[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingibjörg Hjartardóttir, rithöfundur og bókasafnsfræðingur, er 54 ára. Hún hefur samið skáldsögur og leikrit, m.a. þrettán leikrit fyrir áhugaleikhópinn Hugleik allt frá 1986. Þá hefur hún leikstýrt nokkrum verkum Hugleiks og farið með hlutverk.

Ingibjörg Hjartardóttir, rithöfundur og bókasafnsfræðingur, er 54 ára. Hún hefur samið skáldsögur og leikrit, m.a. þrettán leikrit fyrir áhugaleikhópinn Hugleik allt frá 1986. Þá hefur hún leikstýrt nokkrum verkum Hugleiks og farið með hlutverk. Einnig hefur hún samið nokkur leikrit fyrir atvinnuleikhús og mörg útvarpsleikrit eftir hana hafa verið flutt í Ríkisútvarpinu. Ingibjörg á tvo syni og er sá eldri þeirra, Þórarinn Hugleikur Dagsson, tæplega 29 ára. Hann er myndlistarmaður og hefur vakið athygli fyrir myndasögubækurnar Elskið okkur, Drepið okkur, Ríðið okkur, Bjargið okkur og Fermið okkur. Þá skrifaði hann leikritið Forðist okkur og er að vinna að söngleik. Faðir Hugleiks er Dagur Þorleifsson sagnfræðingur en hann og Ingibjörg skildu. Ingibjörg er gift Ragnari Stefánssyni jarðeðlisfræðingi.

Hann vildi bara teikna

Ingibjörg: Við skírðum hann Þórarin Hugleik og fyrstu árin kallaði ég hann alltaf Þórarin. Mér fannst Hugleiks nafnið, sem er fengið frá fornum, norrænum konungi, einkennilegt fyrst. Hann fæddist á Akureyri, en fyrstu mánuðina í lífi hans vorum við hjá foreldrum mínum á Tjörn í Svarfaðardal. Það var gott að vera þar með ungbarn. Við pabbi hans fluttum svo til Svíþjóðar þegar hann var 10 mánaða og þar fæddist bróðir hans. Ég kom svo ein með Hugleik til baka þegar hann var 6 ára, svo hann gæti byrjað í skóla hér, en Þorri, eins og bróðir hans er alltaf kallaður, kom nokkrum mánuðum síðar, þegar við fengum inni fyrir hann á dagheimili.

Hugleikur var afskaplega ljúfur drengur og okkur öllum hugleikinn. Dálítið feiminn og mjög heimakær. Þeir bræður hafa alltaf verið nánir. Þegar við Ragnar giftumst byggðum við sumarbústað í landi foreldra minna með systkinum mínum. Okkur þótti svo gott að vera þar að við keyptum okkur hálft hús þar rétt hjá og höfum nú fasta búsetu þar. Þeir bræður urðu eftir í íbúðinni fyrir sunnan og bjuggu þar saman þar til í fyrra, þegar Hugleikur fór að búa með kærustunni.

Ég á erfitt með að dæma um hvort við erum lík, en ég sver ekkert af mér tvíræðan, svartan húmor. Hugleikur er svipaður föður sínum í fasi. Hann var aldrei til neinna vandræða og kannski helst að hann væri of rólegur og heimakær. Ég reyndi að hvetja hann til að taka þátt í félagslífinu í skólanum, en hann hafði takmarkaðan áhuga á því. Einu sinni var hann ákveðinn í að fara ekki á árshátíð Hagaskóla. Mér fannst það ómögulegt og ákvað að aka með hann á staðinn. Seinna kom í ljós að um leið og ég var horfin þá rölti hann á bíó.

Þótt hann væri ekki félagslyndur hafði hann það ágætt í skóla, það var engin vanlíðan, ekkert einelti. Hann var bara sjálfum sér nógur.

Ég á teikningar sem Hugleikur gerði þegar hann var 3-4 ára. Hann hefur alltaf teiknað og helst ekki viljað gera neitt annað. Hann og frændur hans, Gulli og Þrándur, teiknuðu mikið saman og þeir voru í strákahópi sem lék hlutverkaleiki. Ég skildi þá leiki aldrei.

