Soffía Jónsdóttir fæddist á Blöndudalshólum í Húnavatnssýslu 22. janúar 1910. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli 24. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jón Kristvinsson bóndi og Guðný Anna Jónsdóttir húsmóðir. Þau fluttu til Skagafjarðar 1913, og ólst Soffía þar upp. Bjuggu þau lengst af í Vatnsleysu í Skagafirði. Soffía var næstelst átta systkina, sem öll eru látin, nema tveir bræður, þeir Jens, f. 1921, og Róar, f. 1923.

Soffía giftist Jóni Gunnlaugssyni frá Bakka í Skagafirði. Þau skildu. Eignuðust þau tvo syni, Friðbjörn G. Jónsson, f. 21. mars 1936, og Hrein Jónsson, f. 8. september 1939. Friðbjörn er kvæntur Sólveigu Hannesdóttur og eiga þau fjögur börn. Þau eru: 1) Guðlaug Rún Margeirsdóttir, búsett í Portúgal, maður hennar er Augusto Neto, og eiga þau tvö börn, Vilhelm Þór, f. 1993, og Jóhönnu Dís, f. 1997. 2) Hanna Dís Margeirsdóttir, búsett í Ósló, maður hennar er Ola Norheim, og eiga þau eina dóttur, Selmu Ósk, f. 2004. 3) Soffía Huld Friðbjarnardóttir, búsett í Garðabæ, hennar maður er Friðbert Friðbertsson, og eiga þau eina dóttur, Sólveigu Önnu, f. 2004. 4) Hannes Heimir Friðbjarnarson, búsettur í Kópavogi, kona hans er Edda Ýr Þórsdóttir, og eiga þau einn son, Baldvin Þór, f. 2003. Hreinn Jónsson er kvæntur Camillu Jónsdóttur, og eru börn þeirra þrjú. Þau eru: 1) Ásta Júlía, búsett í Reykjavík, maður hennar er Ágúst M. Þórólfsson. 2) Jón Hreinsson, ókvæntur, býr í Reykjavík. 3) Stefán Jóhann Hreinsson, kona hans er Ólöf L. Lárusdóttir, þeirra dóttir er Rakel Sif, f. 2006, búa þau á Akranesi.

Bróðir Friðbjörns og Hreins, samfeðra, er Pétur Jónsson, f. 1945, kvæntur Sigrúnu Skarphéðinsdóttur, og eru þau búsett á Akranesi.

Soffía fór ung að vinna, fyrst almenn sveitastörf. Vann á Hólum í Hjaltadal nokkur ár, þar til hún hóf búskap á Bakka í Skagafirði. Til sjúkrahússins á Sauðárkróki réðst hún til starfa 1944, var matráðskona þar og starfaði þar óslitið til ársins 1977, er hún fluttist til Reykjavíkur. Bjó hún fyrst á Barónsstíg 41 og síðan á Austurbrún 4, þar til hún fluttist á Skjól.

Útför Soffíu verður gerð frá kapellunni í Fossvogi í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Soffía Jónsdóttir tengdamóðir mín lést hinn 24. júní í Skjóli, 96 ára gömul, södd lífdaga og viðbúin endalokum. Leiðir okkar hafa nú legið saman í 39 ár. Öll þessi ár hefur hún verið vakin og sofin yfir velferð minni og barna minna. Það er stórt verkefni að verða gamall og því eldri sem við verðum þeim mun meiri líkur eru á að greinast með erfiðan sjúkdóm, en svo var um Soffíu.

Soffía greindist með sjúkdóm á miðju seinasta ári sem þurfti meðferðar við. Fannst okkur að það hlyti að vera töluvert erfitt fyrir hana og bárum við kvíðboga fyrir lyfjameðferð sem hófst í september sl. Hún sjálf sem ævinlega var mjög skynsöm gekk í þetta verkefni af einstöku æðruleysi og trausti til þeirra starfsmanna sem stóðu að þessari læknis- og hjúkrunarmeðferð, enn fremur miklu trausti til okkar sem vorum við hlið hennar til að stuðla að betri líðan og kröftum þessa endaspretts lífsleiðarinnar.

