Vinsældir Norwegian Wood urðu til þess að Haruki Murakami treysti sér ekki til að skrifa skáldsögu í mörg ár.
Vinsældir Norwegian Wood urðu til þess að Haruki Murakami treysti sér ekki til að skrifa skáldsögu í mörg ár.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir stuttu kom út á íslensku skáldsagan Norwegian Wood eftir Haruki Murakami og kominn tími til finnst eflaust einhverjum, enda nítján ár síðan hún kom út í Japan.

Fyrir stuttu kom út á íslensku skáldsagan Norwegian Wood eftir Haruki Murakami og kominn tími til finnst eflaust einhverjum, enda nítján ár síðan hún kom út í Japan. Aftan á íslenskri útgáfunni stendur þessi setning: "Þessi áhrifamikla saga skaut Haruki Murakami upp á stjörnuhimin bókmenntanna (og metsölulista heimsins)."

Víst er það rétt að bókin varð metsölubók í Japan og hrinti reyndar af stað slíku æði að ekki eru dæmi um annað að mér skilst, en della að hún hafi skotið Murakami á metsölulista heimsins.

Noruwei no mori heitir bókin á japönsku og hefur nafn sitt eftir Bítlalaginu Norwegian Wood (og þó ekki, nánar síðar). Hún var fimmta skáldsaga Murakamis og sú sem gerði hann að stjörnu í heimalandi sínu. Fram að því höfðu bækur hans selst þokkalega, í 50.000-100.000 eintökum hver og ef marka má viðtöl við Murakami var hann hæstánægður með þá sölu, fannst hann vera að skrifa fyrir einlæga aðdáendur. Þegar Norwegian Wood skreið yfir milljón eintaka múrinn hafi honum hinsvegar fundist sem allir hafi farið að hata hann og í kjölfarið treysti hann sér ekki til að skrifa skáldsögu í nokkur ár.

Fyrir ókunnugan er erfitt að gera sér grein fyrir því hvers vegna Norwegian Wood sló svo rækilega í gegn í Japan, en í ljósi þess að það voru víst unglingsstúlkur sem féllu fyrst fyrir bókinni má gera því skóna að það hafi verið vegna þess hvaða tökum Murakami tekur ást og kynlíf í bókinni. Unglingsstúlkurnar hrifust af bókinni og síðan aðeins eldri stúlkur, svo ungar konur, þá konur á miðjum aldri og svo koll af kolli. Síðan bættust piltar við, þá ungir karlmenn og svo má telja. Í lok árs 1988, ári eftir að bókin kom út, hafði hún selst í hálfri fjórðu milljón eintaka í Japan sem var og er fáheyrt.

Um gervallt Japan var Murakami æði, eða réttara sagt Norwegian Wood-æði. Bókin var gefin út í tveimur bindum sem seld voru hvort í sínu lagi, annað skærgrænt, hitt eldrautt og dæmi um að aðdáendur bókarinnar veldu sér klæðnað í samræmi við það hvort bindið þeir kunnu betur að meta. Ýmis varningur kom einnig á markað; hægt var að kaupa gríðarstórar veggmyndir af norskum furuskógi, sælgæti sem hét eftir bókinni, reykelsi með furuilmi, geisladiska með bítlalögum í norskri slökunarútsetningu og fleira.

Þessu til viðbótar tók sala á bítlaplötunni Rubber Soul kipp, en á henni er einmitt lagið Norwegian Wood. Íslenskun á heitinu væri "Norskur viður", sem er reyndar í samræmi við inntak þess eins og síðar verður getið, en fyrir einhverjar sakir snöruðu Japanir því sem "Norskur skógur" sem skýrir þegar lagið vekur hjá Toru í bókinni þá tilfinningu að vera staddur í kyrrum skógi og eins það hvers vegna Murakami-æðið snerist að svo miklu leyti um norrænan skóg.

Réttur skilningur á titlinum er þó annar, því hann vísar til svefnherbergisinnréttingar úr furu. John Lennon, sem samdi lagið, lýsti því eitt sinn að hann hefði viljað gera grín að stúlkum sem keyptu sér ódýrar furuinnréttingar og kölluðu norskan við til að þær virtust merkilegri (Lennon viðurkenndi að lagsheitið Cheap Pine, Ódýr fura, hefði ekki hljómað eins vel, þannig að hann beitti sömu blekkingum).

I once had a girl, or should I say, she once had me.

She showed me her room, isn't it good, Norwegian

wood?

She asked me to stay and she told me to sit anywhere,

So I looked around and I noticed there wasn't a chair.

I sat on a rug, biding my time, drinking her wine.

We talked until two and then she said, "it's time for bed".

She told me she worked in the morning and started to laugh.

I told her I didn't and crawled off to sleep in the bath.

And when i awoke I was alone, this bird had flown.

So I lit a fire, isn't it good, Norwegian wood.

Eins og sjá má segir textinn frá því er sögumaður hittir stúlku og fer með henni heim. Hún sýnir honum þó ekki þá hlýju sem hann hefði helst óskað og á endanum neyðist hann til að sofa í baðkarinu. Hann kemur þó fram hefndum að lokum því hann kveikir í viðarinnréttingunni góðu. Ekki orð um norskan skóg.

Árni Matthíasson (arnim.blog.is)