Patricia Pires Boulhosa Kemst að því að tiltækir textar úr Gamla sáttmála eigi rætur í pólitísku umróti 15. aldar.
Patricia Pires Boulhosa Kemst að því að tiltækir textar úr Gamla sáttmála eigi rætur í pólitísku umróti 15. aldar. — Morgunblaðið/Þorkell
Oft er í opinberri umræðu vikið að Gamla sáttmála frá 1262 og hann talinn vera mikilvægt skjal í sögu landsins, einhvers konar stofnskár hnignunar sem hófst við glötun sjálfstæðis og um leið hornsteinn sjálfstæðisbaráttunnar.

Oft er í opinberri umræðu vikið að Gamla sáttmála frá 1262 og hann talinn vera mikilvægt skjal í sögu landsins, einhvers konar stofnskár hnignunar sem hófst við glötun sjálfstæðis og um leið hornsteinn sjálfstæðisbaráttunnar. Pólitískt vægi sáttmálans dvínar nú óðum og fyrir vikið ætti að vera hægt að taka tilvist hans til gagnrýninnar skoðunar. Í ljós er komið að með öllu er óvíst hvort sá texti sem stuðst hefur verið við í hálfa aðra öld sé í raun frá miðri 13. öld, heldur eins víst að hann sé tekinn saman um eða eftir miðja 15. öld sem liður í pólitískri baráttu Íslendinga við konung.

Eftir Má Jónsson marj@hi.is

Upphaf og ágreiningur

Konrad Maurer, prófessor í réttarsögu við háskólann í München, var mikill vinur Jóns Sigurðssonar, stjórnmála- og fræðimanns. Þeir kynntust þegar Maurer var í Kaupmannahöfn haustið 1857 við fræðistörf og hittust árið eftir er hann fór um borgina á leið til og frá Íslandi. Þeir héldu góðu og tíðu bréfasambandi þar til Jón lést árið 1879. Í bréfi til Jóns 29. júní 1874 þakkar Maurer bréf frá 17. sama mánaðar, sem barst daginn áður, og jafnframt fyrir sendingu á framhaldi Íslenzks fornbréfasafns . Heftið kom sér einkar vel, segir Maurer, fyrir þá sök að einmitt þessa stundina fékkst hann við athuganir sem útheimtu mat á sáttmálum Íslendinga við Noregskonung árin 1262-1264.

Heftið sem Maurer fékk var áreiðanlega próförk að síðasta hefti fyrsta bindis Fornbréfasafns , sem ekki kom formlega út fyrr en tveimur árum síðar ásamt inngangi Jóns að bindinu og atriðisorðaskrá. Jón hafði átt frumkvæði að útgáfunni og annaðist fyrsta bindið. Kom fyrsta hefti árið 1857 og næsta fimm árum síðar. Á síðustu blaðsíðum annars heftis og í öllu þriðja heftinu voru úttekt Jóns og útgáfa á Gamla sáttmála, samanlagt 115 blaðsíður. Jón greindi í sundur þrjá gerðir textans og raðaði þeim á árin 1262, 1263 og 1264 með sögulegum jafnt sem textafræðilegum rökum.

Maurer féllst ekki á niðurstöður Jóns en gat lítið aðhafst fyrr en textarnir voru allir komnir út. Í bréfi 10. júní 1869 segist hann hafa lesið í tætlur það sem út var komið af Fornbréfasafni og spyr eftir framhaldinu. Fyrirspurnina ítrekar hann 22. apríl 1871 og fimm mánuðum síðar, 22. október, viðrar hann ágreining sinn. Hann kveðst sitja yfir Íslendingasögum og öðrum fornritum út af bók sem hann vinni að, en víkur síðan að skjölum og spyr hvort Jón muni ekki í væntanlegum inngangi víkja að vandkvæðum við tímasetningu á heimildum, svo sem máldögum, sem einungis eru varðveittar í yngri handritum. Hálfu ári síðar, 20. mars 1872, höfðu Maurer borist tíðindi af yfirvofandi útkomu síðasta heftisins og hann tekur fram að í fáeinum tilvikum efist hann um tímasetningu bréfa, en þó aðeins ef orðalag veki grunsemdir eða óvissar tengingar við atburði Noregssögunnar. Hér er líklegt að Maurer hafi haft Gamla sáttmála í huga, og senn kom á daginn að þar var hann Jóni ósammála í meginatriðum.