Hún var bráðgreind, hafði gífurlega gott minni fram á síðustu stundu, og þjálfaði það þó nokkuð. Áhugi hennar á þjóðfélagsmálum var mikill, var sem sagt mjög pólitísk. Henni þótti afar vænt um landið sitt, hafði áhuga á Íslendingum erlendis og var alltaf fegin þegar hún frétti að fólk væri að flytja aftur heim til Íslands. Kærastur var henni Skagafjörðurinn, sveitin hennar þar og stolt var hún af öllu skagfirsku. Bjó hún þar fram til ársins 1977. Eignaðist þar syni sína tvo, þá Friðbjörn Gunnlaug Jónsson, f. 1936, og Hrein Jónsson, f. 1939, með þáverandi manni sínum Jóni Gunnlaugssyni, bifreiðarstjóra, sem bjó lengst af á Akranesi. Þau skildu, og eiga þeir einn bróður samfeðra, Pétur Jónsson, f. 1945, sem búsettur er á Akranesi.

Soffía var næstelst stórs systkinahóps. Varð hún snemma leiðtogi systkinahópsins, frá á fæti og úrræðagóð og afar góð skepnum. Þessir leiðtogahæfileikar komu henni síðan til góða þegar stýra þurfti eldhúsi sjúkrahússins á Sauðárkróki, en það starf tók hún að sér l944. Hún varð matráðskona á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki, fyrst í gamla spítalanum sem kallaður er. Þar voru aðstæður bágbornar. Ekki var matarlyfta í húsinu og flytja þurfti allt á milli hæða bæði sjúklinga og gögn. Hún er áfram ráðin matráðskona að sjúkrahúsi Skagafjarðar, og tekst á við þær gífurlegu breytingar á aðstæðum við flutning í nýja og góða byggingu. Nýttust þá leiðtogahæfileikar hennar og útsjónarsemi við gjörbreyttar aðstæður og meiri mannaforráð. Hélst henni alltaf vel á starfsfólki.

Undanfarin þrjú ár voru henni erfið, þó mest það seinasta, en hún var lánsöm að dvelja á hjúkrunarheimilinu Skjóli, á 5. hæð þess heimilis, var þar út af fyrir sig. Þar er geysilega gott starfsfólk sem sýndi bæði henni og okkur mikinn mannkærleika. Munum við aldrei gleyma framkomu starfsfólks þessarar deildar, og gott er að eiga hlýjar minningar um þann tíma, það er mikils virði.

Soffía bar sig vel, og var þess vel gætt að henni liði ekki illa, en oft var líðan verri en hún gaf í skyn, en miðaði samt sína líðan við aðstæður. Sjónarmið hennar virtist vera að kvarta ekki um of. Bar hún sinn sjúkdóm með æðruleysi. Milli lyfjameðferða var hún við góða færni, og hélt hún heimili fyrir sig þar til fyrir rúmu ári. Hún hafði gífurlegan viljastyrk og fór sínar eigin leiðir í flestu. Hafði hún ung þurft að takast á við ábyrgð sem barn á stóru heimili, jafnvel of mikla of snemma, síðar að vera mjög virkur þjóðfélagsþegn. Þessi mikla ábyrgðartilfinning fylgdi henni allan spölinn.

