22. nóvember 2006 | Aðsent efni | 380 orð | 1 mynd

Verndum Jökulsárnar í Skagafirði

Vilborg Arna Gissurardóttir fjallar um virkjanaframkvæmdir í Skagafirði

Vilborg Arna Gissurardóttir
Vilborg Arna Gissurardóttir
Vilborg Arna Gissurardóttir fjallar um virkjanaframkvæmdir í Skagafirði: "Leyfum þessum náttúruperlum Skagafjarðar að vera í þeirri mynd sem þær koma okkur fyrir sjónir í dag."
EF FYRIRHUGAÐAR virkjanaframkvæmdir í Skagafirði ganga eftir og Villinganesvirkjun verður að veruleika eru Jökulsárnar glataðar að eilífu. Þessi framkvæmd yrði eins ósjálfbær og nokkur framkvæmd getur orðið. Ef af verður er ljóst að komandi kynslóðir fá ekki notið Skagafjarðar eins og hann kemur okkur fyrir sjónir í dag. Í stað þess að vernda auðlindir samtímans eru þær lagðar í rúst.

Miklu er fórnað fyrir lítið. Líftími virkjunarinnar er stuttur og áætluð ársverk eftir að hún hefur verið gangsett eru einungis 3-4. Ljóst er að þau ferðaþjónustufyrirtæki er starfa við flúðasiglingar niður árnar eru dæmd til að hætta þeirri starfsemi. Fyrirtækin tvö sem umræðir eru stoð við ferðaþjónustu á svæðinu. Flúðasiglingar njóta sífellt meiri vinsælda meðal ferðamanna og stöðug aukning er á milli ára. Gera má ráð fyrir enn meiri aukningu á næstu árum í takt við áætlaðan aukinn fjölda ferðamanna hér á landi.

Við þessi fyrirtæki starfa á annan tug starfsmanna yfir háönnina auk fjölda hlutastarfsfólks. Ekki eru það bara leiðsögumenn sem missa vinnuna heldur fjöldi fólks er tengist starfseminni á annan hátt. Ekki má gleyma þeim margfeldisáhrifum sem verða þegar ferðamaður kaupir sér ferð í flúðasiglingu. Ferðamenn þurfa að gista einhversstaðar, borða og jafnvel sækja í aðra afþreyingu s.s. söfn eða hestaferðir. Menntamálaráðuneytið veitti í fyrra styrk til uppbyggingar á flúðasiglingaskóla á svæðinu. Námsefnið er tilbúið og vonast er til að skólinn taki til starfa í vor. Líftími skólans yrði ákaflega stuttur. Þarna er enn eitt tækifærið sem myndi glatast.

Austari-Jökulsá er viðurkennd sem ein af bestu ám í Evrópu til að stunda flúðasiglingar og straumkajakíþróttina. Hvers vegna að gera þau mistök að virkja bestu á í Evrópu?

Vestari-Jökulsá er ekki eins hrikaleg, flúðirnar minni og hentar áin því fyrir breiðari aldurshóp. Flúðasiglingar má m.a. nota til náttúrutúlkunar. Þær eru ein besta leiðin til að kynna fyrir fólki hvernig náttúran vinnur og hvernig jökulsárnar grafa sig ofan í bergið.

Leyfum þessum náttúruperlum Skagafjarðar að vera í þeirri mynd sem þær koma okkur fyrir sjónir í dag. Komandi kynslóðir eiga að hafa rétt á að njóta þess sem við fáum að upplifa í dag. Komum ekki í veg fyrir að einstaklingar framtíðarinnar fái ekki að sigla niður árnar, finna kraftinn og öðlast aðra sýn á náttúruna en dagsdaglega. Sýnum ábyrgð og fylgjum hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Höfundur er nemi í ferðamálafræðum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.