Niðurstöður Maurers birtust síðla sumars 1874 í bókinni Island von seiner ersten Entdeckung bis zum Untergange des Freistaats . Hann sendi Jóni tvö eintök með bréfi 18. ágúst og segir varfærnislega að í bókinni sé eitt og annað sem hann sé ekki sammála honum um: "Sie werden in der Schrift Manches finden, was mit von Ihnen geäusserten Ansichten nich übereinstimmt." Meðal þess sem Maurer tók ekki undir var að til væru þrjár gerðir Gamla sáttmála frá þremur árum. Um það atriði samsinnti hann norska sagnfræðinginum Peter Andreas Munch sem árið 1858 fullyrti að einungis væru til tvær gerðir, sú eldri frá 1262 (eiginlegur sáttmáli) og hin frá 1302 (endurnýjun hans), en alls ekki frá 1263 og 1264. Hugmyndir Jóns hér að lútandi væru rangar og nægði að benda á að í yngri gerðinni væri vísað til lögbókar og sýslumanna, nokkuð sem var óhugsandi áður en Jónsbók var leidd í lög á Alþingi 1281.

Ekki veit ég hvernig Jón Sigurðsson tók gagnrýni Maurers, en á sínum tíma hafði hann vísað hugmyndum Munchs alfarið á bug. Nokkur umræða varð á meðal fræðimanna um tímasetningu sáttmálanna næstu áratugina en til að gera langa sögu stutta nægir að nefna það mat Jóns Jóhannessonar fyrir hálfri öld að skoðun Maurers mætti teljast sönnuð. Aðeins væri til upphaflegur sáttmáli frá 1262, sá sem Jón Sigurðsson skilgreindi svo, en aðrir sáttmálatextar væru ítrekun hans við konungaskipti árið 1302.

Endurmat

Þetta hafa fræðimenn og aðrir sem um málið hafa fjallað haft fyrir satt síðan, en fær það staðist? Er niðurstaðan rétt? Nú hefur brasilískur fræðimaður, Patricia Pires Boulhosa, fetað í fótspor Maurers með gagngerri athugun á ólíkum sáttmálagerðum og bætt um betur. Hún kemst að því að Jóni og Maurer skjátlist báðum og rökstyður þá skoðun að tiltækir sáttmálatextar eigi rætur í pólitísku umróti 15. aldar. Úttekt hennar birtist fyrst sem kafli í bókinni Icelanders and the Kings of Norway í fyrra og síðan í örlítið endurskoðaðri gerð á vegum Sögufélags (í þýðingu minni) í síðasta mánuði: Gamli sáttmáli. Tilurð og tilgangur.

Grunsemdir Boulhosa vöknuðu þegar hún áttaði sig á því að elstu handrit sáttmálans sem fræðimenn nú kenna við árið 1302 eru frá 15. öld og sáttmálans sem kenndur er við árið 1262 frá miðri 16. öld. Henni þótti með ólíkindum að ekki væru til eldri handrit af svo mikilvægum texta, einkum þegar litið er til þess að allmörg handrit lögbóka frá síðari hluta 13. aldar og 14. öld geyma ný sem gömul lög auk réttarbóta konungs. Hvers vegna í ósköpunum var Gamli sáttmáli ekki á meðal þeirra? Skipti hann ekki máli? Var hann ekki til? Við nákvæman lestur á einstökum ákvæðum sáttmálanna vaknaði sú hugmynd að textarnir hefðu fyrst verið teknir saman á 15. öld sem hluti af pólitískum deilum íslenskra höfðingja við Noregskonung, einkum um verslun, í þeim tilgangi að færa rök fyrir tilteknum réttindum Íslendinga sem konungur hefði ekki virt. Textarnir voru teknir saman á grundvelli þess sem menn þá höfðu undir höndum um atburði og aðstæður tveimur árhundruðum fyrr, einkum sagnarit og annála. Í sáttmálatextunum birtast nefnilega atriði sem eiga illa við þegar litið er til 13. aldar en passa vel við opinbera umræðu 15. aldar.

