25. ágúst 2006 | Minningargreinar | 6697 orð | 1 mynd

Agnar Þórðarson

Agnar Þórðarson fæddist í Reykjavík 11. september 1917. Hann lést á Landspítala - háskólasjúkrahúsi 12. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru Þórður Sveinsson, prófessor og yfirlæknir á Kleppi, f. á Geithömrum í Svínadal 20.12. 1874, d. 21.11. 1946, og Ellen Sveinsson, f. Kaaber, húsmóðir, f. í Kaupmannahöfn 9.9. 1888, d. 24.12. 1974. Systkini Agnars eru: Hörður, lögfræðingur og sparisjóðsstjóri, f. 11.12. 1909, d. 6.12. 1975, Úlfar, augnlæknir, f. 2.8. 1911, d. 28.2. 2002, Sveinn, eðlisfræðingur og fyrrv. skólameistari, f. 10.1. 1913, Nína, húsmóðir, f. 27.1. 1915, d. 25.7. 2004, Gunnlaugur, lögfræðingur, f. 14.4. 1919, d. 20.5. 1998, og Sverrir, blaðamaður, f. 29.3. 1922.

Eiginkona Agnars er Hildigunnur Hjálmarsdóttir, f. 20.3. 1920. Foreldrar hennar voru Hjálmar Sigurðsson kaupmaður og útgerðarmaður, f. 6.6. 1869, d. 11.12. 1919, og Soffía Emelía Gunnarsdóttir, f. 2.7. 1893, d. 9.1. 1989. Synir þeirra Agnars og Hildigunnar eru: a) Uggi Þórður, lyf- og hjartasjúkdómalæknir, f. 19.11. 1949, kvæntur Margréti Guðnadóttur. Börn þeirra eru Ísold, Úlfur og Embla. b) Úlfur, barnalæknir, f. 2.2. 1952, kvæntur Ástu Gunnlaugu Briem. Börn þeirra eru Darri, Gunnlaugur, Hildigunnur og Agnar Þórður. c) Sveinn, hagfræðingur og sagnfræðingur, f. 22.12. 1958, kvæntur Gunnhildi Björnsdóttur.

Agnar ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá MR 1937 og cand.mag.-prófi í íslenskum fræðum frá HÍ 1945. Hann sótti sumarnámskeið fyrir erlenda stúdenta við Oxford-háskóla og framhaldsnám í bókmenntum við Oxford- og Yale-háskóla og flutti fyrirlestra víða um Bandaríkin. Agnar var bókavörður við Landsbókasafnið 1946-1947 og 1953-1987. Hann starfaði við BBC í Reykjavík 1941-1943 og við BBC og Ministry of Information í London 1942 og kenndi útlendingum íslensku við ýmis erlend sendiráð í Reykjavík. Agnar hlaut úthlutun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins 1963 og námsstyrki frá Fulbright og British Council. Að auki var honum boðið til Sovétríkjanna 1956 og 1970.

Agnar var afkastamikið leikritaskáld, bæði fyrir svið og útvarp og sjónvarp. Meðal sviðsverka hans má nefna Þeir koma í haust, Kjarnorka og kvenhylli, Gauksklukkan, Spretthlauparinn, Sannleikur í gifsi og Lausnargjaldið, auk einþáttunganna Kona og Sandur. Fjögur leikrit voru sýnd í sjónvarpi: Baráttusætið, 65. grein lögreglusamþykktar, Með lof og prís og Sesselía. Á árunum 1953-1988 voru flutt 19 útvarpsleikrit eftir Agnar, auk framhaldsleikritanna Víxlar með afföllum, Ekið fyrir stapann og Hæstráðandi til sjós og lands. Þá skrifaði Agnar skáldsögurnar Haninn galar tvisvar, Ef sverð þitt er stutt, Hjartað í borði, Kallaður heim og Stefnumótið, auk smásagnasafnsins Sáð í Sandinn, ferðabókarinnar Kallað í Kremlarmúr og endurminningabókanna Í vagni tímans og Í leiftri daganna, sem og kafla í bókina Faðir minn læknirinn. Nokkur leikrita hans voru einnig gefin út á bók. Verk eftir Agnar hafa verið þýdd og gefin út á ensku og pólsku.

Útför Agnars verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Það eru liðin 34 ár frá því að Agnar tengdafaðir minn bauð mig velkomna í fjölskylduna.

Frá þeirri stundu vorum við Agnar vinir og aldrei bar skugga á þann vinskap. Mér fannst Agnar umfram allt skemmtilegur maður, fordómalaus og frjálslyndur.

Brennandi áhugi hans á mönnum og málefnum líðandi stundar entist honum fram í andlát. Hann var óvenju hávaxinn, fallega bersköllóttur og bar sig vel. Mér fannst hann alltaf flottur. Hann setti svip á bæinn. Var einn af karakterum miðbæjar Reykjavíkur.

Hann bjó með fjölskyldu sinni í Suðurgötu, hitti bóhema og skáld í morgunkaffi á Skálanum þar sem leitað var svara við lífsgátunni, áður en hann hélt til starfa sinna dag hvern á Landsbókasafninu. Milli staða gekk hann, alltaf óháður bíl.

Á sjö ára tímabili okkar fjölskyldunnar erlendis á níunda áratugnum, kom Agnar tengdafaðir minn margsinnis í heimsókn og dvaldist þá oft lengi. Hann var alla tíð duglegur að ferðast og þá oftast einn síns liðs. Veðrið skipti hann þá höfuð máli, sagðist hafa séð nægju sína af söfnum og höllum, og ekki var búðarrápið að tefja hann.

Veðrið, áhugavert fólk og það að "komast í gang" var það sem skipti hann öllu máli í ferðum hans. Með orðunum "að komast í gang" átti hann að sjálfsögðu við ritstörfin, því í ferðalögum sínum um heiminn var Agnar ætíð með ramma að ritverki, ferðasögu, leikriti eða endurgerð eldri verka. Við höfðum góðan skilning á hvors annars sköpunarþörf og fundum fyrir þeirri miklu vellíðan þegar við "komumst í gang". Skemmtilegt minningarbrot af því þegar Agnar heimsótti okkur, sem oftar, til Bandaríkjanna. Það er júlímánuður, við tvö nýbúin að fá okkur hádegissnarl, Agnar einmitt "kominn í gang" og líður vel. Agnar sóldýrkandinn situr úti í garði í 35 stiga hita, ber að ofan, við lítið borð sem við höfðum komið fyrir í miðjum garðinum (því ekki kærði hann sig um skuggann) með gamla ritvél fyrir framan sig, og vinnur við ritsmíðar. Þetta var auðvitað fyrir tíma tölvunnar. Nágrönnunum þótti þetta sjálfsagt kúnstugt háttalag í hitastigi sem Bandaríkjamenn reyna fyrir alla muni að forðast með því að halda sig innandyra í loftkældum húsakynnum.

