8. ágúst 2006 | Fasteignablað | 1007 orð | 8 myndir

Flutti allar plönturnar í nýja garðinn!

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir tveimur árum flutti Steinunn Ólafsdóttir allar sínar plöntur í nýjan garð. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við Steinunni um nýja garðinn og garðyrkjuna, sem hún segir veita mikla ánægju.
Garðurinn við Vogaland 16 er nú orðið augnayndi á rétt röskum tveimur árum.

"Ég flutti hingað veturinn 2004 og þá var hér ekkert nema gras fyrir utan og limgerði og þrjú grenitré," segir Steinunn Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur sem ásamt fólkinu á efri hæðinni á þennan garð sem nú var sérstaklega sýndur í garðaskoðun Rósaklúbbsins.

"Ég fékk leyfi hjá fólkinu á efri hæðinni til að hafa vel rúmlega helming garðsins og teiknaði hann upp og sýndi þeim teikninguna og þau samþykktu að ég mætti breyta þessum hluta garðsins í samræmi við hana en ég sá alfarið um allar framkvæmdir.

Ég hafði áður búið að Efstalandi 22 og átti þar lítinn garð sem tilheyrði minni íbúð sem var á neðstu hæði í 3 hæða blokk rétt við Grímsbæ.

Tók sig til og flutti allar plönturnar í nýja garðinn

En ég tók mig til og flutti allar plönturnar mínar í nýja garðinn. Ég talaði við fólkið sem keypti af mér og setti það skilyrði fyrir sölunni að ég fengi að taka plönturnar mínar, þær eru eins og börnin mín. Þetta var auðsótt mál því konan sem keypti vildi búa til palla í garðinum og henni var alveg sama um allar plöntur.

Sum trén voru orðin stór og þetta var í desember. Það var snöggráðin ákvörðun að flytja, það þótti öllum nokkurt óráð að ég, fullorðin konan, 71 árs, færi að kaupa mér meira en helmingi stærri íbúð og þrisvar sinnum stærri garð. En ég gerði þetta samt, ég hef alltaf gert það sem mig langar til og gegni hvorki Guði né mönnum, eins og sagt er. Börnin mín eru nú sátt við þessa ákvörðun mína núna, nánast himinlifandi.

Plönturnar flutti ég þannig að ég fékk unga stráka úr Iðnskólanum í Hafnarfirði og son minn, sem og einn ágætan garðyrkjumann til að hjálpa mér að taka upp allar plönturnar, setja þær í plastpoka með svolítilli mold og hrúga þeim öllum á stétt sem er hér við nýja húsnæðið mitt. Síðan fékk ég helling af hrossataði og lét moka því yfir á miðja lóð eftir að grasinu hafði verið flett af lóðinni. Síðan fékk ég aðra eins hrúgu af sandi til að létta moldina svolítið. Sandinn notaði ég líka sem undirlag undir stéttar og fékk svo náttúruhellur til að búa stíga úr. Svo teiknaði ég þetta upp því ég er svo sérvitur að mér finnst þetta ekki minn garður nema ég búi hann til sjálf, þetta hef ég gert við hina tvo garðana sem ég hef átt, en þetta er ekki sagt til að gera lítið úr arkitektum þótt ég hafi þennan háttinn á.

Rósirnar þarf að setja um 10 sentímetra niður fyrir ágræðslu

Við vorum svo að bögglast við, ég og strákarnir, ég stóð yfir þeim því ég er ekki hraust, og sagði þeim hvar og hvernig plönturnar ættu að fara niður. "Svona djúpt eigið þið að grafa," sagði ég, einkum hvað varðaði rósirnar því þær þurfa að fara djúpt niður.

Það kláraðist fljótlega skíturinn því ég lét þá setja tvær skóflur í hverja holu svo plönturnar myndu pluma sig. Jarðvegurinn var ekki skemmtilegur, mikið grjót í honum, en það virðist ekki vera verra fyrir rósir, svo skrítið sem það er. Rósirnar þurfa að fara 10 sentímetra niður fyrir ágræðslustaðinn, þetta eru flestar ágræddar rósir.

Við vorum að þessu í öllum veðrum, jafnvel roki og rigningu, bara ekki í frosti, þá þýddi það ekki. En þetta voru indælir drengir og þeir gerðu það sem ég bað um, þeir voru svona fjórir til sex að störfum í einu. Þeir reyndust mér einstaklega vel.

Svo kom vorið og þetta fór að potast upp og þá kom í ljós að allar plönturnar höfðu lifað flutninginn af, þetta var með ólíkindum.

Í fyrrasumar kom þetta ótrúlega vel út og núna í sumar eru plönturnar æ fallegri.

Ég er með 160 rósir í garðinum, svo sem antikrósir og enskar rósir, og auk þess fjöldann allan af allskonar runnum og trjám, líka ávaxtatrjám. Ég er safnari í eðli mínu og sanka að mér öllum þeim plöntum sem ég næ í. Ég hef líka gaman af steinum og fuglum og reyni að hæna þá að mér. Þessi staður er alveg perla, ég er hér rétt fyrir við Elliðaár og skammt frá skógi, trjágróður er mikill hér í kring, það er aðeins einn ágalli, ég er nálægt Bústaðavegi og það er bílahávaði hér, en það kemur ekki niður á plöntunum.

Antikrósir eru sérstakt áhugamál

Fyrsti garðurinn minn var á Langholtsveg 138. Þar bjó ég í 32 ár og ól upp börnin mín fjögur þar. Ég var gift Þorleifi Einarssyni prófessor í jarðfræði, hann er dáinn fyrir nokkrum árum. Hann var ekki áhugamaður um garðyrkju en hann var hjálplegur ef á þurfti að halda og eins fór hann með mér í þá garða sem ég vildi sjá ef við vorum í útlöndum. Við ferðuðumst mikið því hann fór oft á ráðstefnur og þá gat ég lesið mér til um gróðurinn á viðkomandi svæði. Ég man sérstaklega eftir bók eftir Trevor Griffith um antikrósir, sem hafa lengi verið mitt sérstaka áhugamál. Ég var svo heppin að fá skoða garðinn hans á Suðureynni á Nýja-Sjálandi. Hann var yndislegur og það skemmtilega við þetta var að þegar við fórum að tala saman áttum við sameiginlega kunningja, danskan garðyrkjumann sem hafði líka skrifað bók um antikrósir.

Það fylgir garðyrkjunni ánægja og lífsgleði og hennar hef ég notið fram á þennan dag. Það er svo margt skemmtilegt við garðinn, ekki síst þegar koma upp plöntur sem fuglar hafa borið í garðinn, það er alltaf eitthvað óvænt að gerast í garðyrkjunni.

Ég flutti til Reykjavíkur tvítug frá Stykkishólmi, faðir minn var lengstum héraðslæknir úti á landi, seinast var hann í Álafosshéraði. Mér finnst Reykjavík hafa tekið svo miklum stakkaskiptum síðan ég kom hingað að með ólíkindum er. Þar hafa fjölmargir lagt þar hönd á plóg og mikil áhrif finnst mér Jóhann Pálsson hafa haft, hann er fyrrverandi garðyrkjustjóri og er félagi ásamt mér og nærri 50 öðrum í Rósaklúbbnum, formaður klúbbsins er Samson B. Harðarson og er landslagsarkitekt. Hann stofnaði klúbbinn, sem er að verða þriggja ára."

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.