Hugleikur ætlaði sér alltaf að gera teiknimyndakvikmyndir og ég held að það sé ekki liðin tíð. Hann fylgdi mér oft þegar ég var að vinna í leikhúsinu. Á fyrstu árum áhugaleikhópsins Hugleiks, þegar ég var formaður hópsins, skrifaði leikritin og lék í þeim sumum, þá sváfu þeir bræður oft værum svefni á bakvið frumstæð leiktjöldin á æfingum. Við fullorðna fólkið vorum stundum að grínast með að þegar þeir skrifuðu ævisöguna gætu þeir sagt að þeir hefðu alist upp í leikhúsinu. En þeir voru alltaf svo rólegir og auðveldir að þetta var ekkert mál. Þorri lék stundum með okkur, en Hugleikur var ófáanlegur til þess.

Ég geri mér ekki grein fyrir hversu mikið hefur síast inn í hann frá því að hann varð að fylgja mér í leikhúsið. Hann hætti því alveg þegar hann varð stálpaðri. Ég varð hissa þegar ég frétti að það ætti að setja teiknimyndabækurnar hans upp á sviði, ég skildi ekki hvernig það var hægt, því í bókunum rúmast ein saga í hverjum ramma. Hann varð að finna söguþráð til að fá hreyfingu í verkið og þá bjó hann til persónu sem gekk í gegnum brandarana, allar þessar kringumstæður.

Húmorinn hans er þannig að það er alltaf spurning hvenær hann gengur fram af fólki. Ég hef nú ekki fengið að heyra neinar vangaveltur um hvernig þessi drengur sé eiginlega alinn upp. En sjálf myndi ég kannski ekki gefa móður minni bækurnar hans. Er hægt að gefa bók sem heitir Ríðið okkur í jólagjöf? Þegar hann gaf þá bók út stakk ég upp á að hann hefði teikningu af hestum á forsíðunni, svo hún væri ekki eins gróf. Hann lét sér nægja að hafa einn hest.

Hitt er svo annað mál að ótrúlegasta fólk gleypir við bókunum hans. Sóknarpresturinn fyrir norðan kaupir alltaf mörg eintök.

Kannski hefur Hugleikur þetta frá mér, að fara stundum yfir strikið. Þegar ég er að skrifa leikrit með öðrum, þá grípa meðhöfundar mínir stundum í taumana og benda mér á að núna hafi ég gengið of langt.

Þeir bræður fengu áreiðanlega ekki strangt uppeldi en það var heldur engin þörf á neinum refsivendi, þeir voru svo góðir. Ég geri mér ekki grein fyrir hvaða áhrif skilnaður okkar foreldranna hafði á þá en auðvitað var það erfiður tími. Ég var ein með þá í nokkur ár og þótt uppeldið hafi ekki verið strangt þá var alltaf regla á hlutunum og festa í heimilishaldi og skóla. Það voru aldrei nokkur vandamál. Ætli þetta hafi ekki verið ósköp íslenskt uppeldi, ég gaf þeim ást, vináttu og hvatti þá áfram.

Við Hugleikur eigum það sameiginlegt að vera alveg laus við metnað í öðru en myndlist og ritlist. Ég reyndi aldrei að snúa honum af þessari braut. Sjálf vildi ég verða leikkona og síðar rithöfundur en það þótti ekki vænlegt ævistarf. Mér finnst mikils virði að börn fái að sinna því sem þau vilja og ég hefði aldrei reynt að beina listamanni í lögfræði. Vissulega er listaheimurinn harður en ef hugur hans stefnir þangað þá er sú braut sjálfsögð. Ég sendi hann á myndlistarnámskeið þegar hann var krakki. Það þýddi ekkert að senda hann á fótboltanámskeið, hann hafði ekkert gaman af því. Sjálf var ég mikið í íþróttum í Svarfaðardalnum þegar ég var ung, en hann vildi það alls ekki. Hann vildi bara teikna.