En Agnari þótti sólin aldrei of skær. Um nágrennið barst ómurinn frá ritvélinni. Notalegt pikkið.

Agnars hinsta ferð út fyrir bæinn var dagsferð í sumarbústað okkar í Skorradal fyrir rétt mánuði. Þrátt fyrir þróttleysi naut hann dagsins í faðmi fjölskyldunnar, og sólin skein.

Með sárum söknuði en jafnframt þakklæti kveð ég tengdaföður minn í dag. Þakklát fyrir langa samveru og góðar stundir.

Margrét Guðnadóttir.

Lífsgleði, lífsþróttur og ótrúlegur lífsvilji einkenndu tengdaföður minn, Agnar Þórðarson, sem ég kveð nú hinstu kveðju. Engan þekki ég sem hafði eins mikinn áhuga á lífinu og mannlegu eðli og kunni hann bæði að njóta lífsins og fjalla um það í ræðu og riti.

Agnar ólst upp á fjölmennu menningarheimili á Kleppi hjá danskri móður og húnvetnskum bóndasyninum og yfirlækninum, föður sínum, innan um litríka einstaklinga, systkini sín sem og sjúklingana. Strax í barnæsku sá hann fjölbreytileika mannlífsins og á Kleppi urðu til margar skemmtilegar frásagnir - sannar og örlítið ýktar sem við höfum skemmt okkur við að hlusta á og lesa um.

Agnar naut þess að ferðast - helst í sólina, sitja á kaffihúsum og leggja drög að nýjum frásögnum. Hann vildi fara ótroðnar slóðir og forðaðist frekar hefðbundna ferðamannastaði. Hann var svo lánsamur að eignast lífsförunaut sem studdi hann og hvatti og taldi Hildigunnur, kona hans, ekki eftir sér að sjá um heimili og synina þrjá þegar Agnari gáfust tækifæri til dvalar erlendis, sem styrkþegi eða á öðrum forsendum svo sem við fyrirlestrahald.

Tengdapabbi var mjög fjölhæfur, óútreiknanlegur og óendanlega skemmtilegur maður. Mikill mannvinur og pælari, heimsborgari og fagurkeri sem var alltaf flottur í tauinu. Hann ræktaði garðinn sinn; kom til furum og öðrum trjám á berum gróðursnauðum klöppum og umbreytti þeim í skóg. Hann hafði góðan húmor eins og mörg verka hans bera með sér og líka fyrir sjálfum sér og gat hlegið með okkur þegar sagðar voru sögurnar um "Agnar og Moskóvitsinn" - frásagnir af Agnari á fyrsta bílnum sínum þegar hann fékk loks bílpróf um miðjan aldur. Eins og fjölskylda og vinir þekkja eru þær lyginni líkastar en þannig var líf hans oft á tíðum.

Sundið og göngur héldu Agnari eins frískum og hressum og hægt var að búast við þegar fyrsta banalega hans var um tvítugt. Hann sannaði að lífslöngun getur verið öllum læknisfræðilegum rökum yfirsterkari. Agnar var sólarmegin í lífinu, eignaðist ástríka fjölskyldu sem hann lagði mikið á sig til að vera með sem lengst. Nú er komið að leiðarlokum og vil ég þakka fyrir mig.

Ásta G. Briem.

Agnar afi minn var góðhjartaður, skilningsríkur, skapgóður og ljúfur afi.

Aldrei sá ég hann æsa sig eðs skipta skapi.

Hann var aftur á móti metnaðarfullur fyrir hönd okkar systkinanna, hvatti okkur og fræddi. Hann hafði ávallt áhuga á því sem við vorum að gera. Honum fannst mikilvægt að ég yrði "heimsmaður". Sjálfur var hann góð fyrirmynd sem skoðaði sig um í heiminum og kynntist ýmsu.

Þegar ég var lítill snáði bjó ég í Bandaríkjunum með fjölskyldu minni. Agnar afi minn kom í heimsókn og hvatti mig til að skrifa og lesa.

Hann samdi við mig um að fyrir hvert bréf sem ég skrifaði honum fengi ég 1 dollar.

Ég taldi mig aldeilis hafa dottið í lukkupott og gæti efnast vel á að skrifa honum endalaus bréf. Agnar afi minn átti kofa uppi í "Landi" við Helluvatn , þar sem hann naut sín svo vel við að gróðursetja tré og njóta náttúrunnar. Þangað fórum við oft þegar við komum í heimsókn til Íslands á sumrin. Þar var lítill ævintýraheimur.

Seinna þegar ég eltist leyfði hann mér að keyra bílinn sinn áður en ég fékk bílpróf.

Það var sannarlega þess virði að dvelja daglangt í kofanum hjá afa þegar í boði var að gerast ökumaður um stund. Ég mun sakna afa míns.

Úlfur Uggason.

Elsku afi minn, nú ertu farinn frá okkur og það eina sem við eigum eru minningar um þig, margar stórskemmtilegar. Þó að ég sé ein af yngri barnabörnunum og muni kannski ekki eftir þér þegar þú varst sem hressastur eru minningarnar samt fjölmargar.

Það var alltaf svo mikið að gerast hjá þér - alveg sama hvort þú hafðir heilsu til þess eður ei. Stundum fannst manni þetta örlítið klikkað sem þið amma ætluðuð ykkur að gera, en einhvern veginn gekk þetta samt alltaf upp hjá ykkur.

Einu sinni til dæmis - ætli það hafi ekki verið um miðjan 10. áratuginn tókuð þið amma ykkur til og skelltuð ykkur til Parísar! Á meðan flestir á ykkar aldri fóru í hópferðir fyrir eldri borgara til Spánar og Kanarí, var það eitthvað sem hentaði ykkur ekki. Ferðin ykkar heppnaðist vel og þið enduðuð á því að kaupa á ykkur alklæðnað! Sólin var ekki fyrr farin að skína þegar þig var farið að langa upp í "Land", til að liggja í sólinni og drekka te. Ég hef ennþá í fersku minni, myndina af þér liggjandi í lautinni á brúnköflóttri pullu úr litla kofanum. Þú varst alltaf svo mikill sóldýrkandi.

