8. júlí 2006 | Innlendar fréttir | 2383 orð | 4 myndir

Ný kirkja vígð í Úthlíð

Úthlíðarkirkja, Gísli Sigurðsson hannaði. Nýstárlegir litir og efni en formið er í aðalatriðum hefðbundið.
Úthlíðarkirkja, Gísli Sigurðsson hannaði. Nýstárlegir litir og efni en formið er í aðalatriðum hefðbundið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á sunnudag verður vígð ný kirkja í Úthlíð í Biskupstungum. Veg og vanda af byggingunni hefur Björn Sigurðsson, ferðaþjónustubóndi í Úthlíð, en Gísli Sigurðsson, bróðir hans, hefur hannað kirkjuna og málað altaristöfluna.
Á sunnudag verður vígð ný kirkja í Úthlíð í Biskupstungum. Veg og vanda af byggingunni hefur Björn Sigurðsson, ferðaþjónustubóndi í Úthlíð, en Gísli Sigurðsson, bróðir hans, hefur hannað kirkjuna og málað altaristöfluna. Bergur Ebbi Benediktsson blaðamaður og Ragnar Axelsson ljósmyndari brugðu sér austur að Úthlíð þar sem spjallað var við bræðurna um sögu staðarins, hönnun og byggingu kirkjunnar, altaristöfluna, svo og vígslu kirkjunnar.

Við upphaf byggðar í Úthlíð, um eða skömmu eftir 900, var byggt þar stórt hof sem enn sést móta fyrir. Ætla má að Geir goði, sem kemur við sögu í Njálu, hafi verið síðasti heiðni bóndinn á jörðinni, en hann lést skömmu fyrir árið 1000. Hann hafði þá ásamt Gissuri hvíta staðið að vígi Gunnars á Hlíðarenda. Þarna gátu höfðingjar Mosfellinga ekki vikist undan hefndarskyldunni, en aðrar skyldur eru nú í fyrirrúmi sem betur fer.

Talið er að ábúendur í Úthlíð hafi verið búnir að taka kristna trú nokkru fyrir kristnitökuna á Þingvöllum, en ekki er vitað hvenær fyrst reis þar kirkja. Talið er að hún hafi alla tíð staðið í kirkjugarðinum við landnámsbæinn. Skammt utan við kirkjugarðinn, nákvæmlega á gamla bæjarstæðinu, er hin nýja kirkja byggð.

Úthlíð komst snemma í eigu biskupsstólsins í Skálholti, en þegar hann lagðist af voru stólsjarðir seldar og um 1800 komst jörðin í einkaeign auðugrar biskupsfrúar. Víst má telja að torfkirkja hafi verið frá upphafi í Úthlíð, en þau tímamót urðu árið 1861 að Þorsteinn Þorsteinsson, sem þá rak ræktunar- og búnaðarskóla í Úthlíð, reisti timburkirkju.

"Timburkirkjan stóð til ársins 1935," segir Björn, "eða í rúm sjötíu ár. Það var nokkurn veginn endingartími þessara gömlu timburkirkna. Þær voru óvarðar gegn vætu, bæði þak og veggir úr timbri, og eftir ákveðinn árafjölda var suðurhliðin orðin morkin af fúa."

"Það stóð til að endurbyggja kirkjuna," segir Björn ennfremur. "Árið 1946 var efnt til happdrættis til fjáröflunar handa kirkjunni og vinningurinn var glæsilegur gæðingur sem Björn Erlendsson, lengi bóndi í Skálholti, vann. Þeir fjármunir sem söfnuðust urðu nálega að engu í mikilli gengisfellingu fáum árum síðar. Þar á ofan stórhækkaði allt erlent byggingarefni. Það varð því ekkert úr byggingunni. En breyttir tímar voru framundan; vegir urðu betri og Skálholtskirkja var byggð 1956. Eftir það fóru allar stærri athafnir fram þar en kirkjurnar í Bræðratungu, Haukadal og Torfastöðum voru þá mun minna notaðar. Svo fór að Úthlíðarsókn var lögð niður; það gerðist þó ekki fyrr en 1966 og frá því kirkjan fauk var messað í stofunni í Úthlíð

Margvíslegt notagildi

Eftir að þessi forna kirkjujörð hefur verið án kirkju í nær 71 ár, má telja að bygging og vígsla hinnar nýju kirkju marki tímamót á staðnum. "Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup í Skálholti, vígir kirkjuna," segir Björn, og nefnir að fjórir prestar verði viðstaddir. Kirkjan tekur um 120 manns í sæti og því er fjölda boðsgesta við vígsluna þau takmörk sett. "Ég vonast til að sjá sveitunga mína þar og velunnara staðarins," segir Björn.