Núna sækir hann mikið í að vinna í Svarfaðardalnum og mér þykir vænt um það. Ég veit að það er gott að skrifa þar. Ég hef skrifað þar tvær skáldsögur og eitt leikrit fyrir Leikfélag Akureyrar og reyndar annað fyrir leikfélag Dalvíkur. Núna er ég að vinna efni, sem ég veit ekki enn hvort verður skáldsaga eða leikrit. Það verður bara að ráðast. Ég er í hálfu starfi sem forstöðumaður bókasafns Ólafsfjarðar og hálfu sem rithöfundur og það er fullkomin blanda.

Ég veit ekki hversu mikið Hugleikur hefur lært af mér í leikritun. Kannski get ég frekar lært eitthvað af honum núna. Ég vona alla vega að við getum farið að skiptast á skoðunum um leikhúsið og þá er aldrei að vita nema við getum lært hvort af öðru.

Húmorinn frá mömmu

Hugleikur: Við bjuggum í Svarfaðardalnum fyrstu mánuðina eftir að ég fæddist. Ég man fyrst eftir mér í Svíþjóð þar sem yngri bróðir minn, Þormóður, fæddist. Ég flutti svo heim til Íslands með mömmu þegar ég var 5-6 ára, fór í skóla í Reykjavík og hef búið hér síðan. Ég hef oft heimsótt móðurættina í Svarfaðardalinn og mér finnst gott að fara þangað að skrifa.

Mamma vann alltaf á bókasafni og ég man líka vel eftir að hún var sífellt að skrifa leikrit fyrir Hugleik. Ég var oft með henni í vinnunni og las allt sem ég komst yfir. Sérstaklega þó myndasögur, en ég var nú fljótur að lesa þær sem til voru á íslensku, þær voru ekki margar.

Ég man eftir mér sem mjög rólegum krakka. Ég var fámáll og líklega sjálfum mér nógur. En svo man ég líka eftir mér sem leiðinlegum og vælandi. Ég set þessa tvo stráka ekki undir sama hatt. Ég gat vælt svo óskaplega ef mér fannst eitthvað ósanngjarnt og það þurfti ekki mikið til.Vælið var alveg í hámarki á unglingsárunum, en ég gekk algjörlega fram af sjálfum mér þá og hef reynt að halda því í skefjum síðan.

Mamma var ekki ströng. Kannski hef ég eitthvað þurft að passa litla bróður, sem er þremur árum yngri, en ég man ekki eftir því sem sérstakri kvöð.

Ég hef teiknað frá því að ég man eftir mér. Meira að segja á unglingsárunum vildi ég helst vera heima að teikna. Ein vinkona mömmu sagði mér að hún hefði haft áhyggjur, hún hélt að það væri eitthvað að mér. Mamma þurfti ekkert að hvetja mig til að teikna, en hún sá hvað ég hafði gaman af þessu og setti mig á myndlistarnámskeið. Hún var líka ánægð þegar ég fór í Listaháskólann.

Þegar ég var 6 eða 7 ára gerði ég fyrstu myndasögubókina. Hún heitir Skrímslaeyjan og er um mann sem lendir í hremmingum á eyju. Ég gerði margar slíkar bækur, um skrímsli, drauga og ofurhetjur. Myndirnar sem ég teiknaði voru ekkert ósvipaðar þeim einföldu myndum sem ég teikna núna. Ég hef alltaf ætlað mér að gera myndasögur eða kvikmyndir. En myndasöguiðnaðurinn á Íslandi var lengi algjör ládeyða og það var litið niður á þetta bókmenntaform. Nexus var eina búðin sem seldi myndasögur og hún bjargaði mér alveg.

Sumarið 2001, fyrir þriðja árið í Listaháskólanum, hélt ég myndlistarsýningu á Seyðisfirði með tveimur öðrum. Mig vantaði nokkur verk á sýningu og þá teiknaði ég upp um 30 einfaldar myndir, eða brandara. Þeir fóru allir í fyrstu bókina mína, sem ég gaf út sjálfur fyrir jólin 2002. Svo hafði Egill Örn hjá JPV forlagi samband við mig og sú bókaútgáfa hefur gefið út allar hinar.

