28. október 2006 | Menningarblað/Lesbók | 523 orð | 1 mynd

MYNDLIST - Sequences

Óhugnaður, skraut og skemmtilegheit

Nýlistasafnið Gjörningar og sýning

Óhugnaður Unnur Andrea Einarsdóttir sýnir innsetningu sem byggist á lífrænum og leikrænum óhugnaði, segir í dómnum. Verk hennar samanstendur af myndbandi, mjólkandi krúttlegum hryllingsskúlptúr og gjörningi. Verk Unnar bjóða upp á margvíslegar pælingar og innihalda óvænta og forvitnilega hluti.
Óhugnaður Unnur Andrea Einarsdóttir sýnir innsetningu sem byggist á lífrænum og leikrænum óhugnaði, segir í dómnum. Verk hennar samanstendur af myndbandi, mjólkandi krúttlegum hryllingsskúlptúr og gjörningi. Verk Unnar bjóða upp á margvíslegar pælingar og innihalda óvænta og forvitnilega hluti. — Morgunblaðið/Ásdís
Laugavegi 26, Grettisgötumegin Sýningin stendur til 29. október. Opið alla daga kl.13-18 Aðgangur ókeypis
LISTAHÁTÍÐIN Sequences var opnuð í Nýlistasafninu sl. föstudag með gjörningadagskrá og sýningu. Hátíðin, sem er samstarfsverkefni Nýlistasafnsins Kling og Bang og Bananas, er stór viðburður á íslenskan mælikvarða þar sem 140 listamenn taka þátt í uppákomum og sýningum út um allan bæ. Lögð er áhersla á blöndun listgreina og tímatengda viðburði og gjörningar hvers konar virðast stór hluti hátíðarinnar. Á opnuninni í Nýló, sem stóð yfir í fjóra tíma, var andrúmsloft lævi blandið þar sem rökkur og reykur umlukti rýmið og skapaði draugslega og eilítið kuldalega stemningu. Allt verður að gjörningi á svona hátíð og oft erfitt að sjá hvort einhver munur sé á listgjörningum og hefðbundnum skemmtiatriðum sem fylgja hátíðum eins og 17. júní. Gjörningur Geirþrúðar Finnbogadóttur Hjörvar var lag sem hljómsveit spilaði, Gunnhildur Hauksdóttir var með gjörning þar sem þrjár aðrar konur sýndu kínverska leikfimi. Þetta er ekki nýtt að listamaðurinn sé eins konar verkstjóri í verki sínu og láti aðra vinna það og hér virðist listamaðurinn vera í aðalhlutverki sem sýningarstjóri lítilla leik- eða tónlistaratriða á meðan flytjendur verkanna eru í eins konar aukahlutverki. Þetta sjónarmið nær hámarki í einhvers konar "uppbótaratriði" Finns Arnars og Magnúsar Sigurðssonar sem hvorugur var á staðnum þar sem annar er staddur í Kína og hinn í Bandaríkjunum. Flugeldurinn minnir auðvitað á Kína og að listamenn vilja helst skjótast hratt upp á stjörnuhimininn. Það er ekki verri hugmynd en hver önnur að dvelja sjálfur í útlöndum en hafa statista á Íslandi. Á meðan á opnuninni stóð var Snorri Ásmundsson í búddastellingu inni í glerpíramída fyrir utan safnið og leitaði hins andlega. Sá gjörningur ásamt hinni andlegu austurlensku leikfimi Gunnhildar endurspeglar vaxandi áhuga vestrænnar menningar á möguleikum austurlenskra trúarbragða meðan óhugnanlegt og áleitið myndbandsverk Joseph Marzolla minnir helst á hrylling andsetningamynda á borð við Exorcist. Myndbandið er hluti af staðbundinni innsetningu listamannsins á sýningunni sem einnig inniheldur neonljós og veggskúlptúr þar sem má sjá svartan kött með glóandi glyrnur og fagurskreyttan fugl með hvassar klær. Unnur Andrea Einarsdóttir er einnig með innsetningu á sýningunni sem byggist á lífrænum og leikrænum óhugnaði. Verk hennar samanstendur af myndbandi, mjólkandi krúttlegum hryllingsskúlptúr og gjörningi. Verk Unnar Andreu og efnistök bjóða upp á margvíslegar pælingar og innihalda óvænta og forvitnilega hluti. Kitsaður skrautlampi á gólfi reynist gerður að hluta úr mannstönnum sem vekur einhverra hluta vegna sterka viðbjóðstilfinningu og jafnvel undrun yfir þeirri tilfinningu. Kristján Zaklinsky á myndbandsinnsetningu þar sem teiknimyndaveröld nútímans kastast á veggi og gólf safnsins eins og einhver diskóljós. Öllum þessum þremur innsetningum fylgir ákveðið hljóð eða tónlist. Skipst er á að spila verkin svo hægt er að horfa á hvert og eitt þeirra ótruflað frá hinum. Fjórða innsetningin í Nýlistasafninu er leirskúlptúrar og teikningar eftir Árna Ingólfsson sem einnig framdi gjörning á opnuninni. Áhugaverðara er þó viðtal Estrid Þorvaldsdóttur við Árna ásamt myndum af öðru verki eftir listamanninn í The End, tímariti Nýlistasafnsins. Sýningin í heild hefur yfir sér yfirbragð tilbúins hráleika sem fer ekki öllum verkunum jafn vel en þau eru þó heldur áhugaverðari og metnaðarfyllri á lygnum degi en virtist í partístandi opnunarinnar. Hér hefðu einhverjar upplýsingar um listamennina og merkingar um hver eigi hvað í sýningarrýminu gert góða sýningu betri.

Þóra Þórisdóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.