Á myndinni eru þau Elín Ebba Ásmundardóttir frá Hugarafli, Kristín Eysteinsdóttir leikstjóri og einnig allir þrír leikarar sýningarinnar: Jörundur Ragnarsson, Vignir Rafn Valþórsson og Stefán Hallur Stefánsson.
Á myndinni eru þau Elín Ebba Ásmundardóttir frá Hugarafli, Kristín Eysteinsdóttir leikstjóri og einnig allir þrír leikarar sýningarinnar: Jörundur Ragnarsson, Vignir Rafn Valþórsson og Stefán Hallur Stefánsson. — Morgunblaðið/Jim Smart
Í kvöld hefjast að nýju sýningar á leikritinu Penetreitor. Ásgeir Ingvarsson ræddi við aðstandendur sýningarinnar um sýninguna og ávinninginn af samstarfi leikara og geðsjúkra.

VERKIÐ Penetreitor eftir Anthony Neilson vakti mikla athygli þegar það var sýnt síðasta sumar. Bæði þótti sýningin áhrifarík og frammistaða leikara eftirtektarverð, en ekki vakti síður athygli að uppfærslan var unnin í nánu samstarfi við Hugarafl, hóp fólks með geðsjúkdóma.

"Okkur langaði í upphafi til að setja saman leikrit okkur til skemmtunar. Penetreitor varð fyrir valinu og freistuðum við þess að leita til Nýsköpunarsjóðs um styrki," segir Vignir Rafn Valþórsson, einn þriggja leikara sýningarinnar, um tilurð verkefnisins. "Geðsjúkdómar eru rauður þráður í verkinu og þróaðist sýningin út í rannsóknarverkefni þar sem við beittum vissum greiningaraðferðum á umfjöllunarefni verksins. Var hluti af ferlinu að ræða við fólk sem þekkir geðsjúkdóma af eigin raun. Það var þá sem við kynntumst Hugarafli, og eftir að við áttum fund með þeim varð ekki aftur snúið. Við áttuðum okkur strax á að þar væri kominn hópur fólks sem væri ónýttur viskubrunnur."

Ómetanlegt að gera gagn

Elín Ebba Ásmundsdóttir er einn af forsvarsmönnum Hugarafls: "Þetta gerist á sama tíma og Hugarafl er orðið sýnilegur hópur í samfélaginu, sem vill hafa eitthvað fram að færa. Hópurinn vildi nýta reynslu geðsjúkra í stað þess að hafa þá í hlutverki viðtakenda," segir Elín Ebba. "Hugarafl fagnaði því að fá svona verkefni, og ómetanlegt það gagn sem meðlimir hópsins hafa haft af samstarfinu. Geðsjúkir leggja sjálfir á það áherslu hve mikilvægur liður í því að ná bata er að geta verið öðrum að gagni, eins og þau gerðu með aðkomu sinni að Penetreitor."

Mikilvægu smáatriðin

Þátttaka Hugarafls í sýningunni var með þeim hætti að þeir fylgdust með æfingum og veittu umsögn um ýmis atriði sýningarinnar: "Leiðbeiningar þeirra dýpkuðu skilning okkar á persónunum, og oft að þau bentu okkur á smáatriði sem skipta sköpum þegar dregin er upp mynd af einstaklingi með geðsjúkdóm," segir Kristín Eysteinsdóttir, leikstjóri sýningarinnar. "Að heyra reynslusögur þeirra fékk okkur líka til að skilja og finna meðalveg í framvindu sögunnar og hegðun persónanna. Þau hjálpuðu okkur ekki aðeins að móta hegðun geðsjúklingsins í verkinu, heldur veittu þau ekki síður innsýn í viðbrögð aðstandenda, og hvernig venjulegt fólk hegðar sér þegar það lendir í aðstæðum eins og lýst er í Penetreitor."

Úrræði skortir

Talið berst að úrræðum fyrir geðsjúka og aðstandendur þeirra: "Það kom okkur á óvart hve mikið skortir á fræðslu fyrir aðstandendur geðsjúkra. Venjulegt fólk kann ekki að fást við þær aðstæður sem upp geta komið í kringum alvarlega veikan einstakling, og það er vegna skorts á fræðslu sem slysin gerast," segir Jörundur Ragnarsson, leikari í sýningunni.