Þú varst líka allt öðruvísi en allir aðrir afar. Á laugardagsmorgnum þegar flestir voru heima eða á leiðinni út úr bænum varst þú á leiðinni niður á Kaffi París í brunch með öllum hinum listamönnunum og skáldunum að tala um heimsmálin.

Og þú hafðir alltaf svo mikinn áhuga á því sem aðrir voru að gera. Þótt þú gjarnan ruglaðist á því hvor okkar Hildí var í MR og hvor í Verzló, gast þú alltaf munað hvað það var gaman að vera ungur og minntist ætíð á það.

Þér fannst líka svo skemmtilegt að rifja eitthvað upp sem við sögðum við þig þegar við vorum lítil og varla farin að tala, og oft gat það verið ansi skrautlegt. En þú hafðir ávallt húmor fyrir því og mundir það sem ekki allir aðrir myndu muna. Þú hafðir svo mikinn áhuga á fólki og hvernig það hugsaði og talaði.

Þú varst heimsborgari í hæsta gæðaflokki og ég á eftir að sakna þín mikið.

Ég kveð þig með sorg í hjarta en þó létti því ég veit að þér líður vel þar sem þú ert núna.

Þín

Embla.

Hann Agnar afi minn er látinn. Skrýtið. Maður veit að þessi dagur muni óhjákvæmilega renna upp hjá öllum, en þegar hann svo kemur, er maður aldrei reiðubúinn.

Agnars afa minnist ég sem víðsýns heimsborgara, gjarnan sitjandi við skriftir eða hlustandi á BBC.

Hann stóð vart fyrir veislu án þess að bjóða að minnsta kosti nokkrum útlendingum. Hann átti fjölda erlendra vina hérlendis og erlendis sem hann ræktaði kynnin við í gegnum árin. Á tímabili átti hann í góðu sambandi við víetnamska stórfjölskyldu sem hann veitti stuðning og aðstoðaði við að fóta sig í landinu. Ég minnist þess að hann hafi hvatt mig og bróður minn til kynnast krökkunum í þeirri ágætu fjölskyldu, enda mannvinur mikill.

Hitt var annað mál að í öllum þessum veislum og matarboðum var matvendni barna ekki hátt skrifuð. Ef maður gerði sig líklegan til að neita að borða rauðkál var viðkvæðið "Hvað, ertu ekki heimskona? Borðarðu ekki rauðkál?" Síður vildi ég, ellefu ára gamalt barnið, vera smáborgari og hef ég því borðað rauðkál með góðri lyst alla daga síðan.

Það þótti einnig þroskamerki að borða rjúpu. Sem 12 ára barn sem þekkti aðeins jól með hangikjöti (sem var sent til okkar fjölskyldunnar í Ameríku) var ekki átakalítið að pína í sig rjúpur allt í einu þegar til Íslands var komið. En af því að ég vildi ganga í augun á afa mínum lét ég mig hafa það, og uppskar að sjálfsögðu virðingu og lof fyrir þennan nýfundna heimskonuhátt.

Afi minn fylgdist ekki aðeins með því sem sett var á diskinn minn heldur hafði hann brennandi áhuga á öllu því sem ég tók mér fyrir hendur. Sem grunnskólabarn í Ameríku á níunda áratugnum hvatti hann mig til að skrifast á við sig reglulega og fékk ég dollar fyrir hvert skrifað bréf. Ekki það að þyrfti endilega að múta manni, þá var þetta engu að síður hin besta hvatning til skrifa.

Á næsta árutug á eftir var ég komin í Menntaskólann í Reykjavík og var þá siður hjá vinkvennahópi mínum að leggjast í lestur á Landsbókasafninu yfir prófatíma. Fjöldi annarra menntaskælinga sótti þangað í sömu erindagjörðum og var þá baráttan við að fá sæti gríðarleg. (þetta var auðvitað fyrir tíma Þjóðarbókhlöðunnar) Sem barnabarn Agnars afa, fyrrum Landsbókavarðar, þurfti ég hins vegar litlar áhyggjur að hafa og tók ég, 16 ára unglingsstúlkan, fegin við fráteknu "VIP" sæti við hlið þekktra grúskara og spekúlanta bæjarins á annars yfirfullu og þéttsetnu Landsbókasafni. Það kom sér sannarlega vel að eiga góðan að.

Hin síðari ár hefur Agnar afi reglulega spurt mig frétta af New York og stutt öll mín verkefni heils hugar. Það var alltaf svo upplífgandi að skynja áhuga hans á því sem maður tók sér fyrir hendur. Einnig hafði hann áhuga fyrir því sem allir mínir vinir og vinkonur voru að fást við. Hann hafði einfaldlega áhuga á lífinu, og öllu sem því viðkom.

Ég minntist samtals við hann á síðasta ári þar sem hann tjáði mér að þegar allt kæmi til alls væri fjölskyldan það eina sem raunverulega skipti hann máli.

Heimskonuháttur, rauðkál og rjúpur giltu einu, þegar öllu var á botninn hvolft snérist lífið um vináttu- og fjölskyldubönd.

Með virðingu, þakklæti, söknuði og sorg kveð ég elskulegan afa minn í hinsta sinn.

Agnari afa gleymi ég aldrei.

Ísold Uggadóttir.

Útvarpið er stillt á BBC. Suð, brak og brestir drekkja á köflum rödd Alistair Cooke sem les nýjasta Ameríkubréfið sitt; umheimurinn verður einungis meðtekinn um stuttbylgju á þessum árum. Húsbóndinn, hávaxinn, tágrannur maður, situr í stól (sem er næstum því ábyggilega grænn) og leggur við hlustir. Bækur og útlend dagblöð liggja á borðinu.

Í borðstofunni verður senn drukkið te en í svefnherberginu Suðurgötumegin leika drengir sér að tindátum eða ef til vill járnbrautarlestum, leikföngum sem eru flestum Íslendingum jafn framandi nú og á sjöunda áratugnum. Þær voru keyptar í Skotlandi þar sem synirnir hafa dvalið hjá hefðarfjölskyldu sem býr í kastala. Þvílík forréttindi!

Í kjallaranum er ýmislegt brallað og í bakgarðinum skjóta strákarnir í mark úr loftriffli. Þetta er enda áður en allt varð hættulegt á Íslandi.

Þannig man ég heimili Agnars, föðurbróður míns, og Hildigunnar, konu hans, á Suðurgötu 13 í Reykjavík. Þar bjuggu og þrír prýðilega uppátækjasamir synir þeirra og síðast en ekki síst Soffía Gunnarsdóttir, móðir Hildigunnar, hófstillt og sérlega yfirveguð kona, glæsilegur fulltrúi menningar og gilda sem Íslendingar hafa nú sagt skilið við.

