Fjölmenni Í gær var alþjóða geðheilbrigðisdagurinn haldinn hátíðlegur og í tengslum við hann efndu Lýðheilsustöð og fleiri til ráðstefnu um nýja hugsun í geðheilbrigðismálum á Grand hóteli í Reykjavík.
Fjölmenni Í gær var alþjóða geðheilbrigðisdagurinn haldinn hátíðlegur og í tengslum við hann efndu Lýðheilsustöð og fleiri til ráðstefnu um nýja hugsun í geðheilbrigðismálum á Grand hóteli í Reykjavík. — Morgunblaðið/Golli
"Vaxandi vitund - aukin von. Saman eflum við geðheilsu og drögum úr sjálfsvígum" var yfirskrift ráðstefnu á Grand hóteli í gær.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Í gær var alþjóða geðheilbrigðisdagurinn og í tengslum við hann stóð Lýðheilsustöð í samvinnu við Landlæknisembættið, Landspítala - háskólasjúkrahús, Heilsugæsluna í Reykjavík og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík fyrir ráðstefnu um nýja hugsun í geðheilbrigðismálum. Í kynningu kom fram að á undanförnum árum hefði gagnrýni á hefðbundna meðferð geðröskunar aukist. Gagnrýnin beindist annars vegar að of mikilli áherslu á lyfjagjöf í meðferð og hins vegar að of lítilli áherslu á þætti sem auðvelduðu fólki með geðraskanir að lifa svokölluðu eðlilegu lífi í samfélaginu. Tímabært væri að opna þessar umræður og leiða fram gagnstæð sjónarmið, vega þau og meta.

Á ráðstefnunni fluttu sérfræðingar, aðstandendur og notendur geðheilbrigðisþjónustu erindi og komu ýmis sjónarmið fram.

Geðlyf og fordómar

Halldóra Ólafsdóttir, geðlæknir, sagði að vandinn væri nægur. Evrópusambandið hefði áætlað að um það bil helmingur 65 ára og eldri íbúa í Evrópulöndunum væri með greinda geðröskun og einn fjórði á aldrinum 15 til 25 ára í Evrópu ætti við geðröskun að stríða. Hún benti á að undanfarin ár hefði verið lífleg umræða í fjölmiðlum um geðheilbrigðismál og það væri vel, því opin umræða væri oft kveikja að framförum og drægi úr fordómum. Umræðan hefði eflaust átt mjög mikinn þátt í þeim úrbótum sem hefðu orðið eða væru boðaðar í búsetumálum geðfatlaðra. Það væri mikið fagnaðarefni. Samt snerist umræðan stundum í andhverfu sína og ýtti þá undir fordóma og skilningsleysi á vanda þeirra sem ættu við geðraskanir að stríða. Í því sambandi vísaði hún til umræðuþátta um geðlyf í Kastljósi í liðinni viku. "Umfjöllunin einkenndist af viðleitni til að gera geðlyfin tortryggileg og gekk jafnvel það langt að halda því fram að einstaklingar sem greinast með geðklofa væru betur settir án lyfjameðferðar og að lyfin væru beinlínis skaðleg til langframa. Að mínu mati er þarna vegið að þeim sem síst skyldi, þeim fjölmörgu sem þurfa á þessum lyfjum að halda og aðstandendum þeirra, með rökum sem byggð eru á rangfærslum og rangtúlkunum á þeirri vísindalegu þekkingu sem við höfum aðgang að."

Í þessu sambandi sagði Halldóra Ólafsdóttir að einn af sjúklingum sínum hefði bent sér á að fordómar gegn geðsjúkdómum væru enn það miklir að þeir teygðu anga sína yfir á geðlyfin.

Í máli Halldóru kom fram að margir teldu uppgötvun geðlyfja eina merkustu nýjung í læknismeðferð á 20. öld. Óumdeilt væri að þessi lyf verkuðu á kvíða- og þunglyndisraskanir og stundum mætti sjá ótrúlegan bata á stuttum tíma. Það væri líka staðreynd að þau gögnuðust ekki öllum og hefðu sínar aukaverkanir. Eins væri lítið vitað um langtímaáhrifin en sama væri að segja um mörg önnur lyf, m.a. háþrýstingslyf.

Viðtalsmeðferð út í samfélagið

Viðtalsmeðferð var einnig mál sem Halldóra gerði að umtalsefni og sagði að þar væri ýmislegt nýtt að gerast. Tilkoma nýju þunglyndislyfjanna fyrir hálfum öðrum áratug hefði líklega flýtt fyrir framförum í viðtalsmeðferð og með nýju lyfjunum hefði venjuleg geðmeðferð orðið almenningseign. Sálgreinandi viðtalsmeðferð hefði orðið undir en á síðustu tveimur áratugum hefðu komið fram nýjar aðferðir í viðtalsmeðferð. Sú þekktasta væri hugræn atferlismeðferð, HAM. Vísbendingar væru um að árangurinn í HAM héldist eitthvað lengur en árangur lyfjameðferðar og árangur HAM í kvíðaröskunum væri jafnvel enn betri. Ýmislegt hefði verið gert á geðdeild Landspítalans til að mæta vaxandi þörf fyrir viðtalsmeðferð og markvisst hefði verið unnið að því að þjálfa upp fagfólk í hugrænni atferlismeðferð.