Í sagnaritum og annálum sem lýsa því hvernig Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd árin 1262-1264 er þess einkum getið að þeir hafi heitið að gjalda honum skatt. Jafnframt kemur fram að konungur átti að fá sektir fyrir afbrot manna og hefði pólitískt forræði yfir landsmönnum. Lykiltexti er í Hákonar sögu í handritinu Fríssbók (AM 45 fol.) frá fyrri hluta 14. aldar, þar sem segir um Alþingi 1262: "Og er skipuð var lögrétta sóru flestir hinir bestu bændur úr Norðlendingafjórðungi og af Sunnlendingafjórðungi fyrir utan Þjórsá Hákoni konungi land og þegna og ævinligan skatt, sem bréf það váttar er þar var eftir gert." Þessa bréfs er ekki getið í öðrum samtímaheimildum, en hvað skyldi hafa staðið í því? Ekki er ástæða til að ætla að þar hafi verið neitt fleira en fram kemur í sögunni sjálfri - öllum handritum hennar - auk Sturlungu, að ógleymdum annálum: Menn sóru konungi (unnu eið) að landi (pólitísku forræði konungs), þegnum (að konungur fengi sektir) og skatti. Ekkert annað er nefnt í heimildum sem sannanlega urðu til á þessum árum og allra næstu áratugum, ekki einu sinni í tveimur lögbókum sem konungur lét taka saman og sendi til Íslands, það er Járnsíðu árið 1271 og Jónsbók níu árum síðar. Fleira var ekki á döfinni.

Sé litið til þeirra atriða sem sáttmálarnir hafa umfram sagnarit og annála varða þrjú mestu. Í fyrsta lagi er farið fram á að jarl sé "yfir oss meðan hann heldur trúnað við yður en frið við oss." Óhugsandi er að þetta sé skrifað árið 1302 þegar jarlstign hafði verið lögð niður í Noregi, en jafnframt ólíklegt vegna þess að Gissur jarl Þorvaldsson lést árið 1268 og hafði enginn verið skipaður í hans stað. Og hvaða ástæðu ætli menn hafi haft árið 1262 til að ætla að konungur vildi breyta nokkru um þá skipan embætta sem hann hafði sjálfur haft frumkvæði að? Miklu líklegra er að hér birtist tilraun til að útbúa ákvæði sem hægt var að segja að konungur hefði ekki staðið við sinn hlut, eða hvað?

Í öðru lagi er kveðið á um æskilegt þjóðerni lögmanna og sýslumanna, sem verði að vera íslenskir. Þetta virðist ekki hafa verið vandamál á síðari hluta 13. aldar eða á 14. öld, því íslenskir menn gegndu embættum í Noregi, svo sem Haukur Erlendsson, og norskir menn á Íslandi. Aftur á móti var hart deilt um þetta á 15. öld og mikil óánægja var með erlenda menn sem konungur sendi til landsins, svo sem Hannes Pálsson hirðstjóra árið 1420.

Mestu varðar þó ákvæði sáttmálans um siglingu skipa til landsins. Í textunum sem taldir eru vera frá 1302 segir aðeins að "sex hafskip gangi til landsins á hverju ári forfallalaust" en í textanum sem bendlaður er við 1262 er ákvæðið flóknara: "Skulu sex skip ganga af Noregi til Íslands tvö sumur hinu næstu en þaðan í frá sem konungi og hinum bestum bændum landsins þykir hentast landinu." Jón Sigurðsson útskýrði breytinguna sem svo að menn hefðu séð strax að þörf væri á þessu fyrirkomulagi til frambúðar og síðari fræðimenn hafa tengt ákvæðið við versnandi hag Íslendinga sem á síðustu áratugum 13. aldar hafi verið háðir Norðmönnum um kaupsiglingu og verslun. Boulhosa telur að þau rök standist ekki og vísar til rannsókna Konrads Maurers og Helga Þorlákssonar um að viðskiptakjör hafi ekki farið versnandi um það leyti, heldur fyrst undir lok 14. aldar. Þá náði Noregskonungur nokkrum tökum á verslun við Ísland með útgáfu leyfisbréfa en glataði þeim í byrjun 15. aldar þegar enskir kaupmenn tóku að hasla sér völl og virtu að vettugi skilyrði konungs um að sigla til Íslands um Björgvin í Noregi. Árið 1413 bannaði Eiríkur konungur af Pommern Íslendingum að skipta við útlenda kaupmenn og krafðist þess að enskir kaupmenn yrðu sér úti um verslunarleyfi, en án árangurs. Sex árum síðar hylltu íslenskir höfðingjar Eirík sem konung og í bréfinu verður skipanna sex fyrst vart í eiginlegri samtímaheimild, því frumrit þess er varðveitt. Þeir heita hlýðni og hollustu, en víkja síðan að verslunarbanninu og segja: "En vorar réttarbætur gjöra svo ráð fyrir að oss skyldi koma sex skip af Noregi árliga, hvað sem ei hefur komið upp á langan tíma." Fyrir vikið hafi þeir orðið að skipta við útlenska kaupmenn, en aðeins þá sem fóru með friði og réttum kaupskap.