Erlendir sem íslenskir menningarstraumar léku jafnan um heimili þeirra Hildigunnar og Agnars í Suðurgötunni og síðar í Sólheimum. Menningin sem þar ríkti var hvorki tilbúin né upphafin. Hún mótaðist af lífsgleði og raunverulegum, lifandi, áhuga. Agnar var líkt og Hildigunnur áhugasamur um erlend málefni og ræddi útlenda samfélagsþróun og pólitík af mikilli þekkingu. Hann hafði enda víða farið og fylgdist grannt með rás atburða á stærri leiksviðum en hinu íslenska.

Þróunin í kommúnistaríkjum Mið- og Austur-Evrópu var honum hugleikin og ekki minnkaði áhuginn við fall Berlínarmúrsins. Agnar hafði ungur hneigst til "róttækni" eins og það hét í þá daga án þess þó að flokkshollusta næði tökum á hugsun hans. Til þess var hann of analýtískur og greindur maður. Agnar fór ásamt fleirum í fræga för til Sovétríkjanna árið 1956 og samtöl sem birt voru við hann og Stein Steinar þegar heim var komið vöktu mikla athygli. Þeir voru lítt hrifnir af því sem fyrir augu bar í því mikla sæluríki sem svo margir höfðu upphafið á Íslandi. Um þessa ferð skrifaði Agnar síðar stórskemmtilega bók, "Kallað í Kremlarmúr" (1978), sem áhugamenn um stjórnmál og hugmyndasögu láta ekki framhjá sér fara.

Styrkur Agnars sem leikskálds lá trúlega í samtölum. Hann var enda maður samtala, félagslyndur eins og hann átti kyn til, og hafði mikla nautn af því að umgangast fólk sem hafði frá einhverju að segja. Sjálfur var hann húmoristi og góður sögumaður. Agnar hafði mikið yndi af ferðalögum og var maður borgarmenningar, bókasafna og kaffihúsa. Jafnframt naut hann útiveru og engan mann hef ég hitt sem haft hefur viðlíka unun af þeim fáu sólardögum sem sumarið færir Íslendingum.

Agnar var afkastamikill höfundur. Eftir hann liggja rúmlega 30 lengri verk, leikrit fyrir svið, sjónvarp og útvarp og skáldsögur, auk smásagnasafns, ferðabókar og endurminningabóka. Leikrit hans nutu mörg hver mikilla vinsælda. Skáldsaga hans, "Hjartað í borði", var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Og hann átti metsölubók í Póllandi! Þrátt fyrir litla sjón hélt hann áfram skriftum fram á síðustu ár, tölvan kom þar til hjálpar en mestu skipti þó seiglan sem var honum eðlislæg.

Erfið veikindi í æsku mótuðu allt líf Agnars. Hans langa ævi fer raunar nærri því að geta talist kraftaverk. Þótt sverðið væri stutt hélt hann ávallt ótrauður áfram. Hann var baráttumaður, knúinn áfram af óslökkvanlegum lífsþorsta, sem veitti honum krafta langt umfram það sem ætla hefði mátt. Reynsla Agnars í æsku hefur ef til vill fært honum ákveðinn stóisma gagnvart sjálfum sér og umhverfinu en hagur og velgengni afkomendanna var honum jafnan ofarlega í huga. Hann var stoltur af sonum sínum og barnabörnum og það með réttu. Í huga ættmenna og vina voru Agnar og Hildigunnur eitt. Hildigunnur var hin mikla gæfa Agnars í lífinu. Til hinsta dags Agnars vakti hún yfir velferð hans af einstakri ástúð og trúmennsku; sennilega ber að þakka að fjölmiðlar framleiði "hetjur" eins og hvern annan neysluvarning því ella fengju hinar raunverulegu athygli sem þær kæra sig ekki um.

Agnar Þórðarson lagði langa leið að baki í vagni tímans. Nú er því ferðalagi lokið og fyrir liggur að hann var farsæll maður.

Hafi hann góða þökk fyrir allt.

Ásgeir Sverrisson.

Agnar Þórðarson móðurbróðir minn er látinn. Hann hafði verið heilsuveill um langt skeið, en þó að hann nálgaðist 89 árin var lífsviljinn óbugaður. Agnar var einn af sex bræðrum móður minnar, allir miklir karakterar en þó hver með sínu sniði. Þetta var samheldinn systkinahópur, þau hittust m.a. á hverjum miðvikudegi í "eftirmiddagskaffi" hjá ömmu Ellen. Hluti af mínum bernskuminningum er af mömmu hlaupandi í strætó til að hugsa um kaffið. Það var ávallt skemmtilegt þegar móðurbræður mínir komu í heimsókn. Ég minnist þess þegar veislur voru haldnar, hvað mér fannst þeir bera með sér smitandi gleði. Þegar þeir voru mættir var gaman. Agnar hafði yfirbragð heimsborgarans, hávaxinn, í Burberrys-frakka og sérsaumuðum fötum, með sama hárafar og Hollywood-leikarinn Yul Brynner. Hann sagði skemmtilega frá, enda rithöfundur og hafði frá mörgu að segja. Oft voru rifjaðir upp þeir tímar þegar fjölskyldan bjó á Kleppi og ekki síður sagðar sögur af Sissa sem var hjálparhella ömmu Ellenar. Sérstaklega minnist ég sögunnar af því þegar þau mamma voru börn og hún tróð Agnari inn í lítinn dúfnakofa.

Náið samband hefur alla tíð verið milli fjölskyldna mömmu og Agnars og ég leit nánast á syni Agnars og Hildigunnar sem bræður mína. Margar minningar eru frá samverustundum fjölskyldnanna, hvort heldur í Suðurgötu, Sólheimum, á Sundlaugavegi, eða heimilum afkomendanna.

Agnar var mikill sóldýrkandi og margar sögur sagði hann af því þegar þeir Ólafur smiður byggðu lítið sumarafdrep við Helluvatn. Þar varð síðan mikill sælureitur, sem á mínu heimili gengur enn undir nafninu "Agnarssveit". Þangað var gaman að skreppa í sól og góðan félagsskap. Oft var teppi útbreitt í lautinni, kaffi á brúsa, bakkelsi á fleygiferð og fólk í hrókasamræðum. Í endurminningunni er Agnar þar ber að ofan, sólbrúnn og alsæll. Þannig mun ég muna frænda minn.

Ég þakka Agnari frænda mínum samfylgdina og sendi Hildigunni, Ugga, Úlla, Sveini og fjölskyldum þeirra samúðarkveðjur.

