Upplýsingaskortur Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur segist enn bíða eftir því að upplýst verði hvort Desjarárstífla og Sauðárstífla hafi innbyggð liðamót og geti tekið við hreyfingum á jarðskorpuflekum með sama hætti og nú hefur verið upplýst að Kárahnjúkastífla geri.
Upplýsingaskortur Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur segist enn bíða eftir því að upplýst verði hvort Desjarárstífla og Sauðárstífla hafi innbyggð liðamót og geti tekið við hreyfingum á jarðskorpuflekum með sama hætti og nú hefur verið upplýst að Kárahnjúkastífla geri. — Morgunblaðið/RAX
Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur segir það tæknilegt afrek að hægt hafi verið að hanna örugga virkjun á virku sprungusvæði líkt og við á um Kárahnjúka. Silja Björk Huldudóttir ræddi við Grím.

Mér finnst mikils virði að verðmætustu upplýsingarnar, frá mínum bæjardyrum séð, þ.e. jarðhita- og sprunguskort, skuli loksins vera tilbúnar núna, en þær rannsóknir hefðu átt að vera grunnforsendan fyrir framkvæmdinni á sínum tíma," segir Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Eins og rakið hefur verið í fjölmiðlum var Grími um tíma bannað af yfirmönnum sínum hjá OR að tjá sig um málefni Kárahnjúkavirkjunar, en á fundi borgarráðs sl. fimmtudag var kynnt sú ákvörðun stjórnarformanns og forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, að aflétta því banni. Grímur setti í fyrsta skipti opinberlega fram gagnrýni við rannsóknir vegna Kárahnjúkavirkjunar í febrúar 2002 í framhaldi af lestri sínum á umhverfismatsskýrslu Landsvirkjunar um Kárahnjúka, en þá starfaði hann hjá Orkustofnun.

Aðspurður segist Grímur hafa haft fullan skilning á því sjónarmiði yfirboðara sinna að ekki væri eðlilegt að hann tjáði sig um málefni samkeppnisaðila. "Ég er í góðu sambandi við mína yfirmenn og hafði þá afstöðu að þeir réðu ferðinni í því hvað ég væri að tjá mig mikið um þetta mál. Ég leit því aldrei svo á að ég væri þvingaður upp við vegg. Þeir tjá mér í dag [fimmtudag] að það sé bara best að ég tali um þetta, en að þá tali ég í eigin nafni, ekki Orkuveitunnar," segir Grímur og tekur fram að sér finnist leiðinlegt að Orkuveitan hafi dregist inn í umræðuna með þessum hætti þar sem um sé að ræða "sinn fortíðarvanda," eins og Grímur orðar það.

Aðspurður hvort einhver úr hinni óháðu sérfræðinganefnd Landsvirkjunar hafi leitað eftir upplýsingum frá honum segir Grímur svo ekki hafa verið nema að takmörkuðu leyti. "Ég kom þeim skilaboðum til Landsvirkjunar að mig langaði til þess að hitta sérfræðingana, en ég hitti þá aldrei augliti til auglitis. Mál æxluðust þannig að ég átti bara smásímtal við Sveinbjörn Björnsson."

Þar sem er jarðhiti, þar eru sprungur

Að sögn Gríms fannst honum mjög þarft að skýrsla þeirra Kristjáns Sæmundssonar og Hauks Jóhannessonar væri gerð þar sem komið höfðu fram vísbendingar um jarðhita í gljúfrunum við Kárahnjúka talsvert áður en farið var í byggingarframkvæmdir. "Þar sem er jarðhiti, þar eru sprungur, þannig að þetta var mjög þörf skýrsla og ég er ánægður með að Landsvirkjun skyldi hafa opnað hana. Fyrir vikið hafa á síðustu vikum verið umræður um það sem mér fannst skipta langmestu máli í þessu verkefni og það er hvort að hönnuðir stíflunnar vissu að það væru virkar sprungur undir henni. Og nú hafa hönnuðir Kárahnjúkastíflu lýst því yfir að stíflan taki við hreyfingu á jarðskorpuflekunum," segir Grímur og tekur fram að enn hafi hins vegar ekki komið fram, svo hann viti, hvort Desjarárstífla og Sauðárstífla taki við hreyfingum á jarðskorpuflekum með sama hætti og hafi innbyggð liðamót líkt og Kárahnjúkastíflan. Segist Grímur enn bíða eftir þeim upplýsingum.

