Klippimynd frá sýningu Heimis Björgúlfssonar í Galleríi Suðsuðvestur í Reykjanesbæ.
Klippimynd frá sýningu Heimis Björgúlfssonar í Galleríi Suðsuðvestur í Reykjanesbæ.
Til 16. júlí. Opið fim. og fös. frá 16-18 og sun. 14-17.

HEIMIR Björgúlfsson sýnir nú tvö verk í sýningarrýminu Suðsuðvestur í Reykjanesbæ, myndbandið Yst glitrar og ljósmyndaverk/klippimynd, Án titils. Myndbandið sýnir eins konar eggjaskírn, þar sem svartfuglsegg eru brotin á höfði ungs manns. Ljósmyndaverkið snýst einnig um fugla og egg þar sem ákveðin hreyfing er kyrrsett og áhorfandinn sér fyrir sér hvað myndi gerast á næsta augnabliki ef allt færi af stað.

Heimir Björgúlfsson hefur á síðustu árum velt nokkuð fyrir sér ímynd og hlutverki karlmannsins og karllistamanna og gert grín að því um leið. Önnur árátta hefur fylgt honum en það eru fuglarnir sem birst hafa í verkum hans í ýmsum myndum. Þessi tvö meginþemu er einnig að finna á þessari sýningu þó að hér sé nálgunin við karlmennskuímyndina nokkuð önnur en áður.

Ég er ekki viss um hvernig túlka ber þetta myndband Heimis, en það er í senn alvarlegt og ljóðrænt og gæti líka verið kaldhæðið. Það er þessi blanda sem gerir verkið nútímalegt og að mínu mati má sjá allar þessar hliðar á því án þess að útiloka neina þeirra. Þessi möguleiki, að vera næstum yfirdrifið ljóðrænn og hugsanlega kaldhæðinn í senn er eitt af því sem einkennir hluta af samtímalist okkar tíma og má sjá í verkum fleiri listamanna af þessari kynslóð (30-40 ára), t.d. hjá Gjörningaklúbbnum eða í list Gabríelu Friðriksdóttur. Áhorfandinn getur þá gripið til kaldhæðninnar verði listaverkið of yfirdrifið.

Í myndbandi Heimis má sjá góðlátlegt grín að karlmennskuprófum samtímans, eða hreinlega einlæga og þó nokkuð persónulega og sérkennilega nálgun við náttúru og fugla landsins. Ljósmyndaverkið byggist síðan á því að skapa eftirvæntingu, hér stendur tíminn í stað, eggin eru fryst á flugi, blómknúppur bíður þess að fuglar goggi í hann. Einnig hér er margræðni á ferð, hefðbundin náttúrumynd er í forgrunni en einnig má hugsa sér hvernig arfaslæmum listamönnum hefur verið tekið í gegnum tíðina, það var iðulega kastað í þá eggjum.

Heimi tekst á þessari litlu sýningu að vekja upp skemmtilegar og áleitnar spurningar um samband manns og náttúru, hlutverk listamannsins og viðhorf áhorfandans til samtímalistarinnar. Listaverk hans ná að lifa áfram í huganum á fleiri en einu sviði.

Ragna Sigurðardóttir