Eftir Rúnar Helga Vignisson
rhv@simniet.is

Ástkona mín hefur sent mig til Suður-Afríku.

Ég sit á 9. hæð Holiday Inn-hótels í hjarta Höfðaborgar, faðir minn tveimur hæðum ofar. Síðasti dagurinn er rigningardagur; við förum heim á morgun eftir vikudvöl í einni fegurstu borg heims.

Það er farið að rökkva. Á skrifborðinu fyrir framan mig grillir í spjald þar sem gestum er ráðlagt að fara að öllu með gát, opna ekki fyrir neinum án þess að gá hver það sé, hafa alla lása á meðan dvalið sé í herberginu, geyma verðmæti í öryggishólfinu. Allt er þetta í takt við tilmæli fararstjóranna um að vera ekki á gangi að kvöldlagi, flagga ekki verðmætum, bjóða ekki hættunni heim. Þeir tala af biturri reynslu: Sjálfur Ingólfur heimsreisari var einu sinni rændur öllu lauslegu á götu í Höfðaborg, öllu nema hárinu.

Sem sagt: Útgöngubann fyrir viðkvæmar sálir eftir að skyggja tekur.

Áðan, í björtu að vísu, tókum við okkur bíl og skoðuðum kofabyggðir í nágrenni borgarinnar, þar sem innflytjendur hafa hróflað upp hreysum sem gera Slunkaríki Sólons að höll, lifa þar í örbirgð andspænis allsnægtum hvítra. Leigubílstjórinn ók hægt inn í hverfið, stansaði öðru hvoru til að leyfa okkur að mynda það sem fyrir bar: börn að grilla hænu, konur að þvo þvott. Eftir því sem lengra dró mjókkaði gatan og varð að stíg, fólkið var sífellt nær okkur, konur og börn brosandi og hlæjandi við myndavélum okkar, karlarnir alvörugefnari, allt að því ógnandi. Leigubílstjórinn kepptist við að brosa og gantast við fólkið, en það var auðséð að hann var ekki alveg í rónni fremur en við. Að lokum urðum við að snúa við og vorum fegnir að koma út á malbikið aftur. Þegar leigubílstjórinn viðurkenndi að hann hefði aldrei komið í slíkt hverfi áður togaðist á í okkur karlmennskustolt og skömm.

Ástkona mín hefur sent mig á vit öfganna, en þó hvorki án ferðafélaga né farangurs. Reyndar er farangurinn meiri en mig óraði fyrir þó að hann nái ekki þeim kílóafjölda sem ferðaskrifstofan leyfir.

Hún kom mér á óvart, einu sinni sem oftar. Ég hafði verið að þýða bókina Vansæmd eftir suður-afríska rithöfundinn J.M. Coetzee og leggja lokahönd á safn frumsaminna smásagna; hvort tveggja bækur um samskipti kynjanna í hverflyndum heimi. Meðfram stundaði ég ofurlitla kennslu og einn daginn tilkynnti ég spúsu minni að ég hefði skráð okkur í hópferð samkennara til Færeyja vikuna fyrir páska. Ég þóttist góður, hafði meira að segja hringt í foreldra mína vestur á Ísafjörð og beðið þá að gæta bús og barna á meðan; undraðist reyndar hvað móðir mín dró við sig svarið. Þá segir þessi elska eitt kvöldið á koddanum, heldur en ekki íbyggin:

Ég þarf að segja þér svolítið, vitandi eflaust hve hlaðin sú setning var í okkar sögulega samhengi. En nú er kæti í röddinni, eins og það kraumi í henni hlátur, eins og hún njóti þess að halda mér í spennitreyju. Ég ætlaði nú samt ekki að segja þér það strax, bætir hún við.

Nú.

Ég ætlaði að koma þér á óvart.

Já, er það? Með hverju?

Með hverju? Hún dregur seiminn. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að segja þér þetta.

Nú, segi ég án þess að vita hvort ég eigi að roðna eða fölna. Láttu það koma, og reyni að bera mig mannalega þó að fátt sé eins tilgangslaust og að reyna að dyljast fyrir ástkonu sinni.