Kristín Halla Traustadóttir.

Það kom mér kannski ekki á óvart að frétta lát Agnars frænda míns, því ég vissi að heilsu hans hafði hrakað nokkuð í seinni tíð. Mig langar til með örfáum orðum að þakka honum samfylgdina og vináttuna allt frá bernskuárum okkar.

Það var rúmt ár á milli okkar og í heimsóknum í læknishúsið á Kleppi var alltaf mikil gleði ríkjandi. Þar var okkur opið frelsi til útileikja og náttúruskoðunar upp um holt og hæðir, niður í fjöru og um víðan völl athafna sem við í Skuggahverfi Reykjavíkur áttum annars ekki kost á.

Okkur Agnari kom alltaf einstaklega vel saman og þótt við færum sitt hvora leiðina á okkar uppvaxtar- og skólaárum slitnuðu tengslin aldrei.

Ég tel Agnar hafa verið mikinn gæfumann. Hann eignaðist einstaklega góða og bráðgreinda konu, Hildigunni Hjálmarsdóttur sem alltaf stóð við hlið hans sem sá klettur sem hægt var að treysta á. Þrjá syni eignuðust þau, Ugga, Úlf og Svein - tvo lækna og einn viðskiptafræðing.

Agnar skildi eftir sig fjársjóð ritaðra verka, skáldsögur, leikrit, ferðasögur og greinar um hin margvíslegustu efni, allri þjóðinni til skemmtunar og fróðleiks. Ég man varla eftir honum öðruvísi en með blað í annarri hendi og blýant í hinni. Hann átti frásagnargáfuna og þessa yndislegu kímni sem fylgdi þeim Klepps-systkinum öllum. Hann skilaði miklu dagsverki. Hafi hann þökk fyrir.

Ég votta Hildigunni og sonum þeirra innilega samúð.

Nanna frænka.

Agnar föðurbróðir minn var sterkur persónuleiki og verður ekki lýst í fáum orðum. Í mínum huga var hann alltaf nokkuð sér á parti eða eins og Úlfar bróðir hans orðaði það svo léttilega ,,séreinkennilegur" þ.e.a.s. sérstakur, sérvitur og sérkennilegur, allt í jákvæðri og víðri merkingu orðsins. Og vissulega var Agnar sprottinn úr sérstökum jarðvegi og bar þess merki. Það hefur án efa einnig átt sinn þátt í að móta hann sem rithöfund.

Agnar var fæddur að Kleppi. Foreldrar hans voru hjónin Þórður Sveinsson og Ellen Johanne, fædd Kaaber. Agnar var fimmti í röðinni af sjö systkinum sem jafnan voru kennd við Klepp. Á þessum árum lá Kleppsspítalinn drjúgan spöl utan við bæinn. Faðir þeirra rak þar myndarbú og var spítalinn sjálfum sér nægur um flestar nauðsynjar. Í þessum unaðsreit inn við sundin blá ólust þau systkinin upp í sínum eigin frjálsa litla heimi þar sem lífið var um svo margt óvenjulegt. Sjúklingarnir voru leikfélagar þeirra og vinir og foreldar þeirra innrættu þeim frá upphafi að umgangast þá fordómalaust og af fullri virðingu. Heimilisbragurinn á Kleppi var einnig um margt sérstakur. Þar blésu menningarvindar, innlendir sem erlendir. Ellen móðir þeirra var af dönskum ættum, taldi til franskra húgenotta og þýskra söðlasmiða og flutti með sér mið-evrópska menningarstrauma og hefðir. Danska frúin á Kleppi vakti óskipta athygli bæjarbúa þar sem hún fór ferða sinna á reiðhjóli, tíndi sveppi og ræktaði ótrúlegasta grænmeti í vermireitum. Uppvöxturinn mótaði þau systkinin öll sem eitt. Þau voru næmari og höfðu meiri skilning á því að mennirnir eru eins misjafnir og þeir eru margir og að þeir verða misvel úti í lífsins ólgusjó.

Agnar gekk hefðbundinn menntaveg. Varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og lauk síðar magistersprófi frá Háskóla Íslands í íslenskum fræðum. Námsár hans mörkuðust af miklum veikindum en hann hafði veikst alvarlega af berklum sem unglingur. Árið 1938 var Úlfar bróðir hans aðstoðarlæknir á Landspítalanum þar sem Agnar lá fársjúkur og ekki hugað líf. Prófessor Jón Hjaltalín kom þá að máli við Úlfar og sagði: ,,Það er leitt með hann bróður yðar. Hann getur ekki lifað." Þegar Ellen móður þeirra voru færð tíðindin varð henni að orði. ,,Hvis det er sådan, så tar jeg ham hjem." Hvað hún gerði og hjúkraði honum til heilsu. Síðan eru liðin tæp sjötíu ár. Agnar var æ síðan fremur heilsuveill. Oft var hann hætt kominn en alltaf reis hann upp aftur. Það var sagt um frönsku húgenottana sem leituð ásjár í Danmörku, forfeður móður hans, að þeir væru sérlega ,,levedygtige". Það má því segja að gamla húgenottaseiglan hafi komið hvað best fram í Agnari.

Í mínu barndómsminni var Agnar alltaf dálítið skrítinn. Það var svo sem ekkert sérstakt því ég átti marga misskrítna frændur. Hann var bara svolítið öðruvísi skrítinn. Hann var svo stór, svo sköllóttur og svo andstuttur. Ég minnist þess að hafa spurt föður minn hvers vegna Agnar væri alltaf svona móður. Hann svaraði því til að Agnar væri eiginlega gangandi kraftaverk. Það fannst mér mjög merkilegt. Það var einnig mikil uppgötvun fyrir mig þegar ég sá mynd hjá ömmu Ellen af Agnari ungum með mikið dökkt hár. Þetta setti mig í nokkurn vanda því ég hafði nýlega lent í miklu orðaskaki við vinkonu mína einmitt út af skallanum hans Agnars. Sú fullyrti að Agnar hefði rakað af sér hárið bara til að herma eftir Yul Brynner. Ég brást hin versta við og fullyrti á móti að hann hefði alltaf verið svona nauðasköllóttur og ef eitthvað, þá væri Yul Brynner bara að stæla Agnar frænda.

