Aðalskurður Flóaáveitunnar var grafinn frá Hvítá og endaði rétt sunnan brúarinnar á myndinni, en þar tók Hróarsholtslækur við vatninu.
Aðalskurður Flóaáveitunnar var grafinn frá Hvítá og endaði rétt sunnan brúarinnar á myndinni, en þar tók Hróarsholtslækur við vatninu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lagnafréttir
eftir Sigurð Grétar Guðmundsson
pípulagningameistara/
siggi@isnet.is

Þegar ekið er til austurs frá Selfossi staldra margir við í Þingborg, gamla barnaskólanum á Skeggjastöðum. Þar sýna konur úr sveitinni prjónaflíkur í miklu úrvali og hefur margur útlendingur farið þaðan út í fallegri lopapeysu. En áður en að heimilismarkaði kvennanna er komið er ekið um brú yfir á sem margir undrast hve þráðbeint liggur í landinu. Óvenjulegt um íslensk fljót sem ætíð velja sér auðveldustu leiðina og renna því oft í beygjum og hlykkjum.

Hér er heldur ekki um venjulega á að ræða sem náttúran hefur skapað.

Þetta er skurður sem grafinn var á árunum 1918-1927, þetta er aðveituskurður Flóaáveitunnar, þess stórvirkis sem gjörbreytti búskap um gjörvallan Flóa, frá Ölfusá í vestri að Þjórsá í austri, áveita sem náði yfir 12 þúsund hektara lands.

En þeir eru eflaust margir sem lesa þessar línur og reka upp stór augu og spyrja "hvaða fyrirbæri er þessi Flóaáveita?"

Það var hugur í Íslendingum í upphafi 20. aldar. Hannes Hafstein varð fyrsti íslenski ráðherrann með aðsetur hérlendis. Einar Benediktsson orti og predikaði beislun fallvatna og þá var Jónas frá Hriflu ungur maður sem blés mönnum bjartsýni og dug í brjóst. Þá var landbúnaður enn undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar og því var heyfengur mikilvægari en flest annað í sveitum landsins. Fátt var skelfilegra fyrir bændur en að verða heylausir á útmánuðum. Það var ekki að ástæðulausu að Alþingi setti í lög að forðagæslumaður skyldi kosinn í hverjum hreppi. Hann fór á alla bæi í sínu umdæmi þegar leið á vetur og kannaði heybirgðir.

Enn voru tún lítil og ekki komin sú vélaöld sem gerði ræktun auðvelda og fljótvirka.

Þess vegna varð að treysta að miklu leyti á heyfeng af óræktuðu landi, af engjum sem víða voru sléttar og grasgefnar á hinu marflata Suðurlandi.

En víða skorti áburð á engjar til að störin yxi sem best, húsdýraáburður var notaður á hin takmörkuðu tún til að auka sprettu og fá betri töðufeng.

Besta ráðið til að auka grasvöxt á engjum var að veita á þær vatni á vetrum, því var síðan hleypt af á vorin en eftir urðu ýmis efni sem juku grasvöxt.

En hvar átti að fá vatn á engjarnar og hvernig átti að hemja það? Til að afla vatns á engjar var ráðist í Flóaáveituna. Þessi mikli skurður sem við sjáum við Þingborg er inntaksskurðurinn sem flutti vatn frá Hvítá. Því var síðan dreift eftir skurðum um allan Flóa og með flóðgáttum var því miðlað þannig að allir bændur fengu sinn skerf, hvorki of né van. Með þessum nákvæmu stillingum var hægt að miðla því þannig. Síðan tóku aðrir skurðir við á vorin og veittu vatninu af engjunum, það vatn rann síðan til stórfljótanna Ölfusár og Þjórsár eða til sjávar. Og undan vatninu komu engjarnar sléttar og þar óx störin sem síðan var slegin, þurrkuð og flutt í hlöður eða sett í lanir.

Áður er ráðist var í gerð veitunnar var allur Flóinn hæðarmældur og eftir þeim mælingum voru teiknaðir skurðir af mismunandi stærðum eftir því hve mikið vatn þeir áttu að flytja. Þessa tæknivinnu unnu danskir verkfræðingar að frumkvæði Íslendinga. Keypt var til landsins heljarmikil grafa sem nefnd var "Járnbitagrýður" og skurðirnir sem með henni voru grafnir vor kallaðir "vélaskurðir". Stofnskurðurinn, sem enn sést, þótti með ólíkindum enda 11 metrar á breidd í botni og allt að 5 metra djúpur.

Svo mikið orð fór af þessu stórvirki að þegar þekktur Íslendingur kaþólskrar trúar gekk fyrir páfa kom í ljós að hans heilagleiki vissi lítið um Ísland, en hann hafði heyrt greinargóðar lýsingar af Flóaáveitunni.

Flóaáveitan hafði gífurleg jákvæð áhrif fyrir búskap um gjörvallan Flóann. Heyfengur jókst og búin stækkuðu, tekjur bænda jukust. Á grundvelli þessa stofnuðu bændur síðan Mjólkurbú Flóamanna, sem enn er blómlegt fyrirtæki.

Í dag sitja menn á verkfræðistofum og teikna lagnakerfi þar sem valdar eru rörastærðir eftir því hve mikið vatn á um leiðsluna að renna. Á ofnum og öðrum hitagjöfum eru stilliventlar svo hægt sé að jafnvægisstilla kerfi sem við nefnum svo. Þá tækni rekjum við til sænsks verkfræðings sem kom fram með jafnvægisstillingu hitakerfa 1962.

En löngu áður var lagt þetta mikla lagnakerfi, Flóaáveitan. Hún byggðist á nákvæmlega sömu tækni og við teljum nútímalega, jafnvægisstillingu. Skurðirnir voru vandlega útreiknaðir eftir því vatnsmagni sem þeir áttu að flytja, nákvæmlega eins og rör eru valin í dag. Flóðgáttirnar höfðu mismunandi opnun eins og stilliventlarnir á hitakerfunum, skömmtuðu hverju engjaflæmi það vatn sem þurfti eins og ventill skammtar ofni eftir stærð. Þannig var hægt að miðla vatninu á allar engjar svo enginn varð út undan, en allir fengu sinn skammt.

Það sannast aftur og aftur að ekkert er nýtt undir sólinni og enn má dást að verkviti og framsýni þeirra sem löngu eru komnir undir græna torfu.