20. júlí 2006 | Daglegt líf | 387 orð | 3 myndir

* UNDIRFÖT | 90 ára saga færð í nútímabúning í nýrri verslun á nýjum stað

Lífstykkjabúð með sögu og sál

Verslunin var fyrst til húsa í Hafnarstrætinu.
Verslunin var fyrst til húsa í Hafnarstrætinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigrúnu Söndru Ólafsdóttur Á öðrum áratug síðustu aldar var stofnuð nærfataverslun fyrir konur sem átti eftir að reynast ein lífseigasta verslun á landinu.
Eftir Sigrúnu Söndru Ólafsdóttur
Á öðrum áratug síðustu aldar var stofnuð nærfataverslun fyrir konur sem átti eftir að reynast ein lífseigasta verslun á landinu. Það var 1916 að Elísabet Foss, ekkja með tvö börn, setti á stofn Lífstykkjabúðina í Hafnarstræti. Á þessu ári fagnar verslunin því 90 ára afmæli og gerir það með glæsibrag því Lífstykkjabúðin fluttist nýlega í nýtt húsnæði á Laugavegi 82 og fékk hönnuðinn Guðrúnu Lilju Gunnarsdóttur til að hanna allt útlit verslunarinnar.

Núverandi eigandi Lífstykkjabúðarinnar er Guðrún Steingrímsdóttir, sem tók við versluninni árið 1993 af Þóri Skarphéðinssyni. Guðrún hafði lengi verið viðriðin verslunarrekstur og sá þarna gullið tækifæri.

Samhliða versluninni hafði lengi verið starfrækt saumastofa sem sá um að sauma lífstykki, brjóstahöld og mjaðmabelti á íslenskar konur á árum áður og þegar Guðrún tók við búðinni fann hún lager sem var fullur af krækjum, hnöppum, borðum og blúndum sem hafði verið notað í saumaskapinn. Hún var fljót að hafa samband við saumastofur leikhúsanna í bænum og bauð þeim að nálgast þennan fjársjóð, sem þau nýttu sér með mikilli ánægju.

Guðrún segir Elísabetu stofnanda búðarinnar um margt hafa verið merkilega konu og frumkvöðul á sínu sviði og því mikilvægt að saga verslunarinnar sé í heiðri höfð. Til gamans sýnir hún blaðamanni upprunalega skattaskýrslu búðarinnar frá stofnárinu 1916.

Sokkabanda- og blúnduljós

Þegar kom að því að hanna nýja verslun var þess vegna ákveðið að halda tengingunni við söguna og því mikið vísað í korselettin gömlu, sokkaböndin, satínborðana og blúndurnar. Guðrún Lilja, sem á heiðurinn að hönnun nýju verslunarinnar, segist hafa nýtt sér nýjustu tækni í framkvæmdum og hönnun, en líka ákveðið að handgera nokkra hluti. Hún nefnir sem dæmi ljósakrónurnar sem unnar eru úr vír, blúndum, borðum og jafnvel sokkaböndum! Hina einstöku skerma gerði Guðrún Lilja í höndunum og hafði þar að leiðarljósi hin kvenlegu form líkamans og sem og skírskotun í gamaldags nærföt.

Margt hefur hins vegar breyst frá því að saumastofa Lífstykkjabúðarinnar sá um að framleiða undirfatnað fyrir íslenskar konur og er úrvalið og tískan óneitanlega önnur í dag. Nú er allt flutt inn erlendis frá og meiri áhersla lögð á tískustrauma og kynþokkafulla hönnun. Gott starfsfólk stendur hins vegar alltaf fyrir sínu og segist Guðrún alltaf hafa verið heppin í þeim efnum. Núna sé t.d. þriðja kynslóð fjölskyldunnar byrjuð að vinna í búðinni og því mikil reynsla sem búi hér að baki.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.