Ingi Friðbjörn Gunnarsson fæddist á Framnesveginum í Vesturbæ Reykjavíkur 2. maí 1931. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 2. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru Margrét Ágústa Magnúsdóttir húsfreyja, f. í Reykjavík 21. ágúst 1894, d. 1. desember 1973, og Gunnar Bjarnason verkamaður, f. í Nýlendu í Langholtssókn í V-Skaftafellssýslu 10. nóvember 1892, d. 7. júní 1980. Systkini Inga eru Katrín, f. 1927, d. 1997, Óskar Finnur, f. 1929, d. 1981, Kristjana Matta, f. 1932, d. 1965, Svanhvít, f. 1935, d. 1982, og Karl Magnús, f. 1938. Einnig var Magnús Aðalsteinsson, f. 1924, uppeldisbróðir hans.

Ingi kvæntist Guðrúnu Ólafíu Guðnýju Ólafsdóttur eða Lillu eins og allir þekkja hana, 4. júlí 1953. Eignuðust þau tvo syni, þá Ólaf Gunnar, f. 1955, kvæntur Huldu Þórsdóttur, og Ástþór, f. 1964, kvæntur Elfu Jónsdóttur.

Útför Inga var gerð frá Njarðvíkurkirkju 11. október - í kyrrþey að hans eigin ósk.

Að kveðja Inga Gunnarsson í stuttri grein er erfitt. Sú hugsun og staðreynd að hann sé fallinn frá ýtir af stað stórri skriðu minninga og biturleika um ónóg samskipti síðustu árin, maður treystir því ávallt að tíminn sé nægur. Til að sefa samviskuna langar mig að opinbera örfá atvik í lífi okkar félaganna. Fyrir rúmum 30 árum hitti ég Inga í fyrsta sinn og vakti hann strax áhuga minn. Það fylgdi honum svo mikið líf og gleði. Ekki gerði ég mér grein fyrir því þá að við ættum eftir að hittast og gera svo mikið á komandi áratugum. Bíltúr með kærustuna til Njarðvíkur var alltaf spennandi því það var alltaf eitthvað að ske hjá Inga og Lillu. Fyrir sveitadreng sem varla var stiginn upp úr flórnum að hitta og umgangast þennan heimsmann Inga Gunnarsson var óborganlegt. Einn vetur dvaldi ég í höllinni við Hólagötuna er ég lagði stund á nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hólagötuhöllin var þannig uppbyggð að sjónvarpsherbergið var hálfri hæð hærri og drjúgan spöl frá eldhúsinu þar sem Lilla dúllaði sér meðan við Ingi flatmöguðum yfir sjónvarpinu. Stundum reisti hann sig upp og sagði, langar okkur ekki í eitthvað? Síðan gaf hann frá sér torkennilegt hljóð og viti menn eftir smástund kom Lilla upp með bakka fullan af girnilegu meðlæti og kaffi. Þá setti hann upp suðurnesjabrosið. Eftir dvölina og kennsluna hjá Inga byggði ég mér hús í sveitinni sem var auðvitað með sjónvarpsherbergið á efri hæðinni. Við áttum góðar stundir fyrir austan fjall, koma þá veiðidagarnir upp í hugann sem voru verulega spennandi samverustundir. Ingi var til dæmis sá eini sem veiddi reyktan lax og datt svona hér um bil í ána. Þetta er aðeins smábrot af því sem hugur minn geymir um Njarðvíkurgeimfarann Inga Gunnarsson. Þar sem maður er manns gaman verður þín sárt saknað en ljósið sem fylgdi þér lýsir okkur áfram veginn.

Sameinumst í sorginni og finnum ljósið.

Samúðarkveðja.

Þorvaldur.

Drottinn er minn hirðir, mig mun

ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig

hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

(Úr 23. Davíðssálmi).

"Hvaðan kem ég?" - "Hvert fer ég?" Þetta eru spurningar sem mannkynið hefur velt fyrir sér frá ómunatíð. Þrátt fyrir alla tækni nútímans erum við ekki nær svarinu. Lífið hefur ætíð verið okkur mönnunum hulin ráðgáta. En það sem skiptir miklu máli í þessu lífi okkar er að eiga góða samferðamenn sem leiða okkur í gegnum lífið.

