4. nóvember 2006 | Minningargreinar | 3062 orð | 1 mynd

Sólveig Pálsdóttir

Sólveig Pálsdóttir fæddist á Keldunúpi á Síðu 20. ágúst 1897. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands 28. október síðastliðinn. Sólveig var dóttir hjónanna Páls Þorlákssonar, f. 23. 9. 1873, d. 21. 1. 1906, og Guðrúnar Halldórsdóttur, f. 27. 10. 1860, d. 26. 1. 1952. Sólveig átti fjögur systkini. Þau eru: Ingibjörg, f. 18. 5. 1900, d.18. 12. 1970, Halla Þuríður, f. 29. 3. 1902, d. 15. 8. 1923, Jón, f. 5. 2. 1904, d. 26. 2. 1985, Pála, f. 17. 1. 1906, d. 20. 1. 1991.

Hinn 26. ágúst 1923 giftist Sólveig Gunnari Jónssyni, f. 31.1. 1891, d. 14.12. 1967. Gunnar og Sólveig eignuðust sjö börn. Þau eru: 1) Guðlaugur, f. 17.9. 1924, kvæntur Ingibjörgu Ester Einarsdóttur, f. 16.5. 1931, d. 17.3. 1985, þau eiga fjögur börn, Sólveigu, Hannes, Gunnar og Hólmfríði. 2) Þuríður, f. 29.9. 1926, hún á eina dóttur, Guðrúnu Sólveigu. 3) Pálína Guðrún, f. 23.11. 1929, gift Svavari Magnússyni, f. 8.4. 1926, þau eiga fimm börn, Sigríði Jónu, Gunnar Örn, Guðgeir, Sigmar og Margréti. 4) Jón Ólafur, f. 6.1. 1934, sambýliskona Inger Bjarna Ipsen. f. 5.8. 1944. 5) Halla Þuríður, f. 26.5. 1935, hún á eina dóttur, Halldóru Guðlaugu. 6) Jóhanna, f. 10.9. 1936, hún á tvö börn, Sóleyju og Jóhann. 7) Kjartan, f. 17.1. 1940, kvæntur Önnu Maríu Einarsdóttur, f. 5.2. 1941, þau eiga þrjú börn, Unni, Gunnar og Sólveigu Maríu. Barnabarnabörnin eru 39 og barnabarnabarnabörnin fimm.

Sólveig bjó á Keldunúpi á Síðu, flutti árið 1902 þá fimm ára að Prestsbakkakoti í sömu sveit. Faðir hennar deyr úr lungnabólgu þegar hún er á níunda ári og þá er yngsta systirin nýfædd, heimilið er leyst upp, og allri fjölskyldunni er komið fyrir í Öræfunum. Sólveigu er komið fyrir á Hofi hjá Oddi Sigurðssyni og Guðlaugu dóttur hans. Hún er í heimili hjá þeim og vinnur öll almenn sveitastörf. Árið 1921 fer hún til vetursetu til Víkur í Mýrdal til séra Jóns Þorvarðarsonar og þar er hún tvo vetur. Hinn 26.8. 1923 giftist hún Gunnari Jónssyni í Breiðutorfu Svínafelli og flyst þangað. Árið 1948 flytjast Gunnar og Sólveig í Vesturbæ í Svínafelli og þar búa þau félagsbúi með Guðlaugi syni sínum. Árið 1980 flyst Sólveig með Guðlaugi syni sínum og hans fjölskyldu í Víðihlíð í Svínafelli og þar býr Sólveig þar til hún flyst árið 1993 á dvalarheimilið Skjólgarð á Höfn í Hornafirði og dvelur hún þar til æviloka.

Útför Sólveigar verður gerð frá Hofskirkju í Öræfum í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku mamma, þakka þér fyrir hvað þú varst mér góð. Tímarnir sem ég átti með þér voru bestu stundir ævi minnar og það verður gott að ylja sér við þær minningar. Ég er samt svo ánægð með að þú ert núna hjá pabba og núna líður ykkur vel saman.

Guð veri með ykkur báðum.

Ykkar elskandi dóttir

Halla Þuríður Gunnarsdóttir.

