Árni Magnússon, fyrrverandi félagsmálaráðherra, hafði forgöngu um að einum milljarði króna af svonefndum símapeningum, þ.e. andvirði af sölu Landssímans til einkaaðila, yrði varið til að bæta þjónustu við geðfatlað fólk.

Árni Magnússon, fyrrverandi félagsmálaráðherra, hafði forgöngu um að einum milljarði króna af svonefndum símapeningum, þ.e. andvirði af sölu Landssímans til einkaaðila, yrði varið til að bæta þjónustu við geðfatlað fólk. Að auki var ákveðið að veita 500 milljónir til viðbótar úr Framkvæmdasjóði fatlaðra vegna búsetu- og stofnþjónustu við geðfatlaða.

Til þess að undirbúa þessa auknu þjónustu skipaði félagsmálaráðherra sérstaka verkefnastjórn, sem starfaði undir forystu Dagnýjar Jónsdóttur alþingismanns, ráðgjafarnefnd, sem skipuð var notendum, aðstandendum þeirra og fagfólki, og framkvæmdahóp fagfólks, sem ætlað er að koma þjónustuúrræðum í framkvæmd.

Sl. mánudag var svo kynnt ítarleg skýrsla um þjónustu við geðfatlað fólk en í þeirri skýrslu felst stefna og framkvæmdaáætlun félagsmálaráðuneytis fyrir árin 2006 til 2010.

Hér er á ferðinni merkileg skýrsla og sennilega sú viðamesta, sem hér hefur verið tekin saman um málefni geðfatlaðra. Og augljóst er að framundan er stórfellt átak við að koma þjónustu við þennan hóp geðfatlaðra á sambærilegt stig og þekkist í nágrannalöndum okkar. Það virðist nokkuð almenn skoðun, að sú þjónusta, sem veitt er úti í samfélaginu, sé áratug eða einum og hálfum áratug á eftir því, sem nú þykir sjálfsagt á öðrum Norðurlöndum.

Í skýrslunni er lögð áherzla á fjögur grundvallaratriði. Í fyrsta lagi að á tímabili þessarar framkvæmdaáætlunar verði reynt að tryggja, að geðfatlað fólk njóti sambærilegra lífskjara og lífsgæða og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Í öðru lagi að fagleg þekking og færni starfsfólks verði á við það bezta, sem þekkist í Evrópu. Í þriðja lagi að komið verði á gæðakerfi á landsvísu og í fjórða lagi að byggt verði upp samstarf við önnur lönd um þróun þjónustu við geðfatlað fólk og aðstandendur þess til þess að fylgjast með með nýjasta, sem gerist hverju sinni.

Í skýrslunni er lögð áherzla á að þörfum geðfatlaðs fólks fyrir búsetu verði fullnægt á nokkrum árum með sérstöku átaki enda er það auðvitað þjóðinni til skammar að nú er nokkur hópur geðfatlaðra á götunni. Þá er sérstaklega vikið að þjónustu vegna atvinnu og endurhæfingar en á því sviði hefur Klúbburinn Geysir starfað. Þá er fjallað um stoðþjónustu, sem verður stöðugt mikilvægari og hefur kannski verið meiri í orði en á borði, þótt margt hafi vel verið gert á því sviði.

Í skýrslunni eru einnig tekin upp hin nýju viðhorf gagnvart fólki, sem átt hefur við geðsýki að stríða, sem mótast af því að ákvarðanir um málefni þess séu ekki teknar nema í samráði við það og aðstandendur þess. Fyrir þessum sjónarmiðum hafa Héðinn Unnsteinsson, Elín Ebba Ásmundsdóttir og Auður Axelsdóttir barizt af miklum krafti á seinni árum. Nú eru þessi viðhorf að verða beinn þáttur í stefnumörkun stjórnvalda. Og loks er nokkur áherzla lögð í skýrslunni á mikilvægi þess að kynna fyrir almenningi og móta nútímalegri viðhorf til fólks, sem átt hefur í stríði við geðsjúkdóma.

Það er sérstök ástæða til að þakka Árna Magnússyni fyrir frumkvæði sitt að þessu starfi, Magnúsi Stefánssyni, núverandi félagsmálaráðherra, fyrir að hafa fylgt því fast eftir, Þór G. Þórarinssyni, skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneyti, sem hefur verið lykilmaður í þessari vinnu, og því fólki öllu, sem komið hefur að þessari skýrslugerð. Hún er grundvöllur að því að á næstu árum verði blaðinu snúið við og þjónusta við þá, sem staðið hafa í erfiðri baráttu við illvíga sjúkdóma, færð út í samfélagið, heim til þeirra, á vinnustaði o.s.frv. Svo og að þeir búi við mannsæmandi kjör í búsetumálum. Þessi skýrsla verður það grundvallarplagg, sem umræður og aðgerðir munu byggjast á næstu árin.