Elskulegur frændi hefur kvatt eftir stutta en stranga sjúkdómslegu.

Ingi var sonur Möggu elstu systur pabba. Þau mæðgin höfðu sömu léttu lundina og elskulegu framkomuna. Magga og Gunnar maður hennar áttu sex börn sem flest hétu tveimur nöfnum og öll höfðu gælunöfn sem ekki endilega var hægt að tengja nöfnunum. Systkinin ólust upp á "ættaróðalinu" á Framnesvegi 14 sem afi okkar hafði byggt yfir fjölskylduna sína, sem áður hafði búið í Litla-Seli vestast við Vesturgötuna. Það var ekki vítt til veggja á æskuheimili Inga en nægt var hjartarúmið.

Ég minnist margra skemmtilegra fjölskylduheimsókna til Lillu, Inga og Óla þegar við systurnar vorum litlar.

Börnin mín minnast hans sem skemmtilega frændans sem var alltaf að segja brandara og gera galdrakúnstir.

Ingi var mjög góðhjartaður maður sem vildi allt fyrir alla gera og mátti ekkert aumt sjá en hann var einnig mikill prakkari og fljótur að sjá kómiskar hliðar lífsins.

Åse frænka í Danmörku lýsti honum skömmu fyrir andlát hans hún sagði: "Han er et hjertensgodt menneske og har altid været sød og prøvet at holde humøret oppe på alle andre."

Ingi var mikill fjölskyldumaður og duglegur að rækta samböndin við stórfjölskylduna. Barnabörnin voru hans gimsteinar, sem ekkert var nógu gott fyrir.

Stórfjölskyldan hélt ættarmót í Fljótshlíðinni í byrjun sumars og lék Ingi þá á als oddi, hélt m.a. hátíðarræðu kvöldsins. Já ekki óraði mig fyrir því að aðeins nokkrum mánuðum seinna myndi ég sitja hér og skrifa eftirmæli að honum látnum.

Ingi var íþróttamaður af lífi og sál og spilaði með KR í fótbolta á sínum yngri árum. Hann var mikill áhugamaður um körfubolta, var landsliðsmaður á yngri árum og var körfuboltadómari í mörg ár.

Hans lið í körfubolta var lið Njarðvíkur, þar sló hjarta hans.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Ég og fjölskylda mín vottum Lillu, Óla, Ástþóri og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð. Megi góður Guð varðveita þau og minningu Inga frænda.

Kristín.

Ingi Gunnarsson var einn af brautryðjendum körfuknattleiksíþróttarinnar á Íslandi. Hann var snjall leikmaður, fyrirliði fyrstu Íslandsmeistaranna og fyrirliði fyrsta landsliðsins í kappleiknum við Dani 1959 og síðar dugmikill stjórnandi, og var einmitt einn af fundarmönnum á fyrsta ársþingi KKÍ árið 1961. Í ungri sögu körfuknattleiks á Íslandi telst Ingi meðal þeirra duglegustu sem plægðu akurinn fyrir þá sem síðar hafa uppskorið ríkulega. Íslenskur körfuknattleikur stendur í þakkarskuld við Inga.

Samskipti mín við Inga voru ávallt góð, og ekki vantaði að hann hefði skoðanir á málunum, og hann var trúr sínu félagi, Ungmennafélagi Njarðvíkur. Sérstaklega minnist ég alúðar hans við Boga Þorsteinsson, fyrsta formann KKÍ, á kappleikjum síðustu ár hans. Nú eru þessir merku frumherjar báðir horfnir af vettvangi og geta vonandi sameinast annars staðar í áhuga sínum á körfuknattleik.

Ég sendi fjölskyldu og aðstandendum Inga mínar samúðarkveðjur.

Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ, fyrrv. formaður KKÍ.

