4. september 2006 | Minningargreinar | 1351 orð | 1 mynd

Lárus Johnsen

Lárus Johnsen fæddist í Reykjavík 12. september 1923. Hann lést á Landspítala við Hringbraut 26. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru Lárus Kristinn Johnsen, verslunarmaður og konsúll í Vestmannaeyjum, f. þar 31. desember 1884, d. 15. október 1930, og kona hans Halldóra Þórðardóttir Johnsen húsfreyja, f. í Reykjavík 4. október 1892, d. 21. febrúar 1958. Lárus átti eina alsystur, Sif Áslaugu Johnsen, f. í Vestmannaeyjum 25. ágúst 1926, d. 12. maí 2006. Maður hennar var Atli Helgason skipstjóri, f. 1926, d. 2001. Börn Sifjar og Atla eru Lárus Johnsen, f. 1951, Guðmundur Halldór, f. 1958, Atli Helgi, f. 1965, og Dóra Elín, f. 1968. Systkini Lárusar samfeðra voru Anna Sigríður Lárusdóttir Johnsen, f. 1913, d. 2004, og Haukur Johnsen, f. 1914, d. 1957. Dóttir Hauks er Ágústa Ingibjörg Hólm, f. 1943. Sonur Önnu Sigríðar er Ríkarður Örn Pálsson, f. 1946.

Hinn 14. apríl 1956 kvæntist Lárus Jónu Kristjönu Jónsdóttur hárgreiðslumeistara, f. í Reykjavík 10. júlí 1930. Foreldrar hennar voru Jón Kristján Kristjánsson, f. 1. september 1894, d. 13. desember 1929, og Guðrún Helga Guðmundsdóttir, f. á Sólheimum í Hrunamannahreppi 23. mars 1900, d. 11. janúar 1981. Stjúpfaðir Jónu og seinni maður Guðrúnar Helgu var Hannes Magnússon trésmíðameistari í Reykjavík, f. 24. september 1891, d. 31. desember 1968. Systir Jónu sammæðra var Guðlaug Sjöfn Hannesdóttir, húsfreyja á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi, f. 28. júní 1938, d. 11. ágúst 2006. Synir Lárusar og Jónu eru: 1) Jón Kristján Johnsen, f. 17. október 1956, kvæntur Sigrúnu Gunnarsdóttur. Sonur þeirra er Lárus Kristján Johnsen, f. 23. janúar 1992, og áður átti Sigrún soninn Hrólf Sigurðsson, f. 1. september 1977. 2) Hannes Johnsen, f. 19. september 1967.

Lárus bjó í Vestmannaeyjum til sjö ára aldurs er faðir hans lést, en þá fluttist fjölskyldan að Holtsgötu 12 í Reykjavík. Hann gekk í Miðbæjarskólann og lauk prófi frá kvöldskóla KFUM í Reykjavík 1939. Lárus útskrifaðist sem kennari frá Kennaraskóla Íslands árið 1947 og sótti kennaranámskeið við Askov í Danmörku 1949. Hann stundaði síðan kennslu í um tuttugu ár. Á miðjum aldri hóf hann starf við Rannsóknarstofu Háskólans og starfaði þar við krufningar í rúma tvo áratugi þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Lárus var öflugur skákmaður og tók mikinn þátt í skáklífi og mótum bæði hérlendis og erlendis og vann m.a. Íslandsmeistaratitil í skák árið 1951. Eftir að Lárus og Jóna gengu í hjónaband bjuggu þau fyrst á Hverfisgötu 119 í Reykjavík en byggðu sér síðar hús í Holtagerði 67 í Kópavogi og bjuggu þar tæpan áratug, en fluttu þá aftur til Reykjavíkur og bjuggu í Hlíðahverfi.

Lárus verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Tengdafaðir minn Lárus Johnsen er nú látinn eftir stutta sjúkralegu. Ég kynntist Lárusi ekki fyrr en hann var orðinn allroskinn, kominn nær sjötugu, og þekkti hann best í afahlutverkinu.

Hann varð sem sagt síðbúinn afi þegar sonur minn Lárus Kristján kom í heiminn fyrir 14 árum og gleðin var ómæld. Segja má að drengurinn hafi átt hug afa allan og gott betur. Lárus var mjög barngóður maður og fór í barnsham er hann var samvistum við nafna sinn. Hann las mikið fyrir afastrákinn og fór ótal bíóferðir og ferðir um Reykjavík og nágrenni til að skoða eitt og annað sem hugnaðist barni. Afi gaf oft eitthvað óvænt, eitthvað til skemmtunar, eitthvað til að þjálfa barnshugann og efla áhuga, og gjarnan fylgdi dágóður skammtur af nammi. Oft var reynt að sporna við nammigjöfunum með því að setja reglur um magn og gerð, en allt kom fyrir ekki. Afinn Lárus hélt sínu striki með þetta, fann alltaf hjáleið og við aðfinnslur mínar bar órætt brosið vott um sigurgleði.

Eftir að langri starfsævi lauk hélt Lárus áfram að sinna helsta hugðarefninu, skákinni, og varð hann skákmeistari eldri borgara árið 2000. Hann las einnig mikið, fylgdist vel með ýmsum málefnum og stundaði reglubundið sund og gufuböð.

