Holtastaðakirkja 100 ára HOLTASTAÐAKIRKJA í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu er 100 ára á þessu ári. Holtastaðir eru höfuðból frá fornu fari og hafa þar búið nafnkenndir höfðingjar allt frá því Holti Ísröðarson nam þar land, svo sem segir frá í Landnámu.

Holtastaðakirkja 100 ára

HOLTASTAÐAKIRKJA í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu er 100 ára á þessu ári. Holtastaðir eru höfuðból frá fornu fari og hafa þar búið nafnkenndir höfðingjar allt frá því Holti Ísröðarson nam þar land, svo sem segir frá í Landnámu.

Á fyrri hluta 16. aldar komst jörðin í eigu Jóns biskups Arasonar og bjuggu afkomendur hans þar fram á miðja 18. öld. Holtastaðir eru nú óðalsjörð og hafa fjórir ættliðir nú búið þar mann fram að manni í 130 ár. Fyrst Jón "söðli" Guðmundsson, sem keypti jörðina 1863, en flutti síðar að Kagaðarhóli. Þá tengdasonur hans, Jósafat Jónatansson, síðar alþingismaður Húnvetninga, frá 1883. Þegar Jósafat lést 1905 tók við sonur hans, Jónatan Jósafatsson Líndal bóndi og hreppstjóri þar í 60 ár. Hann lést þar háaldraður 1971, en nokkru áður hafði sonur hans, Holti Líndal, tekið við jörðinni og býr hann þar ásamt konu sinni, Kristínu, en hún er nú formaður sóknarnefndar.

Kirkja hefur snemma verið reist á Holtastöðum, eins og máldagar vitna um. Hún var ávallt í bændaeign, þar til Jónatan Líndal afhenti söfnuðinum hana 1942. Kirkjan sem nú stendur 100 ára gömul á Holtastöðum var reist árið 1892 og vígð árið eftir. Hún var byggð að tilhlutan kirkjubóndans, Jósafats Jónatanssonar, og Stefáns Jónssonar á Kagaðarhóli, sem þá var eigandi að þriðjungi jarðarinnar. Kirkjusmiður var Þorsteinn Sigurðsson á Sauðárkróki, sem m.a. smíðaði kirkjurnar á Blönduósi og Sauðárkróki. Kirkjan er vandlega smíðuð og tekur um 100 manns í sæti. Hún hefur að undanförnu gengist undir gagngera viðgerð og umhverfi hennar fegrað.

Holtastaðakirkja á marga góða gripi, þar á meðal kaleik, sem Jón Björnsson sýslumaður á Holtastöðum gaf kirkjunni á 16. öld. Merkur gripur úr Holtastaðakirkju er Holtastaðaljónið svonefnda, vatnskanna í ljónslíki, sem í katólskri tíð var notuð af prestum til handþvottar fyrir altarinu á undan og eftir messugerð, en var síðar notuð undir skírnarvatn. Holtastaðaljónið er nú í Þjóðminjasafninu og er talið vera frá því um 1300. Á þessari öld hafa Holtastaðakirkju verið færðar nokkrar minningargjafir, svo sem veglegur skírnarfontur og nú nýlega ljósprentuð útgáfa af Guðbrandsbiblíu.

Hundrað ára afmælis kirkjunnar verður minnst við messu á Holtastöðum sunnudaginn 29. ágúst nk. kl. 2 síðdegis, þar sem sóknarpresturinn, sr. Stína Gísladóttir, predikar. Eftir messu verður boðið til samsætis í Húnaveri. Þess er vænst að auk sóknarbarna muni sem flestir brottfluttir Langdælingar og velunnarar kirkjunnar sjá sér fært að heiðra kirkjuna með nærveru sinni þennan dag.

(Fréttatilkynning frá sóknarnefnd.)

Holtastaðakirkja.