hvers hafi þá verið barist í öll þessi ár? Að síðustu má nálgast spurninguna um lok þorskastríðanna í viðmóti okkar til þeirra. [...] Saga þorskastríðanna þarf á svipaðri endurskoðun að halda og sjálfstæðisbaráttan við Dani. Sá tími er liðinn að við þurfum að líta á þau með sama hætti og við gerðum í sjálfstæðisbaráttunni. Meira að segja Landhelgisgæslan viðurkennir þetta en einkunnarorð Landhelgisgæslunnar voru lengi "Föðurland vort hálft er hafið". Gæslan hefur nú sagt skilið við þessi orð enda vísuðu þau á nýrómantískan hátt til sjálfstæðisbaráttu ungrar þjóðar. Þetta er til marks um það að þorskastríðin og landhelgisbaráttan eru ekki alveg jafn nærri okkur og fyrr á tímun. Þorskastríðin eru því orðin sagnfræði."

thorirj@mbl.is