Ég hafði ágætt næði til að vinna myndasögur þegar ég var að vinna í bókabúð. Þar var ekkert að gera. Mamma reddaði mér þeirri vinnu, en eigandinn spurði hana hvort hún þekkti ekki einhverja konu sem gæti staðið í búðinni. Hún sagðist þekkja strák sem var nýbúinn með stúdentinn. Honum leist ekkert á það í byrjun og tók fram að þetta væru nú engin laun. Ég fékk samt vinnuna og var á kvennalaunum í rúmt ár. Ég var orðinn svo góðu vanur í þessari rólegu vinnu að ég blótaði í laumi ef einhver villtist inn í búðina. Mér fannst gott að hafa næði til að gera myndasögur, meðal annars hryllingsmyndasögur fyrir systur mína, Úlfhildi. Við erum samfeðra og höfum hryllinginn sem sameiginlegt áhugamál.

Hérna áður fyrr teiknaði ég flóknar myndir, en núna teikna ég mjög einfaldar myndir þar sem ég reyni að koma sem flestu til skila með sem fæstum pennastrikum.

Mörgum finnst ég hafa heldur kaldhæðnislegan húmor. Ég held að hann hafi komið snemma. Ég og Þrándur frændi minn fylltum margar blaðsíður af teikningum og súrrealískum húmor. Líklega hef ég þetta frá mömmu, fólk segir það að minnsta kosti. Sigrún Óskarsdóttir, vinkona mömmu, heldur því fram og ég hef sjálfur heyrt mömmu vera skemmtilega grimma þegar hún grínast við vini sína.

Mamma og pabbi skildu þegar ég var 10 ára. Það var hundleiðinlegur skilnaður og ég var lokaður allan tímann. Líklega hefur kaldhæðnin aukist á þeim árum.

Við eigum áreiðanlega sköpunargáfuna sameiginlega, eins og húmorinn að vissu marki. En að mörgu leyti erum við ólík, þótt líklega megi skrifa þann mun að mestu á kynslóðabilið.

Okkur hefur alltaf komið ágætlega saman. Þegar ég var unglingur reifst ég oft við hana, en þá var vælið í mér í hámarki. Þetta voru rifrildi út af engu, ég vildi kannski frekar horfa á Star Trek en borða kvöldmat. Það var dálítið mikið af svona rugli hjá mér.

Þótt við séum bæði að skrifa þá berum við ekki skrifin hvort undir annað. Það þýðir samt ekki að við berum ekki virðingu hvort fyrir verkum hins. Ég fylgdist oft með mömmu og Sigrúnu skrifa leikrit fyrir Hugleik. Þar hefur áreiðanlega ýmislegt síast inn í mig, á meðan ég var að teikna í næsta herbergi. Ég sá samt engan veginn fyrir að ég myndi skrifa leikrit sjálfur. Og svo lærði ég ýmislegt af að vinna í útvarpsþáttum Tvíhöfða. Ég sá um kvikmyndagagnrýni í þáttunum og fylgdist með þeim Jóni Gnarr og Sigurjóni Kjartanssyni semja dagleg útvarpsleikrit. Ég sé þá oft fyrir mér þegar ég er að skrifa leikrit.

Fyrsta leikritið mitt, Forðist okkur , skrifaði ég að beiðni Vals Freys Einarssonar, sem ætlaði að setja það upp með Herranótt. Það endaði svo hjá Nemendaleikhúsinu. Ég skrifaði það fyrir norðan, í Svarfaðardalnum. Og ég vinn áfram í leikhúsinu, núna er ég að skrifa söngleikinn Leg . Davíð Þór Jónsson semur tónlistina og við keppumst við, hlið við hlið.

Kannski sá mamma þetta fyrir, að ég færi að vinna í leikhúsinu. Leikritun er ekkert ósvipað ferli og að teikna myndasögur. Þetta er sviðsetning. Ég ætla að halda áfram á sömu nótum, semja leikrit eða gera kvikmyndir, jafnvel teiknimyndir. Ég bý líka til spil og núna er ég að þróa Ástandið , borðspil þar sem spilarar geta valið hvort þeir eru íslensk stúlka, hermaður eða áhyggjufullur faðir. | rsv@mbl.is