Það eru rúmlega 40 ár síðan ég kynntist Sólveigu tengdamóður minni. Þá var ekki fært á bílum austur í Öræfi, en Flugfélag Íslands flaug vikulega á Fagurhólsmýri og þangað var förinni heitið sumarið 1961 til að hitta tilvonandi tengdaforeldra og fjölskyldu. Það var ekki laust við smá kvíða hjá mér en það var ástæðulaust. Eftir að flugvélin var lent á Mýrinni vorum við Kjartan sótt á jeppa og síðan var ekið heim að Svínafelli yfir óbrúaðar jökulár og vegarslóða. Þegar stoppað var á hlaðinu tók Sólveig á móti okkur með útbreiddan faðminn. Ég átti eftir að kynnast því betur hvað faðmur hennar var hlýr og traustur. Það voru margir í heimili hjá þeim Sólveigu og Gunnari þetta sumar eins og oftar. Mörg börn voru í sumardvöl sem öll tóku mikla tryggð við heimilið og leituðu þangað sumar eftir sumar. Sólveig leit alltaf á þau eins og börnin sín. Það var í mörgu að snúast hjá henni en aldrei heyrðist hún tala um þreytu eða kvarta yfir neinu. Það var ekki hennar stíll. Hún var alla tíð jákvæð og full af orku. Enda hugsaði hún um heimilið meðan hún gat staðið í fæturna.

Þau voru mörg koddaverin, vöggusettin og ullarsokkarnir sem hún gaf börnunum okkar og síðar barnabörnunum. Þetta er nú orðin stór hópur afkomenda og allir eiga eitthvað sem hún gaf þeim. Hún var orðin þreytt undir lokin og sagði stundum: Ætlar hann Guð að gleyma mér? Starfsfólkið á dvalarheimilinu á Höfn hugsaði einstaklega vel um hana og fyrir það erum við þakklát. Það er einnig með miklu þakklæti sem ég kveð Sólveigu tengdamóður mína.

Blessuð sé minning hennar.

Anna María Einarsdóttir

Okkur systkinin langar að minnast hennar ömmu okkar með nokkrum orðum.

Þegar við hugsum til baka minnumst þess að á hverju sumri var haldið af stað í Öræfin til að hitta hana ömmu. Á þeim árum var alltaf mikið ferðalag að fara í sveitina. Fyrstu árin var ekki hægt að ferðast þangað öðruvísi en með flugvél og eftir að brúað var skröltumst við á Willys jeppanum hans pabba. Ferðin var það löng að oftar en ekki var tjaldað á leiðinni. Þegar við loks komum að Svínafelli beið amma ávallt með útbreiddan faðminn á tröppunum og inni biðu ömmu-kanilsnúðar og pönnukökur. Í sveitinni var ávallt mikið um krakka á okkar aldri og var mikið ævintýri að hitta þar frændsystkinin.

Öll eigum við systkinin eitthvað sem amma hefur prjónað og saumað út. Einnig hugsaði amma alltaf um að börnin okkar fengju sinn hlut af handverki hennar. Í okkar hjörtum eru þessir hlutir dýrmætir, ekki síst fyrir þær sakir að amma hélt áfram þessari iðju þrátt fyrir háan aldur.

Á fyrsta eiginlega ættarmótinu sem haldið var í Svínafelli í tilefni níræðis afmælis hennar fengum við þá sterku tilfinningu að þessi kona yrði allra amma elst. Síðan þá hafa verið haldin mörg ættarmót. Við vitum að fjölskyldan mun halda áfram að hittast í minningu ömmu.

Elsku amma, Guð geymi þig. Unnur,

Gunnar og Sólveig María

Kjartansbörn

"Sjáumst þegar þú kemur næst, ef ég tóri," sagði langamma við okkur þegar við kvöddum eftir sumardvölina hjá henni, stóð í bæjardyrunum og veifaði þar til ekki sást til hennar meir. Amma tórði náttúrulega þegar við komum aftur næsta sumar, og það næsta, og það næsta. Það var heldur ekki þannig að hún liti eitthvað út fyrir að vera að fara. Ennþá sá hún um að leggja morgunmatinn á borðið áður en við hin fórum á fætur, prjóna handa okkur sokka, stoppa í, gaf hænunum og rakaði saman grasið fyrir framan húsið. Ofan á allt þetta og margt, margt fleira þá sinnti hún okkur börnunum, tók okkur í fang sér þegar okkur leið illa, söng og stjanaði í kringum okkur. Við þökkum fyrir að hafa fengið að vera samferða einstaklega fallegri og góðri konu. Elsku langamma við erum stolt af þér.