Þessi setning, segir Boulhosa, er pólitísk uppáfynding hinna 24 karla sem bréfið skrifa og ætlun þeirra sú að sýna fram á svik Noregskonungs við fornan rétt, en um leið réttlætu þeir óhefta verslun við Englendinga. Ekki er vísað til sáttmála við konung heldur réttarbótar hans. Ákvæði um siglingu kemur ekki fram í neinni réttarbót frá 13. eða 14. öld, og eru þær þó allmargar í ófáum handritum. Orðalag bréfsins birtist næst í tólf handritum hins meinta sáttmála við konung og eru öll þeirra yngri en hyllingabréfið - sennilega frá síðari helmingi 15. aldar. Sáttmálinn birtist einnig í heilu líki í svonefndri Áshildarmýrarsamþykkt lögréttumanna og bænda sem gæti verið frá 1496. Mun eðlilegra er að ætla að sáttmálatextinn eða öllu heldur sáttmálatextarnir séu útfærsla á fullyrðingu bréfsins um skipin sex, með hugvitsömum viðbótum til áhrifsauka, en að ákvæði þeirra búi að baki henni. Sé það rétt hafa sáttmálarnir ekki verið skrifaðir fyrr en um og eftir miðja 15. öld, í fyrsta lagi skömmu eftir 1419. Svonefnd Árnesingaskrá, sem fremur er sett til ársins 1375 og 1306, er vafasöm og lítur út fyrir að vera síðari hræringur úr sáttmálunum, án hafskipa þó, með kyndugum viðbótum sem ekki eiga sér samsvörun í betur varðveittum textum.

Fullyrðing

Boulhosa færir skýr og sannfærandi rök fyrir því að Gamli sáttmáli sé ekki til í hinum hefðbundna skilningi að þar fari texti sem samið hafi verið um árin 1262-1264, heldur séu handrit hans vitnisburður um meðvitaða úrvinnslu frammámanna á 15. öld á eigin fortíð í ljósi beinskeyttra hagsmuna í pólitískri baráttu við konung um verslun. Handritin tvö frá 16. öld sem geyma textana sem Maurer og Jón Jóhannesson leyfðu að lifa eru að mati Boulhosa aðeins endurvinnsla á textunum frá 15. öld í ljósi meiri þekkingar höfundanna á fornritum. Þeir eru því úr sögunni, ótækir sem heimild um atburði ársins 1262. Ekki skal ég segja hvaða afleiðingar þetta hefur, en sé tvennt í stöðunni: Mótmæla þarf hugmyndum hennar af krafti eða hefjast handa við endurskoðun íslenskrar sögu á síðari hluta 13. aldar - sem verður sannarlega spennandi verkefni.

Heimildir

Boulhosa, Patricia Pires, Gamli sáttmáli. Tilurð og tilgangur . Reykjavík 2006.

Íslenzkt fornbréfasafn I . Útgefandi Jón Sigurðsson. Kaupmannahöfn 1857-1876.

Jón Jóhannesson, Íslendinga saga II . Reykjavík 1958.

Maurer, Konrad, Island von seiner ersten Entdeckung bis zum Untergange des Freistaats . München 1874.

Þjóðskjalasafn Íslands. Einkaskjalasöfn 10, 10. Jón Sigurðsson. Bréfasafn: Konrad Maurer.