Tölvur Þrjú fyrirtæki í samstarf um Concorde-hugbúnað FYRIRTÆKIN Hugur, HP á Íslandi og Tæknival hafa hafið með sér samstarf um markaðssetningu á Concorde XAL viðskiptahugbúnaði frá danska fyrirtækinu Damgaard Data.

Tölvur Þrjú fyrirtæki í samstarf um Concorde-hugbúnað

FYRIRTÆKIN Hugur, HP á Íslandi og Tæknival hafa hafið með sér samstarf um markaðssetningu á Concorde XAL viðskiptahugbúnaði frá danska fyrirtækinu Damgaard Data. Með þessum hugbúnaði er unnt að bjóða fyrirtækjum af öllum stærðum heildarlausn í tölvuvæðingu með ýmsum eiginleikum sem fram til þessa hefur verið að finna í mun stærri og dýrari hugbúnaðarkerfum, að sögn Gunnars Ingimundarsonar, framkvæmdastjóra Hugar. Hann segir að undanfarin ár hafi fyrirtækið verið að vinna á ýmsum sérsviðum hugbúnaðar, t.d. í framleiðslu- og birgðastýringu og tíma- og verkskráningum. Með Concorde XAL hafi Hugur hins vegar komið til móts við óskir fyrirtækja um að hafa allan hugbúnað undir sama hatti í stað margra stakra eininga sem ekki séu samtengdar. Þegar hafa á fjórða tug fyrirtækja keypt þennan hugbúnað frá því hann var fyrst í boði um mitt sl. ár.

Concorde XAL er staðlaður viðskiptahugbúnaður sem nær yfir öll svið í rekstri fyrirtækja, bæði fjármálaleg verkefni og framleiðslu- og verkbókhald. Hugbúnaðurinn er þannig úr garði gerður að hann má aðlaga að þörfum hvers fyrirtækis og auðvelt er að bæta við verkefnum. Með honum er hægt að vinna á nánast öllum stýrikerfum og tölvum þ.m.t. einmenningstölvum og nærnetum en einnig á tölvum sem nota Unix stýrikerfið. Meðal núverandi notenda eru P. Samúelsson, Prentsmiðjan Oddi, Nói-Síríus, Íslenska útvarpsfélagið og Tölvusamskipti.

Frosti Bergsson, framkvæmdastjóri HP á Íslandi, segir að hér á landi hafi vantað úrval nútímalegs viðskiptahugbúnaðar sem nýti til fullnustu þann vélbúnað sem Hewlett Packard hafi í boði og skapi fyrirtækinu ákveðna sérstöðu. Þar sé fyrst og fremst átt við hugbúnað sem vinni í svokölluðu biðlara/miðlara umhverfi með Unix stýrikerfi. Fyrst nú bjóðist fyrirtækjum raunhæfur valkostur við hefðbundnar millitölvur. Hann bendir á að forráðamenn stærri íslenskra fyrirtækja hafi margir hverjir verið hikandi við að leggja allt sitt traust á PC-hugbúnað, talið hann hvorki nægilega öruggan né afkastamikinn og því haldið að sér höndum. Concorde XAL sé hins vegar bæði öflugur og sveigjanlegur og byggi á mjög öflugum gagnagrunni þannig mikils sé að vænta af þessu samstarfi.

Tæknival hefur sem kunnugt er einkum sérhæft sig í sölu einmenningstölva og nærneta. Fram að þessu hefur fyrirtækið einbeitt sér að hugbúnaði fyrir fiskvinnslu og útgerð og skipta notendur búnaðarins hundruðum. Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Tæknivals, segir að eins og víðar hafi vantað í sjávarútvegi hugbúnaðarkerfi sem taki til allra þátta í rekstrinum. Með því að samtvinna hugbúnað fyrirtækisins við Concorde XAL sé unnt að bjóða fyrirtækjum heildarlausn þannig að þau fái á einum stað alla þjónustu bæði fyrir hugbúnað og vélbúnað. Hér sé því ekki um að ræða hefðbundið bókhaldskerfi heldur alhliða upplýsingakerfi.

Nýlega var gengið frá samningi milli Tæknivals og eins af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á landsbyggðinni sem felur í sér að fyrirtækið mun nota sjávarútvegshugbúnað Tæknivals tengt Concorde XAL auk nýs vélbúnaðar.

Morgunblaðið/Þorkell

SAMSTARF - HP á Íslandi, Hugur og Tæknival hafa tekið höndum saman um að markaðssetja Concorde viðskiptahugbúnað hér á landi og geta boðið bæði smáum og stórum fyrirtækjum heildarlausn við tölvuvæðingu. Á myndinni eru þeir Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Tæknivals, Gunnar Ingimundarson, framkvæmdastjóri Hugar og Frosti Bergsson, framkvæmdastjóri HP á Íslandi.