Ég hérna, segir hún og hlær við. Hvernig á ég að orða þetta? Ég lét bóka þig í ferð.

Í ferð?

Já, ég lét bóka þig í ferð.

Nú. Hvert þá?

Til Suður-Afríku.

Þú ert að spila með mig.

En hún var ekki að spila með mig. Hún hafði pantað fyrir mig ferð til Höfðaborgar með Heimsklúbbi Ingólfs. Auk þess hafði hún hringt í pabba og sagst vera með góða hugmynd, hvort hann vildi hugsa málið. Hann hringdi tíu mínútum seinna og sagði já. Og mamma bauðst strax til að hjálpa til með strákana.

Ég gat ekki annað en hlegið þar sem ég sá þessa atburðarás fyrir mér og það sem hún sagði um muninn á atgervi okkar hjóna. Auk þess þýddi þetta að hún yrði án mín yfir páskana, en þá áttu ungir synir okkar afmæli, annar á skírdag, hinn annan í páskum, daginn sem ég kæmi heim.

Hvað gerir maður andspænis konu sem þessari, konu sem gerir manni svo óeigingjarnt tilboð eftir tveggja áratuga kynni?

Mogginn sló því upp að flugið til Höfðaborgar, þrettán tíma beint flug, væri lengsta farþegaflug sem farið hefði verið frá Íslandi. Þó fann ég á leiðinni suður að því meira sem ég fjarlægðist Ísland, því meira nálgaðist ég konuna mína, enda gerir lögun jarðarinnar og höfuðkúpunnar það að verkum að hver vegur að heiman er líka vegurinn heim. Hún yrði förunautur minn ekki síður en faðir minn.

Vélin var sneisafull af farþegum. Okkur feðgum hafði verið stíað í sundur; Ingólfur hafði hringt og spurt hvort við vildum skipta við hjón sem lent höfðu hvort í sinni röðinni. Þess vegna sváfu hjónin saman fyrir aftan mig, við hliðina á pabba. Hafðu ekki áhyggjur af þessu, þetta er ekkert mál, sagði ég við frúna þegar hún bauð mér upp á drykk fyrir greiðann. Njóttu þess bara að hafa karlinn við hliðina á þér. - Reyndar voru hjón hvert sem litið var; einsleitni samfélagsins byggir á þessum andstæðupörum. Faðir og sonur eru tvennd sem stingur í stúf í þessu umhverfi, ekki síst þar sem við erum báðir rígfullorðnir, ég fertugur, hann hálfsjötugur.

Bandarískur vinur minn undraðist að ég skyldi ætla í skemmti- og rannsóknarferð með föður mínum. Hann sagðist aldrei hafa notað orðin faðir og skemmtun í sömu andrá. Hann er sennilega ekki einn um það, þó að mér sé sem betur fer öðruvísi farið. Í bókinni Boyhood eða Barndómi rekur J.M. Coetzee æskuminningar sínar, glímir meðal annars við samband sitt við föður sinn. Það er erfitt og sársaukafullt, einkum þegar hann stálpast og hallar undan fæti fyrir karlinum. Coetzee eldri er lögmaður, en verður meiri og meiri auðnuleysingi eftir því sem líður á bókina og endar sem fylliraftur, búinn að setja lögmannsskrifstofuna á hausinn og má þakka fyrir að vera ekki sóttur til saka. Hinn ungi Coetzee firrir sig þeirri mannsmynd, kallar föður sinn "that man", þennan mann.

