Ásta R. Jóhannesdóttir
Ásta R. Jóhannesdóttir
Ásta R. Jóhannesdóttir fjallar um baráttu gegn mansali og vændi: "Þetta nútímaþrælahald er eitt alvarlegasta brot á mannréttindum frá því að þrælasala viðgekkst fyrr á öldum."

FÓTBOLTAVEISLA gengur yfir heimsbyggðina, send beint frá Þýskalandi. Mjög margir njóta heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu og er það vel. En því miður eru allt of margir sem líða á meðan keppnin fer fram. Þeir sem gerst þekkja ástandið telja að um 100 þúsund konur séu seldar í kynlífsþjónustu í vændinu sem grasserar kringum keppnina. Þetta eru óhugnanlegar tölur.

Jafnaðarkonur mótmæla vændi

Kvennasamtök jafnaðarflokkanna á Norðurlöndum hafa á ýmsan hátt vakið athygli á því mikla vændi sem viðgengst á meðan HM stendur yfir og hvatt til að allir taki höndum saman gegn því. Sænsku konurnar létu útbúa fótboltatreyjur í litum sænska landsliðsins í fótbolta með áletruninni Fótbolti: Já - Vændi: Nei. Þegar þær kynntu átakið í Stokkhólmi í vetur sögðu þær að milli 20 og 30 þúsund konur yrðu fluttar sérstaklega til Þýskalands til að stunda vændi á meðan HM stendur yfir þar. Margar þeirra eru fórnarlömb mansals og koma frá gömlu austantjaldsríkjunum, en þetta nútímaþrælahald er eitt alvarlegasta brot á mannréttindum frá því að þrælasala viðgekkst fyrr á öldum.

Dönsku jafnaðarkonurnar létu útbúa kringlótt póstkort eins og fótbolta sem þær senda sem víðast og hvetja alla til að mótmæla mansali og vændinu á HM með því að skrá nafn sitt undir mótmæli á netinu. Kvennasamtök allra jafnaðarflokkanna í Evrópu hófu sambærilega baráttu gegn vændi og mansali á HM og beittu sér sérstaklega á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars í Evrópuþinginu. Síðan voru tugþúsundir undirskrifta með mótmælum gegn ólöglegu mansali og vændi afhentar forráðamönnum Evrópusambandsins og HM í upphafi keppninnar í Þýskalandi. Samfylkingarkonur taka undir með skoðanasystrum sínum og fordæma þetta þrælahald.

Víðtækari en verslun með vopn og eiturlyf

Sameinuðu þjóðirnar telja að 800.000 manns verði fórnarlömb mansals á ári hverju, - aðallega konur og börn. Þar af eru allt að hálfri milljón í Evrópu og því miður fyrirfinnst það einnig á Norðurlöndum. Margir eru lokkaðir til Vesturlanda með loforðum um betra líf. Mansal er afleiðing fátæktar og þess vegna er baráttan gegn mansali einnig barátta gegn fátækt. Þetta er sú glæpastarfsemi sem eykst hvað hraðast og er nú orðin víðtækari en verslun með eiturlyf og vopn. Minni líkur eru á að menn náist og sæti refsingu fyrir slíkt athæfi og fjárhagslegur ávinningur er mikill. Þessi glæpastarfsemi viðgengst þvert á landamæri og þess vegna verða allar þjóðir að leggja sitt af mörkum til að stöðva þessa glæpi. Í ljósi reynslunnar verðum við Íslendingar að tryggja að Ísland verði ekki notað í slíkri glæpastarfsemi eða að hún viðgangist hér á landi og beita okkur á alþjóðavettvangi til að stöðva hana.

Njótum fótboltaleikjanna á HM - en stöðvum vændi og mansal.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.