11. september 2006 | Fasteignablað | 813 orð | 1 mynd

Gólfhiti

Gestur Gunnarsson
Gestur Gunnarsson
Eftir Gest Gunnarsson
Fyrir nokkrum vikum ritaði hr. pípulagningameistari Sigurður Grétar Guðmundsson grein hér í blaðið um gólfhitakerfi og óskaði eftir viðbrögðum lesenda. Sigurður Grétar hefur verið ötull við skrif um okkar fag og er þakkað fyrir...
Eftir Gest Gunnarsson

Fyrir nokkrum vikum ritaði hr. pípulagningameistari Sigurður Grétar Guðmundsson grein hér í blaðið um gólfhitakerfi og óskaði eftir viðbrögðum lesenda. Sigurður Grétar hefur verið ötull við skrif um okkar fag og er þakkað fyrir það. Skrifin hafa þann kost að vera skemmtileg og þ.a.l. eitt mest lesna efni í íslensku dagblaði.

Fræðilega er þetta ekki alltaf hárétt en það skiptir ekki öllu máli.

Steini gufa, kennari í Vélskólanum, sagði einu sinni: Þessir hitarar eru til í þrem stærðum 5, 7 og 10 Kw. Þegar svo stendur á er óþarfi að reikna varmatap með tveimur aukastöfum. Þetta eru nefnilega allt svona "hérumbil" stærðir og skiptir miklu að ekkert sé alltof lítið, eða alltof stórt.

Haustið 1973 braust út stríð við Súezskurð. Í kjölfarið hækkaði olíuverð mikið.

Eitt af þeim ráðum til að vinna á móti þessari hækkun var að auka einangrun húsa. Fram að þessu hafði upphitunarþörf verið u.þ.b. 100 w á ferm. í 15 stiga frosti. Með þeim kröfum sem gerðar eru til einangrunar í núgildandi Byggingareglugerð er þessi þörf komin niður í u.þ.b. 50-60 w á fermetra.

Svokölluð gólfhitun hefir lengi verið þekkt, í upphafi voru rör steypt í grunnplötur húsa og heitu vatni hringrásað um rörin. Galli þessara kerfa var að gólfin þurftu að vera u.þ.b. 30 gráðu heit í frosti til að halda eðlilegum innihita og ollu íbúum óþægindum. Svo þegar hlánaði var gólfplatan orðin gegnheit og það snarhitnaði inni, eina ráðið til að mæta því var að opna glugga, við það kom inn kalt loft með litlu vatnsinnihaldi og hlutfallsraki inniloftsins hrapaði, íbúarnir fengu nefrennsli og bölvuðu hitakerfinu. Ein af rökum arabanna 1973 voru að olía væri allt of verðmætt efni til að sóa henni til að hita upp hús.

Með þessari verðhækkun urðu miklar framfarir í plastiðnaði en plast er búið til úr olíu. Miklar framfarir urðu í framleiðslu plaströra og var farið að búa til rör sem eru með millilagi úr áli, oft kölluð álplast. Álið hindrar súrefnisísog vatnsins og dregur úr þenslu auk þess sem gott er að móta beygjur úr svona rörum. Ef gólfhiti er lagður úr 20 mm rörum með 300 mm millibili og meðalvatnshiti er 35°C verða afköstin 60 w á fermetra ef gólfið er óklætt. Ef sett er 10 mm parket á gólfið verða afköstin 50 w á fermetra og yfirborðshiti 23°C. Reiknað er með að lofthiti inni sé 18°C. Hönnunarforsendur ofnakerfa eru þær að vatninu sé hleypt út 40°C heitu í 15°C frosti og vatnið renni inn á ofnana 80°C. Yfirborðsflötur ofnanna þarf að vera u.þ.b. sjötti hluti gólfflatarmálsins til að þetta gangi. (Í eldri húsum allt að þriðji hluti.) Gólfhitakerfi nýtir allan gólfflötinn og af því leiðir að vatnið fer kaldara út eða ca 30°C en 40°C í ofnakerfinu við hámarksálag.

Ef gefið er að 5 rúmmetra af vatni þurfi á sólarhring til að hita upp hús með ofnakerfi í 15°C frosti nægja 4 rúmmetrar ef í húsinu er gólfhiti og innihiti 20°C í báðum. Nú er hægt í húsi með gólfhita að ná sömu þægindatilfinningu við 18°C og er í ofnahitaða húsinu við 20°C sem lækkar vatnsnotkunina í 3,75 rúmmetra á sólarhring eða 25%.

Til þess að fá af þessu gleggri mynd var reiknuð út heitavatnsnotkun fyrir 200 ferm. íbúðarhús sem einangrað er samkv. núgildandi reglum. Notaðar voru hitamælingar gerðar í Reykjavík á árunum 1961-1968 og miðað við sólarhringsmeðalhita.

Með ofnahituninni þarf húsið 787 rúmmetra af vatni á ári, en með gólfhituninni er vatnsþörfin 620 rúmmetrar af 80°C heitu vatni. Niðurstaðan er því að gólfhitaða húsið notar 21% minna en það ofnahitaða. Orka verður æ dýrari og virðist þetta því ágætis þróun. Lítið hefir verið hugað að því hvernig má totta meiri orku úr hitaveituvatninu. Nú er húsaeinangrun orðin það mikil að helmingur orkunnar fer í að hita upp loftræsiloft, loft sem vanalega kemur inn um opnanlega glugga. Ef loftræsiloftinu er blásið inn miðlægt og hitað upp með vatninu sem kemur frá hitakerfinu er hægt að draga verulega úr vatnsnotkun en auk þess hefur svona fyrirkomulag þann kost að mögulegt er að sía loftið og minnka með því rykmengun innanhúss. Nægir í því sambandi að nefna frjókorn, efni úr malbiki, bílum s.s. þungmálma og sót. Rakabætingu er einfalt að koma fyrir. Ef affallið frá gólfhitakerfinu hér að framan er látið renna gegnum svona hitara verður vatnsnotkunin á ári 497 rúmm eða 63% af því sem ofnahitaða húsið notar. Ef vatnið hættir að renna í frosti getur svona hitari skemmst og þarf hann því að tengjast þannig að hann tæmist sjálfkrafa ef rennslistruflun verður. Þar sem hitaveituinntök eru í þvottahúsum má setja svona hitara í staðinn fyrir opnanlega fagið í glugganum. Ef einhver hefir áhuga á að prófa svona er hægt að nota "eliment" úr stórri bílmiðstöð og Ventaxia blásara með 300 mm tengingu. Fyrir utan að auka orkunýtingu hefur þetta þann kost að þvotturinn þornar fyrr og rakastig inniloftsins verður heilsusamlegra.

Höfundur er pípulagningameistari og tæknifræðingur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.