Agnar var bóheminn í systkinahópnum. Hann ákvað að helga sig ritstörfum en starfaði jafnframt sem bókavörður á Landsbókasafni Íslands. Ég held að fullyrða megi að hann var í fararbroddi íslenskra leikskálda á sjötta og sjöunda áratugnum. Hann var afkastamikill rithöfundur og að öðrum verkum hans ólöstuðum tel ég að minningabækur hans séu það merkasta sem hann hefur skilið eftir sig. Ég minnist þess hvernig ég sat sem límd við útvarpið þegar leikrit hans Víxlar með afföllum og Ekið fyrir stapann voru flutt. Það hafa áreiðanlega ekki margir verið á ferli á götum bæjarins á meðan á útsendingu stóð.

Agnar var ættrækinn maður og áhugasamur um frændgarð sinn. Það fór alltaf vel á með okkur. Hann var jafnan áhugasamur um hvað ég var að gera eða hvað ég hygðist fyrir. En eins og svo oft gerist kynntist ég Agnari eiginlega aftur þegar ég var komin á fullorðinsár. Áður hafði mér fundist hann vera á allt öðru plani en hin systkinin. En þá rann upp fyrir mér að hann var svo sannarlega steyptur í sama mótið. Tempóið, léttleikinn og gusturinn var að vísu ekki sá sami og hjá sumum bræðra hans, einkum þeim Úlfari og Gunnlaugi. Hann var líkari Nínu systur þeirra. Bæði höfðu þau góða jarðfestu. En í þeim öllum bjó sami lífskrafturinn, seiglan og hinn óslökkvandi áhugi á lífinu í allri sinni mynd, sem hélt þeim kvikum og ungum í anda allt til síðasta dags.

Agnar var stórfróður og vel lesinn og eins og þeir bræður allir góður sögumaður. Þær voru ófáar ánægjulegu spjallstundirnar sem ég átti við kaffiborðið hjá honum og Hildigunni. Fyrir þær er ég ómetanlega þakklát nú.

Agnar var vanafastur maður og fór sér hægt í öllu. Hann átti það þó til að koma mönnum, sérstaklega sínum nánustu, á óvart. Í meira en þrjátíu ár bjó hann og fjölskylda hans í húsi ömmu Ellen í Suðurgötu. Meiri miðbæjarmaður en Agnar var vandfundinn. Hann var hluti af miðbæjarmyndinni. Agnar á gangi í Bankastræti með hendur fyrir aftan bak og sixpensara á höfði eða sitjandi að kaffidrykkju á Hressó ásamt öðrum menningarvitum að glíma við lífsgátuna. Það kom því öllum í opna skjöldu þegar hann og Hildigunnur keyptu sér glæsilega efstu hæð í háhýsi við Sólheima með útsýni yfir sundin og æskuslóðirnar. Til að kóróna allt saman tók hann bílpróf og keypti sér bíl.

Í sínu lífi var Agnar gæfumaður. Hildigunnur kona hans var honum stoð, stytta og ekki síst félagi alla tíð. Betri og umhyggjusamari synir en Uggi, Úlfur og Sveinn eru og vandfundnir.

Ég mun sakna Agnars frænda míns mikið. Það er sjónarsviptir að honum og víst er að hans verður sárt saknað af mörgum frændum og frænkum. Hildigunni, sonum þeirra og fjölskyldum þeirra votta ég mína dýpstu samúð.

Unnur Úlfarsdóttir.

Það var ekki löng leiðin inn að Kleppi þegar ég var að alast upp í Laugarnesi - varla meir en hálfs tíma gangur eða tíu mínútur á hjóli. Eitt og eitt hús á stangli á leiðinni. Engir strætisvagnar, en spítalabíll á ferðinni einu sinni eða tvisvar á dag. Ég var þarna oft á ferðinni frá sex ára aldri því að faðir minn, spítalapresturinn í Laugarnesi, Haraldur Níelsson, og læknirinn á Kleppi, Þórður Sveinsson, voru miklir og nánir vinir, sem nutu þess að ræða saman um margvísleg áhugamál. Á meðan þeir ræddust við gat ég leikið mér við þrjá yngri synina sem voru á líku reki og ég. Ferðirnar að Kleppi strjáluðust ekki þótt faðir minn létist þegar ég var átta ára. Þórður læknir bauðst þá til að segja mér til í íslenskri málfræði eins og faðir minn hafði verið farinn að gera. Ég skyldi koma inn að Kleppi á hverjum laugardagsmorgni og grúska í málfræðinni fram að hádegi ásamt Agnari syni hans, sem var tveimur árum eldri en ég. Þá skyldi ég borða hádegisverð með fjölskyldunni, en eftir það var dagurinn frjáls.

Ekki man ég nú hversu lengi þetta fyrirkomulag entist, en hitt er víst að allan þann tíma voru laugardagar mínir dýrðardagar. Málfræðiþófið var hæfileg byrjun dagsins og skilaði sínum árangri, en stundum fannst mér réttlæti kennarans í nokkru áfátt, þegar hann sýndi syni sínum minni þolinmæði en mér. Að kennslustundinni lokinni hófst máltíðin í stórri borðstofu þar sem öll hin mannmarga fjölskylda var saman komin við mikla glaðværð. Að máltíð lokinni var komið að hátindi dagsins - leik með yngri drengjunum þremur, Agnari, Gunnlaugi og Sverri, á holtum og túnum, í útihúsum um allar trissur, í endalausum rangölum spítalans og í hálfbyggðum húsakynnum nýja spítalans. Ég get nú ekki lengur gert grein fyrir því í hverju leikurinn var fólginn, nema hvað hann var æsispennandi felu-, eltinga- og bófaleikur sem Agnar stjórnaði af myndarskap og festu. Haldið var áfram guðslangan daginn þar til loks var tími til kominn að taka hjólið og halda heim, í eftirvæntingu um nýjan laugardag.

Læknisheimilið á Kleppi var einstaklega frjálslegt og skemmtilegt. Húsbóndinn, Þórður Sveinsson, var stórskorinn og hrjúfur að sýn, en innilegur og hlýr í viðmóti og hnyttinn í viðræðum. Húsmóðirin, frú Ellen, bar með sér ljúfan þokka og létt skopskyn heimalands síns. Eldri bræðurnir þrír, Hörður, Sveinn og Úlfar voru mér ímynd visku og karlmennsku. Af yngri bræðrunum, leikfélögum mínum, mat ég Agnar mest, enda bjó hann yfir tveim árum meiri lífsreynslu en við Gunnlaugur bróðir hans og jafnaldri minn. Sverrir lét heldur ekki sitt eftir liggja, þótt hann væri nokkrum árum yngri en við. Inn á milli bræðrahópanna tveggja var svo að finna einu dótturina, hina gyðjumlíku Nínu, sem var fjórum árum eldri en ég.