Þegar ég frétti andlát Inga Gunnarssonar hugsaði ég með mér, ég á þá ekki eftir að sjá hann á áhorfendapöllunum í vetur eins og alla aðra vetur glaðbeittan og með leikinn á hreinu. Ingi Gunnarsson var aldrei skoðanalaus en alltaf trúr leiknum og hélt uppi merki síns liðs fram á það síðasta. Það er mikill sjónarsviptir að honum Inga og stórt skarð eftir í röðum stuðningsmannahóps UMFN sem verður vandfyllt. Ingi gekk í UMFN á 109. fundi félagsins 18. janúar 1970 ásamt fleiri körfuboltamönnum úr ÍKF, en ÍKF hafði þá skömmu áður farið að æfa undir merkjum UMFN. Ingi varð strax drifkrafturinn í körfuboltadeild UMFN og greindi hann frá málefnum hinnar nýstofnuðu körfuboltadeildar UMFN á sínum fyrsta fundi hjá aðalstjórn UMFN. Fundarritari UMFN bókar eftirfarandi eftir Inga á fundinum m.a.:,,...[Ingi] kvaðst vona að það yrði körfuboltanum á Suðurnesjum til heilla [að ÍKF hafði gengið til liðs við UMFN]. Strax eftir stofnun deildarinnar hefði stjórnin hafist handa að fá þjálfara og hefði tekist að fá tvo Bandaríkjamenn..." Ingi var einn af frumkvöðlum körfuboltans í UMFN og leiddi deildina fyrstu skrefin. Hann byrjaði að spila körfubolta með bandarískum starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli á síðari hluta 5. áratugar síðustu aldar. Þeir voru nokkrir frumkvöðlarnir þar saman komnir og má þar nefna Boga Þorsteinsson sem gekk í UMFN á sama fundi og Ingi. En Ingi var meira en leikmaður, hann var hugsjónamaður og vildi að Íslendingar kynntust körfuboltanum og lærðu hann. Hann sá að best væri fyrir íþróttina á Suðurnesjum að koma henni inn í stærra félag og valdi Ungmennafélag Njarðvíkur til þess. Það var mikil gæfa fyrir UMFN að þessi ákvörðun var tekin og hefur körfuboltinn síðan verið flaggskip UMFN í íþróttastarfi á landsvísu. UMFN hefur ætið eftir það notið krafta Inga og gott að hann skyldi vera svo lengi til taks og horfa til með körfunni þegar þess þurfti og sparaði hann hvorki fé né fyrirhöfn til að körfuboltadeildinni gengi sem best.

Að leiðarlokum vil ég f.h. UMFN þakka Inga hans mikla og óeigingjarna starf í þágu Ungmennafélags Njarðvíkur og körfuboltans á Íslandi. Ég vil einnig þakka Inga persónulega fyrir tryggð og vináttu liðinna ára. Ég minnist hans með þakklæti og virðingu í huga.

Ég vil votta ættingjum Inga mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Inga Gunnarssonar.

Kristján Pálsson,

formaður UMFN

Körfuknattleikshreyfingin kveður nú einn af frumkvöðlum körfuknattleiksins hér á landi. Þegar Ingi hóf störf árið 1948 á Keflavíkurflugvelli, kynntist hann körfuboltanum og féll fljótlega fyrir þessari skemmtilegu íþrótt. Ingi ásamt öðrum Íslendingum hóf að leika með Íþróttafélagi Keflavíkurflugvallar - ÍKF.

ÍKF tók þátt í fyrsta Íslandsmótinu sem var haldið árið 1952, ÍKF hampaði Íslandsmeistaratitlinum og var Ingi fyrirliði fyrstu Íslandsmeistaranna. Ingi var einnig fyrsti fyrirliði íslenska landsliðsins þegar Ísland sótti Dani heim 16. maí 1959. Ingi tók virkan þátt í stofnun Körfuknattleikssambands Íslands sem var stofnað 29. janúar 1961, á stofnfundi sambandsins var Ingi í nefnd sem gerði tillögu að fyrstu stjórn þessa nýja sérsambands.

Seinna meir þegar ÍKF rann saman við Ungmennafélag Njarðvíkur, tók Ingi virkan þátt í starfi Njarðvíkur. Ingi vann lengi að þjálfun hjá Njarðvík og einnig var hann formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur um tíma. Gaman var að hitta Inga á leikjum undanfarin ár og spjalla við hann um málefni körfuboltans því Ingi fylgdist vel með og hann hafði sterkar og miklar skoðanir á málefnum körfuboltans allt þar til hann lést.

Eiginkonu Inga og fjölskyldu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur,

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands.