Jón Baldvin Hannibalsson
Jón Baldvin Hannibalsson
Það er gaman að fylgjast með þeirri sérkennilegu uppákomu, þegar Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, tekur upp hanskann fyrir Lúðvík Jósepsson og býsnast yfir því að í blaði, sem dreift var með Morgunblaðinu hinn 31. maí sl.
Það er gaman að fylgjast með þeirri sérkennilegu uppákomu, þegar Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, tekur upp hanskann fyrir Lúðvík Jósepsson og býsnast yfir því að í blaði, sem dreift var með Morgunblaðinu hinn 31. maí sl. og fjallaði um 30 ára afmæli Óslóarsamkomulagsins, hafi Lúðvík Jósepsson ekki komið við sögu.

Gengur fyrrverandi utanríkisráðherra svo langt að telja, að eitthvert "sögufölsunarfélag" hafi verið að verki.

Umrætt blað var gefið út af áhugamönnum í tilefni þess að 30 ár voru liðin hinn 1. júní sl. frá því, að undirritað var í Ósló samkomulag á milli Íslendinga og Breta um 200 mílna deiluna.

Af hálfu Breta undirritaði ein helzta fyrirmynd Jóns Baldvins í stjórnmálum - Anthony Crosland - samninginn.

Má ekki minnast á þennan samning án þess að rekja alla sögu landhelgismála okkar frá upphafi?

Lúðvík Jósepsson kom ekkert nálægt 200 mílna deilunni. Hann var meira að segja önugur yfir hugmyndum um 200 mílurnar, þegar þær komu fram í upphafi.

Hlutur Lúðvíks í útfærslu fiskveiðilögsögu okkar, sem var mikill og merkilegur, verður engu minni þótt sagan sé ekki fölsuð á þennan veg.

Að gera kröfu af því tagi, sem Jón Baldvin gerir, er sambærilegt við það að ekki megi minnast á EES-samninginn, sem er mesta afrek hans í ráðherraembætti ásamt viðurkenningu á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, án þess að rekja sögu allra samskipta okkar við Evrópuríkin, stofnun EFTA o.s.frv.!

Má t.d. ekki minnast á hlut Jóns Baldvins í gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið á einhverjum afmælisdegi þess samkomulags án þess að rekja alla þá sögu?