"Það er merkilegt við þessa framkvæmd að þegar lausaefnin voru skafin ofan af undir þessum tveimur stóru stíflum, þ.e. við Kárahnjúka og Desjará, þá koma óvæntar niðurstöður, þ.e. sprungur og brot. Ég veit ekki til þess að það hafi verið skafið undan þriðju stíflunni í Sauðárdal. Reynslan sýnir að þegar menn hafa opnað berggrunninn á stíflusvæðinu hefur eitthvað óvænt komið í ljós, það er regla en ekki undantekning. Svæðið virðist vera afar líflegt í virkni."

Líkt og fram kom á blaðamannafundi Landsvirkjunar fyrr í vikunni hafa verið gerðar breytingar á Kárahnjúkastíflu vegna nýrra upplýsinga um misgengi á svæðinu á hönnunar- og byggingarferli stíflunnar. Aðspurður hvort hann telji að þær ráðstafanir sem gerðar voru við hönnun stíflunnar í ljósi nýrra upplýsinga hafi verið nægjanlegar svarar Grímur því til að hann sé ekki stíflusérfræðingur. "Ég hef bent á ákveðna áhættuþætti og það er í höndum hönnuðanna að glíma við það. Þeir segja að Kárahnjúkastíflan sé hönnuð til að þola að jarðskorpuflekarnir undir stíflunni gangi til og þar sem ég hef ekki sérþekkingu á gerð svona mannvirkja verð ég bara að trúa þeim þegar þeir segja að þetta sé í lagi," segir Grímur og bætir við:

"En í ljósi þess að þetta er í fyrsta sinn í heiminum sem byggðar eru mjög háar stíflur ofan á virku sprungusvæði finnst mér mjög merkilegt hvað þetta eru góðir hönnuðir og í raun um tæknilegt afrek að ræða að geta hannað örugga stíflu á virku sprungusvæði," segir Grímur. Hann bendir á að það verði jafnframt tæknilegt afrek að fylla upp í sprungur undir stíflunum eftir að byrjað verður að fylla á Hálslón komi í ljós að rennsli verði meira um sprungurnar en ráð hafi verið fyrir gert. Bendir hann á að nógu erfiðlega gangi að steypa opnar sprungur undir Desjarárstíflu þó svo að ekkert vatn sé enn komið í lónið.

Auðvitað ræður Landsvirkjun framkvæmdaröðinni

Spurður hvort rannsóknir á hinu virka sprungusvæði undir Kárahnjúkum hafi verið gerðar nægjanlega tímanlega svarar Grímur því neitandi. "Ekki fyrst setja þurfti 500 milljónir til þess að bregðast við," segir Grímur og bendir á að árið 2002 hafi hann lagt til að farið yrði í venjulegar hitastigulsleit með grunnum borholum til að vita hvort undir stíflustæðunum væri jarðhitakerfi og í framhaldinu meta hvort heppilegt væri að staðsetja stíflurnar á slíkum svæðum. "Eftir því sem ég kemst næst er fyrst verið að ljúka þeim rannsóknum núna. Þannig að niðurstöður þeirra rannsókna sem ég hefði viljað sjá, koma mjög seint. En auðvitað ræður Landsvirkjun framkvæmdaröðinni."

Aðspurður hvort hann telji svæðið hafi nú verið nægjanlega rannsakað segist Grímur eiga erfitt með að svara því og bendir á að Kristján Sæmundsson sé enn að hnýta einhverja enda í jarðfræðikortinu. "Að minnsta kosti virðist vera ljóst að hans vinna þar er að skila einhverju. Og það er ákveðið ósamræmi í því samanborið við þau orð Sigurðar Arnalds, talsmanns Landsvirkjunar, í útvarpinu um daginn um að ekkert nýtt hefði komið fram í jarðfræðinni á svæðinu í tvö ár. Ég á í pínulitlum vandræðum með að skilja þetta, því Kristján er frábær jarðfræðingur, svo og kollegi hans, Haukur Jóhannesson."