Faðir minn getur reyndar verið fjarlægur, á sinn hátt. Hann hefur nýlega dregið sig út úr stjórnun og rekstri tveggja fyrirtækja sem hann hefur verið vakinn og sofinn yfir lungann úr starfsævi sinni, fyrst sem skipstjóri - var oft líkamlega fjarlægur þá, maður talaði við hann í talstöð öðru hverju eins og maður væri að tala við guð - síðar sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður sitthvors fyrirtækisins. Þó að ekki hafi allt farið nákvæmlega eins og hann óskaði helst, get ég með engu móti litið á hann sem auðnuleysingja. Hann er vitanlega enginn engill, segist sjálfur vera gallagripur og er sannfærður um að allt það besta í okkur systkinunum komi frá mömmu, en hann er samt agaðasti og áreiðanlegasti maður sem ég þekki, hefur alla tíð gengið að verkum sínum án þess að hafa um þau og farnast vel, ekki sé ég annað. Með hörku hefur hann líka náð sér vel á strik eftir alvarleg veikindi á undanförnum árum; ekki gaf hann mér neitt eftir á leiðinni upp að vitanum við Góðrarvonarhöfða, helvítið á honum. Enn er hann reistur, enn er hann töluvert hærri í loftinu en ég. Og líkar ekki að vera látinn mæta afgangi, eins og kom fyrir í ferðatilhögun Heimsklúbbsins eitt kvöldið; við vorum látnir bíða lon og don eftir rútu meðan efnaðri gestum var þjónað.

Ég skil vel að þér líki ekki að vera sýnd lítilsvirðing, en ég er hins vegar vanur því og kippi mér oftast nær lítið upp við það, skrökvaði ég og vísaði náttúrlega til vinnuumhverfis rithöfunda.

Sumir verða frægir eftir dauðann, sagði hann þá.

Ég er óvanur að ferðast með karlmönnum í seinni tíð, hef ekki verið ginnkeyptur fyrir karlakúltúr, enda hafa kvennafræðin kennt mér að líta á karlmenn sem syndaseli, í besta falli sem galið lið, skepnur sem ráfa sinnulausar um dýragarða frá morgni til kvölds, gjarnan með sponnann á lofti eins og aparnir sem ég sá einu sinni í Kaupmannahöfn. Undanfarin fimmtán ár hefur konan mín nær undantekningarlaust verið förunautur minn. Við höfum farið hringinn í kringum hnöttinn og dvalið langdvölum erlendis, glímt við framandi tungur og menningarheima. Mér hefur alltaf fundist gott að ferðast með henni vegna þess að saman erum við annað og meira en bara tveir einstaklingar.

Faðir minn er engin kona. Hann hefur aldrei farið dult með áhuga sinn á kvenkyninu og kostað kapps um að umgangast mannlegt eðli hræsnislaust. Það var hann sem gerði mig út með nesti og nýja smokka þegar ég varð kynþroska og hvatti mig til að reyna fyrir mér. Það jafnast ekkert á við það, sagði hann sposkur. Er það ekki? spurði ég vandræðalegur en gerði mér samt far um að hlíta ráðum hans, enda vel upp alinn þó að ég reyndi iðulega þolrifin í mömmu (sem mælti hins vegar með aðferð sem strákarnir notuðu í gamla daga). Lengi vel voru þessir smokkar samt í skrifborðsskúffunni, nema hvað einum var fórnað í æfingarskyni.

Faðir minn kýs þegar til kemur að vera einn í herbergi. Svo þú getir sofið fyrir hrotunum í mér, segir hann. Hann vill greinilega halda vissri fjarlægð, hafa sitt rými. Í bókum hótelsins erum við tveir sjálfstæðir einstaklingar fremur en par eða fjölskylda. Ekki er þó allt sem sýnist í þeim efnum. Til mín kemur kafli úr bókinni Patrimony eða Föðurleifð eftir Philip Roth þar sem skáldið fjallar um baráttu föður síns við heilaæxli. Dag einn kemur Philip að gamla manninum þar sem hann hefur skitið á sig, eins og það er orðað. Saurinn er hvarvetna, á baðmottunni, á klósettsetunni, í haug á gólfinu, í fötum gamla mannsins, í sturtunni. Nær blindum og nýkomnum af sjúkrahúsi hefur karlhróinu tekist að maka saur sínum á ótrúlegustu staði við að reyna að hreinsa hann af sér, meira að segja á tannbursta Philips. Gráti nær biður gamli maðurinn son sinn að segja engum frá þessu, ekki einu sinni nánustu fjölskyldumeðlimum. Philip lofar því en honum fallast næstum hendur frammi fyrir verkefninu: "Þetta er eins og að skrifa bók," verður honum hugsað þar sem hann skríður um baðherbergið á fjórum fótum, "ég hef ekki hugmynd um hvar ég á að byrja." Og þó að Roth hafi síðar ljóstrað öllu upp, gekk hann þar og þá í það verkefni að þrífa gamla manninn og baðherbergið. Hann gerði það af einurð, með fullri virðingu fyrir öldruðum manni sem var upp á son sinn kominn. Hann tók tannburstann sinn og þreif saurinn upp úr rifum og skorum, spönn fyrir spönn.