En kirkjan er ekki sóknarkirkja, heldur bændakirkja í einkaeign. Björn gerir ráð fyrir að þar verði messuhald, kannski mánaðarlega, og gestaprestar þá fengnir til að sjá um messuhaldið. "Kirkjan verður notuð við ýmis tilefni, til skírna, giftinga, ferminga og bænahalds. Ekki er henni síður ætlað að vera alhliða menningarhús og þar verður að öllum líkindum efnt til tónleika. Menn telja að kirkjan verði gott tónleikahús og að hljómburður sé góður. Í veggklæðningum er tommuþykk eik og svo er síberísk fura í loftinu; sérvalinn viður," segir Björn.

En hvernig kom það til að bóndi, sem þá var að verða sjötugur, lagðist í það heljarmikla átak að reisa kirkju á jörð sinni. Björn segir: "Ég var alltaf fylgjandi því að söfnuðurinn byggði kirkju í Úthlíð, en um það náðist aldrei samstaða. Eftir að ég hóf hér uppbyggingarstarf í ferðaþjónustu, með stórri frístundabyggð með hitaveitu og vegum, sundlaug, verslun, golfvelli og útleigu á bústöðum, sá ég að svo fjölsóttur staður þarf að hafa kirkju, eins og margt annað. Ferðamenn, svo og þeir sem dvelja í sínum bústöðum, vilja gjarnan koma í kirkju og eiga þar góða stund. Hér eru tæplega tvö hundruð bústaðir og því geta verið á svæðinu um þúsund manns. Alltaf er eitthvað að gerast þar sem fólk þarf að komast í kirkju. Ég hef líka orðið var við að fólkið sem á hér frístundabústaði er mjög jákvætt gagnvart þessu framtaki og hlakkar til að fá þetta góða hús," segir Björn.

Úthlíð er stærsta jörð á Suðurlandi og þótti frábær fjárjörð áður fyrr, en nú er þar fjárlaust eftir niðurskurð síðastliðið haust. Jörðin var erfið vegna stærðarinnar, en geysileg breyting hefur orðið með því að hefðbundinn landbúnaður er þar ekki lengur. Fram á miðja síðustu öld var áhersla lögð á vetrarbeit í hlíðunum efra, sem voru og eru vaxnar birkiskógi. Eftir að vetrarbeit lagðist af og einnig nú, þegar sauðfé er með öllu horfið, má sjá verulega framför á gróðri. Greinilegt er að Björn hefur verið dugmikill bóndi.

"Ég þurfti að sjá fyrir stórri fjölskyldu", segir Björn. "Ég átti góða konu og við áttum fjögur börn sem öllum hefur vegnað vel. Það er nóg fyrir hvern og einn á meðan verið er að koma barnahópi upp. Þegar við Ágústa, konan mín, nálguðumst sjötugsaldurinn, fórum við stundum að tala um hversu gaman það væri að enda okkar farsæla ævistarf á að byggja kirkju."

Björn fer með þekktan vísupart eftir Bólu-Hjálmar: "Þú flytur á einum eins og ég/ allra seinast héðan." Þú ferð ekki með neinn auð með þér héðan. Birni finnst greinilega lítið til þess koma að umkringja sig veraldlegum auðæfum í ellinni.

"Síðan gerðist það að konan mín dó nokkuð skyndilega úr heilakrabbameini fyrir einu og hálfu ári," segir Björn. "Hún hafði tekið þátt í rekstrinum með mér af fullum krafti, var fjármálastjóri fyrirtækisins og tók mikið þátt í félagslífi. Ég ákvað því að byggja þessa kirkju í minningu hennar."

Á fæðingarstað listamannsins

Það kann að koma á óvart að myndlistarmaður og fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu sé fenginn til að hanna nýja kirkju. Hönnuður hennar og höfundur altaristöflunnar, Gísli Sigurðsson, er raunar bróðir Björns bónda í Úthlíð og ekki nóg með það; hann er síðasta barnið sem fæddist í gamla bænum í Úthlíð og baðstofan stóð fáeina metra frá suðurhlið kirkjunnar.

"Mig rámar óljóst í gömlu timburkirkjuna", segir Gísli. "Ein fyrsta skýra endurminning mín er sá atburður þegar hún fauk. En besta bæjarstæðið í Úthlíð er þar sem gamli bærinn stóð og mér finnst gott að geta komið að því að hefja staðinn til vegs og virðingar með þessu. Líklega hefði ég neitað öðrum en Birni, því það stóð ekki vel á. Ég var á fullu að skrifa bók um Snæfellsnes í röðinni Seiður lands og sagna, sem kemur út í haust. En mér fannst ég þurfa að sinna þessu þó að það hefði í för með sér lengri vinnudaga."