Eftir að á dvalarheimili kom, myndaðist tími til að hugsa inn á við, þessi tími var henni kærkominn að vissu leyti, og fyrir okkur einnig við enda lífs hennar. Hún minntist ævi sinnar, hugsaði um gamlan sársauka, talaði um hann, vinnuna sem hún hafði stundað, bæði frá því hún var mjög ung og svo aftur síðar: Að fylgjast með þessu auðvelda uppgjöri hennar var ekki erfitt, þar sem hún fór svo sársaukalaust í gegnum það. Soffía var létt í skapi og talaði um það skemmtilega sem gott og gaman var að minnast. Sólina í heiðinni að Vatnsleysu æskuheimili sínu, sumarblóm í bala á hlaðinu heima. Góða hestinn sinn Grána og kvöldin í baðstofunni þegar móðir hennar spann, faðir hennar að aðstoða móður hennar með því að stíga rokkinn, bæði sungu þau fyrir heimilisfólkið. Jafnvel sauðskinnsskórnir voru þeir bestu skór sem hún hafði komið í. Og gaman var að snúa heyinu í flekkjunum á Vatnsleysu í sól og þurrki, á Hólum hafði hún dansað vikivaka sem ung stúlka og kom þá glampi í augu. Seinustu vikurnar þótti henni best að fá góðar fréttir frá smáfólkinu sínu, því alltaf var að bætast í, það létti.

Okkar samband einkenndist af ábyrgð og skyldu hvorrar til annarrar, ég alin upp á malbiki, skildi stundum alls ekki líf baðstofukynslóðarinnar sem nú er að hverfa. Hún var öllum mínum börnum jafngóð, og mætti þeim á þeirra forsendum, hverju og einu. Ég þakka henni fyrir það. Ég þakka henni ennfremur alla vinnuna sem hún lagði til heimilis míns og barna minna svo ég gæti gengið til þeirrar vinnu sem var mér hugleikin á áttunda og níunda áratugnum, þegar konur voru að brjótast fram, það voru konur sem hjálpuðu okkur við það. Hún var svo sannarlega femínisti.

Um trú sína ræddi hún við Boggu systurdóttur sína, hvað tæki við, viðhorf hennar við endalok, þeirri kærleiksþjónustu sinnti Bogga frá Garði í Mývatnssveit. Það var gott að vita af þeirra sambandi og því trausti sem var á milli þeirra. Í lokin hlakkaði hún til að mæta sínum framliðnu ættingjum og ástvinum, hún hafði þekkt marga, fólk laðaðist að henni, og átti marga vini sem farnir voru. Soffía kveið því ekki að fara, hún hafði undirbúið förina, allt var klárt til fararinnar.

Hinn 30. maí var sýnt að komið væri að leiðarenda. Lést hún á Jónsmessunótt hinn 24. júní. Hún hafði alltaf verið sumarbarn og elskaði sólskinið, það sólskin sem skein inn til hennar þann dag.

Ég þakka henni samfylgdina og veit að Guð tekur á móti henni með breiða faðminn sinn. Hvíli hún í friði.

Sólveig Hannesdóttir.

Í dag kveð ég ömmu mína Soffíu Jónsdóttur. Í mínum huga er amma einhver sem passar upp á mann þegar manni finnst maður þurfa þess, amma Soffía var einmitt sú amma.

Þegar ég var yngri var það oft þannig að amma kom með strætó og passaði upp á að ég fengi eitthvað að borða þegar ég kom heim úr skólanum og ég varð meira að segja þeirrar gæfu aðnjótandi að stundum voru þær tvær ömmurnar sem tóku á móti mér.

Amma Soffía var þessi amma sem maður las um í ævintýrum, var alltaf tilbúin að hlusta á mann og gat leyst ótrúlegustu vandamál með einu glasi af kakómalti. Á mínum æskuárum gisti ég oft hjá ömmu á Barónsstíg og var það afar hentugt að eiga tvær ömmur sem bjuggu sín á hvorri hæðinni í sama húsinu, þá var mjög auðvelt að hoppa á milli hæða og sníkja kökur og félagsskap.

Mínar stundir með ömmu gengu oft á tíðum út á spil og oft sátum við heilu kvöldin og spiluðum Ólsen og Svarta Pétur. Þegar ég eltist skildi ég að amma var búin að vera að tapa spilunum viljandi í mörg ár sökum ungs aldurs míns. Þegar ég uppgötvaði það bað ég hana vinsamlegast að hætta því. Þetta fannst henni skemmtilegt og eftir það spiluðum við lengi og vorum í mikilli keppni okkar á milli um hvort okkar myndi vinna fleiri spil. Við skemmtum okkur mikið við spilin og alltaf gátum við hætt jöfn og verðlaunin voru alltaf þau sömu, gott spjall fyrir svefninn með brauðsneið og mjólk, það var ekkert betra.