Við faðir minn erum ekki komnir á þetta stig í samskiptum okkar og komumst vonandi aldrei. Fyrir nokkrum árum, þegar hann galt karlmennskunnar með erfiðum veikindum og dvaldi vikum saman á sjúkrahúsi í Reykjavík, óttaðist ég þó að komið væri að vatnaskilum í samskiptum okkar; ég væri að verða fullorðnari en hann. Þá varð mér oft hugsað til þess hvernig hann umgekkst aldraðan föður sinn eftir að hann fékk heilablóðfall og varð spítalamatur. Tók sér ævinlega tíma til að heimsækja gamla manninn á sjúkrahúsið, þrátt fyrir annir og álag, spurði hvernig hann hefði það, strauk á honum ennið, keyrði hann fram í setustofu meðan það var hægt, talaði til hans af virðingu, jafnvel þó að fátt benti til þess að afi meðtæki orðin.

Kannski er það vegna hæðarmunarins sem ég geng oft á eftir föður mínum. Kannski er það vegna þess að hann er vanur að hafa mannaforráð sem hann ræður á vissan hátt ferðinni. Treystirðu þér til að ganga upp að vitanum? spyr ég þegar við komum suður á Góðrarvonarhöfða. Já já, segir hann og tekur strikið, linnir ekki fyrr en við komum upp. Hann sem fékk nýjan mjaðmarlið í fyrra. Á leiðinni sjáum við babúnana sem okkur hafði verið tekinn vari fyrir að gefa mat. Á niðurleið spyrja tvær mæðgur hvort við höfum séð apana. Já já, segi ég, við sáum tvo áðan. Nú, við höfum ekki séð neinn, segir móðirin hálfsvekkt. Þær ganga síðan áfram en pabbi læðir út úr sér: Ég var að hugsa um að segja við hana að ef hún sneri sér við, þá sæi hún tvo, en kunni ekki við það þín vegna. Heima á hóteli segir hann hins vegar iðulega sisona í lyftunni: Við hittumst þá klukkan hálfátta niðri. Og ég fer úr á 9. hæð, hann heldur áfram upp á 11.

Karlinn er ennþá í brúnni þótt hann sé löngu kominn í land.

Ekki þar fyrir, hann er enginn einræðisherra, hvað þá harðstjóri. Hann er í rauninni prýðisferðafélagi og sannarlega með kompásinn í lagi; skákar mér þar. Einn daginn kemur hann með mér í Háskólann í Höfðaborg, þar sem J.M. Coetzee kennir og þar sem Vansæmd virðist gerast að hluta. Ég vissi að ég var nýbúinn að missa af Coetzee, hann hafði sagt mér að hann yrði farinn til Frakklands þegar mig bæri að garði. Forðaði sér auðvitað þegar hann vissi að þú værir á leiðinni, sögðu vinir mínir. En við finnum enskudeildina með aðstoð leigubílstjóra og ég gef mig fram á skrifstofunni. Í ljós kemur að nokkrir af helstu rithöfundum þjóðarinnar kenna við deildina, m.a. André Brink og Breyten Breytenback.

Ja hérna, segi ég við ritarann.

Já, þetta er stjörnum prýdd deild, segir hún.

Hún upplýsir að Coetzee sé mikið á ferðinni, kenni lítið. En ekki hefur hún lesið Vansæmd. Það minnir mig á skáldkonu sem sagði rithöfunda sjaldnast eiga vini en ættu þeir vini létu þeir ekki svo lítið að lesa bækurnar þeirra.