Elín Ebba bætir við að lausnin sem flestir grípa til sé að fjarlægja hinn geðsjúka, og koma honum til læknis: "Við erum svo gjörn á að henda fólki inn í meðferðarkerfi, en við vitum samt ekki fyrir víst hvort meðferðarúrræðin sem til staðar virka sem skyldi. Þrátt fyrir æ fleiri sérfræðinga og alls kyns ný lyf virðist geðsjúkum ekkert vera að fækka."

Þessu tengt minnist Elín Ebba á tilraunaverkefni í Finnlandi: "Þar er bráðateymi kallað til innan sólarhrings þegar einhver lendir í alvarlegri geðrænni krísu. Allir eru kallaðir til: ættingjar, vinir, nágrannar og vinnufélagar. Í sameiningu er reynt að ná skilningi á aðstæðum, rætt opinskátt um hlutina og allir leggja sitt af mörkum til að hjálpa einstaklingnum að finna lausn á sínum vanda, frekar en að skilja hann eftir í umsjón heilbrigðiskerfisins. Þetta verkefni hefur borið mikinn árangur og hefur fækkað nýgreindum geðklofasjúklingum, innlögnum á bráðageðdeildum og notkun geðrofslyfa á svæðinu."

Hæfileikafólk á geðdeild

Elín Ebba segir hópinn vonast til að Penetreitor ryðji veginn fyrir önnur verkefni þar sem listamenn vinna með geðsjúkum. "Í Noregi var settur á laggirnar styrktarsjóður fyrir slík tilraunaverkefni og fékk ég að sjá leiksýningu í Bergen; atvinnuleikarar og geðsjúkir unnu saman," segir Elín Ebba. "Verkefnið kom þannig til að tveir nýútskrifaðir leikstjórnarnemar gátu hvergi fundið vinnu og réðu sig til starfa á geðdeild. Þegar þangað var komið uppgötvuðu þeir að þar dvaldist hópur af ungu og hæfileikaríku fólki með mikla sköpunargáfu, sem fékk ekki að deila hugsunum sínum með öðrum en sálfræðingi eða geðlækni á viðtalstímum."

Árangurinn í Noregi segir Elín ótvíræðan: "Þessum krökkum þóttu þau loksins vera orðin einhvers virði. Loksins höfðu þau fengið tækifæri til að hafa áhrif, nýta styrkleika sína og vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Við erum öll manneskjur, og það sem við eigum sameiginlegt og drífur okkur áfram er það að við höfum eitthvað að segja: að við höfum hlutverki að gegna. Geðsjúkir finna oft fyrir því hvað þeir eru áhrifalausir, og hafa hvorki hlutverk né hlutdeild í samfélaginu. Þeir hafa jafnvel ekki áhrif á eigin meðferð."

Jörundur bendir líka á að verkefni af þessu tagi geta komið í veg fyrir að fólk einangrist innan afmarkaðra hópa: "Oft dveljast geðsjúkir langdvölum á stofnunum, og eignast þá nær eingöngu vini innan stofnanakerfisins." Elín Ebba tekur undir: "Það skiptir svo miklu máli að við getum eignast vini gegnum verkefni eins og þetta og brjótum niður þá félagslegu múra sem reistir hafa verið svo víða um samfélagið."

Styðja fleiri verkefni

Allur ágóði af sýningum Penetreitor rennur óskiptur í styrktarsjóð Hugarafls sem ætlað er að hvetja til samstarfsverkefna af svipuðum toga. "Við viljum sérstaklega leggja áherslu á ungt fólk: Í stað þess að einblína á sjúkdóminn og einkenni hans viljum við nota listsköpun til að leyfa hæfileikum þeirra og styrkleikum að njóta sín, því lausnin getur alveg eins leynst þar," segir Elín Ebba. Kristín bætir við: "Við hvetjum fólk í öllum listgreinum að brjóta niður þau mæri sem reist hafa verið kringum geðsjúka. Samstarf okkar við Hugarafl hefur verið mjög gefandi fyrir alla sem að því hafa komið og geta verkefni af þessu tagi gert mikið fyrir listina, og líka fyrir samfélagið."
Penetreitor er sýnd í Sjóminjasafni Reykjavíkur, Grandagarði 8. Frekari upplýsingar eru á http://vermordingjar.blogspot.com og miðapantanir í síma 6990913.