27. ágúst 2006 | Innlendar fréttir | 174 orð

Stærsti jarðaeigandinn er með 30-40 jarðir

Eftir Freystein Jóhannsson freysteinn@mbl.is ÁSÓKN í jarðir hefur vaxið mjög síðustu misserin með tilheyrandi hækkun á jarðaverði og í kjölfarið umræðum um hvort og þá hvar eigi að draga mörkin við jarðaeign einstakra aðila.
Eftir Freystein Jóhannsson freysteinn@mbl.is
ÁSÓKN í jarðir hefur vaxið mjög síðustu misserin með tilheyrandi hækkun á jarðaverði og í kjölfarið umræðum um hvort og þá hvar eigi að draga mörkin við jarðaeign einstakra aðila.

Á lista yfir fyrirtæki, sem eru skráð í leigu á landi og landréttindum, eru 259 aðilar. Flest eru veiðifélög og rekstrarfélög tengd veiðum, en það félag sem nú á flestar jarðir er Lífsval ehf. með tæpa fjóra tugi.

Algengt jarðarverð hefur tífaldast á tuttugu árum; úr 5-10 milljónum króna í 50-100 milljónir, en mesta hækkunin hefur orðið á tveimur til þremur síðustu árum.

Bændasamtök Íslands ætla að láta gera úttekt á eignarhaldi á jörðum og meta áhrif þróunarinnar á ábúð og nýtingu jarða og sveitarfélögin sem þær eru í.

Allir viðmælendur Morgunblaðsins fögnuðu hækkun jarðaverðs sem gerði bændum kleift að selja jarðir sínar við góðu verði og hætta í búskap með reisn, en á móti veltu menn vöngum yfir áhrifum þess á nýliðun í bændastétt og því að samþjöppun á jarðaeign fylgdi að hluti jarðanna væri skipulega settur í eyði.

Í hnotskurn

» Samkvæmt samantekt Fasteignamats ríkisins fjölgaði þeim sem áttu þrjár eða fleiri jarðir úr 334 í 437 á árunum 2003-2005.

» Á árinu 2003 voru skráð 1.040 afsöl og kaupsamningar vegna jarðakaupa, 1.330 árið eftir, þegar ný jarðalög tóku gildi, 1.254 í fyrra og 688 eru komin á þessu ári.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.