Við fáum uppgefið hvar skrifstofa karlsins er og finnum hana strax. Pabbi tekur mynd af mér fyrir framan hana, við nafnspjaldið: Professor J.M. Coetzee. Maður er eins og einhver fjandans pílagrímur, lætur mynda sig við brúna viðarhurð. Fyrir ofan dyrnar er gluggi og ég hef orð á því að hátt sé til lofts á skrifstofunni, að hún virðist rúmgóð. Gamli seilist þá upp í póstinn og gerir sig líklegan til að vega sig upp og kíkja inn. Í þeim svifum ber að unga og myndarlega stúlku á leið í tíma. Hún brosir til okkar, en girðir jafnframt fyrir frekari líkamsæfingar af hálfu föður míns.

Hún hefur sjálfsagt haldið að þú værir kennarinn, segir pabbi. Þú gætir prófað, farið inn og lesið henni fyrir!

Þess í stað fáum við okkur sæti á torginu úti fyrir. Þar er iðandi mannlíf. Stúlka sem býðst til að taka mynd af okkur saman segir þetta vera hjarta háskólasvæðisins. Það er töluverð umferð háskólanema af ýmsum gerðum: hvítum, ljósbrúnum, lituðum, þeldökkum, en þá flokka ku innfæddir nota um hörundslit sinn.

Maður hefur alltaf jafngaman af að horfa á þessar elskur, segir pabbi. Vex aldrei upp úr því.

Ég sem var farinn að hlakka til að vaxa upp úr því.

Það væri þá eitthvað að þér.

Þrjátíu ár í viðbót af þessari áþján, ég trúi þessu ekki.

Þegar maður var ungur komst ekki nema eitt að þegar kvenmaður var í augsýn. Það má segja að maður hafi þroskast aðeins í þessu.

Um sambærilegt háskólasvæði lætur Coetzee söguhetjuna David Lurie ganga, hafandi augun hjá sér eins og við:

"Það líður vart sú önn að hann falli ekki fyrir einum eða öðrum af skjólstæðingum sínum. Höfðaborg: borg krökk af fegurð, af fegurðardísum."

Mér finnst þær nú ekkert svo fallegar, segir pabbi.

Þessi svarta þarna er nú svolítið lagleg. Hún er að minnsta kosti sérstök, hefur sinn sjarma.

Við horfum á hana nálgast og ganga hjá.

Ekki mitt vaxtarlag samt, segir pabbi. Ég vil hafa eitthvað að klípa í.

En um David Lurie gildir:

"Sannleikurinn er sá að hann hefur aldrei haft...næmt auga fyrir neinu öðru en sætum stelpum; og hvað hefur hann grætt á því? Er of seint að mennta augað?"

Dýrið gengur sumsé laust sem minnir mig á þau ummæli Matthíasar Jóhannessen að nær sé að tala um konur og karldýr en konur og karla.

En það er auðvitað kvenseminni að þakka að maður er til, hvort sem af hlýst sæmd eða vansæmd. Upp úr æskunni syndir blíðlegt augnaráð að morgni dags, blíðleg snerting, nokkuð sem maður bar ekki skynbragð á í þá daga.

Í aðra röndina dáist ég að mönnum sem tekst að halda reisn í umgengni við hvatir sínar, sem tekst að láta líta svo út, þó ekki sé annað. En fyrirlít þá um leið.

Ástkona mín segist ekki sofa vel. Sjálfur á ég erfitt með að koma mér í háttinn þegar hún er ekki. Rúmið er eins og afrísk eyðimörk án hennar. Þú ert ekki nógu sjálfstæður, mun grannkona mín segja ef ég nefni þetta við hana. Kannski ekki, ef slíkt sjálfstæði er eftirsóknarvert eða yfir höfuð mögulegt. Felur ekki nándin, ástin, í sér visst afsal sjálfstæðis og veitir um leið bakland til annars konar sjálfstæðis? Ég hef að minnsta kosti ekki áhuga á sjálfstæði sem felur í sér afnám söknuðar, einhverrar fegurstu og dýpstu tilfinningar mannssálarinnar. Einhver taldi það mikið afrek hjá kvenþjóðinni að fella eiginmenn sína við eina fjöl. Ég get skilið slíka framsetningu en veit ekki hvort hún segir alla söguna því nýlega heyrði ég að fleiri eiginkonur en eiginmenn héldu framhjá, hvernig sem það má vera. Og báðir höfum við feðgarnir rígbundið trúss okkar við barnsmæður okkar, þrátt fyrir næmt auga fyrir fegurð sköpunarverksins eða kannski öllu heldur vegna þess; við erum báðir "heimskautafarar" eins og orðheppinn maður kallaði það.

