Ása María Björnsdóttir-Togola
Ása María Björnsdóttir-Togola
Ása María Björnsdóttir-Togola skrifar um legslímu-flakk: "...legslímuflakk er slunginn sjúkdómur sem leggst aðallega á leg og æxlunarfæri kvenna og skerðir þannig lífsgæði þeirra og aðstandenda..."

GÓÐA heilsu verðsetjum við ofar öllu í okkar daglega lífi. Sum okkar vita ekki hvað það er að hafa góða heilsu fyrr en við stöndum frammi fyrir því að lífsgæði okkar skerðast vegna veikinda.

Endometriosa eða legslímuflakk er slunginn sjúkdómur sem leggst aðallega á leg og æxlunarfæri kvenna og skerðir þannig lífsgæði þeirra og aðstandenda til muna.

Legslímhimnan hefur einnig fundist í ristli, þvagblöðru og lungum svo eitthvað sé nefnt. Sjúkdómurinn er flokkaður í vægi; í vægan, meðalslæman eða slæman á grundvelli útbreiðslu og staðsetningar og samvaxta milli líffæra. Orsakir endometriosu eru enn nokkuð óljósar og nokkrar kenningar eru til um sjúkdóminn. Ein af þeim líklegustu er bakflæði, þar sem tíðablóð rennur í gegn um eggjaleiðarana inn í kviðarholið og legslímhimnan tekur sér svo bólfestu þar. Þvínæst blæðir úr legslímhimnunni við blæðingar þar sem hún er staðsett. Það virðist einnig sem þær konur sem hafa legslímuflakk hafi einhvern veikleika, galla eða vangetu í lífhimnunni til að eyða legslímufrumunum. Það má oft tengja það til óþols eða ofnæmis af einverju tagi, sem þýðir að ónæmiskerfi líkamans starfar ekki sem skyldi.

Stofnun stuðningssamtaka

Á Norðurlöndum, í hverju landi fyrir sig, eru starfandi samtök sem stuðla að aukinni fræðslu og þekkingu til kvenna sem hafa greinst með endometriosu eða telja sig hafa hana. Nú munu einnig slík samtök líta dagsins ljós á Íslandi.

Undirrituð hefur verið félagi í norsku samtökunum, Endometrioseforeningen, í um þrjú ár og hefur fengið ómetanlega fræðslu og stuðning frá samtökunum. Mikilvægi slíkra samtaka er óumdeilanlegt. Tilgangur slíkra samtaka er að vera stuðningssamtök fyrir konur með endometriosu, miðla upplýsingum til félagsmanna og fjölmiðla og jafnframt upplýsa lækna og hjúkrunarfólk um sjúkdóminn þannig að konur fái rétta og hraða greiningu og þann stuðning sem nauðsynlegur er í tengslum við meðhöndlun og bata. Einnig er samtökunum ætlað að fylgjast með nýjungum á sviði meðhöndlunar og framfara í tengslum við einkennin, halda fræðslufundi og koma upp tengslaneti fyrir konur búsettar úti á landi.

Annar mikilvægur þáttur samtakanna er að hvetja stjórnvöld til framlags er stuðlar að auknum rannsóknum á sviði endometriosu/legslímuflakks. Margt bendir til þess að sjúkdómurinn erfist, bæði frá móður til dóttur og einnig frá föður til dóttur. Þetta þarf meðal annars að rannsaka mun betur og er Ísland sennilega eitt besta landið til þess.

Stofnfundur samtakanna verður haldinn 20. október í Hringsal Kvennadeildar Landspítalans kl 17:00 og mun Lone Hummelshoy frá alþjóðlegu samtökunum, World Endometriosis Association, verða viðstödd og flytja gestafyrirlestur. Lone var stofnandi dönsku endometriosu samtakanna á sínum tíma, Endometriose Foreningen í Danmörku er meðal þeirra öflugustu og í dag er þar rekið mjög gott og þarft starf á vegum samtakanna. Fljótlega mun verða komið á fót heimasíðu samtakanna með nöfnum tengiliða.

Höfundur er nemi í næringarfræði og greindist með endometriosu fyrir rúmum 20 árum.