Gísli kveðst hvorki vera arkitekt né byggingartæknifræðingur; ekki einu sinni sæmilegur klambrari. Hann segir að hafi hann eitthvað til brunns að bera sem réttlæti þessa ákvörðun Björns, þá megi rekja það til eins konar byggingarlistarástríðu sem fór að gera vart við sig þegar hann hóf störf við blaðamennsku fyrir fimmtíu árum. Hann kveðst þá hafa farið að grúska í og raunar að stunda sjálfsnám í sögu byggingarlistar. Til þess aflaði hann sér góðra bóka og var áskrifandi að tímaritum og telur að það sem hann hafi skrifað um arkitektúr í fimm áratugi, aðallega í Lesbók Morgunblaðsins, mundi ugglaust fylla nokkrar bækur. Þar á ofan, segir hann, var góður skóli fólginn í fjölmörgum ferðum til útlanda í því skyni að sjá og skrifa um byggingarlist; til dæmis hlaut hann bandarískan styrk til að fara í mánuð um þver og endilöng Bandaríkin í þessum tilgangi.

En hvernig hófst þessi samvinna bræðranna? "Mér er minnisstætt þegar Björn kom til mín dag einn síðsumars 2003 og hafði blaðastranga meðferðis," segir Gísli. "Ég ætla að byggja kirkju sagði hann formála
laust og slengdi blöðunum á borðið. Einhver hafði gert tillögu sem Björn var ekki ánægður með; hann spurði hvort ég gæti ekki látið mér detta eitthvað skárra í hug.

Í fyrstu tók ég þessa áskorun ekki alvarlega, enda hafði aldrei hvarflað að mér að ég yrði nokkru sinni beðinn um að teikna hús. En mér fannst hugmyndin skemmtileg og vitna um stórhug. Áður en ég vissi af var ég farinn að draga upp mynd af fyrirhugaðri kirkju á blað og þótt ótrúlegt megi virðast þá sá ég hana fyrir mér í huganum og tel þó að hún eigi sér alls enga ákveðna fyrirmynd. Fljótlega vann ég útlitsmynd með vatnslit af kirkjunni og sú mynd fór til Jóns Ólafs Ólafssonar, arkitekts hjá Battaríinu og hann vann eftir myndinni þær vinnuteikningar sem nauðsynlegar eru til að fá byggingu samþykkta.

Guðsmóðirin í Úthlíð

Björn tekur fram að þeir hafi strax gengið út frá 100 fermetra flatarmáli og að límtré yrði notað í burðargrind. "Það er rétt, þetta var það eina fyrir utan staðinn, sem gat talist ákveðið," segir Gísli. "Það voru einmitt hinir fyrirhuguðu límtrésbogar sem ég vildi nota sem meginstef og láta önnur áberandi form ríma við. Þess vegna hef ég stóran suðurglugga, bogadreginn að ofan. En höfuðstafurinn í þessu rími er boginn þar sem inngangurinn tengist turninum. Ég vildi hafa kirkjuna tiltölulega háa miðað við flatarmál og því var strax ákveðið að vegghæð yrði 3 m, en lofthæðin helmingi meiri, eða 6 m. Hæð turnsins er um 14 metrar og hann er allur úr gleri nema spíran efst," segir Gísli.

Líklega vekur dökkt gler í turninum og gluggum athygli, enda óvenjulegt. Það heldur úti hita en innan frá að sjá er það sem hvert annað venjulegt gler og ber sömu birtu inn.

"Við val á þessu reyklitaða gleri naut ég góðrar aðstoðar hjá Grími vini mínum hjá Íspan," heldur Gísli áfram. "Í fyrstu hafði ég gert ráð fyrir venjulegu gleri og þetta var það eina sem breyttist frá frumteikningunni. Ég margprófaði aðrar útfærslur en það fór sem oft áður að fyrsta hugmyndin varð fyrir valinu. Áherzlan var á byggingarefni, sem væru vönduð og endingargóð og stæðu til vitnis um okkar tíma. Margt völdum við Björn saman, en sjálfur valdi hann vitaskuld margt, þar á meðal klæðningarefni að innanverðu og ljósakrónurnar. Ég teiknaði hins vegar altarið og predikunarstólinn; einnig skrifast litaval að innan og utan á minn reikning."

Altaristaflan, 2x2 metrar, er einnig verk Gísla og má segja að sem starfandi myndlistarmaður með 14 einkasýningar að baki hafi hann verið þar á heimavelli.