Ég þakka tengdaföður mínum fyrir að vera svo góður afi og fyrir ómælda barnapössun gegnum árin.

Sigrún Gunnarsdóttir.

Ég sakna hans afa mikið. Hann var mjög skemmtilegur og sérstakur persónuleiki. Þegar ég var lítill fór hann með mig út um allt. Hann fór oft með mig niður á höfn og leyfði mér að leika mér í lestinni fyrir framan Kolaportið. Þegar ég var á leikskólaaldri las hann mikið fyrir mig, bækurnar sem hann las voru til dæmis Ugluspegill, Dvergurinn Rauðgrani og Dísa ljósálfur. Alltaf fannst mér Ugluspegill skemmtilegust. Hann fór oft með mig í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og lét mig einu sinni taka þar bílpróf í ökuskóla Toyota hinn 25. mars árið 1995, þegar ég var þriggja ára gamall. Svo fór ég oft til hans þegar hann tefldi í félagsheimili eldri borgara, eða heldri borgara eins og hann kallaði þá oft. Þar tefldi hann stundum við mig og leyfði mér líka að tefla við hina karlana. Svo þegar ég vann skólaskákmót, þá var hann gífurlega stoltur af mér. Afi fór árum saman flesta föstudaga í sund á Loftleiðum til hans Jóa, og líka stundum í hinar laugarnar og tók mig stundum með.

Þótt ég kveðji afa nú með miklum söknuði, þá á ég margar dýrmætar minningar um afa minn.

Lárus Kristján Johnsen.

Við brotthvarf frænda míns Larrys úr þessum heimi er auðvelt að kalla fram fyrstu myndina af honum úr hugskotinu. Þær fyrstu trúlega af Mánagötunni og síðan hver af annarri, þegar hann fékk litla frænda lánaðan og tók hann með sér út um víðan völl, upp á Keflavíkurflugvöll, í skólann í Vogunum og svo maður nú ekki gleymi heimsókninni í stjórnarráðið. Larry átti erindi þangað og ég beið frammi á gangi á meðan hann brá sér inn á einhvern 'kontorinn'. Þegar hann hins vegar kom út aftur var sá stutti horfinn, en fannst þó aftur eftir töluverða leit inni á skrifstofu þáverandi forsætisráðherra Ólafs Thors, en hann rétt eins og Larry frændi var afskaplega barngóður og hafði séð aumur á mér þarna einum á ganginum og bauð mér því til stofu, þar sem ég sat í góðu yfirlæti þegar mín var leitað með logandi ljósi. Þessa sögu rifjuðum við frændurnir upp mörgum árum seinna. Ég er stoltur af því að hafa átt Lárus Johnsen að móðurbróður.

Elsku Jóna, Nonni og Hanni, lífið sjálft er dauðans alvara. Þökkum góðum Guði fyrir öll árin sem hann gaf okkur með Larry.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Lárus (Lassi).

Fregnin um andlát Lárusar Johnsen kom mér og skólafélögum hans úr Kennaraskóla Íslands næsta óvænt. Það virtist svo víðsfjarri að hann yrði burtkvaddur svo skyndilega úr þessari jarðvist svo stæltur sem hann var til skamms tíma og fullur af lífsorku. En enginn ræður sínum næturstað.

Með þessum fáu línum langar mig til að minnast hans. Þá hvarflar hugurinn fyrst til vorsins 1947 er 18 manna hópur brautskráðist með almennt kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands. Þar á meðal var Lárus Johnsen. Þessi myndarlegi, trausti, glaðlyndi ungi maður fullur af glettni og húmor. Hann lauk ekki aðeins kennaraprófinu þetta vor heldur varð hann einnig Reykjavíkurmeistari í skák.Við bárum mikla virðingu fyrir honum sem afreksmanni í skák og skákin átti hug hans alla tíð. Hann var t.d. fastur maður í skákklúbbi Félags eldri borgara í Reykjavík sem kom saman alla þriðjudaga nú síðast í Stangarhyl 4, nýja félagsheimilinu.

Að loknu kennaraprófi 1947 dreifðist kennarahópurinn eðlilega til starfa víða um landið og samskiptin urðu minni. Lárus kenndi á ýmsum stöðum um árabil, en jafnframt stundaði hann önnur störf á sumrin eins og svo margir kennarar gerðu. Hann hætti kennslu 1980 og gerðist þá fastur starfsmaður hjá Rannsóknarstofnun Háskóla Íslands og vann þar til starfsloka.

Með Lárusi er genginn merkur skákmaður en aðrir kunna betur skil á skákferli hans en ég og munu rekja hann. Lárus er í minningu okkar gömlu skólafélaganna heilsteyptur og traustur vinur sem aldrei lét sig vanta í hópinn, þegar skólafélagarnir komu saman af einhverju tilefni, og þá var hann manna glaðastur og glettinn að vanda. Við minnumst hans með mikilli virðingu og þakklæti fyrir tryggð við hópinn og erum þakklát fyrir að hafa átt hann að samferðamanni.

Ég votta eiginkonu og fjölskyldu samúð okkar allra.

Stefán Ólafur Jónsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.