Hjálp berst þeim, er heilir, sjálfir

hjálpa sér og skera upp laun.

Hitt er víst, að, veilir, hálfir

vinna aldrei nokkra raun.

Þannig kvað Kristján Guðlaugsson í kvæðinu Frelsi, sem birtist í lýðveldisblaði Vísis 1944.

Nafn Kristjáns er nátengt nafni okkar fyrsta útrásarfélags - Loftleiða.

Ætlun Kristjáns var raunar að verða skáld og fagurfræðingur og hann gaf út ljóðabókina Skuggar 1927, en aðstæður höguðu því svo að hann innritaðist í lögfræði. Við það tók líf hans aðra stefnu. Hann varð umsvifamikill í viðskipta- og menningarlífi Íslendinga um áratugaskeið. Hann varð hæstaréttarlögmaður og rak málflutningsskrifstofu um langt árabil, var ritstjóri Vísis hátt á annan áratug og einn helsti forystumaður flugfélagsins Loftleiða eftir það, stjórnarformaður þess, svo nokkuð sé nefnt af því fjölmarga sem hann tók sér fyrir hendur á athafnasamri lífsgöngu

Í dag eru liðin 100 ár síðan Kristján fæddist á Dagverðarnesi í Dalasýslu, yngstur 12 barna séra Guðlaugs Guðmundssonar, sem var skáldmæltur vel og mörgum kunnur fyrir ljóðlist sína, og Margrétar Jónasdóttur konu hans. Jónas faðir hennar var af Skeggstaðaætt, en úr þeirri ætt hafa mjög margir blaða- og fréttmenn Íslands komið. Margrét var barnabarn Kristjáns kammerráðs á Skarði, þess sem hló svo hátt að hvalir gengu á land að sögn Benedikts Gröndals.

Elstur systkina Kristjáns var Jónas Guðlaugsson skáld og til hans leit Kristján jafnan með mikilli virðingu og vildi líkjast honum, þótt hann kynntist honum lítt því Jónas lést á Skagen í Danmörku, aðeins 28 ára gamall árið 1916.

Kristján Guðlaugsson var ömmubróðir minn og ég kynntist honum á vettvangi fjölskyldulífsins, ekki síst þegar ég átti um tíma heima hjá ömmu minni og systur hans, Guðrúnu Guðlaugsdóttur. Þau voru samrýnd systkini enda fóru skoðanir þeirra saman á margan hátt, þau voru bæði eldheitir sjálfstæðismenn og lögðu krafta sína fram þeim málstað til framdráttar, hún sem bæjarfulltrúi fyrir flokkinn um langt skeið í Reykjavík og hann sem ritstjóri Vísis m.a.

Því fór þó fjarri að Vísir væri leiðitamt flokksblað Sjálfstæðisflokksins undir hans stjórn - í grein sem birtist um Kristján í Frjálsri verslun 3. október 1967 segir um það efni: "Kristján fór þar sem oftar eigin leiðir, og lét sér í léttu rúmi liggja þótt það skapaði honum óvild einstakra ráðamanna. Og ef til vill er það þetta skapgerðareinkenni Kristjáns, að halda áfram ótrauður að settu marki, þrátt fyrir efasemdir annarra, sem hefur orðið þess valdandi, að hann hefur komið svo miklu í verk um dagana." Þess má geta að í ritstjórnartíð sinni hjá Vísi varð Kristján Guðlaugsson fyrstur til að mótmæla herleiðingu Einars Olgeirssonar og þeirra félaga til Englands, í júnímánuði 1941.

Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri skrifaði um Kristján látinn: "yfirleitt má segja um lyndiseinkunn Kristjáns að honum svipar mjög til Skarðverja hinna fornu eins og Sveinn Dofri lýsir þeim í viðauka um Skarðverja í II bindi sýslumannsæva: "Skarðverjar voru hóglátir, búhöldar góðir, friðsamir við nágranna sína og vinsælir í héraði. Þeir héldu sig lítt fram, en voru þó vitrir og harðir í horn að taka ef á þá var leitað og létu lítt hlut sinn fyrir óvinum."