Það er freistingin, verður föður mínum að orði þegar ég segi honum að David Lurie, fimmtíu og tveggja ára háskólakennari, hafi fallið fyrir nemanda, hafi hitt stúlkuna skammt frá háskólanum, boðið henni heim og gert henni ósiðlegt tilboð. Það hefur verið gaman hjá honum, bætir faðir minn við.

Heldurðu það?

Nei, ætli það hafi ekki verið tómar sálarkvalir.

Náttúran kostaði Lurie starfið og mannorðið í það skiptið, hvatirnar urðu andanum yfirsterkari.

Það hvessti stundum hér áður, segir pabbi.

Þær hafa alltaf rétt fyrir sér, segi ég.

Þegar málið var skoðað í rólegheitum sá maður vanalega að hún hafði mikið til síns máls. En síðustu árin hefur varla hlaupið snurða á þráðinn. Tóm sæla.

Sem er merkilegt, því þau unnu hjá sama fyrirtækinu í þrjátíu ár, hlið við hlið. Eiginkona, ástkona og samstarfskona: Íslands þúsund ár.

Uppi á herbergi verður sjónvarpið vinur, kostar átak að slökkva á því. Ég sem horfi allajafna sáralítið á sjónvarp. Engin leið að loka deginum þegar konan er ekki, freistandi að hringja. En ég vil ekki verða af hinni masókísku nautn að sakna. Eina nóttina vakna ég klukkan fjögur upp af munúðarfullum draumi um mína heittelskuðu og ætla aldrei að festa svefn aftur. Ég velti fyrir mér hvort kynveran í henni sakni mín en þori ekki að gera mér vonir um það, veit hún hefur um nóg annað að hugsa. Leyfi mér þó að ímynda mér hana striplast um hótelherbergið; sé aldrei nóg af henni.

"Veit hún að hann gefur henni auga? Sennilega. Konur eru næmar á slíkt, á þunga girndaraugnaráðsins."

Á föstudaginn langa höldum við með ferju út í Robben-eyju þar sem Nelson Mandela og fleiri foringjar þeldökkra þreyðu sína krossfestingu árum og áratugum saman. Þetta er nöturleg eyja, vindblásin og berangursleg. Á myndbandi sem okkur er sýnt í ferjunni kemur fram að Mandela ætlaði þessari eyju að verða nokkurs konar háskóli fyrir landsmenn sína. Í samræmi við það lét hann loka fangelsinu þegar hann komst til valda og nú er það minnisvarði um svartan blett á sögu þjóðarinnar, komandi kynslóðum víti til varnaðar.