Kristinn Már, Ívar Guðlaugur, Elva Sara og Þorbjörn

Amma mín Sólveig Pálsdóttir er látin. Hún var búin að bíða lengi eftir hvíldinni blessunin og fráfall hennar ætti því kannski ekki að koma á óvart. En það er alltaf sárt að kveðja og ég kveð þig elsku amma mín með söknuði og trega, þó að ég sé glöð fyrir þína hönd að kallið sé loksins komið.

Amma var glaðsinna og hafði góðan húmor og ekki síst fyrir sjálfri sér og sinni vesöld eins og hún sagði sjálf en henni fannst það vesöld að geta ekki gert neitt gagn, jafnvel þó hún væri næstum hundrað og tíu ára. Nú í seinni tíð sagði hún oft að hún skyldi ekkert í því hvað það ætti að þýða að láta sig tóra svona lengi og sagðist halda að Guð hefði hreinlega gleymt sér. En hún var eigi að síður glöð og hafði gaman af að fá heimsóknir, sérstaklega börn og moladósin í náttborðinu hennar var alltaf full af góðgæti og eftirsótt hjá börnunum enda máttu þau fá eins og þau vildu og helst meira.

Mamma var oft lengi að heiman vegna veikinda og þá kom það í hlut ömmu að hugsa um okkur systkinin. Ég minnist þess þegar ég var lítil að ef ég meiddi mig eitthvað þá tók amma mig í fangið, hossaði á hnénu og söng og sennilega hef ég aldrei meitt mig meira en svo að það væri ekki batnað þegar hún var búin að syngja Guttavísur.

Amma er orðin fullorðin, um sjödug, þegar ég man eftir henni og þá að mestu hætt í útiverkum, mjólkaði þó alltaf kýrnar og hugsaði um hænsnin en það gerði hún fram yfir áttrætt. Ömmu og langömmubörnin komu oft í heimsókn og voru hænd að henni og þær voru margar ferðirnar hjá henni og langömmubörnunum austur í Skemmu að gefa hænunum.

Amma var einstaklega heimakær og fór helst ekki að heiman nema hún þyrfti að fara til læknis og það var nú ekki oft. Eitt sinn þegar amma var að baka pönnukökur handa mér og pabba, en við vorum einhverstaðar úti við, þá dettur hún og lærbrotnar, henni tekst að hringja í Svöfu vinkonu sína og frænku á Böltanum og hún kemur henni til hjálpar. En að sjálfsögðu þurfti fyrst að klára pönnukökubaksturinn, svo mátti hringja í lækninn.

Seinni árin lét hún þó nöfnu sína (Sollu systur mína) plata sig til Reykjavíkur einstaka sinnum, þar var hún mikill aufúsugestur og naut sín með langömmubörnunum og öllum ættingjunum sem komu í heimsókn.

Síðustu árin sín í Svínafelli er amma að mestu inni við og hún er mín aðal barnapía þegar dóttir mín Ingibjörg Ester er lítil og mikið voru þær nú búnar að syngja saman, róa og rugga daginn út og daginn inn, Ingibjörg lærði allar helstu barnagælur og stökur um leið og hún lærði að tala.

Elsku amma mín nú ert þú farin í þá ferð sem þú hefur beðið svo lengi eftir og ég veit að það verður tekið vel á móti þér á áfangastað.

Haf þökk fyrir allt og allt.

Þín

Hólmfríður Guðlaugsdóttir (Hólla)

Elsku langamma þú var mjög góð við mig systkini mín. Það var svo gaman að heimsækja þig á Skjólgarð, þú gafst okkur alltaf mola í munninn og sokkaboli eins og þú sagðir alltaf. Þú tókst okkur alltaf í fangið og trallaðir við okkur.

Ég og systkini mín munum sakna þín svo mikið, elsku langamma. Þakka þér fyrir allar góðu stundirnar. Hafðu það gott hjá guði og langafa.

Eyþór Máni, Gunnar Páll og Halla Þurí Steinarsbörn.