Í minningu minni var Kristján glaðlyndur maður og gamansamur, það var mikið hlegið á Freyjugötu 37 þegar systkini ömmu komu saman, enda var samheldni þeirra mikil og frændgarðurinn stór. Þau voru öll skáldmælt vel og kváðust gjarnan á þegar þau voru að vaxa upp og mikið gaman höfðu þau af spilamennsku og gáfu þá ekkert eftir.

Ég býst ekki við að Kristján hafi veitt mér mikla athygli í barnahópnum sem hljóp um stofur ömmu minnar, hring eftir hring - en þegar ég tók að stálpast talaði hann stundum við mig. Ég tók hins vegar fljótt vel eftir honum, enda hafði hann haft talsverð áhrif á líf foreldra minna, hjá honum á Vísi var faðir minn Guðlaugur Einarsson hæstaréttarlögmaður, blaðamaður á námsárunum, kunni hann margar sögur úr þeirri skemmtilegu vist og vitnaði oft til hennar og þar lærði hann að vélrita mjög hratt með tveimur, tóbaksgulum fingrum. Móðir mín Þorgerður Nanna Elíasdóttir var um tíma starfandi á auglýsingadeild blaðsins en varð að hætta að þeirra tíma sið þegar Einar Elías bróðir minn boðaði komu sína. Hann kynntist Kristjáni Guðlaugssyni síðar mun betur en ég, hann er flugstjóri og starfaði hjá Loftleiðum í tíð Kristjáns þar. Skemmtileg tilviljun er að Kristján yngri bróðir okkar hefur lagt fyrir sig blaðamennsku og ritstörf, en á erlendri grund lengst af, eins og Jónas Guðlaugsson gerði forðum, fetaði þar á vissan hátt í fótspor ömmubræðranna beggja.

Eina sérstaka minningu á ég um Kristján Guðlaugsson ömmubróður minn. Ég var að læra förðun og hárklippingu í New York þegar ég var 17 ára. Amma hafði hringt í mig og sagt mér að hafa samband við Kristján, hann væri staddur í stórborginni. Ég gerði það og Kristján bauð mér í mat á Waldorf Astoría, ég hafði ekki vanist slíkum munaði og fannst mikið til koma og skemmtilegt að spjalla við Kristján við þessar aðstæður, hann var jafnan bæði fyndinn og fljótur að hugsa.

Samtíðarmenn hans lýsa honum enda svo að honum hafi leiðst lognmolla, þor, þrautseigja og baráttugleði verið honum í brjóst borin. Hann sat aldrei á hefðarstóli og hafði til að bera þann mikilvæga eiginleika að vera sterkastur í erfiðleikum, - þegar mest á reyndi, um það vitna ýmis ummæli samstarfsmanna hans hjá Loftleiðum.

Hilmar Foss endurskoðandi kynntist Kristjáni á stríðsárunum.

"Þá hafði hann skrifstofu í Austurstræti 1, tók við henni af Stefáni Jóhanni Stefánssyni þegar hann varð ráðherra. Síðar leigði hann húsnæði hjá mér að Hafnarstræti 11 í allnokkur ár fyrir skrifstofu sína. Kristján var á þessum tíma líka ritstjóri Vísis og sem slíkur mjög hæfur blaðamaður. Kristján var afar þægilegur maður og íhugull, kurteis og skapgóður. Hann var mjög rökvís málflutningsmaður. Okkar góðu kynni entust svo lengi sem hann lifði." Kristján Guðlaugsson lést 2. nóvember 1982 í Reykjavík.