Jafnframt bendir Grímur á að hann viti ekki hvort farið hafi verið að tillögu hans, sem fram kom á stjórnarfundi Landsvirkjunar 2005, um að boruð yrði 500-1000 metra djúp hola í því skyni að mæla rækilega spennuna í berginu, en slík mæling er undirstaða þess að hægt sé að spá fyrir um það hvort brotin undir stíflunum muni fara að hreyfast þegar vatnsþrýstingur kemur í lónið.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um blaðamannafund Landsvirkjunar sl. miðvikudag var m.a. haft eftir Jónasi Snæbjörnssyni, fræðimanni hjá Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði, að fyrir liggi GPS-mælingar frá Kárahnjúkasvæðinu, fyrst gerðar 1993 og síðan endurteknar 2004, sem gefi til kynna að spenna á svæðinu sé tiltölulega lítil, og að sprungurnar á svæðinu séu frekar grunnar, 2-4 kílómetrar, sem bjóði ekki upp á mjög stóra jarðskjálfta. Þegar þessi orð Jónasar eru borin undir Grím segir hann ekki hægt að draga slíka ályktun af GPS-mælingum sem staðið hafi yfir í jafnstuttan tíma og raun beri vitni. "Jarðskorpan á Íslandi brotnar í hrinum og ári áður en hrinan verður virðist hvergi vera að byggjast upp spenna, svo kemur hrinan og þá fá menn svaka hreyfingar. Til að geta mælt slíkan atburð þurfa menn að hafa 200-300 ára samfelldar GPS-mælingar til þess að geta sagt með vissu að ákveðinn staður sé að byggja upp spennu og annar ekki."

Með því að opna gögnin má draga úr tortryggni almennings

Að sögn Gríms kom það honum, þegar hann fór nýverið í gönguferð um Kárahnjúkasvæðið, á óvart að sjá greinileg ummerki um háhitavirkni á nútíma. Þannig sjáist ljósar skellur, sem er kísilhrúður, annars vegar í Laugavalladal og hins vegar Sauðá á brotinu sem hefur hreyfst þrívegis á nútíma og stefnir í áttina að Kárahnjúkastíflu. "Til þess að það myndist þarf a.m.k. 150-200 gráðu hita niðri í jörðinni, þannig að það er eins og það hafi til skamms tíma á nútíma verið þarna háhitasvæði. Og ég á mjög erfitt með að skilja að þetta geti gerst nema að engu hafi munað að gosið hafi á nútíma. Kvika hafi náð þarna upp á lítið dýpi eftir að hafa flætt eftir sprungustykkinu sunnan frá Kverkfjöllum og brotið það um leið," segir Grímur og bendir á að auðvelt sé að brjóta berg á háhitasvæðum með vatnsþrýstingi um borholur. Bendir hann á að þessi ummerki um háhita á svæðinu bendi til þess að vatnslektin nái mjög djúpt og þar með sprungurnar á svæðinu og mun dýpra en þeir 2-4 km sem Jónas nefndi á fundinum.

Að mati Gríms var það rétt stefna hjá Landsvirkjun að opna gögn sín, þeirra á meðal fyrrnefnda skýrslu Kristjáns og Hauks. "Með því móti minnka líkurnar á því að umræðan verði jafnharkaleg og hún hefur verið síðustu tvær vikurnar," segir Grímur og bendir á að með því að opna gögnin megi draga úr tortryggni almennings í garð fyrirtækisins.

í hnotskurn

Árið 1999 er Hallormsstaðaryfirlýsingin svokallaða undirrituð, um vilja íslenskra stjórnvalda, Norsk Hydro og Landsvirkjunar til að kanna hagkvæmni þess að reisa álver í Reyðarfirði sem knúið yrði orku frá Fljótsdalsvirkjun. Landsvirkjun gerir úttekt á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar og birtir skýrslu um málið haustið 1999 og nokkru síðar staðfestir Alþingi virkjunarleyfið.

Í maí 2001 er skýrsla um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar afhent Skipulagsstofnun ásamt fylgigögnum.

Hinn 1. ágúst 2001 leggst Skipulagsstofnun gegn Kárahnjúkavirkjun vegna ,,umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar."

20. desember 2001 fellst Siv Friðleifsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, á Kárahnjúkavirkjun og fellir úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar.

Í febrúar 2002 sendir Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur greinargerð sína um Kárahnjúkavirkjun til orkumálastjóra til kynningar og aðgerðar, þar sem Grímur gerir alvarlegar athugasemdir við umhverfismatsskýrslu Landsvirkjunar og bendir á að verkefnið sé "illa undirbúið og alls ekki tækt til ákvarðanatöku". Orkumálastjóri stimplargreinargerðina sem trúnaðarmál og kynnir hana í framhaldinu aðeins fyrir iðnaðarráðuneytinu og Landsvirkjun.

8. apríl 2002 samþykkir Alþingi frumvarp ríkisstjórnarinnar um heimild til handa Landsvirkjun um að reisa Kárahnjúkavirkjun. Lögin voru samþykkt með 44 atkvæðum gegn 9, tveir þingmenn sátu hjá en átta voru fjarstaddir atkvæðagreiðslu.

silja@mbl.is