Látin er í hárri elli, 109 ára, Sólveig Pálsdóttir fyrrum húsfreyja í Svínafelli í Öræfum. Ég þykist vita að því verði haldið á lofti, kannski um langa hríð hversu háum aldri hún náði, en ekki er síður ástæða til að halda á lofti hennar góðu og mörgu mannkostum því þeir voru ótæmandi. Ég man þegar við hjónin fluttum að Skaftafelli árið 1953. Fljótlega átti minn maður erindi austur að Svínafelli, líklega að fá einhverja fyrirgreiðslu. Þegar hann kom til baka kemur hann með þau skilaboð frá húsmóðurinni í Vesturbænum í Svínafelli að ef mig vantaði eitthvað lítilræði svo sem mjólkurdreitil eða smjörklípu skyldi ég láta sig vita og hún lét ekki sitja við orðin tóm því alltaf meðan hún var við stjórnvölinn var hún gefandinn en ég þiggjandinn. En ástæðan var ekki að þar hafi verið svo mikill auður í garði, nei, góðmennskan var bara alltaf í fyrirrúmi. það var vel farið með lítil efni og ýtrustu hagsýni gætt, en hún kunni að gleðjast þegar vel gekk og naut þess að gera vel við gesti og gangandi. Sólveig var óvenju vel verki farin, prjónaði og saumaði útsaum og teiknaði mynstur sem ekki var algengt þá. Það var oft mikið af börnum til sumardvalar hjá Sólveigu og hún lét þau sannarlega njóta handa sinna með prjónuðum og saumuðum flíkum og voru mín börn þar ekki afskipt.

Sólveig var alla tíð nett vaxin og því var það merkilegt hverju hún gat áorkað, hún var stjórnsöm og þar sem Gunnar maður hennar átti við vanheilsu að stríða þá hikaði hún ekki við að ganga jafnt í inni og útiverkin. Eitt var það sem hún gerði m.a. sem ég hafði aldrei séð fyrr, hún bjó til stærðar mottur úr gömlum flíkum og efnisafgöngum sem hún fléttaði saman af sinni ótrúlegu smekkvísi. Ég hef oft hugsað að gaman hefði verið að eiga slíka mottu eftir hana og hengja upp á vegg, þetta var svo sérstætt.

Sólveig var einstök manneskja hún tók því sem að höndum bar með æðruleysi, hún vildi öllum vel og fór ekki í manngreinarálit og kom fram við alla af hlýju og alúð. Fyrir mína hönd og barna minna þakka ég henni allt sem hún var okkur og fjölskyldu hennar votta ég samúð mína.

Nú ríkir kyrrð í djúpum dal

þótt uni foss í gljúfrasal

í hreiðrum fuglar hvíla rótt

þeir hafa boðið góða nótt.

Nú hverfur sól við segulskaut

og signir geislum hæð og laut

er aftanskinið hverfur fljótt

það hefur boðið góða nótt.

(MG)