Kristján var orðinn mikill heimsmaður þegar við borðum saman á Waldorf Astoría forðum, en það var hann svo sannarlega ekki þegar hann flutti til Reykjavíkur. Faðir hans missti sjón og varð blindur og varð að hætta prestskap og búskap. Lítið verð fékkst um þær mundir fyrir skepnur og búsáhöld og jörðin var ríkisjörð, úr vöndu var því að ráða, Guðrún amma mín og afi, Einar B. Kristjánsson byggingameistari, aðstoðuðu þá langafa við að kaupa bakhús við Laugaveginn en þröngt varð nú í búi hjá presthjónunum, sem löngum höfðu verið rausnarleg heim að sækja á prestsetrinu Stað í Steingrímsfirði. Þrátt fyrir þessi umskipti á högum sínum vildu þau endilega koma ungum sonum sínum tveimur til mennta og það varð úr að Guðmundur, sá eldri fór í Verslunarskólann, hann varð síðar forstjóri á Akureyri og forseti bæjarstjórnar þar um tíma en Kristján fór í Menntaskólann í Reykjavík. Á þeim tíma þótti eðlilegt að mennta syni en minna hugsað um dæturnar, þótt þær væru kannski ekki síður vel gefnar.

Kristján sagði síðar svo frá upphafi veru sinnar í MR árið 1920:

"Ég var settur í þann busabekkinn, sem talinn var lakari. Mun ég hafa þótt ærið skrítinn sveitastrákur, sem sjálfsagt væri að hrekkja og stríða. Kunni ég afleitlega við mig í þessum hópi, svo við lá að ég hrökklaðist úr skóla. Þá kom fyrir einkennilegt atvik, sem breytti þessu öllu í einu vetfangi. Bjarni Benediktsson, síðar forsætisráðherra, var í A bekknum og hafði hann boðað til kappræðufundar milli bekkjanna A og B.

"Snemma beygist krókurinn til þess, sem verða vill," sannaðist á Bjarna, þá 12 ára, því hann talaði í alvöru og gamni og vitnaði jöfnum höndum í Íslendingasögur og Biblíuna. Bekkjarbræðrum mínum féll allur ketill í eld. Ég fann að við svo búið mátti ekki standa og var farinn að svara Bjarna fullum hálsi fyrr en ég vissi.

Í heimahúsum hafði ég lært langa kafla í Íslendingasögunum utanað og var Biblíufastur mjög, enda verið kennt að lesa á Nýjatestamentið. Dembdi ég þessum vísdómi á Bjarna og hlaut að launum dynjandi lófaklapp hjá bekkjarbræðrum mínum, sem báru mig á gullstól út úr stofunni."

Þótt Kristján yrði eftir þetta vel metinn í skólabræðrahópnum fór því víðsfjarri að hann sæti á gullstóli, fátæktin var það mikil heima hjá honum að hann snapaði sér alla þá aukavinnu sem unnt var á þessum tíma, var m.a. bæði þingskrifari og vann á eyrinni svo eitthvað sé nefnt.

Menntaskólanámið hjá Kristjáni markaðist annars vegar af aukavinnunni og því að hann var alltaf maður sjálfráður og kunni illa þvingunum. Í háskóla fékk hann meira svigrúm og þar fengu hæfileikar hans því betur að njóta sín. Hann tók þar virkan þátt í félagsmálum og stjórnmálaáhugi hans fór vaxandi. Hann gekk í Sjálfstæðisflokkinn og var hatrammur andstæðingur kommúnista.

Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 14. júní 1931 með góðri I. einkunn.

Eftir það réðst hann til starfa hjá Shell, þá nýkvæntur Bergþóru Brynjólfsdóttur, tannlæknis Björnssonar og eignuðust þau dótturina Önnu sem um tíma var formaður Hvatar og soninn Grétar Brynjúlf sem lengi var í fremstu sveit forystumanna Loftleiða og síðar Flugleiða. Barnabörn Kristjáns eru sjö, öll gáfuð og vel gerð.

Kristján og Bergþóra höfðu kynnst í menntaskóla og voru jafnan góðir vinir.

Um foreldra sína segir Grétar í bókinni Dagur við ský eftir Jónínu Michaelsdóttur: "Foreldrar mínir voru ákaflega ólík bæði að lífsskoðun og sinnisfari."

