Héðinn Unnsteinsson
Héðinn Unnsteinsson
Héðinn Unnsteinsson skrifar um raflækningar: "Varðandi raflost meðferð, þá er mér það ljóst að hún hefur gagnast mörgum vel og komið fólki fram úr rúminu og upp úr djúpu þunglyndi."

UMFJÖLLUN um hugmynda- og aðferðafræði geðheilbrigðismála hefur verið allnokkur í fjölmiðlum undanfarnar vikur. Tekist hefur verið á um grunngildi nútímameðferðar við geðröskunum og þá meðferð sem geðsjúkir fá inn á stofnunum og nauðsyn tilfærslu þjónustunnar nær notendum. Mörg orð hafa fallið og má segja að ákveðin "gjá" millum viðhorfs flestra fagaðila og margra notenda og fyrrverandi notenda hafi orðið ljós. Þessi málaflokkur er gríðarlega flókin samkvæmt huglægu eðli hans. Að mínu viti er engin einn hlutlægur sannleikur í þessum málum, heldur aðeins ólík huglæg sjónarmið styrkt með misgóðum rökum. Það er hins vegar flestum ljóst að breytinga er þörf og sú umræða sem fram hefur farið er nauðsynlegur undanfari slíkra breytinga og því til góða. Þau ólíku sjónarmið um leiðir eru aðferðir sem stefna að sama marki, þ.e. bættri geðheilsu, það eiga þær og þeir sem halda þeim fram sameiginlegt. Það er jafnframt ljóst að vilji notenda þjónustunnar verður að fá að ráða för í samráði við og undir traustri leiðsögn fagaðila. En sá tiltölulega nýfæddi "vilji" notenda virðist þó reynast mörgum óþægur ljár í þúfu.

Þó að í dag séu lyf og lyfjatengdar lausnir mest brúkuð til að hemja huga og koma ró á geð, þá megum við aldrei missa sjónar á því að samfélög okkar taka stöðugum breytingum og um leið breytast aðferðir okkar til að takast á við tilvistina. Það eru til aðrar leiðir til að takast á við röskun á geði en líffræðilegar afleiðingatengdar lausnir í efnaformi. Jafnvægi mun á næstu áratugum nást á millum líffræðilegra, sálfræðilegra og félagslegra lausna sem miða að sama marki. Notendur eiga kröfu um að fá að velja þá leið að bata sem þeir telja heillavænlegasta. Vilji þeirra og sívaxandi áhrif munu vísa veginn.

Ég hóf máls á notkun raflækninga í Kastljósþætti 10. október síðastliðinn. Eftir að hafa séð úrklippuna og rætt í framhaldi við yfirlækni þeirrar deildar sem ég þar tilgreindi sættumst við á að ég skoðaði það alvarlega að ég leiðrétti rangfærslur þær sem komu fram í máli mínu í viðtalsbrotinu auk þess að biðja ákveðinn aðila forláts. Ég settist strax niður byrjaði að skrifa. Ég er og hef í síðustu viku verið staddur í Albaníu að skoða geðsjúkrahús og hitta notendur og hef ekki komist í tölvusamband til að senda leiðréttingarnar í tíma. Ádrepa starfandi landlæknis, Mattías Halldórsson, í Morgunblaðinu þann 20. október síðastliðinn kom mér því svo sem ekki á óvart. Ég get kennt sjálfum mér um að gefa afsökunarbeiðni þessari og leiðréttingu er ég nú klára að skrifa ekki meiri forgang en aldrei kom annað til greina en að hún birtist. Mér fannst starfandi landlæknir engu að síður bregðast fullharkalega við er hann vegur að mér persónulega og sakar mig um stórkallalæti, um að auka á fordóma, valda fólki vanlíðan og að standa almennt ekki undir starfsheiti mínu. Það er rétt hjá Mattíasi að mér urðu á mistök sem ég tek fulla ábyrgð á en ég á erfitt með að sætta mig við að vegið sé að trúverðugleika starfa minna og stöðu með slíkum hætti.

Ég hóf afskipti af geðheilbrigðismálum fyrir 12 árum eftir að hafa sjálfur notið þjónustunnar. Á þeim tíma sem liðinn er hef ég starfað að málaflokknum á ýmsum sviðum m.a. fyrir embætti Landlæknis og sótt mér Meistaramenntun á sviði stefnumótunar í Bretlandi með sérstakri áherslu á geðheilbrigðismál og starfa nú sem sérfræðingur í þeim málum með hliðsjón að aðkomu og valdeflingu notenda og aðstandenda að stefnumótun við geðsvið hjá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Ég er hins vegar fyrrverandi notandi geðheilbrigðisþjónustunnar og mun alltaf verða talsmaður notenda í hjarta. Bilið á milli sjónarmiða notenda og sjónarmiða WHO hefur mér oft reynst erfitt að samþætta en oftast tekist að því er ég held að ganga mjóu línu þeirrar samþættingar. Í umræddum Kastljósþætti varð mér það á að leyfa tilfinningum mínum og ástríðu ásamt samkennd með notenda kerfisins að bera skynsemi mína ofurliði og gerði ég tvö afdrifarík mistök. Eins og starfandi landlæknir bendir réttilega á í grein sinni, gerði ég mig sekan um rangfærslur um aðferðafræði raflækninga varðandi tíðni og tímalengd slíkra inngripa. Biðst ég velvirðingar á því. Seinni mistökin tek ég enn nærri mér því að í ónærgætni minni tók ég tiltekið dæmi af manneskju sem undirgengist hafði slíka meðferð og gaf til kynna staðreyndir sem gátu gefið til kynna um hvern var að ræða. Ég vil biðja viðkomandi einstakling einlægrar afsökunar á vanhugsuðum orðum mínum.

Varðandi raflost meðferð, þá er mér það ljóst að hún hefur gagnast mörgum vel og komið fólki fram úr rúminu og upp úr djúpu þunglyndi. Það er engu að síður mín persónulega skoðun að sú aðferð að beita raflostum til meðferðar á lyndisröskunum sé ómannúðleg og eigi vonandi eftir að leggjast af í ljósi þess. Ég vil benda á það að hluti gangrýni minnar í fyrrgreindu viðtalsbroti var á þá umgjörð sem geðsjúkum er almennt sköpuð inn á geðdeildum þar sem viðmót mótast því miður enn um of af takmörkun sjálfræðis, virðingarskorti og af lærðu hjálparleysi sem fyrirhyggjulituð umönnun sem kæfir frumkvæði og drifkraft ýtir undir. Ef það að tala af ástríðu út frá hjartanu og um stundarsakir gleyma settu háttalagi sérfræðings hjá Alþjóðastofnun eru stórkallalæti og belgingsháttur þá tek ég það til mín. Í lokin vil ég óska starfandi landlækni velfarnaðar í starfi.

Höfundur er fyrrverandi notandi geðheilbrigðisþjónustunnar og sérfræðingur í stefnumótun, starfandi sem sérfræðingur í samskiptum og samvinnu við borgarlegt samfélag á geðsviði hjá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.