Á móti okkur tekur samanrekinn náungi sem ber með sér að hafa reynt sitt af hverju, það gerir meðal annars ör í andlitinu. Hann er fyrrverandi fangi og heitir Eugene. Í ljós kemur að það sem hélt lífinu í föngunum var að þeir hófu skipulegt nám innan fangelsismúranna. Þeir ólæsu lærðu að lesa, aðrir luku jafnvel háskólaprófi. Ekki dugði þetta þó til þess að allir héldu sönsum. Eugene segist muna eftir nokkrum sem misstu vitið og urðu aldrei samir aftur. Hvernig þeim gekk að þreyja kvenmannsleysið nefnir hann ekki. Sjálfum þætti mér kvenmannsleysi einhver illbærilegasta refsing sem ég gæti ímyndað mér, fyrir utan frelsissviptinguna. Ég hefði án efa orðið með þeim fyrstu til að ganga af vitinu í búðum sem þessum sökum innilokunarkenndar og kvenmannsleysis. Í einni af bókum Coetzees er því reyndar haldið fram að kvensemin hverfi þegar hungrið sverfur að. Mandela var á aldur við mig þegar hann var handtekinn og sat í fangelsi í þrjá áratugi en fékk víst nóg að borða. Þrá hans eftir frelsi til handa þjóð sinni neyddi hann, mann sem elskaði lífið, til að lifa munklífi áratugum saman, eins og hann segir á síðustu síðu sjálfsævisögu sinnar. Enda eru þær átakanlegar lýsingar hans á því hvað honum þótti erfitt að fá ekki að snerta konu sína eða tala blíðlega við hana þá sjaldan hún fékk að koma í heimsókn. Þvílíkur maður! Hvernig gat hann komið svona heill og réttsýnn út? Ég sem fyrtist við ef nágrannar mínir sýna mér ónærgætni og get ekki litið þá réttu auga lengi á eftir, hvað þá ef einhver karlpungurinn beitir konu mína yfirgangi.

Ég spyr Eugene hvort ekki sé erfitt fyrir hann að vinna þarna, hvort það veki ekki stöðugt upp óþægilegar minningar.

Jú, það er oft erfitt, segir hann mæðulega. Ég var satt að segja að hugsa hvort ég ætti ekki að skella mér í land með ykkur.

Þéttholda svertingi, afar vinalegur, fer með okkur í skoðunarferð um eyna. Sýnir okkur meðal annars kalksteinsnámuna sem fangarnir unnu í og olli mörgum þeirra augnskaða sökum skjannabirtunnar. Það versta sem mín augu þurfa að þola er að góna á tölvuskjá.

Það er gott að komast héðan, segir pabbi þegar við látum úr höfn aftur. Samt tryði ég honum betur en sjálfum mér til að þrauka á stað sem þessum. Hann þraukaði í þröngum og óvistlegum bátum á síldinni í gamla daga, svaf lítið heilu sólarhringana, hafði stöðugt vara á sér, vaknaði ef vélarhljóðið breyttist. En það var kvenmannsleysið sem honum þótti erfiðast við síldarárin, að vera án mömmu. Ég er heimavinnandi, sé mína elsku kvölds og morgna og skiptist á tölvuskeytum við hana yfir daginn; finnst ég ófullkominn án hennar, eins og hún sé mitt annað sjálf, eins og enginn atburður sé fullnaður án þess að hún hafi annaðhvort tekið þátt í honum eða heyrt um hann. Þetta er eins konar samlífi, sem ég óttast þó stöðugt að sé ekki annað en sníkjulífi af minni hálfu. Og þó að maður sé pólitískur fangi femínismans og hann hafi á tíðum minnt óþægilega mikið á McCarthyisma, veitir hann visst frelsi þegar best lætur; frelsi til að vera öðruvísi karlmaður, jafnvel ókarlmannlegur. Eigi að síður hef ég oft hugsað um það hve lítið ég geri til að sanna karlmennsku mína fyrir ástkonu minni. Ég stunda ekki pólferðir, skýt ekki rándýr, ek ekki um á vélhjóli, hef ekki einu sinni vit á bílum. Á sumrin er það einlægt hún sem fer með syni okkar í vatnsrennibrautir og þess háttar, meðan ég horfi á eða les í bók.

Hún fussar þegar ég impra á þessu. Finnst ég furðulegur að velta mér upp úr þvílíku og öðru eins, þykir nóg um karlmennsku mína á öðrum sviðum.

Nú er hún búin að halda tvær afmælisveislur og sú þriðja verður daginn sem við komum heim. Hún er líka búin að fara með drengina tvisvar á skíði, sem er raunar oftar í mínum verkahring. Ekki minnist hún samt á alla þá vinnu sem þetta útheimtir. Hún er líkari pabba en ég, gengur að verkum af æðruleysi, miklar þau ekki fyrir sér, ósérhlífin, ósíngjörn.

Hvað gerir maður andspænis slíkri konu?

Meðal annars þetta.

Höfundur er rithöfundur.