"Þó ekki að því leyti að ég hef frekar lítið fengist við trúarleg mótíf," segir Gísli. "En ég tel það ekki skipta máli. Við bræður ákváðum strax að þetta yrði Maríumynd vegna þess að í Úthlíð var Maríukirkja fram að siðaskiptum. Ég lagði gríðarlega vinnu í undirbúninginn og málaði ekki færri en fimm minni prufumyndir á meðan ég velti fyrir mér hugmyndinni. Þá hlið málsins ræddi ég við séra Gunnar Kristjánsson, prófast á Reynivöllum í Kjós, sem er doktor í kirkjulistarsögu og lærðastur Íslendinga í þeirri grein. Það hefur tíðkast um víða veröld þar sem Maríumyndir hafa verið málaðar, sagði séra Gunnar, að setja guðsmóðurina á svið á viðkomandi stað. Þess vegna staðset ég hana í Úthlíð með útsýni inn í hraun og inn til fjalla."

Þankar um stílinn

Gísli segir að stíll altaristöflunnar hafi líka kallað á nokkra íhugun. Hann vildi hafa verkið nútímalegt, eða "módern en alls ekki stíl í anda hins stranga módernisma á síðustu öld. Það á helst að sjást, segir hann, að verkið tilheyri 21. öldinni með áherslu á aukið frjálsræði. Til að mynda eru sumir hlutar myndarinnar stílfærðir, en aðrir málaðir nákvæmlega," segir Gísli. "Ég hef talsvert unnið með blandaðri tækni og íhugaði að nota ljósmyndir, plexigler og fleira í bland við olíumálverk. En við vitum ekki um endingu þessara efna og því tók ég þann kost að nota einungis léreft og olíuliti af vönduðustu gerð. Þarna er einnig vitnað með leturskrift í máldaga, eða eignaskrá, kirkjunnar frá árinu 1331. Og svo er eitt lítið Maríuvers skrifað á stein."

"Á undanförnum árum hef ég unnið mikið með ljóð í myndum og var ákveðinn í að gera það einnig hér. Rýmið í myndinni setti því þröngar skorður; ljóðið gat ekki verið nema sex línur. En þessar línur urðu bara til á meðan ég stóð við að mála. Þó að ég hafi ort allnokkuð um dagana, og þá ekki síst á meðan ég er að mála, þá er þetta það fyrsta af þessu tagi sem birtist. Þar held ég þeirri fornu íslensku hefð sem skáld eins og Þorsteinn frá Hamri, Hannes Pétursson og fleiri hafa ræktað og felst í að halda stuðlasetningu, en án endaríms, og stundum er hálfstuðlað," segir Gísli.

"Þetta litla Maríuvers, eða ljóðkorn, vísar til myndarinnar sem sýnir landið á hörðu vori. Það hefur heklað í fjöll og kýrin er á hagleysu. Inntakið er táknrænt og þó að það vísi til búmannsrauna fyrr á árum og öldum, eru önnur vandkvæði komin í staðinn, til að mynda það að standa undir lánum. En hvort sem er, þá er gott að eiga Maríu guðsmóður að," segir Gísli.

Gamlar kirkjuklukkur

Forn kaleikur og tvær kirkjuklukkur eru einu gripirnir sem til eru úr gömlu kirkjunni og hafa verið til þessa varðveittir á Byggðasafni Árnessýslu. Klukkurnar eru nú komnar á sinn stað í turninn. Af öðrum merkum gripum má nefna tvo gyllta kertastjaka á altarinu, sem Vigfús Árnason smíðaði, afi Vigfúsar Árnasonar prests í Grafarvogskirkju. Þeir eru frá 1945; voru ætlaðir kirkju sem þá stóð til að byggja, og hafa beðið í 60 ár.

Ýmsar góðar gjafir hafa borist Úthlíðarkirkju hinni nýju. Þar er fyrst að nefna orgel, sem Hilmar Örn Agnarsson, organisti í Skálholti, mun efalaust þenja af krafti við vígsluna. Forkunnarfagur, gullsaumaður dúkur á altarinu er gjöf, sömuleiðis kristalsblómavasar og afar sérstæður skírnarfontur. Skálina á honum hefur Ragnheiður Tryggvadóttir leirlistakona unnið og endurtekur í henni stef sem fyrir kemur í altaristöflunni. Jón H. Sigurðsson, bróðir þeirra Björns og Gísla, hefur frá upphafi verksins tekið heimildarkvikmynd, sem eftir er að setja saman, en verður sýnd síðar.

Þetta er mikið verk; eru þið þreyttir? "Björn er búinn að vinna eins og berserkur," segir Gísli, "en hann stendur ágætlega í lappirnar, sýnist mér. Sjálfur þreytist ég ótrúlega lítið við verk sem skemmtilegt er að vinna. En auk þess að við bræður höfum verið að skemmta okkur við þetta vildum við gera dálítið at í því viðtekna áliti að rúmlega sjötugir menn geti ekkert gert til gagns og eigi bara að reyna að vera ekki fyrir," segir Gísli að lokum.

bergur@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.