Mæðgur Ólöf Ósk gerir innkaupin iðulega ásamt dóttur sinni Ester Uglu.
Mæðgur Ólöf Ósk gerir innkaupin iðulega ásamt dóttur sinni Ester Uglu. — Ljósmynd/LP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólöf Ósk Kjartansdóttir mastersnemi í mannfræði býr í miðbæ Reykjavíkur og fer iðulega ásamt Ester Uglu tveggja ára dóttur sinni að kaupa í matinn. Laila Sæunn Pétursdóttir skrapp með Ólöfu í innkaupaleiðangur.

Ólöf Ósk Kjartansdóttir nær í innkaupakörfu í Bónus og ýtir kerrunni með Ester Uglu á undan sér. Henni tekst ótrúlega vel að stýra kerrunni um búðina, haldandi á körfunni í annarri hendi. "Ég kaupi inn frekar oft í hverri viku þar sem ég er ekki með frysti. Ég get heldur ekki ákveðið langt fram í tímann hvað á að vera í matinn. Stundum fer ég þó og kaupi þurrmat í stórum stíl eins og hrökkbrauð, baunir, morgunkorn, súpur og þess háttar en það geri ég oftast annars staðar því þá þarf ég að fara á bílnum og það er svo erfitt að fá stæði við þessa búð."

Dags daglega fer hún hins vegar með Ester Uglu í kerru því þægileg grind er undir kerrunni þar sem hafurtaskið getur farið. "Ég kaupi oftast í 1-2 poka þar sem þeir rúmast þægilega fyrir á grindinni," segir Ólöf og brosir. Ólöf heldur rakleitt í áttina að grænmetinu þegar hún kemur í búðina. Þar grípur hún þrjá hvítlauka og tvær rauðar paprikur.

Súpa við kvefinu

Eftir stutt spjall tekur Ólöf síðan til spergilkál og blómkál. "Ég ætla að búa til kvefsúpu í kvöld þar sem ég er búin að vera svo kvefuð. Þessi súpa er svipuð og kjötsúpa nema án kjöts og ég set í hana engifer, hvítlauk og oft cayenne pipar til að losa um kvefið."

Ólöf heldur síðan út úr grænmetisdeildinni og rífur miða upp úr töskunni. "Ég fer sjaldan með miða út í búð," útskýrir hún á meðan hún skimar yfir hann. "En ég þarf núna bráðnauðsynlega að kaupa svampa fyrir Ester þar sem ég er búin að koma þrjá daga í röð og hef alltaf gleymt þeim."

Ólöf áttar sig á að hún gleymdi að ná sér í tómata í grænmetisdeildinni og skýst til baka til að ná í tómata en hún sleppir að kaupa þá því þeir eru of grænir. Svo fer Ólöf í brauðdeildina og leitar gaumgæfilega að brauði. "Ég held að brauðið sem ég kaupi oftast heiti Orkuhleifur, ég kaupi aldrei fínmöluð brauð." En brauðið sem Ólöf vill virðist ekki vera til í búðinni svo hún ákveður að fara í bakarí til að kaupa gróft brauð. Ólöf grípur því næst lítra af tómatsafa og heldur svo í áttina að matarkælinum. Þar kaupir hún tvær stórar nýmjólkurfernur og tvær stórar fernur af AB mjólk án viðbætts sykurs. "Ég kaupi sko aldrei AB mjólk með sykri - mér finnst hún alveg viðbjóður," bætir hún við og grettir sig.

Ólöf heldur síðan út úr kælinum.

"Hér kaupi ég oftast mjólk, jógúrt og kannski álegg. En ég kaupi aldrei kjöt, elda það bara ekki - jú nema ég fái það kannski gefins en ég kaupi hinsvegar alltaf fisk í fiskbúðinni á Freyjugötu." Ólöf kíkir svo aftur á listann sinn og kaupir tvær dósir af niðursoðnum tómötum og heldur svo lengra inn í búðina. Á meðan á þessu stendur er hún í stanslausum umræðum við Ester Uglu sem er greinilega vön að fara í búðina þar sem hún er ekki að grípa í neitt. Ólöf tekur því næst Pampers bleyjur.

Mikill verðmunur

Ólöf var í Grundarfirði í sumar að vinna að mastersritgerð sinni með meiru og segir mikinn mun hvað varðar verðið á því að versla í Reykjavík og úti á landi. "Bónus er búbót fyrir bleyjufólk," segir hún á meðan hún leitar að svömpunum sem voru vandlega skráðir á listann hennar. Því miður finnast þeir ekki svo hún ákveður að fara á kassann en halda svo í bakarí og apótek til að finna hlutina sem vantaði.

Súpa við kvefinu

1 haus brokkólí, bitað í greinar

½ blómkál, bitað í greinar

10 gulrætur, skornar niður

2 paprikur, skornar niður

góður hnífsoddur af engifer sem er rifið með rifjárni

3-4 hvítlaukar, pressaðir

1 laukur/púrrulaukur, skorinn niður 1 bolli linsubaunir

3-4 kartöflur í teningum

salt og pipar

basil

cayenne pipar (má sleppa)

vatn

Linsubaunir, kartöflur og laukur sett saman í pott og vatn uns það flýtur yfir hráefnið. Þetta er látið sjóða í 20 mínútur. Þá er afganginum af grænmetinu bætt út í og meira vatn sett út í súpuna ef þarf, uns það flýtur þá yfir grænmetið. Þetta er látið sjóða í 10 mínútur í viðbót. Loks er einni dós af heilum tómötum bætt út í og súpan krydduð með salti, pipar, cayenne pipar og basil. Súpan er látin malla eilítið þar til hún er orðin sæmilega þykk. Borin fram með grófu brauði, smjöri og osti.