— Ljósmynd: ÞÖK
Guðmundur Eggert Stephensen vakti mikla athygli þegar hann vann meistaraflokk karla í borðtennis árið 1994, þá 11 ára gamall. Titlarnir hafa hlaðist upp síðan þá og eru nú orðnir tæplega 90 talsins.

Guðmundur Eggert Stephensen vakti mikla athygli þegar hann vann meistaraflokk karla í borðtennis árið 1994, þá 11 ára gamall. Titlarnir hafa hlaðist upp síðan þá og eru nú orðnir tæplega 90 talsins. Hann er núverandi Norðurlandameistari í borðtennis, fyrrverandi Noregsmeistari tvö ár í röð og margfaldur Íslandsmeistari, en þeim titli hefur hann haldið frá því hann náði honum fyrst fyrir 13 árum. Um þessar mundir býr hann í Malmö í Svíþjóð ásamt unnustu sinni, Nönnu Kolbrúnu Óskarsdóttur, en þau eignuðust dóttur, Viktoríu Sólveigu, í lok febrúar og ætla að taka lífinu með ró hér heima á Íslandi í sumar.

Guðmundur byrjaði að spila borðtennis með afa sínum og pabba fjögurra ára gamall, en báðir voru með borð í kjallaranum heima. Pétur, faðir Guðmundar, er gamall borðtenniskappi og einn af upphafsmönnum íþróttarinnar hér á landi. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 2002, hélt Guðmundur utan til Noregs þar sem hann spilaði í tvö ár. Hann tapaði ekki leik á þessu tímabili og varð Noregsmeistari bæði árin. Því næst lá leiðin til Svíþjóðar þar sem hann hefur leikið með Malmö FF í sænsku meistaradeildinni síðastliðin tvö ár. Bæði árin hefur liðið hlotið silfrið í sænsku deildinni, en nágrannar þeirra í Eslövs hafa hrósað sigri.

Guðmundur hefur tekið ákvörðun um að flytja sig yfir til Eslövs á næstu leiktíð, þar sem hann kemur til með að spila í meistaradeild Evrópu ásamt þeirri sænsku. Að því loknu segir Guðmundur framtíðina óráðna. Hann stefnir á háskólanám í framtíðinni en er ekki tilbúinn að leggja spaðann á hilluna strax. Hann hefur leikið yfir 190 A-landsleiki auk fjölda unglingalandsleikja, sem komið er.

| helga@mbl.is