365 ljósvakamiðlar, Ísland í bítið og Bylgjan, í samvinnu við Íþróttasamband fatlaðra, stóðu fyrir fimm daga söfnunarátaki í júní 2005. Markmiðið var að safna fyrir kaupum á útivistarhjólastólum fyrir hreyfihamlaða sem nýlega voru komnir á markað.

365 ljósvakamiðlar, Ísland í bítið og Bylgjan, í samvinnu við Íþróttasamband fatlaðra, stóðu fyrir fimm daga söfnunarátaki í júní 2005. Markmiðið var að safna fyrir kaupum á útivistarhjólastólum fyrir hreyfihamlaða sem nýlega voru komnir á markað.

Alls söfnuðust um tvær milljónir króna sem runnu óskertar til kaupa á stólunum. Samningar náðust við framleiðanda stólsins í Bandaríkjunum Paul Speight og ellefu stólar voru pantaðir til landsins. Sérhannaður útivistarstóll eða skíðasleði fyrir hreyfihamlaða kostar um 200.000 kr. Stólarnir komu til landsins í ársbyrjun 2006. Íþróttasamband fatlaðra óskaði eftir niðurfellingu aðflutningsgjalda en því var hafnað með tilvísun til laga og reglugerða. Þar kom m.a. fram að ekki var talið að endurhæfingarstarf væri unnið á vegum ÍF auk þess sem ÍF var ekki skráð á lista yfir þá sem eiga að njóta undanþágu samkvæmt yfirliti í tollalögum. Málið var kært og endurunnið m.t.t. laga og reglugerða, formlegir eigendur stólanna voru staðfestir og þeir munu skipa umsjónaraðila á hverju svæði.

Niðurfelling gjalda var staðfest í júlí og fallið var frá kæru í málinu skv. beiðni. Stólarnir hafa verið sendir út á land en eigendur á höfuðborgarsvæðinu fá stólana til umráða að loknu Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík óskaði eftir stólunum í maraþonið vegna hreyfihamlaðra félagsmanna.

Íþróttasamband fatlaðra mun fylgja því eftir að lög og reglugerðir varðandi innflutning slíkra tækja verði endurskoðuð og skilgreind nánar. Skorað er á þingmenn og ráðherra að stuðla að endurskoðun á þessum málum, segir í fréttatilkynningu frá Íþróttasambandi fatlaðra.