Þessir æskudagar í Laugarnesi og á Kleppi eru nú löngu liðnir. En þegar Agnar Þórðarson er kvaddur stíga þeir eigi að síður fram, skírir og bjartir, um leið og mér verður hugsað til Hildigunnar, sonanna þriggja og fjölskyldna þeirra.

Jónas H. Haralz.

Agnar Þórðarson tók fyrst til starfa í Landsbókasafni árin 1946 og 1947, hafði árið 1945 lokið cand.mag.-prófi í íslenzkum fræðum.

Hann tók svo aftur til starfa í safninu 1953 og tengdist því unz hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Hann annaðist tíðum afgreiðslu á aðallestrarsal, en fékkst jafnframt lengi við útlán erlendra bóka og var lipur við þau störf öll. Minnast margir viðskiptanna við hann með þakklæti.

En hugur Agnars var löngum við ritstörfin, er urðu margvísleg, áður en lauk.

Hann fór tíðum til útlanda í náms- og kynnisferðir og hlaut margan styrkinn til slíkra ferða bæði til Evrópu og Ameríku.

Munu aðrir eflaust fjalla um rithöfundinn Agnar Þórðarson og framlag hans til íslenzkra skáld-smásagna og leikritagerðar og ekki sízt leikþáttagerðar í þágu íslenzka sjónvarpsins, en þar varð hann mjög vinsæll af ýmsum þáttum sínum.

Ég þakka Agnari nú að lokum störf hans í Landsbókasafni og samvistirnar þar og sendi Hildigunni Hjálmarsdóttur konu hans og sonum þeirra þremur innilegar samúðarkveðjur.

Finnbogi Guðmundsson.

Fjórmenningarnir sem hófu nám í íslenskum fræðum (öðru nafni norrænu) haustið 1940 komu úr ólíku umhverfi: Tveir fróðleiksfúsir sveitadrengir úr Borgarfirði, hinn þriðji var skarpgreindur og lífsreyndur Vestfirðingur, nokkru eldri en við hinir. Sá fjórði var Agnar Þórðarson, embættismannssonur úr Reykjavík. Vestfirðingurinn og Agnar áttu það sameiginlegt að hafa orðið fyrir hindrunum á námsbrautinni, reyndar af ólíkum toga. Hinn fyrri af völdum pólitískrar óbilgirni skólastjórnenda, Agnar hins vegar vegna alvarlegra veikinda, þ.e. berklanna sem háðu honum þá og alllengi síðan.

Sá segull sem dró marga að íslenskudeildinni á þessum árum var prófessor Sigurður Nordal sem var dáður fræðimaður og rithöfundur. Agnar var snemma ráðinn í því hvaða lífsbraut hann vildi marka sér - hann stefndi að því að verða rithöfundur. Bókmenntanámið hjá Nordal var þáttur í þeim áformum.

Bakgrunnur Agnars sem verðandi rithöfundur var að mörgu leyti ákjósanlegur. Æskuheimili hans í Reykjavík er mjög eftirminnilegt öllum sem þangað komu. Húsbóndinn, Þórður Sveinsson fyrrverandi yfirlæknir á Kleppsspítala, var neistandi af lífsfjöri og áhuga á sundurleitustu efnum þó að hann sæti lamaður í hjólastól. Hann kunni jafnvel að meta umdeildasta samtíðarskáldið, Stein Steinarr, og fór stundum með kvæði hans af mikilli innlifun. Móðir Agnars var af danskri góðborgarafjölskyldu og glæsileg húsfreyja, raunsæ og jarðbundin. Hún tók jafnalúðlega á móti feimnum námsmönnum, einþykkum listamönnum og virðulegu fyrirfólki af skóla 19. aldar. Hinn frjálslegi andi á heimilinu hefur líklega átt þátt í því hversu hleypidómalaus Agnar var og skilningsríkur á mannlegt atferli. Þar naut hann líka reynslu sinnar af umgengni við vistmenn á Kleppsspítala. Á Vífilsstaðahæli háði hann tvísýna baráttu við berklaveikina sem þá herjaði á ungu kynslóðina og lagði margan að velli. Það varð reynsluskóli sem dýpkaði skilning hans á hverfleik og dramatík mannlífsins. Lífið þar átti líka sínar rómantísku hliðar. - Sterkur lífsvilji og aðstoð góðra lækna studdi hann til að þrauka þar til læknisfræðin fann lyf sem dugðu. Hann náði heilsu sem entist honum til hárrar elli. Sjónleysið gerði honum þó lífið leitt seinustu árin.

Agnar sat ekki auðum höndum um dagana. Hann gegndi lengst af fullu starfi sem bókavörður í Landsbókasafni. Allt frá unga aldri ferðaðist hann meira en þá var títt, jafnvel á framandi slóðir. Höfundarferill hans spannar um það bil hálfa öld. Hann skrifaði smásögur og lengri sögur, ferðaminningar, leikrit og þætti til flutnings í fjölmiðlum. Síðast en ekki síst má nefna endurminningar hans í tveim bindum: Í vagni tímans og Í leiftri daganna sem eru hin skemmtilegasta lesning og lýsa kynnum hans af ýmsum eftirminnilegum mönnum. Agnars verður þó aðallega minnst sem leikritaskálds, enda var höfundarmetnaður hans mestur á því sviði. Hann lagði sig mjög fram um að menntast í öllu sem laut að leikbókmenntum. Gamanleikurinn Kjarnorka og kvenhylli og útvarpsþættirnir Víxlar með afföllum urðu afar vinsælir "slógu í gegn" sem svo er kallað en á ýmsu valt um viðtökur hinna alvarlegri leikverka hans. Á þeim árum sveif andi kalda stríðsins yfir mestallri bókmenntaumræðu, mörgum til tjóns en mest sjálfum bókmenntunum. Er sú saga varla fullskráð enn.

Þó að skáldframinn yrði Agnari kannski svipulli en á horfðist framan af lék lánið við hann í flestu öðru sem máli skiptir. Hann var maður afar vinsæll og átti auðvelt með að umgangast fólk af öllu tagi. Heimili þeirra Hildigunnar Hjálmarsdóttur einkenndist af mikilli smekkvísi og menningarblæ og bera hinir vel menntu synir þeirra æskuheimili sínu órækt vitni.

Ég votta þeim öllum samúð mína.

Halldór J. Jónsson.

Hinsta kveðja frá Frakklandi.

Ég geng í hring

í kringum allt sem er.

Og innan þessa hrings

er veröld þín.

Minn skuggi féll um stund

á gluggans gler.

Ég geng í hring

í kringum allt sem er.