Guðveig Bjarnadóttir,

Skaftafelli

Blessunin hún Veiga mín hefur kvatt okkur elst allra. Þótt árin hafi verið mörg og hún södd lífdaga, söknum við hennar öll sem þekktum þessa elskulegu konu.Ég sé hana fyrir mér núna, 8 ára gamla reyrða á hest og þannig flutt vestan af Síðu og austur um öll stóru fljótin í Öræfin í fylgd með bónda úr Öræfunum sem átti það erindi út yfir sanda að ná í eldavél sem hann hafði keypt. Engin kom þó eldavélin og kannski var hann skapillur fyrir bragðið því ekki yrti hann á hana alla leiðina. Hann stoppar á hverjum bæ og þiggur veitingar og dvelst og dvelst, enda ferðamenn í þá daga eins og fréttamenn útvarps eða sjónvarps þeirra daga. Alltaf sat hún þögul á hestinum og beið þess sem verða vildi. Þannig sagði hún frá því á heldur gamansaman hátt hvernig stóð á því að hún komst austur í Öræfi í stað eldavélar. Mér fannst þessi saga alltaf hálf nöturleg enda fædd og alin upp á upphafstímum velferðar og trúði því ekki öðru en að hún hefði verið skelfingu lostin yfir þessari meðferð, en nítjándu aldar konunni fannst þetta held ég bara nokkuð eðlilegt, þannig var þetta bara. Faðir Veigu, Páll Þorláksson, lést liðlega þrítugur árið 1906 frá konu og fimm börnum og var Veiga þeirra elst. Heimilið var leyst upp eins og þá var oft siður og móðir hennar, Guðrún og börn hennar enda í Öræfum, flest á bæjunum á Hofi sem þá var eins og lítið sveitaþorp. Veigu var komið fyrir hjá feðginum í Vesturhúsum og strax er þetta nýja vinnuafl nýtt eins og hægt var enda barnið ábyggilega fádæma duglegt og ósérhlífið. "Ég var rifin upp klukkan 5 á morgnana í hvernig veðri sem var til að sækja hrossin," sagði hún okkur. Fannst það greinilega ekki leiðinlegt í minningunni, því hún elskaði alla tíð hesta. Hún gekk í skóla á Hofi en var látin fermast ári fyrr en jafnaldrar hennar, sjálfsagt til að vinnukrafturinn nýtist nú betur, því skólagöngunni átti að ljúka við fermingu og þannig var stolið af henni einu ári í skólagöngu og af öllu í lífinu sá hún mest eftir að fá ekki að læra meira, enda skarpgreind og hefur því eflaust fengist undanþága til að stytta hjá henni skyldunámið vegna góðra námshæfileika. Að hún erfði þetta við húsbændur sína var öðru nær, því hún talaði aldrei um þau öðru vísi en með hlýju, sem var mér óskiljanlegt, barninu af mölinni sem alið var upp af móður sem trúði á réttlæti sósíalismans. Ferð hennar út í hinn stóra heim var í vinnumennsku vestur til Víkur í Mýrdal og þar lærði hún margt í hannyrðum og húsmóðurstörfum sem komu henni að góðum notum í lífinu. Árið 1923 giftist hún Gunnar Jónssyni, og flyst til hans í Breiðutorfuna í Svínafelli, gamlan og lítinn torfbæ. Þar eignuðust þau börnin sín sjö, þau Guðlaug "Lulla", Þuríði, Pálínu, Jón Óla, Höllu, Jóhönnu og Kjartan. Seinna kaupa þau svo Vesturbæinn, reisulegt hús sem byggt var einhvern tíma í lok fyrri heimstyrjaldarinnar og þar bjó Veiga uns flutt var inn í nýbýlið Víðihlíð árið 1978. Gunnar var löngum heilsulaus, þjáðist illa af heymæði og það kom því oft í hlut Veigu að sinna útivinnu jafnt sem hefðbundnum húsmóðurstörfum. Ekki erfði hún það þótt sumir fussuðu yfir því að hún kvenmaðurinn, sæti klofvega á hesti eða sæi um að járna þá, sem greinilega var algjört tabú á fyrrihluta síðustu aldar. Lífsbaráttan var hörð en samhygð Öræfinga með náunganum með eindæmum, þannig minnist ég þess sem barn að ef einhverjar framkvæmdir voru, birtust menn bara og gengu í verkin án þess að nokkur hefði beðið þá um aðstoðina, en eins og um marga af minni kynslóð var ég send í sveit. Ég var 10 ára og leist ekkert á mig í byrjun, enda Öræfin á hjara veraldar, hefði allt eins getað verið lent í Timbúktú. Ég kannaði því allar flóttaleiðir en komst að því að þaðan færi enginn nema fuglinn fljúgandi og stöku flugvél. Svo fór að ég ílengdist og fór ekki heim fyrr en að hausti næsta árs, sátt við mitt hlutskipti enda ekki hægt að hugsa sér betra fólk en Veigu, Gunnar, Lulla og Eddu konu hans. Ég var þar í mörg sumur og aftur í heilt ár þegar ég var um tvítugt þar sem Edda kona Lulla dvaldi lengi á spítala. Böndin hafa aldrei brostið og ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að teljast til stórfjölskyldunnar hennar Veigu, enda talaði móðir mín aldrei um börn hennar öðruvísi en sem systkini mín úr Öræfunum. Gunnar lést í desember 1967 þá farinn að heilsu. Undanfarin ár heimsótti ég Veigu oftast á afmælisdaginn hennar 20. ágúst. Þegar Veiga varð 99 ára heimsóttum við Bjössi hana sem oftar á Höfn. Við spjölluðum um heima og geyma og allt í einu segir gamla konan og kímir, "Það hefur nú margt breyst í veröldinni síðan við vorum upp á okkar besta Gunna mín". Ég skellti upp úr enda meira en hálf öld á milli mín og hennar og ég hreint ekki tilbúin að viðurkenna að ég væri ekki upp mitt besta. En áttaði mig svo á því að bak við grínið var alvara, því þarna var öldungurinn að viðurkenna mig sem jafningja sinn og hefur mér síðan fundist þetta eitt mesta lof sem mér hefur hlotnast. Síðasta heimsóknin var núna á 109 ára afmælinu, minnið var farið að gefa sig en þegar ég kvaddi hana þekkti hún mig þó aftur og faðmaði eins og alltaf áður.

Um leið og ég , Bjössi og Margrét Helga vottum öllum ættingjum og vinum Veigu samúð vegna fráfalls hennar, kveð ég hana með sömu orðum og hún kvaddi mig ævinlega með; Þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og fjölskyldu mína, Veiga mín. Hvíl í friði.

Guðrún Kr. Óladóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.