Halldóra sagði að algenga viðtalsmeðferð ætti að flytja sem mest út í samfélagið, á heilsugæslustöðvarnar, til félagasamtaka eins og Geðhjálpar, Hugarafls og Geysis og jafnvel út á vinnustaði. "Til þess að það sé gerlegt þarf einnig að vera til staðar þjónustu- og þjálfunarkjarni, þar sem vísa má til meðferðar erfiðari málum, en einnig og ekki síst til þess að tryggja gæði meðferðarinnar með þjálfun og endurmenntun, og til að meta árangur. Viðtalsmeðferð sem ekki er vel framkvæmd er í besta falli gagnslaus og getur verið skaðleg."

Mikilvægi mannréttindamála

Elín Ebba Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi, sagði að komið hefði fram að ef hægt væri að vinna út frá draumum og markmiðum fólks væri meiri möguleiki á að ná bata. Vonin og virðingin skiptu máli og það að vinna að mannréttindamálum með geðsjúkum virtist skila jafngóðum árangri og sérhæfð meðferð. "Batarannsóknir hafa í raun afsannað það að það sé einhver ein rétt leið. Leiðirnar eru afskaplega mismunandi og einstaklingsbundnar." Elín Ebba sagði ennfremur að nálgun heilbrigðisstarfsins væri að breytast. "Við erum ekki lengur í stjórnunarsætinu. Við erum leiðsögumenn."

Í máli Elínar Ebbu kom fram að þegar árangur væri mældur í batarannsóknum væri litið til þess hvort viðkomandi hefði náð þeim markmiðum sem hann hefði sett sér. Væri honum sýnd virðing, væri hann ánægður og fengi hann þann stuðning sem hann hefði beðið um. Eins væri tekist á við fordóma, val og áhrif. "Að eiga samleið með öðrum er eitt það mikilvægasta sem við getum gefið fólki," sagði Elín Ebba og lagði áherslu á að reynt yrði að forðast sjúkdómsgreiningu af fremsta megni. "Stjórnvöld verða að hlúa að valmöguleikum og trúa því að fólk geti valið sjálft."

Bati án lyfja

Á ráðstefnunni varð fólki tíðrætt um lyfjameðferð. Elín Ebba sagðist hafa séð í erlendum notendarannsóknum að tvær hliðar væru á málinu, lyfin efldu og hindruðu einnig. Ljóst væri að geðlyf væru kröftug en lyfjameðferð hefði áhrif á heilastarfsemina, bæði til góðs og einnig truflandi áhrif. Ákveðnar aukaverkanir fylgdu lyfjatöku, hlusta yrði á fólk, gera þyrfti sér grein fyrir að lyf hentuðu ekki öllum og fyrir suma gætu þau verið vanabindandi. Einnig hefðu komið í ljós hættulegar aukaverkanir. "Lyfin hafa í rauninni heltekið okkur vegna þess að við höfum haft svo mikla trú á þeim," sagði hún og vísaði bæði til stjórnvalda, skjólstæðinga og rannsókna. "Þú verður að hafa peninga til að geta stundað rannsóknir og hverjir eru með mestu peningana? Það eru lyfjafyrirtækin og þau vilja náttúrulega ekki fá einhverjar rannsóknir sem sýna að sum lyfin séu með hættulegar aukaverkanir eða vanabindandi. Og hverjir ætla þá að koma á móti? Það verða að vera stjórnvöld sem liðka til fyrir annars konar rannsóknum."

Að þessu mæltu sagði Elín Ebba að fram hefði komið hjá viðmælendum í rannsóknum að lyf hefðu getað skipt sköpum og flýtt fyrir bata. Hins vegar hefði sér komið á óvart hvað tekið hefði langan tíma að finna réttu lyfin. Lyfin hefðu oft verið notuð án samráðs og einnig sem valdbeiting. Hins vegar væri líka staðreynd að bati næðist án lyfja. Til dæmis hefði fólk sem hefði verið greint með geðklofasjúkdóm náð bata án lyfja en þá hefði geðlæknastéttin komið fram með gagnrýni og sagt að um vitlausa greiningu hefði verið að ræða.

Elín Ebba sagði að auðvelt væri að kenna sjúkdómnum um ef eitthvað gerðist en lyfjunum væri síður kennt um. Mikilvægt væri að skoða langtímaáhrif lyfja án þess að lyfjafyrirtækin kæmu nálægt því. "Við verðum að fá betri upplýsingar og við eigum alltaf að hafa að markmiði að geta lifað lífinu án lyfja."

Guðný Anna Arnþórsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur, sagði að hvorki væri faglegt né gæfulegt að halda því fram að geðlyfjameðferð orsakaði geðsjúkdóma og álíka ófaglegt væri að segja að allt annað en geðlyfjameðferð og hefðbundin nálgun væri rétt. Sjónarhornin ættu samleið.