Kristján mun hafa stofnað einna flest hlutafélög á Íslandi á sinni tíð. "Sjálfur átti hann aldrei mikið af peningum og var ekki stór hluthafi í þeim félögum sem hann kom á laggirnar en beitti sér fyrir að þau væru stofnuð," segir Grétar ennfremur. "Hann laðaðist að ævintýrum og áhættu og því eru viðbrögð móður minnar skiljanleg þegar hann kom heim um miðjan október 1953 og sagðist vera orðinn stjórnarformaður Loftleiða, en þá sagði hún með áhyggjuþunga: -Kristján minn, hvaða vitleysu ertu nú búinn að koma þér í? Eiga þeir nokkrar flugvélar?"

Stórtækur heimsborgari

En það var sannarlega engin vitleysa sem Kristján hafði komið sér í, störf hans hjá Loftleiðum voru mikils metin.

"Ég tel það mikið happaráð þegar við báðum Kristján að koma alkominn til Loftleiða," skrifaði Alfreð Elíasson forstjóri Loftleiða um Kristján sjötugan.

"Kristján er stórtækur heimsborgari sem nennir ekki að þrasa um smáatriði. Það hefur verið íslenskum flugmálum til gengis. Hann hefur oft sagt að kyrrstaða í flugmálum sé skref aftur á bak. Í nær aldarfjórðungs samstarfi okkar Kristjáns hef ég lært mikið af honum og notið greindar hans, góðmennsku og réttsýni."

Kristján varð stjórnarformaður Loftleiða eftir byltingarfundinn fræga 1953 og til 1973 þegar Loftleiðir og Flugfélag Íslands sameinuðust í Flugleiðum. Félögin störfuðu þó áfram í nokkur ár innan vébanda Flugleiða og var Kristján stjórnarformaður Loftleiða líka þau ár og stjórnarformaður Flugleiða í eitt og hálft ár, á eftir Erni Johnson.

Hér er of langt mál að telja upp allt það sem Kristján kom að á starfsferli sínum og þær vegtyllur sem honum féllu í skaut.

Mig langar þó að geta þess að hann var einn af stofnendum Hvals í Hvalfirði. Miklir voru erfiðleikar þess félags í upphafi en þá gengu í þeir í sjálfskuldarábyrgð Loftur Bjarnason, Óttar Ellingsen og Kristján Guðlaugsson og varð árið á eftir það hagstæðasta í langri sögu Hvals, en í stjórn félagsins átti Kristján lengi sæti, sem og í stjórn Félagsprentsmiðjunnar. Hann átti líka lengi sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Hann var um tíma formaður Málflutningsmannafélags Íslands og Sambands ungra sjálfstæðismanna - og ekki má gleyma Vilja, blaðs æskumanna - Kristján varð ritstjóri þess árið 1928, þar sagði hann í ritdómi um Vefarann mikla í Kasmír eftir Halldór Laxness. "Vonandi helgar Laxness Íslandi krafta sína, þótt rýr verði launin að gæðum til. Hann er án efa einhver gáfaðasti og pennafærasti rithöfundur lands þessa, og hefur óvenjumikla djörfung til að bera. Fyrir slíka menn er Íslendingum mest þörf."

Það er mála sannast að Kristján Guðlaugsson var sjálfur maður djarfur og einarður og þessa sá stað í öllum hans störfum, hvort sem hann kom fram sem blaðamaður, ritstjóri, lögmaður eða forystumaður í flugmálum Íslendinga. Hann var líka þekktur fyrir hve úrræðagóður hann var - sá jafnan leiðir þegar öðrum þóttu öll sund lokuð.

Ég lýk þessum minningarorðum um Kristján ömmubróður minn með ljóðinu: Í Skuldaskilum, sem ort var á stríðstímum.:

"Hittir þú mig eftir eitt eða tvö hundruð ár.

Ókunni vinur. Þá skyldi það gleðja mig

Ef nútíminn felldi öll þessi trega tár

Til þess að skapa betri heim fyrir þig.

Guðrún Guðlaugsdóttir.