Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Eftir Elínu Ebbu Ásmundsdóttur: "Til eru leiðir sem oft bera meiri árangur en hefðbundnar lausnir. Stjórnvöld þurfa að veita fleiri nálgunum brautargengi og kunna skil á því í hvaða aðgerðir mest fjármagn er veitt."

Það er skrítið að lesa frásagnir geðsjúkra sem hafa látið að sér kveða í réttindabaráttu erlendis. Þeir segja margir að þeim hafi tekist að lifa af geðheilbrigðiskerfið. Engin sérgrein innan læknisfræðinnar hefur verið gagnrýnd jafn harðlega af notendum og geðlæknisfræðin. Æ fleiri bæði innan notendahreyfinga og eins meðal fagmanna hafa velt því upp hvort ofurtrú á lyfjalausnum og aukaverkanir þeirra muni enda sem hluti vandamála framtíðarinnar. Lyfin eru kröftug hjálpartæki og geta slegið fljótt á sum einkenni en þau aðstoða ekki skjólstæðinga við að koma jafnvægi á líf sitt og sjá það í samhengi við reynslu. Lyfin taka ekki á draumum fólks né markmiðum þess í lífinu.

Sjúkrahúsþjónustan er takmörkuð og nær ekki nema að sinna ákveðnum þörfum geðsjúkra. Mörg lönd hafa sýnt í verki að til eru betri lausnir en sjúkrahúsinnlagnir. Lítil athvörf hafa víða verið sett upp í stað sjúkrahúsrýma og allt sem tengist geðrækt og sjálfshjálparstarfsemi hefur verið eflt. Æ algengara er að þjónustan sé rekin af fyrrverandi skjólstæðingum og hefur náðst betri árangur á mörgum slíkum stöðum en þar sem hefðbundin þjónusta er veitt. Það vekur furðu að þjónusta sem rekin er af fyrrverandi skjólstæðingum skuli geta náð meiri árangri en þjónusta rekin af hámenntuðum sérfræðingum. Geðsjúkir leggja áherslu á sjálfshjálp, að uppræta fordóma, taka stjórn á lífi sínu og viðhalda voninni. Fyrrverandi "snarbrjálaður" heimilislaus maður, að nafni Joseph Rogers, stjórnar nú þjónustu fyrir geðsjúka á 30 stöðum í Philadelphia þar sem vinna 326 starfmenn sem flestir eiga sögu um geðsjúkdóma. Sami maður og hafði staðið fyrir utan geðlæknaráðstefnur, mótmælt og verið fjarlægður með valdi, er nú heiðraður fyrir framtak sitt í nýsköpun í þjónustu við geðsjúka.

Notenda- og batarannsóknir hafa sýnt að bati geti náðst án tilstuðlanar fagfólks. Bati getur náðst óháð hugmyndafræði manna um orsakasamhengi. Að hafa valkost í bataferlinu skiptir meira máli en sú leið sem valin er. Sjúkdómsgreining getur haft alvarlegri áhrif en upphaflega vandamálið, þar sem greiningin getur alið af sé fordóma, mismunun, fátækt, einangrun, valdbeitingu og mannréttindabrot.

Á áttunda áratugnum setti Loren Mosher, þáverandi yfirlæknir í geðklofarannsóknum í Bandaríkjunum, (NIMH) af stað tilraunaverkefni sem hann kallaði Sorteria House. Hann vildi rannsaka hvort hægt væri að aðstoða geðklofasjúklinga í geðrofsástandi í heimilislegu umhverfi, þar sem forsendur væru nærvera og tengsl auk stuðnings, úthalds og þols nærstaddra fyrir skrítinni hegðun. Sérstaklega var valið starfsfólk sem hafði trú á mikilvægi góðra tengsla í bataferlinu. Án lyfja náðu flestir skjólstæðingar sér innan sex vikna. Að tveimur árum liðnum leiddi eftirgrennslan í ljós að þeir sem höfðu notið aðferða Sorteria House plumuðu sig betur en þeir sem höfðu fengið hefðbundna meðferð (lyf og sjúkrahúsvist). Á þessum tíma var mikill uppgangur á geðlyfjamarkaðinum og miklar vonir bundnar við lyfin. Þessar niðurstöður voru ekki í takt við það sem menn væntu, svo niðurstöðurnar um Sorteria House voru gerðar ótrúverðugar og fjárstyrkjum til verkefnisins hætt. Seinna kom m.a.s. í ljós að árangur þessarar nálgunar var jafnvel enn betri en upphaflegu niðurstöðurnar höfðu bent til.

