Hreggviður Jónsson
Hreggviður Jónsson
Hreggviður Jónsson gerir athugasemdir við umfjöllun Guðna um tímabilið '73-'76: "Hópur 50 manna, Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn skópu 200 mílurnar og gerðu yfirráð Íslands yfir 200 mílunum að veruleika."
Í SÉRKENNILEGRI grein Guðna Th. Jóhannessonar hér í blaðinu 19. júní sl., er fjallað um 200 mílurnar, auglýsingabækling styrktan af helstu fjármálastofnunum landsins sem hann skrifaði í og umfjöllun ,,núverandi og fyrrverandi stjórnmálamanna" eins og hann segir um málið, eins og aðrir en hann viti ekkert um málið. Þar sem hann hefur nú stigið fram á sjónarsviðið á opinberum vettvangi verður ekki komist hjá því að fjalla um skrif hans í auglýsingabæklinginn. Á tíma Sovétríkjanna var algengt að taka myndir af forystu flokksins á múrum Kremlar. Síðan kom það fyrir að einhver sem þar var á mynd félli í ónáð. Málið var þá afgreitt með einföldum hætti. Viðkomandi maður var klippur úr myndinni og hún skeytt saman að nýju, sovéska sagnfræðin í öruggum höndum flokksins. Sagnfræðingurinn segir í umræddri grein: ,,Sjálfur skrifaði ég með glöðu geði stutt yfirlit um sögu landhelgismálsins í kálfinn umdeilda; annars vegar vegna þess að þar gafst frábært tækifæri til að skrifa fyrir tugþúsundir lesenda og hins vegar vegna þess að mér finnst það nánast starfsskylda sagnfræðinga að svara kalli um stutt skrif fyrir almenning á sérsviði sínu."

Í þessari grein ætla ég aðeins að taka fyrir umfjöllun Guðna um tímabilið 1973 til 1976, sem verður í skrifum hans algjört bull. Ekki er einu orði minnst á tilurð 200 mílnanna og framgang þeirra. Í þessu samhengi, er sagnfræðingnum bent á grein Jónínu Michaelsdóttur í áðurnefndum bækling, en hún segir þar (um árið 1973): ,,...í júlímánuði skoraði hópur fimmtíu Íslendinga á alþingi og ríkisstjórn að lýsa því yfir nú þegar að Íslendingar myndu krefjast 200 mílna fiskveiðilögsögu á hafréttarráðstefnunni. Í þessum hópi voru margir þjóðkunnir forystumenn og sérfræðingar á svið sjávarútvegs og landhelgisgæslu og hafði þetta framtak umtalsverð áhrif .", feitletrun mín.

Einnig bendi ég sagnfræðingnum á að lesa grein mína hér í blaðinu þann 13. júní sl. Hér verður ekki heldur komist hjá því að benda sagnfræðingum á þátt Morgunblaðsins í þessu máli, sem hefði áreiðanlega ekki náð eyrum þjóðarinnar án þess. Þar voru í fararbroddi ritstjórar blaðsins, Styrmir Gunnarsson, Matthías Johannessen. Mér er enn þakklæti í huga til þessara tveggja manna fyrir frábær störf í þessu máli. Glæsileg blaðamennska af hæsta gæðaflokki þar á bæ, t.d. ætti sagnfræðingurinn að lesa blaðauka Morgunblaðsins á þeim degi, sem útfærslan í 200 mílur var 15. október 1975, þar er m.a. fjallað um 50 menninganna á blaðsíðum 18-19. Ég vil í þessu sambandi rifja upp viðtal við Magnús Sigurjónsson félaga minn og vin í blaðinu á 10 ára afmæli útfærslunnar 15. október 1985, en þar segir hann, eftir að segja frá fundi ríkisstjórnarinnar skömmu eftir áskorun 50-menninganna: ,,En á fundi ríkisstjórnarinnar fékk áskorunin ekki sama hljómgrunn og stjórnarblöðin reyndu að gera lítið úr henni. Þjóðviljinn reis upp á afturfæturna og úr varð hörð barátta og óvægin. Mér er sérstaklega minnisstætt hversu rætin skrif Svavars Gestssonar, þáverandi ritstjóra blaðsins, voru, en hann hafði forystu um skrifin gegn 200 mílna stefnunni. Það var reynt að eyðileggja æru okkar sem stóðum að áskoruninni, enda var það eina ráðið til að hnekkja málinu. Úr þessu varð mikill slagur og ég á ritstjórum Morgunblaðsins þökk að gjalda fyrir það hversu drengileg þeir studdu okkur í þessari orrahríð." Áður hafði Magnús skrifaði bréf til ritstjóra Morgunblaðsins 26. júlí 1978, sem m.a. sagði: ,,Í dag eru liðin fimm ár síðan áskorunin um 200 mílna fiskveiðilögsögu fyrir Ísland kom fyrst fram. Þið hafið...frá fyrsta degi verið málsvarar þeirra stefnu sem þá var mörkuð og Morgunblaðið frá upphafi beitt sér í orrustunni, en hún var lengi háð af fullum fjandskap gegn málinu. Í upphafi var við ramman reip að draga, en eins og laxinn brýst gegn straumnum og stiklar flúðir létuð þið aldrei deigan síga, og nú þegar litið er yfir sviðið má sjá að heill Íslands og hamingja hafa sigrað. Fyrir fáum dögum komu saman nokkrir ,,fimmtíumenninganna". Þar var mér falið að flytja ykkur hamingjuóskir og þakkir fyrir drengilegan máltilbúnað og baráttuhug sem aldrei brást."

Hópur 50 manna, Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn skópu 200 mílurnar og gerðu yfirráð Íslands yfir 200 mílunum að veruleika. Sagnfræðingur, sem sleppir þessum þætti landhelgismálsins er í vondum málum, sem fræðimaður. Nægt er til af skriflegu efni um þetta tímabil.

Ég spyr að lokum aftur eins og í fyrri greininni, værum við enn með 50 mílurnar, ef við 50 menn hefðum ekki bundist samtökum um 200 mílna áskorunina? Svar, já.

Höfundur er fyrrv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins. hcjons@gmail.com