8. júlí 2006 | Innlendar fréttir | 306 orð | 1 mynd

Sigurjón M. Egilsson ráðinn ritstjóri Blaðsins

Breytingar á útliti og efnistökum verða gerðar á næstunni

Sigurjón M. Egilsson
Sigurjón M. Egilsson
SIGURJÓN M. Egilsson hefur verið ráðinn ritstjóri Blaðsins í stað Ásgeirs Sverrissonar sem lætur af störfum að eigin ósk. Sigurjón, sem gegndi starfi fréttaritstjóra á Fréttablaðinu, segir að breytingar verði gerðar bæði á útliti og efnistökum Blaðsins.
SIGURJÓN M. Egilsson hefur verið ráðinn ritstjóri Blaðsins í stað Ásgeirs Sverrissonar sem lætur af störfum að eigin ósk. Sigurjón, sem gegndi starfi fréttaritstjóra á Fréttablaðinu, segir að breytingar verði gerðar bæði á útliti og efnistökum Blaðsins.

"Blaðið mun ekki vera í beinni fréttasamkeppni við Fréttablaðið og Morgunblaðið heldur verður það á öðrum miðum. Þetta verður alþýðlegt frétta-, neytenda- og upplýsingablað," segir Sigurjón en bætir við að erfitt sé að sjá nákvæmlega fyrir hvaða breytingar verða gerðar.

Sigurjón segir að þessi ákvörðun hafi verið tekin mjög hratt en hann fundaði með starfsmönnum Blaðsins strax í gær. Hann segist þó enn sem komið er vera nýliði á staðnum en gerir ráð fyrir að taka alfarið við ritstjórninni í næstu viku.

Spurður um hvort einhverjir starfskraftar fylgi honum úr fyrra starfi segir hann að þegar hafi Janus Sigurjónsson, umbrots- og útlitshönnuður, ákveðið að koma til starfa á Blaðinu og að hann fái það verkefni að móta nýtt útlit á blaðið. "Ég held að allir hljóti að vera sammála um að það þurfi að gera og verði gert og er alveg viss um að útgefendur séu að ráða mig til að gera breytingar," segir Sigurjón.

Ásgeir Sverrisson segist hafa hætt að eigin ósk og að alls ekki hafi verið um nein leiðindi að ræða milli hans og eigenda Blaðsins. "Ég skýrði stjórn Blaðsins frá því í byrjun maímánaðar að ég hefði ákveðið að segja upp starfi ritstjóra. Ég vona að ég ljúgi engu þegar ég segi að þetta hafi ekki verið stjórninni sérstök gleðifrétt. En þeir ágætu menn sem eiga Blaðið og reka sýndu málinu skilning. Ákveðið var að ég myndi sinna starfi ritstjóra þar til nýr maður hefði verið fundinn," segir Ásgeir og óskar Blaðinu og starfsfólki þess velfarnaðar. Við spurningunni hvað taki við hjá honum er einfalt svar: "Ég er að hugsa um að fara í göngutúr."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.