Og utan þessa hrings

er veröld mín.

Meðþessu ljóði Steins Steinars vil ég kveðja með virðingu mikinn bókmenntamann, íslenska skáldið og heimsmanninn Agnar Þórðarson, með djúpu þakklæti fyrir bækur hans, greinar og útvarpsleikrit, fyrir ótal andrík samtöl í tvo áratugi og fyrir rausn hans í garð fjölskyldu minnar og mín, allt frá því ég kom fyrst til Íslands sumarið 1984.

Við Claire og Mathilde vottum Hildigunni Hjálmarsdóttur ásamt Ugga, Úlfi, Sveini og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

François-Xavier Dillmann.

Þegar ég heimsótti Ísland í fyrsta sinn árið 1961 og vann í nokkra mánuði í Landsbókasafninu á Hverfisgötu, var einn bókavörður sérlega vingjarnlegur og bauð mér meira að segja heim til sín á Suðurgötu 13. Þar kynntist ég Hildigunni, konu hans, og ungu sonunum þremur Ugga, Úlla og Sveini og líka Ellen, hinni dönsku móður Agnars. Það var ómetanleg ánægja fyrir ungan útlending að sækja þessa fjölskyldu heim og með þessari heimsókn var lagður grunnur að langri vináttu sem hefur haldið áfram og þróast í 45 ár og verið snar þáttur lífs míns, og okkar Gerdu, hér á Íslandi.

Gestrisni Agnars var eðlileg afleiðing persónuleika hans, enda var hann fyrst og fremst áhugasamur maður og umburðarlyndur og hafði gaman af að kynnast nýrri hugsun og sjónarmiðum. Hann lagði sig sérstaklega eftir því að kynnast mörgum útlendingum sem komu til Íslands, hvort sem þeir voru fræðimenn frá Vesturlöndum eða innflytjendur frá Suður-Asíu; hann var alltaf reiðubúinn að hjálpa þeim með að útskýra venjur og stjórnmál og orðatiltæki á Íslandi um leið og hann forvitnaðist um erlend mál. Einu sinni sagði hann við mig, ekki bara að gamni sínu, að hann kynni vel við útlendinga vegna þess að hann hefði alist upp á Kleppi og lært þar að umgangast óvenjulegt fólk. Hverju svo sem það má þakka hafði hann sérlegan áhuga á óvenjulegu fólki, þ.e.a.s. útlendingum. Hann stundaði nám bæði í Englandi og í Bandaríkjunum og ferðaðist víða um lönd, m.a. til Frakklands, Póllands og Rússlands. Hann var heimsmaður í orðsins besta skilningi.

Þrír fræðimenn sem hann kynntist sýndu þakklæti sitt með því að þýða skáldsögur hans á ensku, greiðslulaust, og allar þrjár voru gefnar út. Einnig má nefna að Einar Haugen þýddi eitt kunnasta leikrit Agnars, Kjarnorka og kvenhylli, og var það gefið út í Bandaríkjunum undir þeim snjalla titli Atoms and Madams.

Eiginleikar Agnars gerðu hann að frábærum félaga til að spjalla við, helst við kaffi- eða matarborð. Hann naut þess í áratugi að hitta nær daglega góðan hóp skemmtilegra Íslendinga, fyrst á gamla Hressó, síðast á Café París, en vanrækti þó ekki útlendingana á kaffihúsunum. Í nokkur ár var hann vanur að drekka morgunkaffi á laugardögum á París og þar á eftir að hitta mig og aðra erlenda vini sína, eins og Andrew Wawn og Robert Kellogg, í hádegismat, oft á Jómfrúnni. Þar var hann í essinu sínu, enda var hann vel lesinn maður og fylgdist vel með fréttum, forvitinn og skemmtilegur og þægilegur og opinn. Hann átti mörg áhugamál, svo sem bókmenntir, þjóðtrú, stjórnmál og sagnfræði. Það var ætíð fengur að félagsskap hans og sjálfur undi hann sér vel í góðra vina hópi. Agnar hafði næmi fyrir mannlegu eðli og hafði einstaklega skemmtilega kímnigáfu eins og sést í ritverkum hans.

Hann var jafnfrábær sem gestur og gestgjafi. Hann heimsótti mig og seinna okkur Gerdu nokkrum sinnum bæði í New Orleans og í Kaupmannahöfn, einu sinni í heilan mánuð. Tvisvar hélt hann skemmtilegan fyrirlestur, og leikritið Eineggja tvíburar var þýtt á ensku og leikið í útvarpi University of New Orleans. Hann var fyrirmyndar heimilisgestur, kom sér fljótlega upp sinni eigin "rútínu" (eins og hann kallaði það), var mjög sjálfstæður, og eyddi mestum tíma í bókasafninu þar sem hann las eða samdi. Hann varð vinsæll meðal hóps góðra félaga minna sem hann hitti iðulega við hádegisverðarborð og eignaðist góða vini í þeirra hópi. Einu vandræðin sem fylgdu heimsóknum hans voru þau að honum fannst gaman að fara einn í göngutúr að kvöldlagi, sem enginn þorir að gera í morðingjaborginni New Orleans. Það var ætíð mikil léttir þegar hann kom aftur, heill á húfi; kannski það hafi hjálpað honum hve hávaxinn hann var.

Síðustu árin breyttist líf hans mikið, enda gat Agnar þá hvorki lengur gengið einn né lesið. Hugsunin var þó enn skýr og klár, en hann var sviptur sjálfstæði sínu og gat t.d. ekki lengur farið á kaffihús. En þá hljóp hin ágæta fjölskylda hans í skarðið á aðdáunarverðan hátt, sérstaklega Hildigunnur og synir hans þrír, sem í dag eru dugmiklir menn á besta aldri. Það var vart hægt að ímynda sér að nokkur gæti fengið betri eða meiri stuðning: Hildigunnur sinnti honum af kostgæfni og sleitulaust, eins og hún hafði raunar alltaf gert, og synirnir þrír og fjölskyldur þeirra heimsóttu hann daglega, spjölluðu við hann og sögðu honum frá helstu tíðindum, lásu fyrir hann og gengu með honum. Agnar var alla tíð gæfumaður, ekki síst undir lok ævinnar þegar fjölskyldan vafði hann ást og umhyggju.

Það er sorglegt að missa góðan vin, en tímaglas allra tæmist að lokum. Við hjónin erum þakklát fyrir skemmtilega og trausta vináttu, og vottum Hildigunni og sonunum og allri fjölskyldunni innilega samúð.

Robert og Gerda Cook.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.