Frá Laufeyju Bjarnadóttur: "Á LÖNGUFJÖRUM er vinsæl reiðleið sem fjöldi hestamanna nýtur á hverju sumri. Flestir ferðalangar eiga góð samskipti við landeigendur en því miður verður stundum misbrestur þar á."

Á LÖNGUFJÖRUM er vinsæl reiðleið sem fjöldi hestamanna nýtur á hverju sumri. Flestir ferðalangar eiga góð samskipti við landeigendur en því miður verður stundum misbrestur þar á. Á undanförnum árum hafa átt sér stað nokkur leiðinleg atvik á Löngufjörum þar sem góð samskipti við landeigendur ásamt aðgát hefðu getað skipt sköpum. Við urðum vitni að mjög undarlegu háttalagi nú nýverið:

Við urðum vör við ferðahóp á leið suður Löngufjörur. Tók hópurinn með sér nautgripi, alls 26, inn í reksturinn og út á fjörur við Stakkhamarsnes. Stutt var í að sjór félli inn á fjörur og sáum við enga tilburði hjá hópnum að skilja nautgripina frá. Það eina sem við gátum gert í stöðunni til að bjarga nautgripunum var að leggja á hest og ríða ferðahópinn uppi. Nautgripirnir urðu viðskila við ferðahópinn og voru ráðvilltir á miðjum fjörum í bullandi aðfalli. Hér hefði getað farið illa ef ekki hefði sést til ferðahópsins. Nautgripina hefði getað flætt á fjörunum og þeir drukknað sem hefði verið stórskaði fyrir kúabúið. Í þetta sinn var það tilviljun ein að til hópsins sást og hægt var að bjarga nautgripunum áður en illa fór.

Sé vitnað í lög um náttúruvernd nr. 44 frá 22. mars 1999 segir í 13. gr.:

"För um landið og umgengni. Á ferð sinni um landið skulu menn sýna landeiganda og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi, virða hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, þar á meðal skógræktar og landgræðslu, og fylgja leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum varðandi ferð og umgengni um landið."

Af þessu er ljóst að sé þessu fylgt eftir ættu svona atvik ekki að þurfa að eiga sér stað. Þessi grein um náttúruvernd felur í sér almennar kurteisisvenjur í samskiptum manna á milli. Á tímum upplýsingatækni á að vera einfalt mál að leita uppi símanúmer landeigenda ef ferðamenn lenda í vandræðum.

Í þessu tiltekna atviki var um að ræða skipulagðan ferðahóp í atvinnuskyni. Maður skyldi ætla að slíkir ferðahópar sýndu vandaðri vinnubrögð og hefðu samband við landeigendur eins og segir í 22. gr. laga um náttúruvernd:

"Skipulagðar hópferðir. Þegar skipulagðar eru hópferðir í atvinnuskyni um eignarlönd skal hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans."

Við viljum þakka þeim ferðamönnum sem hafa haft samband við landeigendur við skipulagningu ferða sinna og hvetjum við aðra ferðamenn til að gera slíkt hið sama. Við erum ávallt boðin og búin að greiða för þeirra sem vilja njóta þessarar útivistar.

LAUFEY BJARNADÓTTIR,

bóndi á Stakkhamri.

Frá Laufeyju Bjarnadóttur: