Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar um geðheilbrigðismál: "Sjúkdómsgreiningin á ekki að vera í forgrunni, heldur þarfir hvers og eins."

RÍKISSTJÓRNIN hefur tilkynnt að á næstu þremur árum verði varið töluverðu fé til búsetuúrræða og starfsendurhæfingar fyrir geðsjúka. Niðurstöður notendarannsókna/batarannsókna sýna að tryggja þurfi fjárhag og búsetu geðsjúkra. Niðurstöður sýna líka fram á mikilvægi aðgengis að félagslífi með þátttöku í atvinnulífi, menningu og/eða áhugamálum. Byggja þarf upp öflugt tengslanet í nærumhverfi og að viðkomandi sé í nánum tengslum við einhvern. Hægt er að koma í veg fyrir óþarfa þjáningar eins og nauðungarvistun eða bráðainnlögn ef skjólstæðingur er í góðum tengslum við fagaðila eða þjónustufulltrúa sem hann treystir; einstakling sem er tiltækur þegar hinn geðsjúki þarf á að halda.

Í tengslum við þjónustu við geðsjúka hefur bærinn Trieste á Ítalíu vakið athygli víða um heim. Þar var sjúkrahúsþjónustan lögð niður. Í Trieste hefur sjálfsvígum fækkað um 30% á 20 árum, kostnaður við bráðaþjónustu minnkað um 65% og engin bið er eftir þjónustu. Giuseppe Dell'Acqua, ítalskur geðlæknir sem tekið hefur þátt í þessum breytingum, ráðleggur öllum þeim sem taka ákvarðanir um geðheilbrigðismál að leggja niður sjúkrahússtofnanir sem allra fyrst. Hans skoðun er að sjúkrahúsin framleiði sjúklinga og viðhaldi fordómum. Mikilvægasta aðstoð við geðsjúka sé að sníða stuðningsnet í kringum þá og fjölskylduna á heimavelli. Það sem eigi að vera í forgrunni í allri vinnu með geðsjúkum sé fjölskyldan, búsetan, atvinnumálin og samfellan í þjónustunni. Sjúkdómsgreiningin á ekki að vera í forgrunni, heldur þarfir hvers og eins. Hans skoðun er sú að innan sjúkrahúsveggjanna geti fagfólk aldrei áttað sig á þörfum hins geðsjúka. Menn verði að vera í umhverfi skjólstæðingsins til að átta sig á ástandinu. Það er mat Dell'Acqua að ekki sé hægt að nýta samhliða hugmyndafræði sjúkrastofnana og aðferðir einstaklingsmiðaðrar þjónustu. Hægt sé að reka þessar þjónustuleiðir samhliða meðan verið sé að byggja upp samfélagsþjónustuna, en til lengri tíma hindri þær hvor aðra. Reynsla hans er sú að mótstaða gegn breytingum komi fyrst og fremst frá starfsfólki sjúkrahúsanna, því miklir hagsmunir séu í húfi, persónulegir, fjárhagslegir og dreifing valds og áhrifa. Hans álit er að það sé hrein og bein geðveiki að halda þessum stofnunum gangandi.

Einstaklingsmiðuð þjónusta felur í sér breytingar á vinnutilhögun, forræðisvaldi og verðmætamati. Ákvörðunartökur verða gerðar í nærumhverfi skjólstæðingsins með þeim aðilum sem hann umgengst og tengist mest. Fagfólk hefur alist upp og menntað sig samkvæmt ákveðinni hugmyndafræði sem notendarannsóknir/batarannsóknir hafa síðar ögrað. Mikil nálægð við skjólstæðinga getur verið óþægileg og strítt gegn því sem heilbrigðisstarfsmönnum hefur verið kennt, m.a. um túlkun faglegra vinnubragða. Einstaklingsnálgun í geðheilbrigðisþjónustu felur í sér að hún sé veitt sem mest í nærumhverfi, þ.e. inni á heimilinu, í skólunum og á vinnustöðum. Lausnir eru fundnar í samráði við skjólstæðinginn með það að leiðarljósi sem hann álítur og trúir að nýtist til bata. Fagfólk hefur líka átt í erfiðleikum með að vinna þvert á kerfin; vill helst vera á ákveðnum stað þar sem skjólstæðingurinn kemur til þeirra. Í stað þess að skjólstæðingur þurfi að fara á milli staða þar sem fagfólk er hvert með sína hugmyndafræði, þarf fagfólkið að fylgja skjólstæðingnum eftir miðað við þeirra áherslur, til að halda samfellu og heildrænni sýn í aðstoðinni. Nú er það oftast þannig að skjólstæðingum er boðin sérhæfð meðferðaráætlun sem fagfólk hefur sett saman miðað við meðalþörfina en ekki að meðferð sé sérsniðin fyrir þarfir einstaklingsins.

Hvað hafa geðsjúkir fram að færa varðandi eigin málaflokk? Bylting í bata er ráðstefna sem haldin verður á vegum Hugarafls á Hótel Sögu dagana 24. og 25. ágúst. Aðalfyrirlesari er Judi Chamberlin sem greindist með geðklofasjúkdóm fyrir nokkrum áratugum en hefur síðan barist fyrir breyttum áherslum í geðheilbrigðisþjónustunni. Judi hefur verið virk í hagsmunabaráttu geðsjúkra í Bandaríkjunum, gerst fræði- og rannsóknarmaður og byggt upp ný þjónustuúrræði þar sem notendasýn hefur verið í forgrunni. Opinn borgarafundur verður í lok ráðstefnunnar, milli klukkan 14.30 og 17, hinn 25. ágúst. Ég hvet stjórnvöld, fjölmiðlafólk, notendur, fagfólk og almenning að mæta a.m.k. á opna borgarafundinn til að halda áfram umræðunni um geðheilbrigðismál. Hvernig sjáum við geðheilbrigðisþjónustuna þróast hér heima næsta áratug og hvernig tengjast búsetuúrræði og starfsendurhæfing þeirri þróun? Það verður ekki nóg að setja fjármagn í búsetuúrræði og starfsendurhæfingu ef sleppa á að ræða hvers konar hugmyndafræði og stjórnskipulag á að stýra ferðinni. Í mörgum löndum hafa hugmyndafræðilegar áherslur í vinnu með geðsjúkum tekið breytingum. Geðsjúkir sem náð hafa tökum á lífinu eins og Judi Chamberlin hafa verið í framvarðasveit við að benda á brotalamir í uppbyggingu og stjórnun geðheilbrigðisþjónustunnar. Forræðið er að færast nær notendunum sjálfum. Fólk með geðræn vandamál þarf svo sannarlega á aðstoð að halda, en kannski skilvirkari en áður.

Höfundur er meðlimur Hugarafls og lektor við HA.