3. júní 2006 | Innlendar fréttir | 337 orð | 1 mynd

Sjálfstæðismenn og Samfylking í samstarf

Flokkarnir skipta með sér bæjarstjórastólnum á kjörtímabilinu

Kristján Júlíusson (t.v.) og Hermann Jón Tómasson tilkynntu um samstarf flokkanna tveggja á Ráðhústorginu á Akureyri í gær.
Kristján Júlíusson (t.v.) og Hermann Jón Tómasson tilkynntu um samstarf flokkanna tveggja á Ráðhústorginu á Akureyri í gær.
ÞEIR Kristján Þór Júlíusson, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, og Hermann Jón Tómasson, oddviti Samfylkingarinnar, tilkynntu á Ráðhústorginu í gær að þeir hefðu náð samkomulagi um myndun meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar næstu fjögur ár.
ÞEIR Kristján Þór Júlíusson, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, og Hermann Jón Tómasson, oddviti Samfylkingarinnar, tilkynntu á Ráðhústorginu í gær að þeir hefðu náð samkomulagi um myndun meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar næstu fjögur ár.

Í samkomulaginu felst að Sjálfstæðisflokkur ræður bæjarstjórastólnum fyrstu 3 árin og er gert ráð fyrir því að Kristján Þór verði þá bæjarstjóri, að minnsta kosti fyrst um sinn. Hermann Jón verður formaður bæjarráðs á sama tíma en tekur væntanlega við embætti bæjarstjóra eftir þrjú ár. Að öðru leyti er gert ráð fyrir jafnri skiptingu fulltrúa flokkanna í nefndum og ráðum.

"Ég held að við séum að gera það sem er rétt fyrir bæinn og mynda þann meirihluta sem er líklegastur til að koma málum fram," sagði Hermann Jón við Fréttavef Morgunblaðsins.

Kristján áfram bæjarstjóri

Kristján Þór sagðist einnig ánægður með niðurstöðuna. Þótt flokkarnir hefðu verið í andstæðum fylkingum á síðasta kjörtímabili væru afar fá mál í sveitarstjórnarmálum, sem grundvallarágreiningur væri um á milli flokka.

Kristján sagðist gera ráð fyrir að málefnasamningur um meirihlutasamstarfið liggi fyrir í næstu viku og verði þá lagður fyrir fulltrúaráð sjálfstæðismanna á Akureyri.

Aðspurður sagði Kristján Þór ekkert annað vera í spilunum en að hann yrði áfram bæjarstjóri næstu þrjú árin. Hins vegar hefði hann boðið sig fram sem bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins allt kjörtímabilið en það hefði ekki gengið eftir og eftir væri að taka endanlegar ákvarðanir um hvernig því yrði háttað.

Eftir að úrslit bæjarstjórnarkosninganna á laugardag lágu fyrir hófust viðræður Samfylkingar, Lista fólksins og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um meirihluta en þeim var slitið eftir skamman tíma og viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hófust á þriðjudagskvöld. Hermann Jón sagðist aðspurður hafa metið það svo það hefði orðið mjög erfitt koma á samstarfi flokkanna þriggja í ljósi þess að samanlagt hefðu þeir aðeins haft eins atkvæðis meirihluta í bæjarstjórninni. Samfylking og Sjálfstæðisflokkur eru hins vegar samtals með 7 bæjarfulltrúa af 11.

"Þótt enginn skýr málefnaágreiningur hafi verið uppi í viðræðunum er vissulega munur á t.d. afstöðu vinstri grænna og okkar þegar kemur að stóriðjumálum og fleiri málum," sagði Hermann Jón.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.