Amma mín var mín útgáfa af hinni íslensku konu, ef hún er til. Hún kunni alltaf sögur úr sveitinni og mundi heil ósköp af atburðum og uppákomum frá fyrri tíð sem maður hafði gaman af að hlusta á og alltaf gátum við hlegið saman að sögunum.

Í dag kveð ég þig, amma mín, en veit að þér líður vel og þú gengur sátt frá spilaborðinu.

Ég er glaður fyrir þær stundir sem við áttum saman og þær stundir sem þú áttir með langömmudrengnum þínum sem þér fannst svo gaman að fá í heimsókn. Ég veit að þú fylgist með okkur.

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.

Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.

Hún ávallt er vörn þín, þinn skjöldur og hlíf.

Hún er íslenska konan sem ól þig og helgar

sitt líf.

Ó, hún var ambáttin rjóð.

Hún var ástkonan góð.

Hún var amma svo fróð.

Ó, athvarf umrenningsins.

Inntak hjálpræðisins.

Líkn frá kyni til kyns.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold,

þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.

Þú veist hver var skjól þitt þinn skjöldur og

hlíf.

Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér

sitt líf.

En sólin hún hnígur og sólin hún rís.

Og sjá þér við hlið er hamingjudís.

Sem alltaf er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Það var íslenska konan, tákn trúar og vonar.

Sem ann þér og helgar sitt líf.

(Ómar Þ. Ragnarsson)

Hannes Heimir.

Amma Soffía er farin. Nú er hún búin að yfirgefa okkur eftir svo langa samveru hér á jörð. Það er undarlegt hversu mikið þessi frétt kemur alltaf jafn mikið á óvart þó svo að hennar hafi verið von. Amma var búin að lifa svo lengi meðal okkar, eldast með okkur og það var eins og allt okkar líf myndi hún fylgja okkur eftir. En nú þegar hún er horfin af sjónarsviðinu þá er maður minntur á að ekkert varir að eilífu en eftir sitja minningarnar. Og þá lítur maður ósjálfrátt yfir farinn veg og finnur og sér hversu góðar stundir og minningar hún hefur skilið eftir og gefið, það er eins og fyrir manni renni myndband og augu mín sjá litla granna konu með hvítt liðað hár.

Augu mín sjá ömmu í eldhúsinu á Sauðárkróki stjórnandi þar af mikilli röggsemi. Sem stúlku fannst mér þetta stór og sérstæður heimur, þar var einatt líf og fjör. Mér fannst það mikið lán að geta verið hjá ömmu á Sauðárkróki, það jafnaðist fátt á við það, ekki einu sinni utanlandsferð. Og sé að manni leið vel og hversu mikið frelsi hún veitti, það mátti máta kjólana, setja á sig perlufestarnar og það mátti gera grín og oft tók hún þátt í þessu gríni svo mikið að maður gat farið að veltast um af hlátri. Það er gott að eiga ömmu sem hefur svona gott skopskyn.

Augu mín sjá berjaferðir, heimsóknir á sveitabæi, smákökubakstur, laufabrauðsbakstur, kleinubakstur, samverustundir, vináttu og umhyggju konu sem var amma og annað sem meira er um vert, félagi. Og maður sér að frammi fyrir öllu þessu og miklu meira getur maður ekki annað en verið þakklátur fyrir þær stundir sem við áttum saman og það samneyti sem einungis hefur gott gefið og skilur gott eftir.

Við hér í Portúgal, Gústi maðurinn minn sem ætíð dáðist að krafti ömmu, börnin mín Vilhelm og Jóhanna sem voru svo heppin að kynnast langömmu, og ég, Gulla, sitjum hér eftir rík að góðum minningum. Hvíl þú í friði.

Guðlaug Rún Margeirsdóttir.