Dan Fisher, greindist með geðklofasjúkdóm, nú starfandi geðlæknir, líkir geðklofaeinkennum við slæma flensu sem gangi yfir. Hans mat er að best sé hafa sem fæst inngrip í náttúrulegt ferli. En í svæsinni flensu geta menn ekki sinnt grunnþörfum sínum og þurfa aðhlynningu og umhyggju. Fisher hefur ásamt samstarfsmönnum búið til námskrá sem nýta má við uppbyggingu samfélagsþjónustu. Þjónustan byggist á tengslum við þá sem viðkomandi treystir og í gegnum þessi tengsl geti skjólstæðingar náð að koma lífi sínu á réttan kjöl.

Marius Romme, hollenskur geðlæknir og rannsakandi, hefur unnið með einstaklinga sem heyra raddir. Hans niðurstaða er sú að það að heyra raddir eigi yfirleitt rætur að rekja í einhvers konar áfall. Viðbrögð einstaklingsins við röddunum geta valdið svokölluðum jákvæðum og/eða neikvæðum sjúkdómseinkennum, sem oftast eru tengd geðklofasjúkdómsgreiningunni. Hvort viðkomandi þrói með sér sjúkdóm eða ekki ræðst bæði af einstaklingsþáttum og umhverfisþáttum Hans tilgáta er sú að það sé ekki heilastarfsemin sem framkalli sjúkdóminn heldur sé hann afleiðing þess að ráða illa við raddirnar. Margir sem heyra raddir tengjast aldrei geðheilbrigðisþjónustu, því þeir ná að höndla þær.

Jaakko Seikkula, finnskur sálfræðingur, hefur nýtt sér svokallaðar opnar samræður í meðhöndlun á geðrofum. Bráðateymi hittir skjólstæðinginn og aðstandendur innan 24 tíma frá því að beiðni um aðstoð berst og með samtölum fæst nýr skilningur á aðstæðum. Fólki í nærumhverfi eins og vinum, vandamönnum eða vinnufélögum býðst einnig að koma á fundina. Litið er á alla í nærumhverfinu sem áhrifavalda á bata og að frá þeim komi oft bestu lausnirnar. Ábyrgðin liggur hjá sama teymi á meðan viðkomandi er hjálparþurfi, sama hvaða þjónusta er nýtt. Litið er á raunveruleikabrest/geðrof sem leið til að ráða við reynslu sem er svo ógnandi að ekki finnast orð yfir. Ofskynjanir; ofsjónir og ofheyrnir, hafa komið í stað orða en í samvinnu eru fundin orð og sameiginlegur skilningur á upplifuninni. Í finnska hlut Lapplands hafa þessar aðferðir verið nýttar og á 10 ára tímabili hefur nýgengi geðklofasjúkdóma fækkað, langtímageðklofasjúklingar eru færri og minni þörf er fyrir bráðarúm og geðrofslyf.

Með þessum örfáu dæmum reyni ég að sýna fram á að það eru til íhlutunarleiðir sem vert er að skoða m.t.t. geðheilbrigðisþjónustunnar.

Til eru leiðir sem oft bera meiri árangur en hefðbundnar lausnir. Stjórnvöld þurfa að veita fleiri nálgunum brautargengi og kunna skil á því í hvaða aðgerðir mestu fjármagni er veitt. Líka verður að endurskoða niðurgreiðslur, hvort lausnir og úrræði sem greitt er fyrir úr sameiginlegum sjóðum séu í takt við nýja geðheilbrigðisstefnu WHO.

Höfundur er meðlimur Hugarafls og lektor við HA.